20.12.1976
Sameinað þing: 36. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1543 í B-deild Alþingistíðinda. (1187)

1. mál, fjárlög 1977

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að taka undir málflutning og tillöguflutning þeirra hv. þm. Eðvarðs Sigurðssonar, Guðmundar H. Garðarssonar, Gylfa Þ. Gíslasonar og Karvels Pálmasonar um framlag til Listasafns Alþýðusambands Íslands vegna stofnkostnaðar, 2 millj. kr. Það væri kannske rétt, þó of langt mál, að ég skýrði ofurlítið frá málflutningi í sambandi við það merka afmæli, sem verkalýðssamtökin áttu nú á þessu ári, sem átti sér stað í borgarstjórn Reykjavíkur og í hafnarstjórn. En alþm. til upplýsingar hefur borgarstjórn samþykkt að virða það mikla starf, sem verkalýðssamtökin hafa unnið frá upphafi, með því að reisa hér minnisvarða um verkamenn og sjómenn. Því vil ég taka undir það að þessi till., sem nú liggur fyrir, verði samþykkt.

Ég hef ekki skipt mér mikið af fjárl. frá því að ég kom á Alþ. af eðlilegri ástæðu, — af þeirri ástæðu einfaldlega að ég hef talið efnahagsstefnu ríkisstj. ranga frá upphafi. En ég ætla að gera það nú á þann hátt að koma með till., þ. e. a. s. munnlega till., til lækkunar á einum lið, og hún er munnleg vegna þess að ég beini því til hv. fjvn. að hún haldi fund nú þegar og ráðstafi þeim peningum, sem ég geri till. um að lækka á þeim lið, m. a. til Listasafns Alþýðusambands Íslands og svo til ýmissa góðra mála sem hér hafa komið fram óskir um að fé verði veitt til. Tillaga mín er um Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Sinfóníuhljómsveit Íslands er að verða það bákn í okkar þjóðfélagi að það er með eindæmum og ólíkindum hvernig það er vaxið. Ég var að fletta fjárl. 1975, 1976 og svo fjárlagafrv. 1977. Á fjárl. 1975 fékk Sinfóníuhljómsveitin 26 millj. rúmar, á fjárl. 1976 fær hún 40 millj. rúmar, og nú liggur fyrir till. um að hækka hana yfir 60 millj. Ef við höldum áfram að hækka hana hlutfallslega á þennan hátt, þá getum við séð hvað gróskan er mikil í þessu útgjaldabákni. Þessu til víðbótar liggur fyrir beiðni frá hljómsveitinni við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar um rúmlega 40 millj. kr. framlag. Bara á þessum tveimur stöðum ætlar Sinfóníuhljómsveitin að fá til rekstrar yfir 100 millj. Og þessu til viðbótar kemur framlag, að mig minnir, frá Þjóðleikhúsinu og Ríkisútvarpinu. Þær tölur hef ég ekki hér við höndina. Ég mælist því til þess að það verði miklu betra eftirlit með rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar. Það er hægt að bera hana saman við t. d. rekstur á öðrum hljómsveitum og stórum samkórum, sem nota Sinfóníuhljómsveitina sjálfa við undirspil, og gera samanburð á kostnaðarliðum þessara tveggja hljómsveita eða kóra. Ég var að leita að nafninu. (Gripið fram í: Pólýfónkórinn.) Pólýfónkórinn, já. Pólýfónkórinn notar Sinfóníuhljómsveitina við sinn undirleik, og Pólýfónkórinn borgar það, fær það ekki frítt.

Ég tel að þegar svona starfsemi gerir síauknar kröfur til framlags, þá sé full ástæða til þess að athuga það — eða hvað finnst fjmrh., ef við berum það saman við aðra liði, ef við berum það saman við Íþróttasamband Íslands sem fær 26 millj. nú? Að vísu er búið að laga það svolítið með tóbakspeningum, sem ég vona að verði samþykktir til þess. En það framlag fer til íþróttahreyfingarinnar sem hefur á milli 40 og 50 þús. unglinga innan sinna vébanda. Það eru 26 millj., gæti hugsanlega farið upp í 30 millj. næsta ár, á sama tíma sem menn munar ekkert um að sletta fram úr erminni 30 millj. í einu til þess að lagfæra Bessastaði, bara sem dæmi, svo að við höfum eitthvert samræmi í hlutunum. En þetta er útúrdúr.

Ég geri það að till. minni að fjvn. endurskoði framlag til Sinfóníuhljómsveitar Íslands, lækki það um 10 millj., veiti 2 millj. til Listasafns Alþýðusambands Íslands, og afganginum, 8 millj., dreifum við á þá þarfaliði sem margir þm. hafa óskað eftir að væru teknir til greina.

Ég sé ekki að það sé annað en Alþ. til sóma að virða það sem unnið hefur verið til uppbyggingar í okkar þjóðfélagi, hvort sem það er hér í Reykjavík eða úti á landi, af því fólki sem hér er verið að minnast. Og ég held að það sé þjóðinni til sóma að eiga myndarlegt listasafn fyrir alþýðu þjóðarinnar eða verkafólk, bæði landverkafólk og náttúrlega sjómannasamtökin líka.

Ég vil ítreka það að lokum, að það verði betur fylgst með Sinfóníuhljómsveitinni og rekstri hennar. Við getum byrjað á því að skoða þær tölur, sem fyrir liggja, og sjá hvernig þær hafa hækkað á þessum þremur árum sem ég gat um áðan. Ef hægt er að finna fleiri slíkar stofnanir innan kerfisins, þá væri kannske hægt að ansa fleiri beiðnum sem koma fram frá þm. víðs vegar að um nauðsynlegar framkvæmdir og nauðsynleg fjárframlög til hinna ýmsu staða úti á landi. — Og svo þakka ég sérstaklega þeim sem sitja í ráðherraherberginu gamla, fyrir gott hljóð.