20.12.1976
Sameinað þing: 36. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1547 í B-deild Alþingistíðinda. (1189)

1. mál, fjárlög 1977

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Það var nú aldrei meiningin frá minni hálfu að fara að innleiða heimiliserjur samvn. samgm. hingað inn á Alþ. og því síður að fara að pexa og metast um þessa styrki. Allir voru þeir bráðnauðsynlegir og allir hefðu sjálfsagt þurft að vera eitthvað hærri en raunin varð á. Ég ætla, ef ég hef ekki gert það áðan, að þakka þessum samverkamönnum mínum kærlega fyrir góða samvinnu og skemmtilega um leið. En því miður verð ég að segja það, að hv. síðasti ræðumaður, 5. þm. Suðurl., leyfði sér hér að fara ekki einungis með lítils háttar falsanir, heldur helber ósannindi, og mér finnst það mjög leitt. Það eru allir nm. til vitnis um það að hvorugur okkar þm. Vestf.. ég eða hv. 5. þm. Vestf., Karvel Pálmason, nefndi það einu orði á nafn að fá 35 millj. Okkur datt það aldrei í hug. Það var umsókn fyrirtækisins, og við vitum að umsóknir allra þeirra, sem sóttu um, voru margfalt hærri en hægt var að sinna. Hitt skal ég viðurkenna, að við nefndum fyrst 3 millj. til viðbótar till. undirnefndar, og ég tek alla samvinnunefndarmenn til vitnis um að ég fer hér með rétt mál. Þegar við heyrðum að enginn hljómgrunnur var fyrir því, þá bárum við upp 27 millj., þ. e. a. s. 2 millj. kr. hækkun. Hér fer ég með rétt mál, og mig tekur sárt til kollega míns, Garðars Sigurðssonar, að hann skuli annaðhvort vísvitandi eða óvart fara hér með staðlausa stafi.

Ég ætlaði aldrei að fara að fjargviðrast yfir þessum 300 þús. sem við fórum fram á til viðbótar til þess að styrkja betur mjólkurflutninga úr Önundarfirði og Dýrafirði. Mér finnst það í rauninni ekki þess virði. Og ég vil lýsa því yfir hér, að ég hef tryggingu fyrir að ég fæ þetta úr annarri átt þó að hv. samvn. samgm. vildi ekki fallast á þetta, og ég treysti því, þannig að ég er áhyggjulaus að því er varðar mjólkurflutningana. Hitt er svo nokkurn veginn gefið mál,. að næsta sumar býður upp á sömu björgunaraðgerðirnar, á slæmu máli reddingar, frá degi til dags til að halda þessu blessaða skipi okkar gangandi, og ég treysti á guð og lukkuna og góðan vilja góðra manna að það takist nú sem fyrr.

Ég endurtek það, að ég rakti þessa afstöðu um að vilja ekki hækka þessa mjólkurflutninga, sem mér þótti sjálfsagt sanngirnismál, til vissrar hugarþreytu þm. í n. Og ég tók það einfaldlega eins og það kom fyrir. Hitt var mér ekki grunlaust um, að hv. 5. þm. Suðurl. kipptist eilítið við þegar ég sem svar við saklausri fsp. fékk þá vitneskju að til stofnkostnaðar Herjólfs, Vestmannaeyjabátsins, fengist 638 millj. kr. ríkisábyrgð. Ég er ekkert að sjá eftir þessu.

Vestmanneyingar fá ekki veg og vestmanneyingar fá ekki brú. En ég heyrði að þetta kom illa við hv. þm. Garðar Sigurðsson. Honum þótti óþarfi að við vissum um þetta. Hitt er líka staðreynd, að sumir liðir þrefölduðust þarna og það voru eðlilegar orsakir til þess. Það er einmitt mergurinn málsins að við þurfum að meta hverja umsókn eftir aðstæðum og ekki metast um hverja krónu og hverja prósentu og það hefur hingað til verið gert í þessari góðu nefnd.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar, en mér þykir leitt ef hv. form. n. hefur tekið þetta nærri sér. Ég gagnrýndi málsmeðferð sem ég tel að hafi valdið þeim smáágreiningi sem varð þarna. En ég vona að allir þeir, sem njóta þessara styrkja úti um hinar dreifðu byggðir landsins, komist af nú sem fyrr. En þessum málflutningi, sem hér var hafður í frammi um falsanir frá minni hálfu, vísa ég á bug og lýsi þessu sem talað var um, að við höfum farið fram á 35 millj., sem algerum ósannindum.

Svo þakka ég enn samgn. fyrir góða og hressilega samvinnu.