20.12.1976
Sameinað þing: 36. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1549 í B-deild Alþingistíðinda. (1192)

1. mál, fjárlög 1977

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen) :

Herra forseti. Ég skal ekki mjög lengja þessar umr. Það eru örfáar aths. sem ég vildi gera.

Hv. 8. landsk. þm., Sighvatur Björgvinsson, óskaði eftir nánari upplýsingum í sambandi við erlendar lántökur 1977 og hvernig þær nýttust, taldi sig ekki hafa fengið nægilega skilgreiningu né upplýsingar á fundum fjvn. Á bls. 17 í kafla nr. VII er skýrt tekið fram að heildarlántökur erlendar eru áætlaðar 20 milljarðar 860 millj. kr. á árinu 1977, en afborganir af eldri lánum verða samtals 10 milljarðar og 600 millj. kr. Ef betur er að gáð kemur það fram í töflu 5 á bls. 33, þar fæst samanburður sem er mjög athyglisverður einmitt fyrir þennan hv. þm. Þar fæst samanburður á erlendum lántökum árið 1975 samkv. ríkisreikningi, árið 1976 samkv. áætlun og svo samkv. þeirri lánsfjáráætlun sem lögð hefur verið fram. Þar er um að ræða í lið 7 löng lán alls nettó 1975 15 milljarðar 155 millj., í áætluninni 1976, eins og ég kom að í ræðu minni hér í dag með grg. fyrir lánsfjáráætluninni, þá er áætlað að á árinu 1976 verði þessi lántaka 12 milljarðar 270 millj. og árið 1977 10 milljarðar 260 millj. kr., sem er mismunurinn á 20 milljörðum 860 milli. kr. og 10 milljörðum og 600 millj. kr., þannig að það, sem kemur til útlána, eru 10 milljarðar og 260 millj. kr. Vonast ég til að þessar upplýsingar séu nægar fyrir þennan hv. þm.

Hann vék síðan að erlendum lánum og kom m. a. inn á erlend lán í heild sem hlutfall af þjóðarframleiðslu. Það liggur alveg í augum uppi að þegar þjóðarframleiðsla fer minnkandi, þá vex það hlutfall. Og ef við gerum okkur hins vegar grein fyrir því, hver er áætluð staða erlendra lána í árslok 1976, sem er 95 milljarðar 540 millj. kr., og hver var staðan í árslok 1975, sem var 73 milljarðar og 27 millj., ef síðan er reiknað út hlutfall af þjóðarframleiðslu og þá tekið meðalgengi kemur út talan 34%, en samkv. þeim töflum, sem liggja fyrir í hagdeild Seðlabanka Íslands, er sú tala, sem þar liggur fyrir, 40% af þjóðarframleiðslu.

Hv. þm. vék að grg., sem var lögð fram í fjvn., og dæmdi hana sem stefnumótun ríkisstj. í sambandi við launamál á árinu 1977 og las upp úr þessari endurskoðun seinustu setningar á fyrstu blaðsíðu. En hann gætti þess ekki, hvernig það orðalag er, því að þegar betur er að gáð, þá stendur: „Þessi aðferð ætti að gera alla fjármálastjórn raunhæfari og ákveðnari en ella þar sem ekki ætti að sinna neinum umframfjárbeiðnum á næsta ári vegna óvæntra“ o. s. frv. Ef litið er á það sem hér stendur, þá liggur ljóst fyrir að það er verið að geta í hvernig hlutirnir ættu að vera við ákveðnar forsendur.

Ég sé ekki ástæðu til frekari svara.

Þegar komið er að lokum 3. umr. frv. til fjárl. fyrir árið 1977 er gagnlegt að huga nokkuð að þróun íslenskra efnahagsmála á árinu 1976 og sérstaklega framvindu ríkisfjármála. Nú er víst að á þessu ári verður mikil breyting til batnaðar í þjóðarbúskapnum á árinu. Þjóðarframleiðslan er að snúast til vaxtar á ný og vegna batnandi viðskiptakjara aukast þjóðartekjur í fyrsta sinn síðan 1973. Viðskiptahallinn verður 2/3 hlutum minni en hann var í fyrra eða 3.6% af þjóðarframleiðslu í stað 11.5% 1975. Nokkuð hefur einnig hægt á verðbólgunni. Þennan árangur eigum við að miklu leyti að þakka batnandi verslunarárferði utanlands, en á hinn bóginn hefði það hrokkið skammt ef ekki hefði verið haldið aftur af þjóðarútgjöldum og innflutningi samtímis. Að þetta tókst er ekki síst að þakka raunhæfum kjarasamningum, en ekki síður að ríkisfjármálin hafa á þessu ári hamlað gegn innlendri eftirspurn samanborið við fyrri ár.

Fyrstu 11 mánuði þessa árs námu innheimtar tekjur ríkissjóðs 60 milljörðum og 400 millj. kr., en útgjöldin 61.4 milljörðum kr. og voru því um 1 milljarð umfram tekjur. Jöfnuður lánahreyfinga sýndi 400 millj. kr. halla og var því um 1.4 milljarða greiðsluhalli hjá ríkissjóði fyrstu 11 mánuði ársins. Á sama tíma í fyrra voru útgjöld ríkissjóðs um 3.7 milljarða umfram tekjur, um 0.4 milljarða afgangur var á lánahreyfingum og nam greiðsluhallinn því 3.3 milljörðum kr. Ríkisfjármálin hafa því styrkst til muna á þessu ári, því verður ekki neitað.

Ég tel allar horfur á að tekjuáætlun sú fyrir árið 1976, sem fylgir fjárlagafrv., standist, þ. e. að tekjur ríkissjóðs verði tæplega 69 milljarðar kr. Gjöldin verða sennilega rúmlega 68 milljarðar kr. Mér virðist því að mjög nærri muni láta að fjárhagur ríkissjóðs verði án greiðsluhalla á árinu 1976 og að staða ríkissjóðs gagnvart lánaslofnunum batni nokkuð. Hér er um mikilsverðan árangur að ræða sem fjárlög næsta árs verða að staðfesta og treysta enn betur ef beita á ríkisfjármálum skynsamlega í batnandi árferði.

Ég hef ákveðið að að loknu jólaleyfi þm. verði Alþ. í sérstakri skýrslu gerð grein fyrir greiðsluafkomu ríkissjóðs á s. l. ári og jafnframt bráðabirgðatölum ríkisreiknings í árslok 1976. Þá verður enn fremur að því stefnt að ríkisreikningurinn 1976 verði lagður fram fullgerður fyrir þinglok á vori komanda.

Eins og ég nefndi áðan breytir vitneskjan, sem nú liggur fyrir um innheimtu ríkistekna fyrstu 11 mánuði ársins 1976, ekki þeirri heildaráætlun um ríkistekjur sem fjárlagafrv. er reist á, þótt breytingar muni verða á einstökum tekjustofnum til hækkunar eða lækkunar. Tekjuáætlun fyrir árið 1977, sem fram var sett í frv., var vitaskuld miðuð við sama kauplag og verðlag og gjaldaáætlun frv., en þó hafði þegar verið gert ráð fyrir almennri grunnkaupshækkun á næsta ári í hátt við gildandi samninga BSRB og BHM, þegar sleppir gildistíma samninga Alþýðusambands Íslands ok vinnuveitenda 1. maí n. k. Hins vegar hafði ekki verið reiknað með neinum verðlagsuppbótum samkv. þeim samningum eða hliðstæðum kaupbreytingum hjá öðrum. Nú er þegar komin fram rúmlega 3% hækkun launa og verðlags af þessum toga og búast má við frekari hækkunum á fyrstu mánuðum næsta árs.

Við afgreiðslu fjárl. undanfarin ár hefur oftast verið miðað við verðlag í landinu um þær mundir sem fjárl. eru samþykkt og sjaldan ætlað verulega fyrir breytingum launa og verðlags á komandi ári. Þetta gerir að minni hyggju fjárlagasetninguna mun veikari en vera þyrfti. Í frv. í haust var þess vegna ætlað fyrir almennri grunnkaupshækkun á næsta ári og afleiðingum hennar. Nú við endanlega afgreiðslu fjárl. er ætlunin að stíga þetta skref til fulls, þannig að verðlag og lánsforsendur fjárl. og reyndar einnig lánsfjáráætlunar verði þær sömu og fram eru settar í þjóðhagsáætlun næsta árs. En í þjóðhagsspá Þjóðhagsstofnunar frá 7. des. 1976, sem þm. hafa undir höndum, er tekið dæmi af verðlagsbreytingum næsta árs, sem eru 6–7% yfir forsendum frv., og launa- og innflutningsverðlagsbreytingum, sem eru 7–8% yfir forsendum frv. Tekjuáætlun hefur verið endurskoðuð með tilliti til þessarar nýju þjóðhagsspár fyrir næsta ár, en breytingar þjóðarútgjalda að raungildi eru lítið frábrugðnar fyrri forsendum í þessu efni. Þó er gert ráð fyrir 1/2–1% meiri veltu og innflutningi en frv. var reist á.

Af helstu niðurstöðum þjóðhagsspárinnar má nefna:

Að vænta megi 1–2% aukningar þjóðarframleiðslu á næsta ári og nokkuð batnandi viðskiptakjara, þannig að þjóðartekjur aukist um nálægt 2.5% að raungildi.

Að þjóðarútgjöldin aukist um 1%, þannig að einkaneysla vaxi um 3%, samneysla um 2%, en fjárfestingar dragist saman um 5–6%.

Að viðskiptahalli við útlönd gæti minnkað úr 3.6% af þjóðarframleiðslunni 1976 í 1.9 1977, ef þjóðarútgjöldin eru innan fyrrnefndra marka.

Að koma mætti verðhækkunum frá upphafi til loka árs 1977 niður í 18–20% samanborið við 30% 1976 með hóflegum tekjuákvörðunum á næsta ári og enn lengra á þar næsta ári, en tryggja þó bættan kaupmátt tekna almennings.

Það er stefna ríkisstj. að þetta megi verða, en hún þarf fulltingis allra landsmanna til að tryggja þennan árangur jafnframt fullri atvinnu um allt land.

Niðurstaða endurskoðunar tekjuhliðar frv. á þessum forsendum auk sérstakrar endurskoðunar á þeim tekjustofnum, sem sérstakar ákvarðanir hafa verið teknar um eða ný vitneskja liggur nú fyrir um, felur í sér 5 milljarða 923 millj. kr. hækkun tekna ríkissjóðs. Þar af nemur hækkun markaðra tekna 657 millj. kr., en almennra tekna 5 milljörðum 266 millj. kr. Samkv. þessari áætlun verða heildartekjur ríkissjóðs á árinu 1977 um 89 milljarðar 940 millj. kr., sem bera má saman við áætlaðar tekjur 1976 sem eru tæpir 69 milljarðar kr., en þó 70 milljarðar og 300 millj. ef söluskattsauka 1% til niðurgreiðslu kyndikostnaðar o. s. frv. er bætt við 1976, því að 1977 er þessi tekjustofn talinn með ríkistekjum. Sem hlutfall af áætlaðri þjóðarframleiðslu nema tekjurnar 1977 tæplega 29%, sem er svipað hlutfall og áætlað er á þessu ári.

Til þess að auðvelda samanburð við fjárlagagerð fyrri ára má geta þess, að væri tekjuáætlun 1977 miðuð við verðlag og kaupgjald í des. 1976 næmi hún líklega um 6 milljörðum lægri fjárhæð í heild en ég nefndi hér áðan.

Í framsöguræðu hv. formanns fjvn. fyrir áliti meiri hl. n. hafa komið fram nákvæmar upplýsingar um breytingar á einstökum þáttum frv., en ég ætla þó að fara nokkrum orðum um helstu tekjustofnana.

Í fyrsta lagi um eignarskatt. Um áramót gengur í gildi nýtt fasteignamat sem felur í sér mikla hækkun. Áætlun fjárlagafrv. um eignarskatt hefur þó ekki verið breytt, en það felur í sér að stiga eignarskatts verði breytt þannig að heildarfjárhæð sé óbreytt. Innheimtur eignarskattur á næsta ári er áætlaður 1267 millj. kr. samanborið við um 1 milljarð og 40 millj. á þessu ári.

Í öðru lagi um tekjuskatt einstaklinga. Í áætlun fjárlagafrv. var reiknað með 26.5% hækkun meðaltekna milli áranna 1975 og 1976 og bendir flest til þess að tekjuaukningin verði meiri eða um 30%. Í meðfylgjandi áætlun er gert ráð fyrir að skattvísitalan hækki til jafns við tekjur og verði 162.5 stig miðað við 100 1975. Að öðru leyti er reiknað með gildandi lögum óbreyttum. Áætlun um innheimtan tekjuskatt einstaklinga hækkar um rúmlega 200 millj. frá frv. í 8226 millj., en í ár er reiknað með að innheimtur tekjuskattur einstaklinga nemi 6 milljörðum 295 millj. kr.

Í þriðja lagi um tekjuskatt félaga. Innheimtur tekjuskattur félaga í ár er talinn verða 1 milljarður 630 millj. kr. Í fjárlagafrv. var tekjuskattur félaga 1977 áætlaður 1 milljarður 959 millj. kr., en sú áætlun hefur verið hækkuð í 2 milljarða 53 millj. kr. í samræmi við betri vísbendingar um breytingar veltu og afkomu fyrirtækja 1976.

Í fjórða lagi um aðflutningsgjöld. Innheimta aðflutningsgjalda verður sennilega heldur meiri í ár en reiknað var með þegar áætlun frv. var gerð í sept. s. l. Að óbreyttum forsendum frv. um tollalækkanir yrðu tekjur af aðflutningsgjöldum nærri 1400 millj. kr. meiri á næsta ári en gert er ráð fyrir í áætlun fjárlagafrv., bæði vegna hærri grunns 1976 og breyttra verðlagsforsendna á næsta ári. Nú er búist við að innheimta aðflutningsgjalda í ár nemi 11 milljörðum og 700 millj. kr., en það er um 200 millj. kr. meira en áætlað var í sept. Að auki er nú gert ráð fyrir að almennur vöruinnflutningur aukist um 23% í krónutölu 1977, en í frv. var gert ráð fyrir 13% aukningu. Við endurskoðun áætlunar 1977 er nú tekið mið af tollalækkunum samkv. frv. til l. um tollskrá. Í tollskrárfrv. var reiknað með að tollalækkanir næmu um 900 millj. kr. á næsta ári á verðlagi fjárlagafrv. Í fjárlagafrv. var reiknað með 600 millj. kr. lækkun. á verðlagsforsendum endurskoðaðrar áætlunar 1977 má meta tollalækkanir samkv. frv. um 950 millj., en breytingarnar á frv. gætu falið í sér frekari lækkun, allt að 100 millj. kr. Niðurstaða alls þessa verður sú, að innheimta aðflutningsgjalda á næsta ári nemi 13 milljörðum 700 millj. samanborið við 12 milljarða 616 millj. kr. í frv.

Í fimmta lagi um söluskatt. Innheimtur söluskattur í ár verður sennilega heldur minni en búist var við í sept. eða tæpir 23.6 milljarðar kr. í stað 23 milljarða 860 millj. kr. í septemberáætlun. Af þessum sökum er hækkun söluskattstekna frá fjárlagafrv. til endurskoðaðrar áætlunar minni en ella, en í heild er nú gert ráð fyrir fjórðungshækkun álagningarstofns. Auk þess er nú gert ráð fyrir að heimild til niðurfellingar söluskatts af vélum og tækjum til samkeppnisiðnaðar verði notuð, en þessi niðurfelling er metin um 150 millj. kr. á næsta ári. Í heild er nú reiknað með að söluskattstekjur geti numið 31 milljarði 610 millj. kr., sbr. 30 milljarða 300 millj. kr. í frv.

Í sjötta lagi um tekjur til vegagerðar. Í áætlun fjárlagafrv. var gert ráð fyrir því að markaðir tekjustofnar til vegagerðar, bensingjald og þungaskattur, yrðu hækkaðir til samræmis við verðlagsforsendur fjárlagafrv. Samkv. verðlagsforsendum endurskoðaðrar tekjuáætlunar og ákvörðun ríkisstj. er innheimt bensíngjald á næsta ári nú talið verða 2 milljarðar 410 millj. í stað 2 milljarða 260 millj. kr. í frv. Tekjur af þungaskatti eru hér óbreyttar frá áætlun fjárlagafrv., þar sem hækkun gjaldskrár verður seinna en áætlað var í frumvarpsáætlun.

Í sjöunda lagi um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Tekjuáætlun hennar hefur verið hækkuð um 1 milljarð og 100 millj. kr.

Í áttunda lagi um stimpilgjald og þinglýsingar. Áætlun um innheimtu þessara gjalda hefur verið hækkuð um 290 millj. kr. í samræmi við frv. um breytingu þeirra gjalda.

Formaður fjvn. hefur gert ítarlega grein fyrir einstökum breytingum á frv. milli umr. Ég ætla mér því aðeins að fara fáum orðum um helstu orsakir þeirra breytinga sem orðið hafa á útgjaldahliðinni frá því að frv. var lagt fram.

Gjöld færð á rekstrarreikning og fjárfestingarútgjöld A-hlutastofnana hafa hækkað úr 83 milljörðum 129 millj. kr. í fjárlagafrv. í 89 milljarða 53 millj. eða um tæpa 6 milljarða. Þessi hækkun á sér margvíslegar skýringar, en vitaskuld munar langmest um breyttar forsendur um verðlag og laun á næsta ári. Fjárlaga- og hagsýslustofnun hefur áætlað að til þessarar breytingar einnar megi rekja 4 milljarða 147 millj. kr. Það, sem þá stendur eftir, 1 milljarður 777 millj. kr., er þá raunveruleg hækkun í meðförum þingsins á frv. Eins og endranær er þessi tala niðurstaða endurskoðunar sem felur í sér bæði hækkun og lækkun gjalda, en helstu breytingar til hækkunar má telja þessar: 1) Hækkun við 2. umr. sem þegar hefur verið gerð ítarleg grein fyrir og dreifist á mjög marga fjárlagaliði, 907 millj. kr. 2) Hækkun markaðra tekjustofna umfram verðlagsendurskoðun 348 millj. kr. 3) Hækkun í A-hluta vegna lánsfjáráætlunar, sem grein hefur verið gerð fyrir, 306 millj. kr. 4) Önnur hækkun við 3. umr. u. þ. b. 140 millj.

Eins og áður er getið eru tekjurnar nú áætlaðar 89 milljarðar 950 millj. kr. eða um 888 millj. kr. hærri en gjöldin. Halli á lánahreyfingum er hins vegar nú áætlaður um 630 millj. eða ívið lægri en í frv. Þannig verður heildarniðurstaðan sú, að greiðslujöfnuður ríkissjóðs stendur í járnum. Á það er þó að líta í þessu sambandi, að í greiðslum ríkissjóðs eru taldar 2 milljarða 300 millj. kr. afborganir af skuldum við Seðlabankann sem raunverulega má líta á sem greiðsluafgang gagnvart öðrum aðilum í hagkerfinu. Er afar mikilvægt að takist að grynna á skuldum við Seðlabankann til þess að treysta efnahagslegt jafnvægi í landinu á næstu missirum.

Heildarútgjöld ríkissjóðs eru áætluð, eins og áður sagði, um 89 milljarðar eða tæplega 29% af þjóðarframleiðslunni eða svipað hlutfall og á þessu ári, ef reiknað er á sambærilegan hátt. Frv., eins og það liggur nú fyrir til afgreiðslu við 3. umr., stefnir að því að ríkið auki ekki sinn hlut í ráðstöfun þjóðartekna á næsta ári.

Til áréttingar og viðbótar því, sem ég sagði hér fyrr um tekju- og eignarskatt á árinu 1977, vil ég taka fram eftirfarandi:

Í stefnuræðu forsrh. svo og fjárlagaræðu minni hér á hv. Alþ. í haust var því lýst yfir, að lagt yrði fram frv. á þessu hausti um breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt og stefnt að afgreiðslu þeirra fyrir áramót. Þetta hefur ekki tekist eins og ráð var fyrir gert, heldur hefur nú verið lagt fram frv. um nýja heildarlöggjöf um tekju- og eignarskatt. Jafnframt alhliða endurskoðun laganna felur frv. í sér tillögur um öll þau stefnuatriði sem vikið var að í áðurgreindum ræðum:

1) Breytingar sem ætlað er að hafi áhrif í þá átt að skipta skattbyrðinni réttlátar milli þjóðfélagsþegnanna en gildandi lög fela í sér.

2) Lagt er til að skattlagningu tekna hjóna sé hagað aðallega eftir fjölskylduaðstæðum, en í minna mæli eftir því hvernig tekjuöflun heimilisins er háttað.

3) Lagt er til að skilja að atvinnurekstrartekjur eða tap einstaklinga frá öðrum tekjum hans og tekjur einstaklinga í atvinnurekstri verði skattlagðar eins og hann hefði þau sem laun frá öðrum.

4) Gerðar eru tillögur um veigamiklar breytingar á fyrningu eigna í atvinnurekstri og skattskylda söluhagnaðar aukin.

5) Samræmdur er álagningargrunnur tekjuskatts og útsvars.

Fleiri veigamiklar breytingar felast í þessu frv. sem of langt yrði upp að telja hér. Mun ég gera grein fyrir þeim við 1. umr. frv. Ég vil þó undirstrika að þessar breytingar, ef að lögum verða, leiða til einfaldari og öruggari skattlagningar en núgildandi lög gera.

Frv., eins og það er fram lagt, gerir ráð fyrir að fyrst verði lagt á samkv. því á árinu 1978 á tekjur ársins 1977, en ég hef þá skoðun að slík löggjöf eigi ekki að vera afturvirk. Hins vegar mun ég óska eftir því að fjh.- og viðskn. Alþingis kanni við athugun þeirra á frv. hvaða atriði frv. geti komið til framkvæmda þegar á árinn 1977 og verði flutt frv. þar að lútandi þegar þing kemur saman. Til þess að vinna tíma mun ég fara þess á leit að fjh.- og viðskn. beggja deilda nýti þinghléið til að ræða frv. og leita umsagnar þeirra aðila sem hlut eiga að máli, þótt frv. hafi ekki formlega verið vísað til n. í'm leið vil ég geta þess, að það er óþarft fyrir hv. þm. Sighvat Björgvinsson að hafa áhyggjur af flutningi frv. um tekju- og eignarskatt. Þm. stjórnarflokkanna styðja öll góð mál, og hafi þeir hugmyndir um breytingar á frv., sem eru nýjar og góðar till., þá verða þær að sjálfsögðu skoðaðar og teknar til greina.

Eins og ég gat um við 1. umr. fjárlagafrv. var ætlað að birta þá strax starfsmannaskrá ríkisins 1. jan. 1976. Ekki tókst eins og fyrirhugað var að birta þá skrána, en eins og alþm. er kunnugt kom skráin fram í lok síðustu viku. Meginástæður fyrir því, að ekki var hægt að birta skrána á þeim tíma sem fyrirhugað var, eru: Í fyrsta lagi er skráin nú unnin með öðrum hætti en sú fyrri. Skráin er nú tölvuunnin, en með því skapast möguleiki til að nýta upplýsingar úr skránni til aukins eftirlits og aðhalds með starfsmannamálum ríkisins. Jafnframt var öllum stöðum gefið ákveðið tölunúmer, en tilgangur þess er að auðvelda eftirlit með hreyfingu á starfsmannahaldi. Í öðru lagi var samanburður á stöðugildi í starfsmannaskrám áranna 1975 og 1976 ekki fyllilega raunhæfur og liggja til þess einkum þrjár ástæður. Skráin er nú unnin á mun nákvæmari hátt en áður. Þá var reynt eftir föngum að tryggja að allt faglært og ófaglært verkafólk í þjónustu ríkisfyrirtækja kæmi til skila í þessari skrá, en nokkuð skorti á að það gerðist við gerð hinnar fyrstu. Í þriðja lagi var nú hægt að sannprófa frekar en áður þær upplýsingar sem fram komu í þessari skrá.

Sú breyting, sem gerð hefur verið á framsetningu og úrvinnslu starfsmannaskrár ríkisins mun skapa grundvöll til að nýta skráninguna sem virkt eftirlitstæki innan fjárlagaársins með starfsmannahaldi ríkisins og ríkisfyrirtækja. Eins og fram kemur í skránni, er heildaraukning á stöðugildum á árinu 1975 hjá ríkinu 356 stöður eða um 3.1%. Samtals voru heimilaðar 198 nýjar stöður á árinu 1975, þar af voru 60 annars vegar vegna stofnunar fjölbrautaskóla í Breiðholti og Flensborg og hins vegar vegna stofnunar hælis á Vífilsstöðum. Óheimiluðum stöðum fjölgaði um 158 á árinu 1975. Í mörgum tilvikum er hér um að ræða starfsmenn sem ráðnir hafa verið til skamms tíma, en hafa ílengst í ríkiskerfinu með framhaldsráðningarsamningum til óákveðins tíma í senn. Margir af þessum ráðningarsamningum hafa upphaflega verið gerðir fyrir gildistöku laga nr. 97/1974, en verið framlengdir á árinu 1975. Í ljós hefur komið að 62 af þessum óheimiluðu stöðum hafa verið teknar á launaskrá hjá launadeild fjmrn., en laun 96 staða greidd með öðrum hætti hjá viðkomandi stofnunum.

Rétt er að taka fram og leggja áherslu á að sl;ráin er miðuð við stöðuna eins og hún var 1. jan. 1976. Nokkrar stofnanir hafa þegar tekið tillit til aths. fjmrn. og komið starfsmannahaldi sínu í rétt horf. Þá hafa fáeinar stofnanir gert aths. við einstakar stjörnumerkingar í skránni og talið þær orka tvímælis. Fjárlaga- og hagsýslustofnun mun ljúka úrvinnslu starfsmannaskrár fyrir 1976 eigi síðar en í aprílmánuði n. k., sem tvímælalaust verður til mikilla bóta.

Ég mun óska eftir því við fjvn. Alþ. n. taki starfsmannaskrána og þar með allar óheimilaðar stöður hjá ríkisstofnunum og ríkisfyrirtækjum til sérstakrar athugunar á sama hátt og gert var við útkomu fyrstu skrárinnar.

Um leið og ég þakka góða fyrirgreiðslu fjárlagafrv., herra forseti, vil ég nota þetta tækifæri til þess að þakka fjvn. og þá sérstaklega formanni hennar, hv. þm. Jóni Árnasyni, fyrir mikið og óeigingjarnt starf við fjárlagagerðina. Fjárlagagerð er vanþakklátt verk, oftast nær, en mikilvægt að á því sé haldið af festu og sanngirni af mönnum sem ekki missa sjónar á hagsmunum heildarinnar í þeim hafsjó sérhagsmuna og talna sem yfir borðið flæða hjá fjvn. Ég tel að í þetta sinn hafi tekist að koma saman fjárl. sem þræða hin gullna meðalveg að því leyti, að tillit sé tekið til brýnna þarfa fyrir opinbera þjónustu, en þess jafnframt gætt að ríkisfjármálum sé beitt til aðhalds í batnandi árferði. Ég vona að framkvæmdin takist jafnvel og veit að ef á þarf að halda mun þingið leggja sitt til þess að svo megi verða.