21.10.1976
Sameinað þing: 7. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í B-deild Alþingistíðinda. (121)

5. mál, Vestfjarðaskip

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr, mikið. Ég kem hér aðallega í ræðustól til þess að rifja upp það sem gerst hefur í sambandi við þetta mál.

Efnisatriði þessarar þáltill., sem hér eru nú til umr., er ekki nýtt hér á hv. Alþ. því a.m.k. fimm sinnum áður hefur þetta mál borið hér á góma, að vísu í öll þau fimm skiptin hefur verið flutt um það frv. til l., en nú er málið flutt í þáltill.-formi.

Það var, eftir því sem ég hest veit, fyrst árið 1962 sem flutt var frv. um sérstakt Vestfjarðaskip. Flm. þess voru þá þm. Hannibal Valdimarsson og Jón Skaftason. Þetta frv., sem þá var flutt, fór til n., en var ekki afgr. þá úr n. Aftur er málið flutt árið 1963 og þá í frv.-formi. Þá eru flm. þm. Sigurvin Einarsson og Hannibal Valdimarsson, og enn fer málið til n., en kemur ekki úr n. Árið 1964 er málið enn flutt í frv: formi og þá eru flm. hinir sömu. Sigurvin Einarsson og Hannibal Valdimarsson. Þá er málið afgr. í n. og samþ. af þáv. meiri hl. á Alþ. að málinu skuli vísað til ríkisstj. á grundvelli þess að rekstur Skipaútgerðar ríkisins sé þá í sérstakri athugun og eðlilegt sé að málið sé skoðað frekar í tengslum við þá athugun. Ekkert frekara gerist. Árið 1966 er enn flutt frv. um sérstakt Vestfjarðaskip, og þá er það þm. Steingrímur Pálsson sem flytur það frv. Enn fer málið í n., en sofnar þar. Síðan er það árið 1970 að sami þm., Steingrímur Pálsson, flytur frv. um sérstakt Vestfjarðaskip. Þá fær frv-. meðferð í n. og enn á sama hátt og áður, að því skuli vísa til ríkisstj., og ekkert gerist frekar. Hér er fimm sinnum búið að flytja frv. á hv. Alþ. um nákvæmlega sama hlutinn og hér er verið að tala um, um sérstakt Vestfjarðaskip til þess að þjóna Vestfirðingafjórðungi vegna þess að hann er þannig settur í sambandi við samgöngur, var og er, að illmögulegt er að halda uppi eðlilegum samgöngum við fjórðunginn nema því aðeins að það sé gert að því er vöruflutninga varðar a.m.k. með skipum. Ég taldi rétt að við umr. um þessa þáltill. væri þess getið að málið hefur oft borið á góma hér á Alþ. þó að það hafi verið í öðru formi en málið er nú flutt.

Ég skal segja það strax fyrir mitt leyti, að ég fagna því að málið er nú tekið upp hér og ég vænti þess að það fái jákvæðari meðferð heldur en hin fimm undanfarandi skiptin, þannig að það fái gaumgæfilega skoðun og afgreiðslu. Ég skal þó taka það fram, að fyrir mér er ekkert aðalatriði að þetta verði nefnt Vestfjarðaskip. Það er ekkert aðalatriði. Aðalatriðið er að koma samgöngum á vegum Ríkisskips í það horf sem vestfirðingar geta við unað. Það er mjög oft, að því er mér er tjáð, sem það hefur komið fyrir á undanförnum árum að skip Skipaútgerðarinnar koma ekki á hafnir á Vestfjörðum allt upp í hálfan mánuð. Gefur auga leið að slík þjónusta er fyrir neðan allar hellur, ekki síst þegar haft er í huga að Vestfirðir eru þannig settir samgöngulega séð 7–8 mánuði úr árinu að ekki er um að ræða neina flutninga öðruvísi en þá með flugvélum eða skipum. Fjórðungurinn er lokaður samgöngulega séð frá öðrum landshlutum 7–8 mánuði á ári, nema því aðeins að hægt sé að hafa þetta með þeim hætti að flytja með flugvélum eða skipum.

Ég skal taka það fram, að ég er þeirrar skoðunar að fyrir þjóðfélagið sem heild og þá jafnframt fyrir vestfirðinga — og ekki síður þá — hlýtur hagstæðasta flutningaleiðin í sambandi við vöruflutninga að verða sjóleiðin. Það er öllum ljóst hversu gífurlegur kostnaður liggur í því að byggja upp og viðhalda vegakerfi sem á að þjóna þessu verkefni, að halda uppi vöruflutningum, fyrir utan hitt, að Vestfirðir eru þannig í sveit settir að það er a.m.k. vafamál hversu langan tíma er hægt að halda uppi flutningum á landi til Vestfjarða héðan frá aðalinnflutningssvæðinu. Ég held því að það ætti að vera augljóst öllum að þjóðhagslega séð er langæskilegast og hagkvæmast að búa þannig að þessum málum að þessi þjónusta geti orðið með sjóflutningum.

Nú skilst mér að enn sé í athugun rekstur Skipaútgerðar ríkisins, og ekki kæmi mér á óvart, þó að ég vilji ekki vera með neinar hrakspár um þetta mál, að annaðhvort yrði málið látið sofna í n. eða vísað yrði til hins sama og áður hefur gerst, að verið væri að endurskoða rekstur Skipaútgerðar ríkisins og væri því nauðsynlegt að þetta mál væri skoðað í tengslum við það. Það kæmi mér ekkert á óvart. Ég vænti þess hins vegar að það gerist ekki. Ég vona að þetta mál, sem svo oft og mörgum sinnum hefur verið hér til meðferðar á Alþ., fái nú, í sjötta skiptið sem það er hér flutt og tekið upp, sæmilega rausnarlegar viðtökur og því verði tekið á þann eina hátt sem það á skilið, að það verði einhver framgangur á því sem hér er verið að tala um.

Ég skal ekki hafa þessi orð öllu fleiri, en ég taldi nauðsynlegt að það væri rakin hér saga þessa máls hér á hv. Alþ., ekki síst kannske fyrir þá hv. þm. sem komið hafa á Alþ. eftir að þessir hlutir gerðust. Vel má vera að það sé hægt að finna æðimörg mál sem svipað er ástatt um og þetta, hafa verið flutt þing eftir þing og aldrei fengið neina endanlega afgreiðslu. En ég hygg að þetta mál sé þess eðlis og það mikilvægt að vart verði lengur hjá því komist að taka á því þannig að viðunandi sé. Og ég vænti þess, og skal ljúka máli mínu með því, ég vænti þess að þessi þáltill. fái jákvæðar undirtektir hér og að hún verði afgr. á þann veg að málið komist a.m.k. á þá hreyfingu sem það þarf til þess að úrbætur fáist. Það ætti að vera öllum ljóst sem vilja kynna sér aðstæður vestfirðinga að því er varðar þjónustu héðan frá höfuðborgarsvæðinu, ekki bara að fá þjónustuna, heldur hversu dýru verði þeir þurfa að kaupa hana, að það er nauðsynlegt að hér verði bót á ráðin.