21.12.1976
Neðri deild: 37. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1563 í B-deild Alþingistíðinda. (1216)

133. mál, lántaka vegna opinberra framkvæmda á árinu 1977

Frsm. 1. minni hl. (Lúðvík Jósepsson):

Hæstv. forseti. Það mál, sem hér liggur nú fyrir til 2. umr., er í rauninni eitt af stærstu málunum sem fyrir þessu þingi hafa legið. Hér er ekki aðeins fjallað um það að veita ríkisstj. heimild til lántöku upp á um 10 milljarða kr., heldur er sú lántökuheimild, sem þar er fjallað um, aðeins einn hluti af því að marka stefnuna í ýmsum þýðingarmestu þáttum okkar fjármálalífs. Hér er í rauninni verið að marka stefnuna í framkvæmda- og fjárfestingarmálum á næsta ári. Það er því ekki nema eðlilegt að þessu frv. hafi fylgt löng skýrsla, svonefnd skýrsía ríkisstj. um lánsfjárætlun fyrir árið 1977. En ég hlýt að vekja athygli á því, að þetta mál kemur fyrir þingið rétt á síðustu starfsdögum fyrir jól. Það gefst varla tími til þess að lesa þau gögn, sem fylgja með frv., og eins og hefur komið hér fram í umr., þar sem nokkuð hefur verið víkið að þessum málum, er alveg greinilegt að ýmsir þm. hafa ekki kynnt sér þá nema að sáralitlu leyti það efni sem hér liggur fyrir. Reyndar kom það fram í ræðu eins fulltrúa í fjvn., að í fjvn. höfðu menn ekkert áttað sig á því hvað hér væri á ferðinni og þar hefði ekki verið hægt að fá upplýsingar um sum þýðingarmestu atriði þessa máls. Það er svo sem eftir öðru í þessum efnum ef svona er á málum haldið. En ég verð að segja það, að þessi vinnubrögð af hálfu ríkisstj , að koma rétt á síðustu starfsdögum fyrir jól með mál eins og þetta og krefjast þess að málið hljóti afgreiðslu á þessum stutta tíma, þau eru vitanlega alveg ósæmileg.

Það er engin þörf á því að afgreiða þetta frv. nú fyrir jólaleyfi. Hliðstæðar heimildir til lántöku hafa verið afgreiddar langsamlega oftast eftir jólaleyfi, og það verður að teljast sérstaklega ósennilegt að málin standi þannig að ríkisstj. þurfi að nota þessar heimildir í þeim mánuði sem Alþ. verður ekki að störfum. Vitanlega dugði sá háttur í þessu tilfeili að sýna þetta frv. nú fyrir jól, láta það liggja og gefa sér tíma á eðlilegan hátt til að afgreiða málið þegar þing kemur saman aftur. En nú er sem sagt ætlunin af hálfu hæstv. ríkisstj. að knýja málið í gegn og hafa þá fremur þann hátt á að gefa þm. kost á að taka hér þátt í umr. um þessa stefnumörkun í lánsfjármálum og í framkvæmdamálum, ræða það almennt eftir að ákvörðunin sjálf hefur formlega verið tekin og bundin í lögum. Ég álít að þetta séu óeðlileg vinnubrögð, en tek þó undir það, að það er þó gott að fá loforð hjá hæstv. fjmrh. um að hann beiti sér fyrir því að hér geti farið fram umr. um þessi þýðingarmiklu mál þegar þing kemur aftur saman eftir jólaleyfi og þá í tengslum við skýrslu hans um ríkisfjármálin almennt.

Ég hef því tekið fram í nál. mínu að ég álíti að það væri eðlilegast að afgreiða málið ekki að þessu sinni, heldur fresta því. Ég veit að það er ekki hægt að bera á móti því að það skipti engu máli, annað en það að ryðjast áfram eins og gert er hér í mörgum málum, kasta fram stórum frv. og þýðingarmiklum málum rétt á síðustu starfsdögum þingsins og heimta að málin séu afgreidd án þess að þm. hafi haft nokkra aðstöðu til þess að kynna sér þau til neinnar hlítar.

Ég vil benda á að það er ekki aðeins lánsfjáráætlunin og þetta lántökufrv. sem koma fram svona seint, heldur er þingið á sama tíma að fjalla um tollskrána, jafnflókið og mikið mál sem þar er á ferðinni, og þar gafst nær enginn tími og allir kvörtuðu undan því að þeir hefðu ekki túna til að kynna sér það mál eins og eðlilegt hefði verið. Hér hafa einnig verið lögð fram á þessum síðustu dögum allmörg ný frv. um málefni sem eru á engan hátt rædd og illa upplýst. Það gefst ekki tækifæri til þess að kalla fyrir sig þá aðila sem hér eiga hlut að máli. En eigi að síður er eins og ríkisstj. setji metnað sinn í að böðla þessu í gegnum þingið, auðvitað með þeim afleiðingum að það verður að rífa þessi mál meira og minna upp aftur síðar vegna þess að það er staðið óeðlilega að afgreiðslunni. Þetta verður vitanlega að vita, það eru óþolandi vinnubrögð.

Ég held að það hafi lengi verið svo, þó að það hafi ekki alltaf verið, að stjórnarandstaða hafi frekar greitt fyrir því að hægt væri að afgreiða fyrir jólaleyfi ýmis mál sem voru þess eðlis að þau þurftu að ná fram að ganga eðli málsins samkv. fyrir áramót, eins og á sér stað um ýmsa löggjöf. Ég held að stjórnarandstaðan hafi allajafna reynt að hliðra til og spara þá umr. í sambandi við slík mál. En það nær vitanlega engri átt að ríkisstj. notfæri sér þetta á þann hátt, sem mér finnst að hafi mjög borið á að þessu sinni, að leggja stærstu og flóknustu mál fyrir þingið fáum starfsdögum fyrir jól og knýja á um það — í mörgum tilfellum alveg að þarflausu — að málin fái fullnaðarafgreiðslu. Auk þess er svo það, að þegar stjórnarandstaðan fellst á að falla frá umr. að mestu leyti um ýmis þau mál sem á dagskrá eru, þá gera stjórnarsinnar sér lítið fyrir og halda hér hverja ræðuna af annarri og ráðh. og fleiri koma fram og halda hér alllangar tölur, sem ég sé ekki að hafi haft neina þýðingu í því tímaleysi sem við búum við. Það væri fyllilega ástæða til þess að þessu væri svarað hér af hálfu okkar í stjórnarandstöðu með því að við töluðum á þann hátt um þau stóru mál. sem liggja fyrir, sem við teljum að væri fyllilega eðlilegt. Ég hlýt að finna að þessu, því að mér finnst að hér sé mjög einkennilega á þessum málum haldið.

En svo að ég víki í stuttu máli að þessu frv. sem hér liggur fyrir, og örfáum þáttum í sambandi við þá stefnumörkun sem hér á sér stað varðandi framkvæmdamálin í landinu, þá vil ég segja það, að út af fyrir sig er ég ekki andvígur þeim heimildum sem óskað er eftir í þessu frv. til lántöku. Ég tel að eins og mál standa sé eðlilegt að veita ríkisstj. heimild til þess að taka lán í samræmi við þetta frv., að öðru leyti en því, að ég er andvígur því að veita ríkisstj. heimild til að taka erlent lán vegna byggingar járnblendiverksmiðju, sem nemur 939 millj. kr., eins og fram kemur í grg. með þessu frv. Ég hef því flutt till. á þskj. 262 þar sem ég legg til að heimildarfjárhæðin í 1. gr. frv., sem er 9 milljarðar 732 millj. kr., verði lækkuð um 939 millj. eða sem nemur fyrirhugaðri lántöku vegna járnblendiverksmiðjunnar. Þetta er í fullu samræmi við afstöðu mína til þessa máls sem ég hef gert hér grein fyrir áður.

Að öðru leyti tel ég enga ástæðu til þess að standa gegn því að ríkisstj. fái þær heimildir sem farið er fram á í frv Þar er að langmestu leyti um að ræða heimildir til þess að taka lán í sambandi við framkvæmdir sem þegar hafa verið ákveðnar og eru í gangi og sumpart til nýrra framkvæmda sem ég tel að enginn vafi leiki á að þarf að vinna að, svo að ágreiningur minn er ekki um þetta út af fyrir sig. En þó að ríkisstj. sæki aðeins um þessar lántökuheimildir sem ég hef hér gert grein fyrir, þá felst í rauninni í lánsfjáráætluninni, sem er fylgiplagg með þessu frv., miklu stærri og meiri ákvörðun um framkvæmdamálin almennt séð og lántökur í víðari merkingu, vegna þess að ríkisstj. hefur þegar víðtækar heimildir til þess að taka lán í sambandi við þau mál.

Það er býsna athyglisvert, sem fram kemur í skýrslunni um lánsfjáráætlun, að samkv. henni er gert ráð fyrir að á næsta ári verði staðið að fjármunamyndun í landinu eða fjárfestingu sem nemur hvorki meira né minna en 85,6 milljörðum kr. Það er ekki síður athyglisvert að átta sig á því, bæði í hvað þessi fjárfesting á að fara og einnig hvernig á að fjármagna þessa fjárfestingu. Það vekur t. d. athygli mína að nú er gert ráð fyrir því á þriðja árinu í röð, þrátt fyrir gífurlega mikla fjármunamyndun eða mikla fjárfestingu miðað við þjóðarbúskapinn sem heild, að minnka fjárfestinguna nú þriðja árið í röð í atvinnuvegum landsmanna sjálfra. Í atvinnuvegum landsmanna sjálfra þ. e. a. s. í sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði, um 21% í sjávarútvegi borið saman við árið 1974. Aftur minnkaði fjárfestingin í okkar atvinnuvegum frá árinu 1975 um 12–13% að áliti Þjóðhagsstofnunar á árinu 1976. Og enn er gert ráð fyrir því að fjárfestingin í okkar atvinnuvegum minnki um 12–15% frá árinu 1976 til ársins 1977.

Hin gífurlega mikla fjárfesting. sem við stöndum í, byggist því ekki á því að á þessum árum verjum við sérstaklega miklu fjármagni í það að treysta undirstöður okkar atvinnulífs. Ég fyrir mitt leyti er alveg sannfærður um að við eigum eftir að finna fyrir þessu þegar á næstu árum. Það er reginmisskilningur að mínum dómi að trúa því að það hafi verið offjárfest t. d. í okkar sjávarútvegi eða í okkar atvinnuvegum, sem við byggjum alla okkar afkomu á, á árunum á undan, þessum þremur sem ég hef hér verið að ræða um. Það eru ýmsir sem hafa gert mikið úr því að þá hafi verið keyptur mikill skipafloti. Við höfum keypt mikið af skuttogurum. Þeir eiga varla nógu stór orð til þess að tala um öll þau kaup og trúa því að það sé búið að gera okkar fiskiskipaflota þannig úr garði að hann sé orðinn allt of stór, allt of afkastamikill og þar þurfti því ekki að hugsa fyrir fjárfestingu á næstunni. Að mínum dómi er þetta byggt á alröngum forsendum og vanþekkingu á því hvernig ástandið er raunverulega varðandi okkar fiskiskipaflota, sjálfa undirstöðuna. Þó að vissulega hafi farið fram talsverð endurnýjun þar með kaupum skuttogaranna, þá stöndum við enn mjög illa að vígi með allt of mikið af gömlum og úreltum fiskiskipum sem verður að endurnýja, og það þarf að gerast vitanlega jafnt og þétt til þess að ekki þurfi að koma til stórra átaka, eins og hefur verið hjá okkur æðioft. Sama er að segja um okkar fiskiðnað. Þar á eftir að gera gífurlega mikið átak. Það er reginmisskilningur að þar höfum við lokið einhverju verkefni til langs tíma. Það er reginmisskilningur. Og sama er að segja um okkar iðnað og einnig um ýmsa þætti varðandi okkar landbúnað. Sú stefna, sem núv. ríkisstj. hefur haft í fjárfestingarmálum, að spara á þessum liðum, draga þarna saman að magni í sífellu, á eftir að koma okkur í koll.

Ég tek t. d. eftir því í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir, og þær grg., sem með því fylgja, að beiðni stjórnar Fiskveiðisjóðs um lánsfé er skorin mjög verulega niður. Það er hert ráð fyrir að um verulegan samdrátt í útlánum Fiskveiðasjóðs verði að ræða miðað við verðgildi. Og það, sem sérstaklega vekur athygli, er að gert er ráð fyrir því að lækka till. sjóðsstjórnarinnar um 600 millj. kr. af ráðstöfunarfé sjóðsins sem eigi allt að koma fram á þeim lið að draga úr skipabyggingum innanlands. Þetta hljómar auðvitað heldur einkennilega þegar það er haft í huga sem ég var að segja áðan í sambandi við stöðu fiskiskipaflotans í mörgum greinum og þá ekki síður varðandi stefnuna um innlendan iðnað. Einmitt varðandi þennan þáttinn, sem er einna þýðingarmestur hjá okkur og þar sem við getum gert hvað mest, kemur það fram í stefnunni, sem nú er verið að marka, að það skuli sérstaklega skera niður fjárveitingar sem höfðu verið fyrirhugaðar í sambandi við innanlandssmiði fiskiskipa. En þessu er svona varið í miklu fleiri greinum, og það er auðvitað enginu tími til þess að fara út í þessi mál hér almennt. Maður verður að víkja þannig til að sleppa því að minnast á það nema að litlu leyti.

Ég sagði að það væri líka fróðlegt að átta sig á því, hvernig það fé ætti að koma til sem stæði undir þessari gífurlega mikla fjárfestingu, upp á yfir 85 milljarða á næsta ári. Það er rétt að það hefur verið allmikið talað um það hjá okkur að við tækjum erlend lán, og það hefur vissulega verið tekið allmikið af erlendum lánum á undanförnum árum og skuldir okkar við útlönd hafa farið vaxandi. En það er þó reginmisskilningur að halda því fram að þessar miklu fjárfestingarframkvæmdir okkar hvíli allar á erlendum lántökum. Í lánsfjáráætluninni kemur fram að það eigi að fjármagna þessa fjárfestingu upp á 85.6 milljarða á þann hátt, að með innlendum sparnaði okkar sjálfra af tekjum ársins ætlum við að taka upp í þessa 85.6 milljarða hvorki meira né minna en 79.6 milljarða, sem við tökum beint af okkar árlegu tekjum í þetta. Þetta er framkvæmt með því að ríkissjóður tekur að sér að ná úr sínu dæmi í heild 26.2 milljörðum í þetta og setja síðan í fjárfestingu. Bæjar- og sveitarfélög taka að sér að ná í fjármagn og setja í þessa fjárfestingu upp á 8.5 milljarða. Síðan kemur liður, sem kallaðar er frá einkaaðilum, en þar er auðvitað fyrst og fremst um að ræða hinn almenna sparnað sem kemur út úr banka- og lífeyrissjóðakerfinu, upp á 45 milljarða. En það vantar auðvitað á að við höfum þó lagt fram allt féð í þessa fjárfestingu, því að gert er ráð fyrir viðskiptahalla við útlönd upp á 6 milljarða. 6 milljarða vantar upp á, sem við verðum að taka með hreinum viðskiptahalla við útlönd á árinu.

Í sjálfu sér er um fjárfestingu, sem lítur út á þennan hátt, ekkert nema gott að segja, ef fjárfestingunni er þá varið til þess sem fyrst og fremst hefur gildi fyrir okkur, ef hún er fólgin í því að við séum að treysta efnahag okkar á komandi árum, við séum að leggja grundvöll að því að framleiðslan vaxi og að þjóðartekjurnar geti með eðlilegum hætti aukist frá því sem nú er. En ég fullyrði það, án þess að hafa hér aðstöðu eða tíma til að fara nánar út í og rökstyðja það, að fjárfestingin af okkar hálfu er ekki rétt. Hún mun skila tiltölulega litlu í auknum þjóðartekjum á næstu árum. Mér dettur ekki í hug að halda því fram að fjárfestingin sé öll röng. Það er ýmislegt í fjárfestingunni sem er í rétta átt. En því fer víðs fjarri að þessi mikla fjárfesting sé líkleg til þess að skila okkur aukinni þjóðarframleiðslu eða auknum þjóðartekjum sem samsvarar svona mikilli fjárfestingu.

Ég tók eftir því, að hv. 4. þm. Austurl., Tómas Árnason, gat í framsöguræðu sinni um stöðuna varðandi skuldir okkar við útlönd, þar sem var greint frá löngum lánum, og hann nefndi þar að mínum dómi réttar tölur varðandi þrjú árin: 1974, 1975 Og 1976, en hins vegar tel ég að sú tala, sem hann nefndi fyrir árið 1977, fái ekki staðist. Þar nefndi hann tölu sem byggðist á því að bæta áætlaðri nettóskuldaraukningu okkar við útlönd á næsta ári, 1977, við skuldina í árslok 1976. Þetta virðist mjög eðlilegt við fyrstu sýn, en það er bara gert ráð fyrir því í okkar þjóðhagsspá, hún er grundvölluð á því að á næsta ári muni gengið einnig halda áfram að síga, eins og það var látið síga á þessu ári, um ekki minna en 10–11%. Og það vitanlega lyftir þessari upphæð upp um sömu upphæð eða 10–12%, svo að það er bætt við því að miðað við spána, eins og hún liggur fyrir, verði skuld okkar við útlönd í árslok 1977 ekki aðeins 105 milljarðar kr., heldur verði skuldarupphæðin varla undir 115–120 milljörðum kr. miðað við það gengi sem þá er reiknað með í okkar nýju þjóðhagsspá.

Um þjóðhagsspána vil ég aðeins segja það í sambandi við þessa áætlanagerð, að ég er ansi hræddur um að hæstv. fjmrh. og ríkisstj. í heild eigi eftir að reka sig illilega á ef þeir trúa því, sem þeir eru hér að tala um, á þann hátt sem þeir tala um það, — ef þeir trúa því virkilega að útkoman verði sú sem þessi bráðabirgðaspá Þjóðhagsstofnunar gengur út frá, vegna þess að þeir, sem gera spána, hafa auðvitað haft allan fyrirvara á varðandi mjög þýðingarmikla liði þessa máls, af því að þeir vita miklu betur. Þessar tölur eru byggðar á því að reikna með að á næsta ári öllu hækki framfærsluvísitalan um 23.7% og þá miðað aðeins við þá kaupgjaldssamninga sem nú eru í gildi, en þó þar til viðbótar að 4% grunnkaupshækkun, sem opinberir starfsmenn eiga að fá samkv. sínum samningum 1. júní á næsta ári, eigi einnig að ganga yfir alla aðra launþega, aðrar launabreytingar ekki nema í sambandi við vístöluhreyfingu. Og menn hafa reiknað með því að framfærsluvísitalan hækkaði á árinu á þessum grundvelli, sem sagt miðað við kyrrstöðu í launamálum, um 23.7%. Þeir, sem þetta hafa reiknað, taka einnig fram að þetta er byggt á því líka að það sé aðeins orðið að litlu leyti við þeim beiðnum sem nú liggja fyrir um verðhækkanir. Það liggja fyrir beiðnir núna um stórfelldar verðhækkanir sem ekki er búið að afgreiða. Rafmagnsveita Reykjavíkur fer fram á 20% hækkun á rafmagnsverði, 10% til þess að jafna aðeins upp hækkun á heildsöluverði frá Landsvirkjun og önnur 10% vegna stöðu Rafmagnsveitunnar sjálfrar. Það liggur líka fyrir beiðni um hækkun frá Hitaveitu Reykjavíkur um 15%. Margar aðrar hækkunarbeiðnir liggja fyrir. Og þeir, sem hafa verið að reikna út vísitöluna, hafa tekið skýrt fram: Við höfum ekki í okkar framreikningi reiknað með þessum verðhækkunum nema að sáralitlu leyti.

Ég vil benda hæstv. fjmrh. og ríkisstj. í heild á að það, sem þessir framreikningar segja, er einfaldlega að allar líkur bendi til þess að á næsta ári, þegar miðað er við mitt árið 1976 og mitt árið 1977, eins og Þjóðhagsstofnun og Hagstofan miða við í sínum útreikningum, þá hækki framfærsluvísitalan svo að segja sjálfvirkt, án verulegra launabreytinga, ekki aðeins um 23.7%, heldur miklu líklegra að hún hækki um 25–27% áður en kemur til áhrifanna af breyttum launum í landinu.

Þetta eru staðreyndirnar. Auðvitað vita allir, sem hafa gert sér einhverja grein fyrir því hvernig málin standa, að það er tómt mál að tala um að það verði ekki verulegar launabreytingar nú á þessum vetri eða næsta vori. Hvort grunnkaupið kemur til með að hækka um 15, 20 eða 25%, það vita menn auðvitað ekki um. En það vita allir að hér standa fyrir dyrum verulegar kauphækkanir almennt séð. Og ef ætti að fara eftir þeim reglum sem gilt hafa, þ. e. a. s. að verðlag sé almennt látið fylgja á eftir, þá sjá menn að þessi spádómur, sem menn kalla spádóm núna, sem er settur fram með öllum þessum fyrirvörum og á þessum grundvelli, hann er vitanlega allt annar, það er allt annað sem blasir við. Það blasir hér við margfalt meiri verðhækkun á komandi ári en sem þessu nemur ef ríkisstj. fæst ekki til þess að mæta þeim vanda, sem að steðjar, að einhverju leyti með því að lækka álögur í landinu, að standa fyrir því að verðlag geti lækkað.

Ríkisstj. hefur haldið uppi þeirri stefnu, að hún hefur valið í öllum tilfellum hækkunarleiðina. Þegar hún sá að tvö söluskattsstig losnuðu í sambandi við gosið í Vestmannaeyjum og snjóflóðin í Neskaupstað, þá stökk hún á þessi tvö stig undireins, tók þau í ríkissjóð, og með því tók hún auðvitað í auknar tekjur í ríkissjóð 3.4 milljarða á ársgrundvelli. Sama gerðist vitanlega þegar hún sá að færi að koma sá tími að það væri hægt að snuða þá menn, sem hafa fengið olíustyrkinn, um olíustyrkinn. Þá gerir hún ráð fyrir í sínum áætlunum að taka a. m. k. einn milljarð í ríkissjóð af olíugjaldinu. Þar er tekinn meginhlutinn af einu prósentustiginu enn. Og ríkisstj. leggur til að framlengja 18% tímabundna vörugjaldið út allt næsta ár, þó að það ætti ekki að standa nema örstuttan tíma. En þetta gjald nemur 5.3 milljörðum kr. í hækkuðu verðlagi. Það eru sem sagt valdar á þennan hátt allar hugsanlegar leiðir til verðhækkana. Þeir velja þessa leið og standa svo fyrir þeirri kolvitlausu vaxtastefnu sem hér er haldið uppi. Nú er Seðlabankinn kominn með samþykki ríkisstj. í það að hafa leyfilega refsivexti 30%, sem auðvitað gera 36% eða 37% þegar hann er búinn að mala undir sig vexti ofan á vexti allan tímann yfir árið.

Þessi vaxtapólitík birtist auðvitað á mörgum stöðum í þjóðfélaginu, þannig að þessi vaxtapólitík spanar upp verðlagið í landinu, eykur dýrtíðina. Við höfum verið að sjá það hér og heyra í þessum umr. um afgreiðslu fjárl., að ríkissjóður og ríkisfyrirtækin, sem koma inn í fjárlögin, inn í A- og B-hlutann þar, — ríkissjóður og ríkisfyrirtækin þurfa orðið að borga rétt tæpa 9 milljarða í vexti á ári. Og það eru fleiri sem þurfa að borga svona vexti. Það er hægt að nefna mörg atvinnufyrirtæki núna sem sýna á reikningum sínum að þau borga meira í vexti en í öll vinnulaun. Það er nefnilega ekki hægt að reka ýmis fyrirtæki á Íslandi nema með allmiklu lánsfé. Framleiðsluferillinn er þannig, hann er það langur. Og þegar meðaltalsvextir í landinu eru orðnir 20–22% verða vaxtaútgjöldin svona hrikaleg.

En eins og ég segi, menn eru ekki aldeilis á þeim buxunum að ætla að lækka vextina. Það er alltaf verið að hækka þá, m. a. í þessu formi sem ég nefndi núna, samkv. síðustu tilkynningu frá Seðlabankanum í sambandi við refsivexti, og það er hægt að koma þeim víða við, og auk þess auðvitað í sambandi við verðtryggingarákvæði sem alls staðar er verið að troða inn og þýða vitanlega í reyndinni ekkert annað en hækkaða vexti. En þessir hækkuðu vextir koma bara út í hækkuðu verðlagi. Ég hef bent á það t. d. að það þýðir ekkert að víkja sér undan því, að þegar reikningar ríkisbankanna sýna að verslunin í landinu, eins og hún er bókfærð hjá bönkunum, hefur í föst lán hjá bankakerfinu rúmlega 12 milljarða að láni og borgar vexti af þessari fjárhæð, þá vitanlega verður hún að veita þessu af sér. Hún fær leyfi til þess og hún gerir það og þetta kemur út í verðlagið.

Ég þykist vita að það verði ekki vel liðið að ég haldi hér öllu lengri ræðu eins og komið er starfstíma þingsins, og ég skal því stytta mál mitt. Ég endurtek það aðeins, að það er ástæða til þess, að það fari fram almennar umr. á Alþ. um stefnuna í framkvæmdamálum í landinu, í lántökumálum og fjárfestingarmálum almennt séð, því að hér er um einn allra þýðingarmesta þáttinn að ræða í sambandi við okkar efnahagsmálastefnu og varðandi það hvað á að koma út úr okkar efnahagsdæmi á næstu árum. Ég held að það sé full þörf á því að þessi mál séu rædd.

Ég hef gert hér grein fyrir afstöðu minni til frv. Ég flyt við það aðeins eina brtt. við 1. gr., en get fallist á frv. að öðru leyti. En ég er andvígur því að ríkisstj. fái hér heimild í sambandi við járnblendiverksmiðjuna, af því að ég tel, að þar sé reyndar eitt ljóslifandi dæmið um vitlausa fjárfestingu sem muni verða okkur til efnahagslegs tjóns — öfugt við það sem margir halda.