21.12.1976
Neðri deild: 37. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1573 í B-deild Alþingistíðinda. (1225)

66. mál, vegalög

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til að lengja umr. um þetta frv. því að það hefur fengið góðan byr hér á hv. Alþ., var samþykkt einróma í hv. Ed. og hlaut einnig meðmæli samgn. þessarar hv. deildar.

En út af þeim atriðum, sem fram komu hér fyrr við 2. umr. í dag, vil ég vekja athygli á því, að 13. gr. frv. er hliðstæð því sem er í núgildandi lögum. Og auðvitað ef við hefðum efni á og fjárhagsgetu að leggja bundið slitlag á vegi, eins og segir þar, innan 10 ára, þá gerum við það. En við gerum það ekki nema með fjárveitingum, það er alveg ljóst. Það verður Alþ. á hverjum tíma sem verður að ráðstafa fjárveitingum til þessara og annarra vegamála.

Það, sem er mergur málsins í þessu frv., er að við erum með því að breyta gömlu vegalögunum í þá átt að gera framkvæmanlegt að skipta vegafénu til framkvæmda, en slíkt hefur reynst erfitt eins og komið hefur fram við afgreiðslu á vegáætlun tveggja síðustu ára. Þá höfum við orðið að ráðstafa fjárveitingum alveg án lagaheimildar, bæði í Djúpveginn, veginn yfir Hörgsnes og veginn austur á söndum. Þetta vita allir hv. þm., eins og kemur fram í skipunarbréfi til þeirrar n. sem fékk þetta mál til meðferðar. Þess vegna er stefnt að því með frv. nú að gera skiptingu fjárveitingar til vega löglega og framkvæmanlega. Það er einnig verið að vinna að því með þessu að auka tekjustofna sýsluvegasjóða, og það er líka fjárþörf þar og þörf á því að gera þessa hluti framkvæmanlegri en þeir nú eru. 13. gr. frv., sem hv. þm. voru að hnjóta um í dag, er í vegalögunum, þeim sem nú gilda. Frv. er ekki fram komið vegna þessarar greinar, heldur vegna þeirra vankanta sem ég hef lýst. Ég sé því ekki ástæðu til að menn þurfi að hafa neinar áhyggjur út af þessu atriði.

Ég vil ekki heldur taka undir það að fjvn. hafi eitthvert aukavald hér á hv. Alþ., því að auðvitað eru þeir, sem eru kosnir í fjvn., bundnir af öðrum þm., sem þeir eru kosnir af, og verða að bera sig saman við þá, eins og hv. þm. vita ósköp vel, svo að þess vegna er misskilningur að halda að áhrif kjördæma minnki við þessa breytingu sem hér er verið að gera. Auk þess á að ákveða um framkvæmd þeirra mála, sem framkvæma þarf með þeim hætti, í reglugerð. Þess vegna held ég að það sé ljóst, eins og hefur komið hér fram, enda málið þannig undirbúið, að í því eru þm. jafnréttháir frá öllum flokkum, og með þeim var hinn þaulreyndi og trausti vegamálastjóri sem allir hv. þm. treystu. Þess vegna er það gleðilegur vottur að þetta þingmál fái afgreiðslu á hv. Alþ. með shlj. atkv. þar sem þetta var síðasta verk hans í vegamálum á Íslandi. Þó ekki væri annað en það að reynslu þess mikilhæfa manns naut við gerð þessa frv., þá er það betri trygging en yfirlýsing, eins og hv. 5. þm. Vestf. orðaði það, því að allir erum við nú dauðlegir og ráðh. mjög hreyfanlegir. Þess vegna gilda ekki yfirlýsingar, heldur framkvæmdir, og það eru fjármálin sem ráða framkvæmdum í þessum málum sem öðrum.