21.12.1976
Efri deild: 35. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1579 í B-deild Alþingistíðinda. (1244)

138. mál, vörugjald

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen) :

Herra forseti. Frv. til l. á þskj. 235 um breyt. á l. nr. 97 28. des. 1971, um vörugjald, felur í sér tvenns konar breytingar á þeim lögum: Annars vegar til samræmingar því tollskrárfrv. sem nú hefur verið samþ. sem lög. Tollskrárnúmerum er því breytt í þessu frv. til samræmingar þeim tollskrárlögum sem samþykkt hafa verið. Hin breytingin er fólgin í því, að hið svonefnda tappagjald, sem er á gosdrykkjum, er hækkað. Það rennur, eins og fram kemur í grg. frv., í Styrktarsjóð vangefinna. Gjald þetta til sjóðsins er í dag kr. 1.95 á lítra, en gert er ráð fyrir að hækka það í 7 kr. Ætti það að gefa sjóðnum töluvert meiri tekjur. Ef ég man rétt gerir fjárlagafrv. ráð fyrir 105 millj. kr., þannig að hér er um töluvert mikla aukningu að ræða, en þess má geta að þar hefur ekki verið um breyttar tölur að ræða allt frá 1971

Ég vænti þess að hv. n. og hv. þd. geti tekið þetta mál til afgreiðslu þannig að það geti orðið að lögum, áður en þm. fara í jólaleyfi.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að þakka fyrirgreiðslu frumvarpa í þessari hv. d., um leið og ég legg til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.