21.12.1976
Efri deild: 36. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1582 í B-deild Alþingistíðinda. (1254)

138. mál, vörugjald

Frsm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Með lögum nr. 97 frá 1971, um vörugjald, voru Styrktarsjóði vangefinna tryggðar tekjur með gjaldi af gosdrykkjum og öli til loka júnímánaðar 1976 og nám þetta gjald kr. 1.95 af hverjum lítra. Þetta ákvæði laganna féll úr gildi um mitt þetta ár og bar brýna nauðsyn til að endurnýja þennan tekjustofn í ljósi breyttra aðstæðna og með hliðsjón af þeirri miklu verðbólguþróun sem átt hefur sér stað á liðnum árum.

Það frv., sem hér um ræðir, felur í sér að framlagið til Styrktarsjóðs vangefinna verði 7 kr. af hverjum lítra innlendrar gosdrykkjaframleiðslu. Hækkunin, sem með þessu fæst, mun nema um rúmlega 70 millj. kr. eða úr 31 millj., sem var framlag til sjóðsins á s. l. ári, upp í 105 millj. Í grg. er gerð ágæt grein fyrir þeim verkefnum, sem ætlunin er að vinna að á vegum Styrktarsjóðsins.

Fjh.- og viðskn. mælir mjög eindregið með samþykkt þessa frv.