21.10.1976
Sameinað þing: 7. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í B-deild Alþingistíðinda. (126)

5. mál, Vestfjarðaskip

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að afsaka það að ég er kominn hér í ræðustólinn aftur. Það var aðeins út af orðum hv. flm. till., hv. 8. landsk. þm. Hann talaði svo sem ég hefði sagt í máli mínu áður að ég útilokaði þá lausn sem væri fundin í þessu efni á vegum Skipaútgerðar ríkisins. Þetta er ekki rétt, ég útilokaði hana ekki. Þvert á móti, ég fagnaði því, að till. var komin, og mæltist til þess að málið yrði gaumgæfilega rannsakað á þessum grundvelli. Það, sem ég gerði, var að benda á að ef þessi leið bregst eða er ekki fær, þá eiga vestfirðingar ekki annars úrkosti en taka málið í eigin hendur, en þá eiga þeir líka rétt á því, eins og Vestmanneyingar og önnur byggðarlög sem hafa gert slíkt hið sama, að Alþ. styðji þá við þá lausn.