21.12.1976
Neðri deild: 40. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1584 í B-deild Alþingistíðinda. (1267)

136. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Jón Skaftason):

Virðulegi forseti. Heilbr.- og trn. hv. Nd. hefur haft til athugunar frv. til l. um breyt. á l. nr. 67 frá 20. apríl 1971, um almannatryggingar, sem er 136. mál þessa þings. Frv. var lagt fram í Ed. þar sem það var samþ. með nokkrum breytingum. Á þskj. 278 er að finna nál. meiri hl. heilbr.- og trn. sem mælir með samþykkt frv. Þeir, sem undir þetta nál. rita, eru stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. í n. Einn þeirra skrifar þó undir frv. með fyrirvara.

Tilgangurinn með flutningi þessa frv. er, eins og fram hefur komið, að reyna að samræma stjórnunaraðild og fjárhagslega ábyrgð á einni og sömu hendi við rekstur sjúkrahúsa ríkisins. Hér er um tilraun að ræða og gildistími laganna er takmarkaður eins og frv. ber með sér.

Eins og fram kemur í 4. gr. frv. á að jafna á milli sjúkrasamlaga þá kostnaðarbreytingu sem leiðir af samþykkt þess. Í reglugerð mun verða ákveðið að ríkisspítalar sendi Tryggingastofnun ríkisins reikninga fyrir hvern sjúkling sem þar liggur. Upphæðin verður ákveðin viss prósentutala af svonefndu viðmiðunargjaldi sem getið er um í lögum um almannatryggingar og daggjaldanefnd ákveður. Þessi upphæð, sem talið er að nema muni um 10% af viðmiðunargjaldinu, innheimtist hjá viðkomandi sjúkrasamlagi sem aftur færir það á framlagsreikning sveitarfélagsins. Ríkisspítalar hafa tölur um útgjöld undanfarinna ára og munu geta reiknað út frá því hvort viðkomandi sjúkrasamlag hagnast eða tapar á þessari lagabreytingu.

Um málefni þeirra sjúkrasamlaga, sem á leggjast aukin gjöld vegna þessara breytinga, fer eins og segir í 4. gr. frv., þ. e. að Tryggingastofnunin áætlar útgjöld þeirra og greiðir ársfjórðungslega inn á reikning þeirra, en jafnar að fullu þegar ársuppgjör sjúkrasamlaganna liggur fyrir árið 1977. Fyllri ákvæði um þessa framkvæmd verða svo sett í reglugerð.

Samkv. því, sem ég hef sagt, leggur meiri hl. heilbr.- og trn. til að frv. verði samþykkt óbreytt.