24.01.1977
Sameinað þing: 39. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1595 í B-deild Alþingistíðinda. (1288)

Umræður utan dagskrár

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hefur nú svarað þeirri bænaskrá sem hv. 9. þm. Reykv. bar hér fram áðan bugaður af nokkru bráðræði eftir morgunfund í Alþfl. En e. t. v. hefði nú verið skynsamlegt fyrir Alþfl. að gefa sér tíma til morguns til þess að íhuga þetta mál, áður en þessi bænarskrá var fram borin. Bænaskrár eru ekki lengur í tísku hér. Þær tilheyra gömlum tíma. Það er leið til þess að koma ríkisstj. frá, ef til þess er talin ástæða af hv. Alþ. Það er sú leið sem hér hefur margoft verið reynd með misjöfnum árangri, og hún er sú að bera fram vantraust á ríkisstj. Og sú ríkisstj. sem hefur hlotið vantraust, verður að fara frá.

Hvers vegna fer hv. 9. þm. Reykv. ekki þessa leið?

Hvers vegna er hann að bera fram þessa bænarskrá til hæstv. forsrh? Ég get vissulega tekið undir orð hans að hæstv. forsrh. er ágætismaður. En mér finnst þetta samt oftraust, ofurlítið oftraust hv. 9. þm. Reykv. á hæstv. forsrh., að hann muni nú fara að verða við svona bænaskrá af hans hálfu.

Það er líka vegur til þess að koma frá einstökum ráðh., ef á þarf að halda og þeir njóta ekki lengur trausts. Það má bera fram vantraust á einstaka ráðh. Ég hef ekki farið varhluta af því að það hefur verið látið að því liggja að undanförnu í ýmsum málgögnum að ég muni hafa verið riðinn við ýmsar vafasamar athafnir og þess vegna verðskuldaði ég ekki traust. Hvers vegna þora ekki þessir hv. þm. að bera fram vantraust á mig? Geri þeir það og sjái til. Mig langar ekki svo mikið til að sitja í þessari ríkisstj. En seta mín í þessari ríkisstj. mun ekki skipta neinu máli um langlífi þessarar stjórnar. Ég mun fyrir mitt leyti a. m. k. vinna að því, hvort sem ég verð innan eða utan stjórnar, að þessi stjórn sitji út kjörtímabilið. Þess vegna er alveg vonlaust fyrir hv. 9. þm. Reykv. að vera með þessar ástarjátningar til Sjálfstfl. Hann kemst ekki upp í bólið á þessu kjörtímabili. Hann verður að húka fyrir framan rúmstokkinn, og það verður hann að gera sér að góðu. Það er eðlilegt að hann kunni því illa, þar sem hann hefur svo lengi setið í ríkisstj.

Það er sagt að valdið spilli mönnum. Það er kannske nokkur sannleikur í því. Það er hugsanlegt, þegar menn hafa farið lengi með vald, að þeir haldi að það verði ekki stjórnað án þeirra. Það er kannske afsakanlegt. En þetta er nú gert samt.

Og ég held að það sé ákaflega vafasamt þegar menn eru að standa hér upp á Alþ. hver á fætur öðrum og vitna um óvinsældir ríkisstj., segja að hún hafi ekki lengur traust almennings í landinu, þjóðarinnar. Hver getur dæmt um það? Hver hefur skoðað það? Hér eru ekki einu sinni slíkar skoðanakannanir sem fram fara í öðrum löndum og vilja nú stundum bregðast. Við hvað hafa menn að styðjast þegar þeir leyfa sér æ ofan í æ að koma hér fram á Alþ. og fullyrða að stjórnin njóti ekki lengur trausts? Ég held að þetta sé alveg út í bláinn, þetta sé fullyrðing sem hefur við ekkert að styðjast.

Það er ekkert mark heldur í sjálfu sér fyrir ríkisstj. að vera að gera sífelldar gælur við kjósendur og vera sífellt að hugsa um það hvort einum hópnum af kjósendum líki nú betur eða verr. Nei, ríkisstj. á að gera það sem hún telur rétt fyrir þjóðarheildina, hvort sem þessum þrýstihópnum líkar það betur eða verr. Og hún á að láta sig einu gilda hverra vinsælda hún nýtur. Hún á að þola það og þora að gera það sem hún telur rétt og falla þá eða standa á sínum verkum og fá sinn dóm. Og það mun þessi ríkisstj. gera þegar sá tími rennur upp. En þangað til verða hv. alþfl.-menn að reyna að herða sig upp og halda á sér hita úti í kuldanum.

Hv. 9. þm. Reykv. benti á, að ég held, þrjú eða fjögur mál sem hann taldi að væru þess háttar að stjórnin hefði misst traust, glatað trausti, nyti ekki lengur trúnaðar. Og þar voru dómsmálin efst á blaði. Þess vegna ætla ég að leyfa mér að gera þau ofurlítið að umtalsefni, ekki síst fyrir það að þau hafa verið gerð að talsverðu umtalsefni í fjölmiðlum að undanförnu. Ég ætla að rifja upp nokkur þau mál, sem helst hafa verið höfð á oddi, og gera hv. þm. grein fyrir, eftir því sem mér er kunnugt um, hvernig þau mál standa. Um hitt þarf náttúrlega ekki að fjölyrða, hvenær ríkisstj. nýtur hér trausts almennings og er góð stjórn að mati hv. 9. þm. Reykv. Hér verður ekki góð stjórn og nýtur ekki trausts almennings fyrr en Alþfl. á aðild að þeirri ríkisstj., það er mjög einfalt mál.

Nýjasta málið, sem hefur verið gert að umtalsefni í dómsmálum og hefur verið fjallað talsvert ítarlega um af þeim sem láta sig þau mál nokkru varða, og það vona ég auðvitað að séu sem flestir, það er mál Guðbjarts Pálssonar og Hallgríms Jóhannessonar. Það er ekki viðkunnanlegt að ræða einstök mál hér á Alþ. En það er búið að margræða þessi mál svo í fjölmiðlum og það meira að segja í sjónvarpi og útvarpi að það getur engin goðgá talist þó að það sé talað hispurslaust um þessi mál hér á hv. Alþ. og nöfn nefnd. Og það er kannske það sem þarf til þess að hreinsa til, til þess að hreinsa andrúmsloftið í þessum efnum.

Á s. l. ári hefur ein gömul, vel þekkt og vinsæl kona verið mikið á ferð hér um landið. Það er hún Gróa gamla á Leiti. Hún hefur birst í ýmsum gervum og hún hefur allt of víða verið kærkominn gestur. Henni hefur verið gefið vel að borða víða, og það mætti nú vel fara að draga eitthvað við hana fóðrið svo að hún yrði ekki jafnfeit þegar þessu ári lýkur.

En það eru þessi mál Guðbjarts Pálssonar og Hallgríms Jóhannessonar, og þá ætla ég fyrst að víkja að því sem nýjast er af nálinni og gert hefur verið að árásarefni á mig. Það er að ég hafi leyft Hallgrími Jóhannessyni að fara úr fangelsi, leyft honum að fara frá Litla-Hrauni fyrir jólin, og það er rétt. Ég tók þá ákvörðun að það skyldi gert hlé á afplánun hans til þess að hann gæti verið hjá konu sinni og barni nýlega fæddu yfir jólin og fram á þetta ár. En lausnin eða hléið var bundið skilyrðum. Því hefur verið haldið fram að þetta væri lögleysa. Ég leyfi mér að halda öðru fram um það, en skal nú ekki fara að ræða um það, því að þeir, sem halda því fram að það sé lögleysa, geta átt auðvelda leið að fara til dómstóla og fá úr því skorið hvort það sé óheimilt fyrir dómsmrh., samkv. líka langri venju sem hefur átt sér stað, að gera hlé á afplánun hjá föngum þegar sérstaklega stendur á. Ég hef gert það. Fyrirrennarar mínir hafa gert það. Ég hef t. d. leyft ungum fanga að fara til Reykjavíkur og þreyta próf við iðnskóla og hann stóðst það. Að því búnu varð hann að fara aftur inn. Og vegna veikinda hlutaðeigandi eða aðstandenda eru þess mýmörg dæmi að það hafi verið gert hlé á afplánun. Og sumir atvinnurekendur eru sem betur fer mjög mannlegir. Þeir hafa oft boðist til að taka fanga sem hafa verið í afplánun, t. d. á skip yfir vertíð, og það eru mýmörg dæmi þess að það hafi verið leyft. Og ég er sannfærður um að hlutaðeigendur hafi haft betra af því að vera á skipinu og stunda vertíðina og sjóinn heldur en að sitja í fangelsi.

Ákvörðun sem þessari ráða mannleg sjónarmið, mannúðarleg sjónarmið. Og á meðan ég sit í því sæti sem ég sit, þá mun ég halda áfram að beita slíkum sjónarmiðum, hvað sem hver segir. Ég veit auðvitað að það eru margir sem skilja ekki slík sjónarmið. Þeir eru því miður líklega einhverjir innan þessara veggja. En ef þeir eru einhverjir, þá er ekki eftir neinu að biða fyrir þá að koma með vantraust á mig af þessum sökum, því að ég ætla mér ekki að breyta um stefnu í grundvallaratriðum í þessum efnum, mun halda henni áfram. Þeir, sem eru henni andvígir, ættu að koma með vantraust á mig út af því. Hitt er svo annað mál, að hlutaðeigandi aðili var talinn hafa rofið þau skilorð, sem honum voru sett, og var samstundis tekinn til yfirheyrslu og að henni lokinni settur á Litla-Hraun. Þannig er þessu framfylgt, að menn verða að halda þau skilorð sem þeim eru sett, það sé enginn vafi á að það sé fullkomlega gert.

Ég þarf naumast að taka það fram, að það er ég einn sem ber ábyrgð á þessari ákvörðun, að hlé var gert á afplánun þessara fanga. Að sjálfsögðu er það svo, að það koma mýmargir menn til mín og tala við mig um fanga og eru að fara fram á að þeir séu náðaðir, þeim sé veitt reynslulausn o. s. frv., o. s. frv., og auðvitað hlusta ég á slíka menn. Og ég tel það ekki athugavert hjá einum eða neinum, hvorki aðstandendum né öðrum, að tala máli slíkra manna sem eiga sér kannske formælendur fáa. Ég hef talið að það væri hingað til frekar haft að ásökunarefni að einstaklingurinn væri máttvana í kerfinu og hann þyrfti á stoð og vernd að halda gagnvart því, og þess vegna er sjálfsagt hið ágæta félag, félagið Réttarvernd, stofnað til þess að gæta hagsmuna einstaklingsins. En að ætla að fara að telja það saknæmt að einhver maður eða menn hafi rætt við mig um þetta mál eða önnur, það er ofvaxið mínum skilningi. (Gripið fram í.) Já, og jafnvel þó að það hefðu verið þm. Minn skilningur á hlutverki þm. er nefnilega allt annar heldur en ýmissa annarra. Það eru margir sem nú orðið leyfa sér að tala í lítilsvirðingartón um fyrirgreiðslupólitík þm., að þm. skuli vera að ganga með tösku og gerast töskuberar fyrir þennan eða hinn og vilja reyna að greiða fyrir hinum eða þessum umbjóðanda sínum eða e. t. v. öðrum. Ég tel það einmitt hlutverk þm. að reka erindi sinna umbjóðenda. Ég tel þá einmitt bjóðast til þess, þegar þeir gefa kost á sér til þings, að halda þannig á málum að íbúar í því kjördæmi, hvort sem þeir eru kjósendur þess manns eða ekki, megi vita að þeir geti átt von á því að hann telji þá skjólstæðinga sína og hann muni reka erindi þeirra eftir því sem á þarf að halda og auðvitað innan ramma laganna. Ég held að það verði einkennilegt Alþingi, þar sem þm. verða orðnir þannig að þeir vilji ekki sinna neinum málaleitunum og vilji ekki ganga erinda einna eða neinna, vilji ekki rétta neinum hjálparhönd. Ég er alveg sannfærður um það, og er ég þó ekki sagnfræðingur, að enginn íslenskur þm., hvorki fyrr né síðar, hefur rekið þvílíka fyrirgreiðslupólitík fyrir einstaka menn eins og Jón Sigurðsson. Og ég hugsa að þeir, sem telja þetta svo fyrirlitlegt í fari þm., að þeir vilji gæta hagsmuna manna og reyna að rétta mönnum hjálparhönd og gera þeim greiða, þeir hefðu gott af því að kynna sér sögu og fyrirgreiðslupólitík Jóns Sigurðssonar.

Auðvitað hafa á síðari árum margir góðir þm. verið hér miklir fyrirgreiðslumenn, og ég hygg að þeir verði ekki smærri í minningunni fyrir það, heldur hið gagnstæða.

En þá er það Guðbjartsmálið svokallaða sem er tvíþætt. Það er annars vegar mál sem reis út af því hvernig handtöku Guðbjarts Pálssonar bar að höndum, og hins vegar mál á hendur Guðbjarti Pálssyni vegna meints fjármálalegs misferlis af hans hálfu. Um handtökumálið er það að segja, eins og menn vita, að þeir voru handteknir í lögsagnarumdæmi, sem heyrir undir bæjarfógetann í Keflavík. Út af þessari handtöku ritaði svo Jón Oddsson hrl. ríkissaksóknara bréf í nafni og fyrir hönd bílstjóra þess, sem fór þessa för og mig minnir að heiti Karl, og kærði yfir þessari ólögmætu handtöku og taldi að fyrir þá hefði verið lögð gildra. Ríkissaksóknari gerði auðvitað það, sem var hans óhjákvæmilega skylda, að taka slíka kæru til athugunar og rannsóknar, og dómsmrh. eða dómsmrn. hafði þau ein afskipti af því að skipa sérstakan umboðsdómara til þess að fara með það mál, og það er Steingrímur Gautur Kristjánsson. Það mál hefur síðan verið í rannsókn, rannsókn er ekki lokið. Það kemur vafalaust fram alveg skýrt og greinilega við hvaða rök þessi kæra hefur átt að styðjast, og það er satt að segja furðulegur allur sá málflutningur sem uppi hefur verið hafður í fjölmiðlum út af þessu áður en niðurstöður rannsóknarinnar liggur fyrir. Ég hugsa að það hafi verið skynsamlegra fyrir marga að bíða eftir niðurstöðum rannsóknarinnar. Þá ætti ekki að þurfa að deila um hvað væri rétt í þessu efni. Og væntanlega gleðjast allir yfir því að hið sanna komi í ljós. Þó að menn álíti það kannske ekki í sjálfu sér stórt mál hvernig staðið er að handtöku, þá verður þó að fylgja settum reglum þar um og þess vegna sjálfsagt að rannsaka hvort það hafi verið gert eða ekki. Niðurstaðan í því efni liggur sem sagt ekki fyrir og verður ekkert fullyrt um það. En það er algjörlega í samræmi við lög, sú ákvörðun sem bæjarfógetinn í Keflavík tók, að víkja rannsóknarlögreglumanninum frá til bráðabirgða, á meðan á rannsókn stæði, og eftir lögum, sem þar um gilda, að hann nýtur hálfra launa á meðan. Reynist hann sýkn, þá fær hann það sem inni stendur af ógreiddum launum. Þetta er algjörlega eftir lögum. Þetta hefur verið framkvæmt við lögreglustjóraembættið hér í Reykjavík t. d. og þarf ekki að deila um hvort það sé rétt eða ekki rétt, því þetta er samkv. lögum og ekki brotinn réttur á einum eða neinum með slíku. Það hafa sumir talið að þarna væri verið að fara eitthvað illa með þennan rannsóknarlögreglumann í Keflavík. Enginn hefur þó orðað hann við Framsfl. svo mér sé kunnugt. En aftur á móti gegnir öðru máli um Guðbjart Pálsson. Hann hefur verið orðaður við Framsfl. bæði leynt og ljóst. Nú er Framsfl. svo fjölmennur, sem betur fer, að ég veit ekki um alla félaga hans, og það má vel vera að Guðbjartur Pálsson sé þar. Ég hef aldrei séð hann á framsóknarfundi og ég veit ekki til þess að hann sé í nokkru félagatali Framsfl. Ég veit ekki til þess að hann hafi nokkru sinni verið í þjónustu framsóknarmanna sérstaklega. Ég veit hins vegar að hann hefur verið í þjónustu manna sem tilheyra ekki Framsfl. Ég tel ekkert athugavert við það, nema síður sé, því mér dettur aldrei í hug að taka upp þá stefnu að halda því fram, að það geti ekki komið fyrir mann í hvaða flokki sem er að gerast brotlegur við lög og ég mótmæli algjörlega þeirri stefnu að ætla að stimpla flokk út frá því, hvort einstakir menn, sem fylgt hafa þeim flokki að málum, hafi þrætt þann stig í þessum efnum sem lög setja. Ætli það geti ekki allir orðið brotlegir og það séu ekki nokkuð margir sem hafa orðið brotlegir við einhverja reglu sem þjóðfélagið setur, en misjafnlega alvarlega auðvitað? En mál þessa manns er í rannsókn. Það er í rannsókn hjá ágætum og röggsömum fulltrúa við Sakadóm Reykjavíkur. Mér er kunnugt um að sú rannsókn hefur verið rekin með fullkominni röggsemi, og það er alveg óþarfi að vera að dæma manninn eða vera með nokkrar getsakir í því sambandi fyrr en rannsókn er lokið.

Þetta var nýjasta dæmið í dómsmálunum. En hin eru eldri og alvarlegri mörg hver sem minnst hefur verið á, og þá skal ég aðeins gefa stutt yfirlit yfir hvernig þau mál standa.

Hið svokallaða Guðmundarmál hefur verið upplýst að dómi ákæruvaldsins og ákæra hefur verið gefin út.

Önnur þau morðmál, sem áttu sér stað á s. l. ári, hafa verið upplýst beinlínis með játningum.

Geirfinnsmálið, sem hefur verið eitt mest umtalaða mál hér á landi og verður áreiðanlega dýrasta mál sem hér hefur verið til meðferðar, það er á því stigi að ég hygg að spilin þar verði algjörlega lögð á borðið fyrir eða um næstu mánaðamót og þá verði hulunni svipt af þessu Geirfinnsmáli. Og það veit ég að verður mörgum gleðiefni, því það hefur verið erfitt að búa við þær getsakir sem hafðar hafa verið uppi í því efni. Það var á sínum tíma að ég var sakaður um yfirhylmingu með meintum glæpamönnum í því máli. En ég hugsa nú að þegar sagan verður könnuð og það rakið, að ég átti minn þátt í því að fá þýskan sakamálasérfræðing hingað til þess að kanna það mál, þá verði dómur sögunnar á aðra lund um það atriði heldur en sumir menn vildu vera láta.

Klúbbmálið, hvar er það? Það er upplýst, dæmt í undirrétti og er í áfrýjun hjá Hæstarétti. Hvað það tekur langan tíma þar get ég auðvitað ekki sagt. Það er ekki mitt að hafa skipunarvald gagnvart dómstólum. Það hefur Alþingi ekki heldur. Dómstólarnir eru þriðji þáttur ríkisvaldsins, algjörlega sjálfstæður. Það finnst mér stundum vilja gleymast á hv. Alþ., að það getur enginn gefið dómstólum fyrirskipanir um hvernig þeir haga sínum störfum. En þar kemur þó hæstaréttardómur, og það verður ekki lengur hægt að fárast yfir því að það hafi ekki verið rannsakað og upplýst.

Jörgensensmálið, sem er elsta málið sem sögur fara af, það er komið að málflutningi í því í Sakadómi Reykjavíkur og verður, að ég vona, flutt fljótlega upp úr mánaðamótum. En það hefur staðið lengi og verið stórt mál. Og þegar rannsóknarnefndin mikla, sem till. er nú um hérna, tekur til starfa vona ég að hún gleymi ekki að rannsaka hverjir það voru sem áttu drýgstan þáttinn í að koma þeim mikla athafnamanni á legg. Það er fróðlegt fyrir þjóðina að kynnast því, hverjir áttu þátt í því, því að það hefur kostað talsvert mikið að fá þetta mál upplýst.

Það hefur verið rætt um Grjótjötunsmál. Það mál var afgreitt eftir framhaldsrannsókn, sem fram fór í Sakadómi Reykjavíkur, til ríkissaksóknara í des. s. l. og er unnið í því þar af fullum krafti og vænti ég þess að ákæra í því verði gefin út innan skamms.

Vátryggingafélagsmálið er leiðindamál vegna þess, hversu langan tíma það hefur tekið, og ég vil ekki bera í bætifláka fyrir þá töf sem varð á rannsókn þess. Það var ákaflega lengi til framhaldsrannsóknar hjá Sakadómi Reykjavíkur, eða frá því 1972 og þangað til seint á árinu 1975, að það var sent til saksóknara, en hefur svo verið þar síðan. Hefur meðferð þess þar dregist, sem sumpart er réttlætt með því að sá maður, sem hafði með það að gera, var í orlofi um skeið. En það vil ég segja, að þetta mál er ákaflega flókið og óskaplega mikið umfangs. En ég hygg að það megi segja, að það mál verði afgreitt hjá ríkissaksóknara eftir nokkra mánuði. Hvernig sú afgreiðsla verður skal ég ekkert fullyrða um á þessu stigi.

Þá er það Alþýðubankamálið. Það er ákaflega fyrirferðarmikið mál og það hefur verið, eftir að það var rannsakað hjá Sakadómi, hjá ríkissaksóknara 2–3 mánuði. Það mál er líka óskaplega mikið að vöxtum. Þetta eru ofboðslegir skjalabunkar sem þarf að fara gegnum og athuga. Og ég get trúað því að það taki talsverðan tíma hjá ríkissaksóknara að afgreiða það mál, meðfram vegna þess að þetta mál er nýrrar tegundar og þess eðlis, að það er hætt við því að það verði fordæmismál á þessu sviði. Þess vegna verður auðvitað að vanda mjög vel til rannsóknar á því.

Ég held að ég hafi þá vikið að þeim helstu sakamálum sem ástæða hefur þótt til að gera að umræðuefni að undanförnu, að undanskildu tékkamálinu. En um það mál vil ég segja það, að upphafið þar er kæra Seðlabankans þar sem 17 aðilar eru kærðir. Og ríkissaksóknari fyrirskipaði að sjálfsögðu rannsókn. Vegna mikilla anna hjá Sakadómi þótti rétt að skipa sérstakan umboðsdómara til að fara með það mál. Það hefur farið fram rannsókn af hálfu þess umboðsdómara. Síðan hafa svo að undanförnu farið fram nokkur bréfaskipti á milli þessa umboðsdómara og ríkissaksóknara. Það er venjulegra og heppilegra að slík bréfaskipti fari ekki fram í blöðum opinberlega. En þessi ágæti umboðsdómari tók upp þann hátt, hefur sjálfsagt viljað í því efni verða við óskum fjölmiðla að láta þá fylgjast meir með málinn en áður hefur átt sér stað og hefur haft blaðamannafundi öðru hverju. Það er sennilega ástæðan fyrir því að hann hefur talið rétt að skrifa opinberlega og birta bréf sitt opinberlega. Og þá er auðvitað jafneðlilegt að ríkissaksóknari hafi sama háttinn ú. Þetta mál er hjá ríkissaksóknara nú, þannig að hann á næsta leik í því. En það, sem mér skilst að felist í bréfi umboðsdómarans, er að hann telur þörf á því að takmarka þessa rannsókn. Ég hlýt að skilja það svo, að hann vilji fella niður einhverja af þeim 17 aðilum sem upphaflega voru tilgreindir af Seðlabankanum. Á það hefur ríkissaksóknari ekki viljað fallast. Hann hefur ekki viljað fallast á að rannsóknin væri takmörkuð. Þetta er auðvitað algerlega mál ríkissaksóknara, hann tekur ákvörðun um það. En það vil ég segja sem mína persónulegu skoðun, að ég tel það svo forkastanleg vinnubrögð að það nái eiginlega ekki nokkur orð yfir það,ef ætti að fara að fella niður einhverja af þessum lista, t. d. einhvern framsóknarmann. Hvað yrði þá sagt? Það væri alveg kjörið tækifæri handa Gróu til þess að ganga um og segja: Þarna sjáið þið, honum var hlíft, þessum. — Nei, það kemur auðvitað ekki til mála að mínu mati, að sleppa einum einasta. Það getur vel skeð að einhverjir þeirra séu algerlega sýknir. En það er dómstólanna að segja til um það, og það eru þeir sem eiga að sýkna þá, svo að það komist engin tortryggni að í sambandi við þetta mál. Þannig vona ég a. m. k. að verði staðið að þessu máli.

Þá held ég að ég hafi vikið að þeim dómsmálum sem hafa verið talin til þess fallin að grafa undan trausti almennings á stjórnvöldum, réttarkerfinu og dómsstólakerfinu. Ég er nú ekki að öllu leyti sömu skoðunar um það. Ég viðurkenni að málsmeðferðin er að mínu mati oft of þunglamaleg og þyrfti að vera skilvirkari og taka skemmri tíma. En ég held að hún sé vönduð, og ég held að menn geti treyst því að saklausir menn verði ekki dæmdir hér á landi, og það er þó höfuðatriðið. Og ég efast um að ef ekki hefðu komið til þessi einstöku skrif sem hafa átt sér stað um þessi mál, þá hefði traust almennings nú verið minna á dómsmálum nú en áður. Og ég vil leyfa mér að vona að í raun og veru sé traust á íslenskum dómstólum mikið, og við eigum líka mikið undir því, því að það veit aldrei neinn hvenær hann getur átt sitt mál, sín örlög kannske undir ákvörðun íslenskra dómsmála. Þess vegna er vissulega nauðsynlegt að þeir njóti mikils og verðskuldaðs trausts, og það er illt verk að grafa undan því trausti.

Alþ. á líka að hafa það í huga, að dómstólarnir eru þriðji valdþátturinn og eiga að dæma um það hvort Alþ. hafi farið rétt að eða ekki, af því að þeir eiga að dæma um það hvort lög, sem Alþ. afgreiðir, séu í samræmi við stjórnarskrána eða ekki. Þess vegna er vissulega ástæða til þess að efla dómstólana sem mest og bæta réttarfarið. Það er verðugt markmið að keppa að. Ég tel mig hafa verið að vinna að því. Það hafa þegar verið afgreidd allmörg mál sem stuðla að því. Ég hef nú látið leggja á borð hv. þm. fjögur frv. sem öll miða að því. Þeirra stærst er auðvitað frv. til lögréttulaga þar sem um er að ræða gagngera breytingu á skipan dómsmála, og sem fylgifrv. með því frv. mjög víðtækar breytingar á meðferð einkamála. Ég vænti þess, að hv. alþm. taki þau mál til gaumgæfilegrar skoðunar, og efast ekki um að þeir geri það. Þar er enn fremur að finna frv. um tékka, þ. e. a. s. um breytingar á tékkalögunum. Það er enginn vafi á því, að tékkar hafa verið misnotaðir að undanförnu hér á landi miklu, miklu meira en góðu hófi gegnir. Það hafa verið settar nýjar reglur um meðferð tékka, og ég hef átt minn þátt í því að þær hafa verið settar, vegna þess að fulltrúar frá þeim tveim rn., sem ég veiti forstöðu, dómsmrn. og viðskrn., hafa ásamt fulltrúum frá bönkunum átt sæti í þeirri n. sem um þær reglur hefur fjallað og þær reglur hefur samið. Þær reglur eru að mínum dómi spor í rétta átt, þótt skoðun mín sé að það hefði átt að ganga lengra í þeim efnum en gert hefur verið með þessum reglum sem samkomulag varð um. Það frv., sem hér hefur verið lagt fram, er líður í sömu viðleitni, vegna þess að það leggur þyngri refsingu við tékkamisferli en gert hefur verið til þessa. Síðast, en ekki síst má nefna það, að ég hef lagt fram frv. um að sérstök dómnefnd skuli fjalla um veitingu í dómaraembætti almennt. Ég veit ekki til þess að nokkur dómsmrh. hafi á undan mér lagt fram frv. um það efni. Ég hygg að sú skipan, sem þar er lagt til að upp sé tekin, sé fallin til þess að eyða tortryggni í sambandi við embættaveitingar á þessu sviði.

Ég ætla nú ekki að blanda mér mikið í aðra þá þætti sem hv. 9. þm. Reykv. gerði að umtalsefni og taldi hafa það í för með sér að stjórnin hefði unnið sér til óhelgi, af því að mér fannst einhvern veginn liggja á milli hinna töluðu orða hans að það væru dómsmálin aðallega sem hann hefði í huga. Kannske hef ég misskilið það og þá leiðréttir hann það hér á eftir. Og það er ekkert óeðlilegt þó að ég hafi ályktað það, vegna þess að þau hafa verið gerð svo mjög að umræðuefni hér að undanförnu, m. a. verið ritað um þau talsvert í Vísi, því ágæta blaði og merka, og þar verið talið að a. m. k. tveir ráðh., ég og hæstv. utanrrh., ættum helst að víkja úr sætum. Og undir þetta hefur nú verið tekið af stjórn Heimdallar. Það er eðlilegt að svona bitar smakkist hv. alþfl.-mönnum vel. En við föllum nú ekki fyrir þessum orðum einum, og ég fyrir mitt leyti vil bíða eftir því að vantraustið komi fram og verði samþykkt. Ég hygg nú að þrátt fyrir þessi skrif og þessa samþykkt, sem var ekki nema stjórnarsamþykkt, en alls ekki félagssamþykkt, þá sé það nú svo með málsmetandi sjálfstæðismenn, að þeir vilji að þetta stjórnarsamstarf haldist út kjörtímabilið, og að því mun nú stefnt. En auðvitað er ekkert við því að segja og aðeins mannlegt að óskir komi fram um það frá hv. stjórnarandstæðingum að önnur stjórn taki til starfa og leysi þessa af hólmi, og sjálfsagt geta þeir tímar komið að svo fari. En ég sé enga ástæðu til að ætla að svo verði, að öðru óbreyttu, fyrr en að liðnu þessu reglulega kjörtímabili. Og þó að ég fái einhver hnútuköst frá einhverjum sem fylgja samstarfsflokknum að málum og skrifa þar í blöð, þá mun ég yfirleitt láta mér það í léttu rúmi liggja á meðan meiri hl. hv. alþm. vill að ég sé í ríkisstj. En þegar þeir vilja það ekki lengur, þá er auðvitað jafnsjálfsagt að víkja.

Það er auðvitað öllum ljóst, að þrátt fyrir nokkur batamerki er samt ýmiss konar andbyr fram undan, og getur verið líka þó að við sjáum það ekki í dag og sprottið af ýmsum ástæðum. Menn hafa áhyggjur af kjarasamningum og kjaramálum. Það er auðvitað svo, að það er alltaf vandamál þegar um kjarasamninga er að tefla, þegar um það er að ræða hvernig eigi að skipta afrakstrinum í þjóðfélaginu. Þá verða deildar meiningar um það og átök og getur enginn fyrir fram sagt um til hvers slík átök kunna að leiða.

Ég vil þó segja það sem mína persónulegu skoðun, að sú ályktun um kjaramál. sem síðasta Alþýðusambandsþing gekk frá, er skynsamleg að mörgu leyti. Ég vænti þess að á þeim grundvelli, sem þar var lagður, verði hægt að byggja. En hann fellur algerlega saman við skoðun mína um það, að það þurfi að bæta verulega kjör hinna lægst launuðu og að það verði ekki gert nema þeir, sem hærri laun hafa og meira bera úr býtum, slaki á sínum kröfum, og það skildist mér vera andinn í þeirri samþykkt sem um þetta var gerð á Alþýðusambandsþingi. Ég efast ekki um að sú samþykkt hefur verið gerð að vel hugsuðu máli og að það þurfi ekki að efast um að menn muni byggja á henni og fylgja henni fram í sinni kjarabaráttu.

Það er lífsins gangur að menn verða alltaf öðru hvoru fyrir vonbrigðum, og þó að það sé leiðinlegt, þá er ekki hægt að komast hjá því að í þessu efni hlýtur hv. 9. þm. Reykv. að verða fyrir vonbrigðum, þar sem hæstv. forsrh. hefur vísað bænarorðum hans algerlega á bug. En ég óska þess að hann beri nú harm sinn í því efni vel, og ég veit að hann er svo reyndur og leikinn stjórnmálamaður að hann skilur þetta allt mætavel.