24.01.1977
Sameinað þing: 39. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1608 í B-deild Alþingistíðinda. (1291)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það er meginverkefni Alþingis að sjá þjóðinni fyrir ríkisstjórn og því ekkert eðlilegra en að rætt sé um stöðu ríkisstj. hér á Alþingi. Það er ekki heldur óeðlilegt að gripið sé til umr. utan dagskrár þegar þing kemur saman eftir nokkurt hlé og stjórnarandstöðuflokki finnst nauðsynlegt að bera fram kröfu um að ríkisstj. víki. Það þjónar sínum tilgangi að slík krafa komi fram og ríkisstj. svari henni, þó að okkur sé fullkomlega ljóst að ríkisstj. hafi enn þá öruggan meiri hl. í þinginu.

Það var áberandi hvernig hæstv. forsrh. og hæstv. dómsmrh. svöruðu ræðu þeirri sem formaður þingflokks Alþfl. flutti þegar hann bar kröfu flokksins fram. Hæstv. forsrh. notaði óvenjulega sterk orð í hans munni a. m. k. um formann þingflokks Alþfl., og hæstv. dómsmrh. sá ástæðu til að flytja hér langt erindi með skýrslu um dómsmálin, sem er í sjálfu sér mjög þakkarvert. En það leit út eins og hann biði með hana tilbúna eftir tækifærinu og ætti von á því að það mundi koma.

Hæstv. forsrh. sagði að óskin um að stjórnin víki væri ekki nýjar fréttir og kallaði það sýndarmennsku að flytja þá kröfu hér inn á þing. Ég get fullvissað hann um að það er enginn straumur eða skjálfti í alþfl.-mönnum í þessu efni. Við höfum nóg að gera í okkar flokki og hugsum ekki til þess sérstaklega að komast upp í bælið, enda er það víst vel skipað þar sem maddama Framsókn liggur. Hitt er annað mál, að það er hlutverk stjórnarandstöðu að bera fram slíka gagnrýni. Ef einhvers staðar er straumur og skjálfti þessa dagana, þá er það í sjálfum herbúðum ríkisstj. Og ef krafan um, að ráðh. eða rn. fari frá, hljómar kunnuglega í eyrum hæstv. forsrh., þá er það af því að hann hefur heyrt hana oft undanfarna daga frá dagblöðum sem standa nærri Sjálfstfl. og frá öndvegisfélögum innan Sjálfstfl. eða stjórnum þeirra.

Ég get ekki fallist á þær röksemdir hæstv. forsrh., að það megi ekki undir neinum kringumstæðum ganga til kosninga vegna þess að það sé við mikil vandamál að stríða. Ég hélt satt að segja að því meiri sem vandamálin eru, því meiri ástæða væri oft til þess að láta þjóðina kveða upp sinn dóm, og ef biða ætti eftir því að engin aðkallandi vandamál væru gæti sú bið eftir kosningum orðið býsna löng. Ég er ekki viss um að John Stuart Mill, sem hæstv. ráðh. vitnaði í nokkrum sinnum, mundi telja það eðlilega röksemd, að fólkið eigi ekki að fá að velja sér stjórn af því að það séu alvarleg vandamál við að stríða.

Í þessu sambandi má einnig varpa fram þeirri spurningu: Hvers vegna er þingrofsvaldið í íslensku stjórnarskránni? Það beinlínis gerir ráð fyrir að þær aðstæður geti skapast að ekki sé eðlilegt að ríkisstj. sitji kjörtímabil út. Það er aðeins eitt land í nágrenni við okkur sem hefur ekki þennan þingrofsrétt, Noregur, og er viðurkennt að það hafi skapað þar mikil vandamál. Við höfum fullyrt að mikill hluti þjóðarinnar beri ekki lengur traust til núv. ríkisstj. og það sem verra er: beri ekki lengur traust til stjórnkerfisins sem heildar. — Ég vil taka það fram, að frsm. okkar notaði orðin mikill hluti, — hann sagði aldrei meiri hluti þjóðarinnar, — vegna þess að hann telur sig hafa rétt til að fullyrða það, þó að hæstv. dómsmrh. svaraði því eins og hann hefði mælt þannig. Hins vegar fullyrti hæstv. dómsmrh. sjálfur í lok ræðu sinnar að málsmetandi sjálfstæðismenn vildu að núv. ríkisstj. sæti áfram. Hvaðan kemur honum sú vitneskja? Ekki eru það þeir málsmetandi sjálfstæðismenn sem stjórna Heimdalli, ekki þeir málsmetandi sjálfstæðismenn sem standa að dagblaðinu Vísi. Hann gerir sig sem sagt sekan um sams konar fullyrðingu og hann ber upp á talsmann Alþfl. að ástæðulausu.

Það er alveg tvímælalaust að tiltrú þjóðarinnar á kerfi þjóðmálanna allra, ekki síst á dómsmálin, svo og á embættiskerfið og Alþ. sjálft líka, hefur farið hnignandi. Það er rík ástæða til að spyrna við því, m. a. með því að efna sem fyrst til kosninga og gefa þjóðinni kost á að láta í ljós áhyggjur sínar og skapa nýjar aðstæður í pólitík, en ekki aðstæður sem leiða til þess að hæstv. forsrh. og dómsmrh. lýsi þeim ásetningi sínum einum að þeir ætli að sitja eða standa á meðan stætt er í stjórn. Það er mikil bjartsýni um þá viðburði sem fram undan eru óhjákvæmilega, t. d. í launamálum, að gefa slíkar yfirlýsingar. Ég hygg að margir stuðningsmenn í báðum flokkunum, sem standa að ríkisstj., muni taka eftir þessum svardögum og minnast þess, hvaðan sá ósveigjanlegi vilji kom að þessi stjórn yrði að sitja áfram þótt hún hafi orðið fyrir slíkum áföllum og staðið sig það illa að full ástæða sé til að grípa til þingrofs og efna til kosninga.

Það voru nefndir hér þrír málaflokkar sem mjög eru ræddir manna á meðal, dómsmálin fyrst, síðan Kröflumál og efnahagsmálin siðast, en alls ekki síst. Það getur ekki komið á óvart neinum manni, sem fylgist með málum á Íslandi og les blöð hér á landi, að þessi mál skuli nefnd, þó að það megi nefna mörg fleiri. Vissulega er kjarninn sá, að ríkisstj. hefur ekki tekist að leysa veigamestu vandamálin, eins og efnahagsmálin, á nálægt því viðunandi hátt. Ísland er langt á eftir nágrannalöndunum í afturbata frá þeirri kreppu sem gekk yfir fyrir tveim árum. Skuldasöfnun þjóðarinnar hefur verið svo gífurleg að efnahagslegt sjálfstæði hennar verður senn í hættu. Við erum búnir að taka út, að því er mér skilst, öll dráttarréttindi, eins og það er víst kallað, hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, og skil ég ekki í öðru en það fari að verða þröngt um erlendar lántökur. Samt sem áður ætlar ríkisstj. að taka um 20 milljarða kr. lán á þessu ári, en af því fer helmingurinn í að borga vexti og afborganir af eldri lánum, sem sagt að velta skuldabagganum á undan sér.

Það var athyglisvert að hæstv. dómsmrh. skyldi hafa þessa löngu skýrslu svo að segja tilbúna, enda þótt ekki væri í sjálfu sér beinlínis að honum vikið í framsöguræðu, en málaflokkur hans að vísu nefndur sem heild. Það er líka athyglisvert, að í þessari ræðu er hæstv. dómsmrh. að svara ásökunum sem hafa komið fram beint og óbeint í öllum dagblöðum landsins nema málgagni hans eigin flokks, en þessar ásakanir hafa ekki komið fram í málflutningi okkar alþfl.-manna hér í dag. Engu að síður þakka ég fyrir skýrsluna og bið menn að íhuga þá röð af stórmálum sem hæstv. ráðh. taldi upp. Ekki leynir sér að þar er hvert öðru fyrirferðarmeira og alvarlegra. En það er ekki nema eitt af öllum þessum málum komið til dómstólanna. Í öllum hinum málunum stendur rannsókn enn þá og hefur staðið yfir rúmlega áratug í því elsta. Og þó að hæstv. ráðh. geti núna lofað því að það muni fara að rofa til og eitthvert þessara mála muni taka enda innan skamms, þá breytir það ekki því ástandi sem verið hefur. Almenningur er tortrygginn út af þeim málum sem ekki er lokið eftir langa vinnu, en hér fékkst nánast staðfesting á því að svo hafi verið, og er von að fólk hafi haft ríka ástæðu til að hafa áhyggjur af þessu, enda þótt hæstv. ráðh. geti núna sagt að sumum þessara mála muni ljúka innan skamms. Tilefnið til opinberrar gagnrýni hefur verið ærið. En gagnrýnin hefur hjálpað til þess að hæstv. ráðh. ætlar sér nú á næstunni að gera tvö kraftaverk á dag í dómsmálum, þá mun því verða fagnað.

Annars vil ég benda mönnum á að í meðferð dómsmála hér á Alþ. hefur gengið á ýmsu milli flokka. Hæstv. ráðh. var á sínum tíma gagnrýndur hér og svaraði fyrir sig. En það hefur líka komið upp sú staða, að í veigamesta umbótafrv. dómsmálanna, sem hann hefur flutt, stóðum við alþfl.-menn með honum til að reyna að spyrna á móti því að sjálfstæðismenn gætu dregið þetta mál á langinn. Þeim tókst að draga það þannig að lögin koma ekki til framkvæmda fyrr en a. m. k. hálfu ári síðar en til var ætlast. Við höfum verið sjálfum okkur samkvæmir í þeim efnum, enda eru dómsmálin miklu, miklu alvarlegra mál, sem ristir djúpt hjá þjóðinni, heldur en að það sé hægt að afgreiða þau eingöngu á persónulegum grundvelli.

Það er alveg rétt að dómstólarnir eru þriðji þáttur ríkisvaldsins. En þrátt fyrir hina gömlu kenningu um skiptingu valdsins í þrennt koma þættirnir allir saman hér á Alþ., af því að með lögum setur Alþ. dómskipan og það eru ráðh. valdir af Alþ. sem skipa dómara í embætti, og fleira mætti upp telja. Það er ánægjulegt ef hæstv. dómsmrh. flytur nú frv. um betra skipulag við embættisveitingar í dómskerfinu. En hann er búinn að vera ráðh. í ein sex ár og væri betur að bann hefði flutt þá umbótatillögu fyrr.

Ég ítreka það, að það er mat svo að segja hvers manns, sem talað er við á förnum vegi, að horfur séu slæmar í íslensku þjóðlífi, vandamál mikil og traust á hinu opinbera: þinginu, ríkisstj., dómskerfinu og embættismannakerfinu, hefur ekki í manna minnum verið minna. Það er hlutverk Alþ. öðrum fremur að gera ráðstafanir til að rétta lýðveldið við og byggja upp aftur traust fólksins á því.

Að lokum vil ég lýsa yfir ánægju minni með það, að hæstv. dómsmrh. sagði í lok ræðu sinnar að hann teldi að ályktun þings Alþýðusambands Íslands um kjaramál hefði verið skynsamleg. Ég fagna þessu. Í þessari ályktun var m.a. sagt, að það væri álit þingsins að fjölskyldur þyrftu að hafa a. m. k. 100 þús. kr, á mánuði í tekjur. Við alþfl.-menn fluttum fyrir jólin frv. í sambandi við þetta, — það átti að vísu að gilda skamman tíma, fram til næstu samninga, — en ekki bar mikið á stuðningi frá hæstv. ráðh., flokki hans eða öðrum stjórnarsinnum við það. En látum það eiga sig. Við skulum hins vegar vona að hæstv. ráðh. standi við þetta og að ríkisstj. sýni það betur í verki en hún gerði í síðustu aðalkjarasamningum þegar hún sleppti gullnum tækifærum til að taka í framrétta hönd alþýðusamtakanna og semja um þau mál. Við skulum vona að afskipti hennar verði jákvæðari, úr því að það er svo mikilvægt að hæstv. ráðh. sitji meðan þeir geta í ráðherrastólunum, en vilja ekki rjúfa þingið og veita þjóðinni rétt til þess að stokka spilin eins og þjóðin áreiðanlega vill fá að gera.