24.01.1977
Sameinað þing: 39. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1613 í B-deild Alþingistíðinda. (1293)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs utan dagskrár í tilefni af því, að fréttir bárust um það í morgun að svo væri komið á Austurlandi að flestar af loðnubræðslunum þar hefðu orðið að stöðva rekstur sinn vegna bilana sem fram hafa komið í rafmagnskerfinu þar eystra. Hér er auðvitað um mjög alvarlegt mál að ræða, og ég tel því fulla ástæðu til þess í sambandi við það, sem þarna hefur gerst, að minna aðeins á hve alvarlegt ástand er í raun og veru í rafmagnsmálum á Austurlandi. Þannig er háttað að þær tvær vatnsaflsvirkjanir, sem heitið geta eitthvað á Austurlandi, eru uppi á Fljótsdalshéraði: Lagarfossvirkjun og Grímsárvirkjun. Frá þeim virkjunum liggja tveir aðalflutningastrengir til fjarða, annar til Seyðisfjarðar, en hinn liggur þannig niður um Fagradal að hann tengist við Neskaupstað, Eskifjörð, Reyðarfjörð og síðan alla firðina suður eftir til Djúpavogs. Nú er það svo, að það var öllum ljóst að þessi eini strengur, sem flytur aðalrafmagnið af Héraði og niður til fjarðanna, var orðinn algerlega ófullnægjandi. Hann gat ekki einu sinni flutt alla þá orku, svo lítil sem hún annars er sem við framleiðum, frá vatnsaflsstöðvum uppi á Héraði, í Lagarfossi og í Grímsá, — þessi strengur gat ekki einu sinni flutt alla þessa orku til notendanna niður á firði. Þurfti því gjarnan að nota dísilvélar einnig til að geta haldið uppi eðlilegum rekstri á ýmsum tímabilum.

Fjárveitingar fengust til þess að leggja annan streng frá orkuveitusvæðinu uppi á Héraði niður á firði á árinu 1975. En þá var þannig staðið að málum að fjárveitingin var skorin niður og engar framkvæmdir voru þá í þessum efnum. Á s. l. ári tókst að fá fjárveitingu til þess að leggja annan flutningastreng frá virkjanasvæðinu uppi á Héraði niður á firði. Það kostaði að vísu allmikið þref og leit lengi þannig út að þm. Austurl. ætlaði ekki að takast að fá þessa fjárveitingu, en það tókst þó. En framkvæmdin varð síðan með þeim hætti, að það var ekki staðið við að leggja línuna alla leið, koma henni í gagnið. Hún er enn hálflögð. Því hefur nú farið svo, að þegar þessi eina lína bilar, þá stöðvast rafmagnssending frá virkjununum uppi á Héraði til nær allra staða niðri á fjörðunum fyrir austan.

Þetta er auðvitað mjög alvarlegt mál, ekki aðeins fyrir austfirðinga, heldur fyrir landsmenn almennt, eins og nú standa sakir. Ég vil af þessum ástæðum, hvernig til hefur tekist, beina þeim tilmælum til hæstv. iðnrh., að hann sjálfur persónulega kynni sér þetta mál rækilega og fylgist með því að þeir, sem hér hafa með framkvæmdir að gera, standi öðruvísi og betur að þessum málum en verið hefur því að aðstaða í þessum efnum er satt að segja alveg hrikaleg. Þrátt fyrir eftirgangsmuni okkar þm. allra sameiginlega af Austurlandi í þessum efnum hefur ekki betur tekist til en þetta.

Ég ætla ekki að bæta hér við þetta mörgu því sem við gjarnan tölum um þegar við þurfum að minnast á ástandið í orkumálum hjá okkur fyrir austan, en það er í lakara ástandi en í nokkrum öðrum landsfjórðungi. Ég aðeins ítreka það, að hæstv. ráðh. kynni sér þetta mál og beiti öllum sínum áhrifamætti til þess að úr þessu verði bætt, ekki aðeins núna með skyndiviðgerð, sem eflaust verður gert, heldur einnig á þann hátt að þessu flutningakerfi verði komið í það lag sem er viðunandi fyrir okkur. Þetta sýnir okkur auðvitað það líka, að það er ófullnægjandi fyrir okkur á Austurlandi að búa yfirleitt við það að treysta aðeins á einn flutningsstreng með alla okkar orku. Það verður út af fyrir sig gott að fá linu yfir hálendið frá Norðurlandi og austur og viðbótarorku inn á okkar svæði. En þetta sýnir okkur líka að slíkt er vitanlega engan veginn nægilega öruggt. Hér er auðvitað um að ræða gífurlega mikil verðmæti sem eru í húfi og getur illa farið, og því verður að kosta hér til fjármagni.

Ég endurtek það, að ég óska eftir því að hæstv. ráðh. kynni sér þetta sjálfur og beiti afli sínu til úrbóta.