21.10.1976
Sameinað þing: 7. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í B-deild Alþingistíðinda. (130)

8. mál, sundlaug við Grensásdeild Borgarspítalans

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil á sama hátt og hæstv. utanrrh. taka undir þann áhuga og velvilja sem kemur fram hjá flm. þessarar þáltill. um sundlaug við endurhæfingarstöð Borgarsjúkrahússins. Ég vil fagna þeim ummælum, sem flm. láta koma hér fram í grg., og taka undir þau. Ég sem borgarfulltrúi Reykjavíkur hef orðið var við það að starfsfólk þessarar endurhæfingardeildar Borgarspítalans vinnur sitt starf mjög vel og nýtur virðingar. Ég veit líka að trú þess fólks á getu sína við að aðstoða þá, sem þar þurfa aðstoðar við, ber árangur og það vinnur af hugsjón að sínum störfum. Og ég veit að það flytur kjark í sjúklinga sem þangað þurfa að leita og þar af leiðandi eykur möguleika á árangri í starfi. Allt þetta er mér ljóst sem borgarfulltrúa, bæði af viðtölum við þá, sem hafa verið á endurhæfingardeildinni, og eins vegna þess hóps sem til mín hefur leitað og annarra borgarfulltrúa um aðstoð við að komast þar inn, sem sýnir að þessi endurhæfingardeild er þegar löngu orðin allt of lítil, og ég vil taka undir það með flm. að það þarf að fjölga slíkum deildum. Ég veit ekki hvort þær eiga að vera miklu stærri en þessi deild er, en aftur á móti tek ég heils hugar undir að það þarf að fjölga þeim og vona að það verði ekki flækja milli félmrn og heilbrrn. um hvort það verði gert eða ekki, þeim verði þá komið fyrir eða fundinn staður við sjúkrahússtofnanir almennt í landinu.

Ég vil aðeins koma að því, að það er margt sem rætt hefur verið í borgarstjórn og borgarráði um áframhaldandi framkvæmdir í sambandi við Grensásdeildina sem var hugsuð í upphafi fyrir aldraða, en tilganginum var breytt og hún gerð að þeirri endurhæfingarstofnun sem hún er í dag. Ég verð því miður að segja að við höfum orðið fyrir nokkrum vonbrigðum í borgarstjórn, því að þrátt fyrir gerða samninga hefur okkur ekki tekist að fá uppgjör við ríkissjóð um það, sem þaðan á að koma til stofnunarinnar, þannig að það hefur kannske seinkað ýmsu því sem við höfum annars viljað gera. En það er óháð þessu máli, og ég get fullvissað alla hv. þdm. að borgarstjórn er einhuga um að gera það sem í hennar valdi er til að koma fyrir sundlaug við Grensásdeildina. En það hefur verið erfiðleikum bundið vegna þess einmitt að þetta hús, þetta mannvirki er ekki upphaflega hannað sem endurhæfingarstöð. Þar af leiðandi er takmarkað svæði í kringum húsið, og það er eflaust mjög kostnaðarsamt að koma fyrir sundlaug inni í sjálfu húsinu. En ég hef þá trú að þetta mál verði leyst.

Ég hef heimsótt ýmsar innisundlaugar, og þær sem mér eru efst í huga núna, þ.e.a.s. erlendis, eru bæði fyrir fullfríska og þá sem eru að einhverju leyti ekki fullfrískir, og ég er með í huga nú sundlaug sem ég reikna með að einhverjir hv. þm. hafi heimsótt, því að hún er við það hótel sem Loftleiðir hafa hvað mest notað í Lúxemborg og er mjög athyglisverð, og ég vil a.m.k. benda mönnum á að skoða hana. Þar eru gufuböð og þar eru háfjallasólir af fullkomnustu gerð og mismunandi ljós eftir því hvaða markmiði á að ná í lækningum, mismunandi heit ker, og þar fyrir utan, sem þyrfti að vera á endurhæfingarstöðum, það sem var reyndar hér í Sundhöllinni fyrir stríð, að sú sundlaug og sundhöll var skreytt með mismunandi lítum og ljósum. Síðan má bæta við því, sem þarf að koma líka fyrir endurhæfingarsjúklinga ef þeir vilja á kvöldin fara niður í þessa sundlaug og slappa af, að þeir geti þá fengið þangað sendar þær smáveitingar sem þeir kynnu að óska eftir. Menn gætu eytt kannske meiri tíma í þessa afslöppun á endurhæfingarstöð. Hún er þá ekki bara sem lækningatæki, heldur líka til afslöppunar fyrir þá sem þurfa að dvelja einhvern tíma á þessum stöðvum.

Ég get glatt hv. þm. með því, að ég veit að það er sérstakur áhugi hjá borgarstjóra að flýta þeirri áætlun sem borgarverkfræðingi og borgarlækni hefur verið falið að gera, þ.e.a.s. kostnaðaráætlun og könnun um það, hvort hægt er eða það er óhætt að segja hvernig hægt er að staðsetja þetta mikilvæga mannvirki við endurhæfingarstöð Borgarsjúkrahússins.

Ég vil líka nota tækifærið til þess að benda á að kona, sem ég geri ráð fyrir að við þekkjum öll, Jóhanna Tryggvadóttir, hefur verið með endurhæfingarmál á sínu prógrammi í nokkuð mörg ár og átt við mikla erfiðleika að stríða ég verð að segja það — um skilningsleysi hjá þm. sem hún hefur leitað til og borgarfulltrúum líka og þar á meðal mér, þangað til mér varð ljóst hve þýðingarmikið starf hún vann og er að vinna. Hún hefur að vísu nú nýverið fyrir mjög mikinn velvilja hæstv. heilbrrh. fengið nokkra aðstoð, þannig að hún hefur komið málum sínum þó nokkuð áleiðis. En það er endurhæfingarstöð sem er að vísu rekin af félagsskap sem hún hefur stofnað til. Þetta er sjálfseignarfélag og vinnur mjög gott starf og hefur lagt sérstaka áherslu á endurhæfingu og viðhald aldraðra undanfarið. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að hennar heilsurækt, sem er endurhæfingarstöð um leið, á eftir að verða öldruðum í borginni til góðs. Og ég vil mæla með því að áframhaldandi stuðningur við hana verði veittur.

Ég vil náttúrlega sem borgarfulltrúi fagna þeim orðum sem hér hafa fallið til endurhæfingardeildar Borgarspítalans, að framtíðarstefna við mótun í þessum endurhæfingarmálum verði byggð á þeirri góðu reynslu sem endurhæfingardeild Borgarspítalans hefur sýnt, og ég tek undir það. En á sama tíma og um leið og ég lýk máli mínu, þá vil ég leggja til að þessu máli verði hraðað það mikið að það geti ekki verið neinn vafi á því að Alþ. geti komið málinu á fjárlög núna, ef við ætlum að gera það. Þess vegna segi ég, að það er bara spurningin um það, hvort menn vilji hugsa með kerfinu, á sama hátt og kerfið, eða hvort menn vilja hugsa með hjartanu. Fólkið bíður. Það er nóg af fólki sem þarf á þessu að halda, og ég vona að við séum ekki það fastir í einhverju sérstöku kerfi, einhverjum farvegi við gerð fjárlaga, að það sé ekki pláss fyrir það sem ég kalla að hugsa með hjartanu. Með þessum orðum vil ég láta máli mínu lokið.