25.01.1977
Sameinað þing: 40. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1619 í B-deild Alþingistíðinda. (1300)

92. mál, útgáfa lagasafns í lausblaðabroti

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svar hans. Ég vona að ekki hafi átt að skilja orð hans svo, að hann teldi að framkvæmd þáltill. væri ekki tæknilega möguleg, enda upplýsti hann í svari sínu að þessi tilhögun væri viðhöfð sums staðar erlendis, m. a. í Vestur-Þýskalandi. Hann var að vísu að ýja að því að dómsmrn. mundi velja aðra leið en þá, sem ákveðin var við samþykkt þáltill., með því að gefa út endurskoðað efnisyfirlit yfir samþykkt lög. En ég vil leggja á það áherslu, að ég tel að það sé ákaflega ófullkomin lausn á þessum vanda, því að staðreyndin er sú, að það er ekki aðeins að fólk þurfi að vita, hvaða lög hafa verið samþ., og hafa gott yfirlit yfir það, heldur er miklu erfiðara við það að eiga þegar gerðar eru aftur og aftur breytingar á eldri lögum og breytingarnar geta þar með með tíð og tíma orðið býsna ruglingslegar ef viðkomandi lagabálkur er aldrei prentaður í heild sinni.

Ég vil leggja á það áherslu að þegar þessi þáltill. var samþ. hafði málið verið skoðað sérstaklega bæði af Lögfræðingafélaginu og af Dómarafélaginu og þessir aðilar sendu jákvæð meðmæli með þessu máli. Það mega því vera nokkuð sterk rök sem dómsmrh. telur sig hafa á hendi ef hann ætlar sér að hundsa þessa þál.

Hann vísaði til þess, að þessi þáltill. hefði verið samþ. einróma í þinginu, og gaf í skyn, að stundum væri verið að samþ. hér eitt og annað sem menn vissu ekki almennilega hvað fæli í sér. Ég vil leiðrétta dómsmrh. hvað þetta atriði snertir. Þetta er misminni hjá honum. Þessi þáltill. var ekki samþ. einróma hér í þinginu. Hún var samþ. að viðhöfðu nafnakalli og greiddi 21 atkv. með henni, en 13 atkv. á móti, þ. á m. hæstv. dómsmrh. Hann barðist mjög heiftarlega gegn samþykkt þessarar þáltill. og m. a. óskaði eftir nafnakalli þar sem hann gerði grein fyrir atkv. sínu og undirstrikaði það, að hann vildi fella þessa till. En hann fékk því ekki ráðið, heldur samþ. Alþ. að hún skyldi ná fram að ganga, þrátt fyrir það að dómsmrh. hefði þessa afstöðu. Ég tel því að hæstv. ráðh. þurfi að hafa þeim mun þyngri rök á bak við þá afstöðu sína, ef hann ætlar með þessa afgreiðslu Alþ. í huga að sniðganga niðurstöðu af þessari atkvgr. Ég vænti þess að svo verði ekki og að hæstv. ráðh. hafi í huga, hver þingviljinn var í þessu máli, þegar hann tekur ákvörðun um það, sem vonandi verður fyrr en síðar, með hvaða hætti verði haldið á þessu máli af hálfu dómsmrn.