25.01.1977
Sameinað þing: 40. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1621 í B-deild Alþingistíðinda. (1302)

92. mál, útgáfa lagasafns í lausblaðabroti

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir þau orð hans að hann vilji virða þessa þál. En ég vil gera þá athugasemd til viðbótar, að ég held að þeir, sem um þessi mál fjölluðu á sínum tíma, hafi almennt ekki gert ráð fyrir því að gefnar yrðu út tvær tegundir lagasafns samtímis. Ég held að menn hafi almennt gert ráð fyrir því, að fyrirkomulagi þessara mála yrði breytt í það form sem hér var gerð till. um, það yrði látið nægja. Í öðru lagi vil ég eindregið mótmæla því, að þessi útgáfa þyrfti að vera mjög kostnaðarsöm, a. m. k. ekki svo að það væri neitt áhorfsmál að standa fyrir henni. Og í þriðja lagi vil ég taka undir það, sem ráðh. sagði áðan, að auðvitað verður að endurskoða í þessu sambandi lagareglur um efni og útgáfu Stjórnartíðinda. Af því að ég er með hér fyrir framan mig orð sem ég mælti þegar gengið var til atkvæða um þetta mál hér í þinginu, þá rek ég einmitt augun í setningu þar sem segir, að eðlilegt sé og sjálfsagt að endurskoðaðar verði lagareglur um efni og útgáfu Stjórnartíðinda, því að þetta grípur að sjálfsögðu hvað inn í annað. Þetta hefur held ég öllum verið ljóst frá öndverðu að þyrfti að hafa í huga, og um þetta atriði er enginn ágreiningur.