25.01.1977
Sameinað þing: 41. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1627 í B-deild Alþingistíðinda. (1310)

9. mál, bann við að opinberir stafsmenn veiti umtalsverðum gjöfum viðtöku

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., en mig langar aðeins til að bera fram eina fsp. að gefnu tilefni til flm. þessarar till. á þskj. 9. Hér segir orðrétt, ég gríp inn í till. sjálfa miðja: „er banni opinberum starfsmönnum að veita viðtöku umtalsverðum gjöfum, endurgjaldslausri þjónustu, sérstökum fríðindum eða óvenjulegri fyrirgreiðslu umfram starfsréttindi, er meta má til peningaverðs, frá opinberum aðilum, einstaklingum eða fyrirtækjum, sem viðkomandi starfsmaður hefur starfsleg samskipti við“. Þá er spurning mín: Hefur flm. ástæðu til að ætla að íslenskir embættismenn eða starfsmenn hafi á einhvern hátt þegið slíkar gjafir, því að það hlýtur að vera tilefni þessa tillöguflutnings? Ég hef aldrei orðið var við það. Mér finnst það ekki hafa verið upplýst hver er eiginlega ástæðan fyrir þessum tillöguflutningi. Ef það er rétt að íslenskir embættismenn hafi þegið eitthvað það, sem segir hér í till., gegn einhverju öðru á móti, þá er full ástæða til að flytja slíka till. En ef flm. geta ekki upplýst það, þá sé ég enga ástæðu til að flytja svona till.