25.01.1977
Sameinað þing: 41. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1630 í B-deild Alþingistíðinda. (1314)

9. mál, bann við að opinberir stafsmenn veiti umtalsverðum gjöfum viðtöku

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að skipta mér af þessari till. hér í þinginu, en ég hef aths. að gera við málflutning hv. 1. flm. Hann sagði hér eina lífsreynslusögu eftir áskorun frá hv. þm. Albert Guðmundssyni og komst að orði eitthvað á þá leið, að um það bil sem fyrirtæki nokkurt þurfti á fyrirgreiðslu Alþingis að halda hafi þetta fyrirtæki boðið fulltrúum þingflokkanna að tilnefna menn til þess að kynna sér starfsemi félagsins erlendis. Fyrirtækið var ekki nefnt og ég ætla ekki að nefna það. Ég býst við að allir viti við hvað er átt. En hér er í veigamiklum atriðum rangt frá greint, vegna þess fyrst og fremst að þetta boð, sem var algjörlega óformlegt, barst þingflokkunum ekki fyrr en sú fyrirgreiðsla, sem félagið þurfti á að halda frá Alþ., hafði verið samþ. í þinginu. Það breytir kannske ekki miklu, en þó er rétt að hafa það sem sannara reynist.

Ég get aðeins til viðbótar sagt frá því, að það var talað við mig af fulltrúa fyrirtækis sem formann fjh.- og viðskn. og mér tjáð þessi fyrirætlun viðkomandi félags. En það mál fór aldrei t. d. fyrir minn þingflokk. Ég veit ekki hvað gerðist annars staðar.

Mér þykir líka þessi saga svolítið óheppilega valin sem dæmi um spillingu sem þm. t. d. gætu látið freistast af. Mér er kunnugt um það að einn af hv. flm. þessarar till., — það veit kannske ekki hv. 1. flm., — hafði alla forgöngu um það meðal fulltrúa á Hafréttarráðstefnunni á s. l. ári að Sambandið byði þessum fulltrúum til Harrisburg til þess að kynna sér starfsemi Sambandsins þar. Ef þetta er spilling, þ. e. að hugleiða það að þiggja svona boð eins og hér var skýrt frá, þá hlýtur það að vera það líka að hafa alla forgöngu, vera frumkvöðull og meira að segja fararstjóri í þeirri ferð sem þarna var farin.

Þetta vildi ég aðeins láta koma hér fram og fyrst og fremst leiðréttingu við það sem hv. 1. flm. sagði hér áðan.