25.01.1977
Sameinað þing: 41. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1631 í B-deild Alþingistíðinda. (1317)

40. mál, lagning bundins slitlags á þjóðvegi

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það eru víst orðnir einir tveir mánuðir síðan ég bað um orðið, en það kannske skiptir ekki mestu máli.

till., sem hér er til umr., felur það í sér að stefnt skuli að og lögð aukin áhersla á að leggja bundið slitlag á hringveginn og helstu vegi út frá honum, og er tiltekið, að lengd þess vegar, sem átt er við, sé um 2300 km og þessu verki skuli lokið á 10–15 árum.

Ég vil vekja athygli á því, að þetta er engin tímamótatillaga, hvernig sem á hana er lítið. Þetta verk er þegar hafið. T. d. er búið að leggja bundið slitlag á helstu aðalvegi um Suðurnes, einnig veginn austur fyrir fjall allt austur að Þjórsá og enn fremur vestur- og norðurveg frá Reykjavík upp fyrir Kollafjörð. Hér er því ekki nýtt mái á ferðinni og þess vegna er ekki sú ástæða fyrir tillöguflutningnum. Í till. er ekki bent á aðrar aðferðir til að leggja bundið slitlag á vegi en þegar hafa verið notaðar í þessu efni, svo að ekki er ástæðan sú. Og ekki er gerð till. um nýjan tekjustofn til að standa undir þessum framkvæmdum. Að vísu er sagt í tillgr., með leyfi hæstv. forseta: „Kostnaður við lagningu slitlagsins greiðist úr Vegasjóði samkv. vegáætlun, og með innlendum eða erlendum lántökum, ef þörf krefur, og eftir nánari ákvörðun Alþingis síðar.“ Hér er heldur ekkert nýtt á ferðinni. Vegasjóður hefur verið fjármagnaður einmitt á þennan hátt, eins og allir hv. alþm. vita.

Hvað er það þá sem fyrir hv. flm. vakir með flutningi þessarar till.? Það getur ekki farið á milli mála hvað það er. Ef þessi till. verður samþ., þá hefur Alþ. lýst yfir þeim vilja sínum að hér eftir eigi að leggja aukna áherslu á að leggja bundið slitlag á þjóðvegina og það skuli sitja fyrir öðrum verkefnum a. m. k. í meiri mæli en verið hefur fram að þessu. Að vísu sagði hv. fyrri flm. héðan úr ræðustól 25. nóv. s. l., með leyfi forseta: „Það er ekki ætlun okkar flm., eins og ég vona að mönnum hafi skilist, að samþykkt hennar verði á kostnað annarra framkvæmda í vegagerð í landinu.“ En ég vil spyrja: Hvernig er hægt að koma því heim og saman að taka fjármagn til þessa verkefnis úr Vegasjóði og að það komi ekki niður á öðrum framkvæmdum. Það er ofvaxið mínum skilningi, því að þó Vegasjóði væri útvegað helmingi meira fjármagn en hann hefur haft til umráða og jafnvel margfalt meira, þá eru meira en næg önnur verkefni óunnin og það mjög brýn verkefni sem kalla mjög á skjóta lausn.

Það er þýðingarlaust að bera það á borð fyrir nokkurn mann að með samþykkt þessarar till. sé ekki verið að rýra möguleika á öðrum vegaframkvæmdum. En ef á að taka alvarlega svona málflutning, þá verða hv. flm. þessarar till. að gera mönnum ljóst hvað þeir meina með þessum málflutningi, því ekki geri ég ráð fyrir að þeir ætlist til að Vegagerðin geti gert nema eina framkvæmd fyrir sömu upphæðina, geti notað sömu krónuna nema einu sinni. Ég vil því undirstrika það, að svona tillöguflutningur er ekki raunhæfur nema í till. felist hvernig á að útvega fjármagn til að standa undir slíkum framkvæmdum.

Við lestur tillgr. liggur beint við að draga þá ályktun að hv. flm. standi í þeirri trú að hægt sé eða jafnvel auðvelt sé að taka meira fé út úr Vegasjóði en gert hefur verið á undanförnum árum til að legg.ja bundið slitlag á þjóðvegi landsins. Nú vil ég ekki gera lítið úr þessu verkefni eða gefa í skyn að það sé ekki nauðsynlegt að leggja bundið slitlag á sem flesta vegi landsins. Því fer fjarri. Ég get út af fyrir sig tekið undir flest af því sem hv. flm. sögðu um ástand veganna og hvað brýnt er að bæta úr því. Hins vegar finnst mér þeim ekki vera ljóst hvernig ástandið er í þessum málum víða úti um land og hve geigvænlegt vandamál er þar við að stríða í þessum efnum sem kalla á skjóta lausn. Hv. þm. Ólafur G. Einarsson sagði m. a., með leyfi forseta: „Menn þurfa einnig að átta sig á því, að vöruflutningar til hinna ýmsu staða á landinu fara að langmestu leyti fram með bifreiðum og bætt vegakerfi hefur þess vegna afgerandi áhrif á kostnað við vörudreifingu í landinu.“ Undir þetta get ég tekið, því þetta er einmitt kjarni málsins. En til þess að slíkir flutningar geti átt sér stað þurfa að vera færir vegir, en ekki forarvilpur og troðningar, eins og þeir eru enn víða. Þegar klaki er að fara úr vegunum á vorin, þá er forarsvað, sem verður til að stöðva umferð langtímum saman, og troðningar, sem fyllast af snjó í fyrstu snjóum.

Í tillgr. segir: „Unnið skal að framkvæmdum þessum í öllum landshlutum hvert ár eftir því sem áætlun segir.“ Mesta fjölmennið utan Faxaflóasvæðisins er við Eyjafjörð, eins og kunnugt er, og má því gera ráð fyrir að hv. flm. hafi helst í huga að leggja bundið slitlag í næsta nágrenni Akureyrar eða a. m. k. ekki síður þar en annars staðar. Tel ég því rétt að staldra við og reyna að gefa yfirlit um hvernig ástandið er í þessum efnum til allra átta út frá höfuðstað Norðurlands.

Fyrst skulum við athuga leiðina austur til Húsavíkur. Eftir er til dæmis að byggja upp veginn þvert yfir Eyjafjörð framan við Akureyri. Á þeirri leið eru nú þrjár brýr, allar gamlar og mjög úr sér gegnar. Fyrirhugað er að leggja nýjan veg á allt öðrum stað og er það mjög aðkallandi verkefni, þannig að ekki verður byrjað þar á slitlagi. Búið er að undirbyggja um helminginn af veginum um Svalbarðsströnd sé miðað við veginn eins og hann er fyrirhugaður í framtíðinni, þ. e. a. s. um Víkurskarð. Nú liggur vetrarleiðin austur um Svalbarðsströnd um Dalsmynni til Húsavíkur. Á þeirri leið er mikil snjóflóðahætta og oft erfitt að halda henni opinni vegna snjóa. Er því mjög brýnt verkefni að byggja upp veginn um Víkurskarð, ekki síst vegna slysahættunnar í Dalsmynni. Þá er eftir að byggja 2/3 af veginum um Ljósavatnsskarð, en vegurinn um Köldukinn til Húsavíkur er að vísu að mestu leyti upp byggður.

Norðan við Akureyri er búið að leggja bundið slitlag á 3 km langan vegarkafla og hægt væri nú að leggja á aðra 3, það er allt og sumt. Þannig er ástandið þar nyrðra.

Eftir er að endurbyggja allan veginn fram Hörgárdal um Þelamörk og Öxnadal. Hægt væri að vísu að setja bundið slitlag á kafla á Öxnadalsheiði, smákafla í Norðurárdal, annan í Blönduhlíð í kringum Varmahlið, þó er eftir að byggja þar brú svo að sá vegarkafli yrði samfelldur. Það er búið að byggja upp veg á að giska að hálfu leyti í Langadal og frá Blönduósi vestur fyrir Vatnsdal. Er það líka langlengsti vegarkaflinn á leiðinni um Húnavatnssýslur sem uppbyggður er. Það er búið að byggja upp smákafla hér og þar í Víðidal og Miðfirði, en svo er búíð að mestu leyti að byggja upp veginn í Hrútafirði.

Ef við athugum hvernig ástatt er með veginn til Dalvíkur, þá er eftir að byggja upp veginn frá Hörgárbrú og upp að Moldhaugnahálsi og dálítinn kafla norðan við Hörgárbrúna. Veginn í gegnum Arnarneshrepp er búið að byggja upp og norður að Víkurbakka á Árskógsströnd, en eftir er að byggja kafla þaðan til Dalvíkur, á að giska 10–12 km langan. Er þar mjög snjóþungt og erfitt að halda þeirri leið opinni.

Að mestu leyti er eftir að byggja upp innansveitarvegina alla í Eyjafirði. Veginn yfir Lágheiði er eftir að byggja upp og veginn um Melrakkasléttu frá Leirhöfn til Raufarhafnar, parta í Kelduhverfi og víðar og svo veginn austan við Kross og yfir Fljótsheiði, yfir Mývatnsheiði til Mývatnssveitar, og þannig mætti halda áfram.

Má t. d. minna á það, sem gefur til kynna hvernig þessi mál eru, að veturinn 1974–1975 fór 1/4 hluti af tekjum Svarfaðardalshrepps til að greiða fyrir snjómokstur. Og nú eftir að tankvæðingin er komin er mikið áhyggjuefni hvernig muni til takast ef við þar nyrðra fengjum verulegan snjóavetur. Vegirnir eru lífæðar fyrir mjólkurframleiðsluna í öllum sveitum landsins, eins og á milli þéttbýlisstaðanna. Nú hefur sýnt sig að vel uppbyggður vegur er ótrúlega lengi fær, jafnvel í miklum snjóum. Því er það verkefni mjög aðkallandi að byggja vegina upp úr snjónum.

Nýlega kom t. d. fram í fjölmiðlum að útflutningsverðmæti frá Raufarhöfn mundi verða a. m. k. 600 millj. kr. á s. l. ári eða um 1200 þús. á hvern íbúa. Ef hlutfallsleg útflutningsverðmæti kæmu t. d. frá reykvíkingum væru það um eða yfir 100 milljarða. En hvernig er búið að samgöngumálum Raufarhafnarbúa? Vegurinn um Sléttu er aðeins troðningar sem liggja víða lægra en landið umhverfis þá. Þetta er um það bil 30 km langur vegarkafli. Þótt þar sé raunar og hafi verið mjög snjólítið það sem af er vetri, eins og er oft á Sléttu, þá sest snjórinn fyrst og fremst í þessa troðninga og getur þá oft verið erfitt að halda opinni leiðinni vegna þess að við minnsta renningskóf fyllast þessir troðningar. Og þannig er ástatt með flugvöllinn, að hann er óupplýstur, þannig að það er ekki nema þá smástund af deginum um skammdegið sem er hægt að lenda flugvél á Raufarhöfn. Eiga aðrir að fá vegi með bundið slitlag t. d. áður en vegur er gerður um Sléttu og um Víkurskarð og slíkir vegir eru uppbyggðir? Er það fyrir slíku réttlæti sem hv. flm. þessarar till. berjast?

Það hafa talað við mig margir bifreiðastjórar, sem aka á langleiðum, um þessa þáltill., og hafa þeir verið á einu máli um að það sé engu líkara en að flm. þessarar till. þekki mjög takmarkað hvernig ástand veganna er víða um land, því að ef þeir þekktu það mundu þeir ekki hafa lagt hana fram hér á hv. Alþingi.

Í grg. með till. kemur fram, að flm. telja að kostnaðurinn við að jafna út vegi, sem eru nú uppbyggðir, og leggja bundið slitlag á þá muni vera um 5 millj. á hvern lengdarkm að meðaltali. En fróðir menn, sem ég hef talað við, telja að þetta sé a. m. k. 1 millj. kr. of lágt reiknað, miðað við það verðlag sem er í dag. Jöfnun og slitlag á þeim 830 km, sem flm. telja að séu uppbyggðir og hægt væri að leggja bundið slitlag á víða um land, mundi þá kosta um 5 milljarða. Lagfæring og uppbygging ásamt bundnu slitlagi gera sömu menn ráð fyrir að mundi kosta um 16 millj. á hvern lengdarkm af þeim 1300 km sem eftir eru, eða um 26 milljarða allt verkið sem till. nær yfir, auðvitað miðað við óbreytt verðlag. Vegakerfið mun allt vera um 11700 km langt, og eru þá eftir um 3400 km sem sú þáltill., sem hér er til umr., nær ekki til, en einnig verður að sinna þeim vegum á næstu árum í verulegum mæli. Af þessu sést að uppbyggingin er ekkert smáræði fyrir okkar litlu þjóð og ekki veitir af að finna leiðir til þess að fá verulega meira fjármagn til veganna en verið hefur, ef þeir eiga að geta fullnægt þeim kröfum sem nútímaþjóðfélag hlýtur að gera til samgangna yfirleitt.

Til þess að koma í veg fyrir allan misskilning vil ég taka það fram, að ég tel sjálfsagt að leggja bundið slitlag á vegi t. d. í gegnum þéttbýli og í næsta nágrenni við það, eftir því sem ástæða og möguleikar eru á, eins og gert hefur verið á síðustu árum samhliða vegauppbyggingunni. En til þess þarf enga þáltill. að flytja hér á hv. Alþingi.

Fyrri flm. þáltill., hv. þm. Ólafur G. Einarsson, sagði úr þessum ræðustól um mánaðamótin nóv.-des., með leyfi hæstv. forseta: „Auðvitað eiga þeir vegir að hafa forgang, þar sem umferðin er mest.“ Og hann sagði líka: „Við meinum það sem við segjum.“ Sem sagt, hv. þm. meinar það, að þeir vegir, sem þegar eru uppbyggðir, eigi að sitja fyrir, að á þá sé sett bundið slitlag áður en lokið er við að gera vegina úti um land akfæra — meira að segja að það sitji fyrir. Mér finnst satt að segja að þm. hafi furðufljótt gleymt æsku sinni og uppruna og öllum þeim erfiðleikum í samgöngumálum sem æskustöðvar hans máttu búa við, og þó ögn hafi ræst úr með jarðgöngunum gegnum Stráka, þá er langur vegur frá því að samgöngur t. d. við Siglufjörð séu komnar í viðunandi horf og eins til fjölmargra annarra staða víða um land.

Við framsóknarmenn teljum að við eigum að byggja landið allt og það þurfi að stefna að því að jafna lífsaðstöðuna eins og frekast er unnt. Samgöngumálin eru ekki veigaminnsti þátturinn í því efni, og á það ber að leggja þunga áherslu að koma vegakerfinu í viðunandi ástand. Það verður ekki gert með samþykkt þessarar till., nema síður væri, nema þá þessar framkvæmdir verði fjármagnaðar á annan veg en tillgr. mælir fyrir um.

Ég vil því spyrja hv. flm. till. að því, hvernig þeir telji að eigi að standa að því að fá fjármagn til að gera vegina þannig úr garði að þeir þjóni þeim þörfum og kröfum sem nútímaþjóðfélag verður að gera til þeirra. Það kann að vera að einhver bendi á að umferðin, sem eftir vegunum fer, sé skattlögð um það bil helmingi meira en fer til Vegasjóðs, þ. e. a. s. skattar af bifreiðum og rekstrarvörum til þeirra. Kröfur hafa oft komið fram á undanförnum árum um að allt þetta fjármagn eigi að fara til veganna, og er full þörf á því. En þá kemur upp annað vandamál. Ef það fjármagn, sem umferðin er skattlögð um, gengur allt til Vegasjóðs, hvernig á þá að bæta ríkissjóði það upp? Varla verður hjá því komist að gera það. Það er talið af sumum allra meina bót að minnka skatta, lækka skatta, draga úr samneyslu, og það undarlegasta er að lágtekjufólkið í landinu er einnig farið að taka undir þessar kröfur. Við aukum ekki opinberar framkvæmdir, hvorki í vegagerð né á öðrum sviðum, með því að minnka samneysluna, lækka þá fjárhæð sem ríkið tekur til sameiginlegra nota. Því er hægt að slá föstu. En hvað vill hv. þm. Ólafur G. Einarsson í þessu efni? Vill hann standa að því að samneyslan verði miðuð við það, að hægt sé að þoka áfram á sómasamlegan hátt ýmsum félagslegum framkvæmdum, t. d. í samgöngumálum? Væri gott að fá svar við því.

Ef þessi þáltill. verður samþ. eins og hún er, þá þýðir samþykkt hennar það, að Alþ. lýsir yfir þeim vilja sínum að þetta verkefni skuli ganga fyrir annarri vegagerð að því marki a. m. k. að á 15 næstu árum verði lagt bundið slitlag á 2300 km langan veg og að aðrar vegaframkvæmdir eigi þá að biða betri tíma, nema okkur takist að fá í Vegasjóð margfalda þá fjárupphæð sem til veganna rennur nú. Sem sagt, þessi till., eins og hún er úr garði gerð, er aðeins viljayfirlýsing Alþ. um röðun framkvæmda, annað ekki. Ég á bágt með að trúa því að þeir hv. alþm., sem eru fulltrúar landsbyggðarinnar, vilji setja sinn stimpil á slíka verkefnaröðun.

En þótt menn geti ekki samþykkt þessa þáltill. eins og hún er fram borin, þýðir það ekki að við landsbyggðarmenn séum á móti því að bundið slitlag verði sett á vegina. Við teljum annað enn þá brýnna. Ég er tilbúinn hvenær sem er að setjast niður, t. d. með hv. flm. eða öðrum, og reyna að kryfja til mergjar hvernig hægt er á sem fljótvirkastan hátt að fá það fjármagn til veganna, sem nægi til að koma þeim í sómasamlegt ástand á tilteknum árafjölda, og standa að tillöguflutningi um það efni. En með þessari till. get ég ekki greitt atkv. í því formi sem hún er í.