25.01.1977
Sameinað þing: 41. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1638 í B-deild Alþingistíðinda. (1319)

40. mál, lagning bundins slitlags á þjóðvegi

Flm. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Ég var nú víst á mælendaskrá eins og þeir tveir hv. þm., sem hér hafa talað, hefði kannske átt að falla frá orðinu til þess að vera þó viss um að till. kæmist til n.. núna. En ég vona að mál mitt gefi ekki sérstakt tilefni til frekari umr. en þegar hafa farið fram.

Það er kannske ekki ástæða til þess fyrir mig að fara að svara þeim atriðum sem ég hefði kannske gert ef haldið hefði verið áfram umr. í nóv. Ég vil þó aðeins koma hér að örfáum atriðum.

Í fyrsta lagi vil ég þakka hæstv. samgrh. fyrir undirtektir hans við þessa till. Mér fannst ræða hans vera mjög jákvæð og ástæða til að ítreka nokkuð af því sem hann sagði. Hann nefndi það sérstaklega, að því lengur sem það drægist að leggja slitlag á vegina, því meiri yrði kostnaðurinn. Og hann nefndi líka, sem ég reyndar tók mjög skýrt fram í minni framsöguræðu, að það væri vart hægt að halda við hinum fjölförnustu vegum sem malarvegum. Hann nefndi einnig að sparnaður við að aka á bundnu slitlagi væri talinn nema 20% og þegar af þeirri ástæðu væri erlend lántaka til þess að gera eitthvert átak í þessum efnum réttlætanleg, þar sem hér væri um beinan gjaldeyrissparnað að ræða. Þá nefndi hann eitt atriði sem mér finnst líka ástæða til þess að nefna sérstaklega, og það er hve öflun ofaníburðar er orðin miklum erfiðleikum háð og umfram allt þó hvað slíkur unninn ofaníburður er orðinn dýr. Allt þetta ber að hafa í huga þegar menn ræða þetta mál.

Hv. 6. þm. Norðurl. e., Ingi Tryggvason, gerði nokkurt mál úr því að ég hefði haft það eftir honum að till. okkar gengju hvor gegn annarri, eins og ég mun hafa orðað þetta. En hann mun hins vegar hafa sagt að till. gengju nokkuð sín í hvora áttina. Þetta er að vísu ekki alveg sama orðalagið, en það var ekki mín meining að snúa út úr. En þegar menn segja að tvær till. gangi sín í hvora áttina, þá skil ég það svo að þær snertist aldrei, þannig að mér sýnist ekki vera stór munur á þessu orðalagi. En ég sé ekki ástæðu til fyrir okkur að vera að deila um þetta. (Gripið fram í.) Þær ganga nokkuð hvor í sína áttina. Þá sé ég ekki að þær snertist. En við skulum ekki deila um þetta, það er óþarfi.

Hv. þm. Páli Pétursson talaði enn um ísingarhættuna sem yrði á þjóðvegunum við það að þeir verði lagðir bundnu slitlagi. Ég geri nákvæmlega ekkert úr þessu og styðst þar við reynslu annarra. Ég get nefnt það svona til gamans, að ég var um síðustu helgi á bilferð í Noregi þar sem flestallir vegir eru þegar lagðir bundnu slitlagi, og þar var ísing á vegum vissulega nokkur á köflum. En ég held að engum í því landi mundi detta í hug að vilja skipta á því, sem þeir nú hafa fengið, vegna þeirrar kannske auknu ísingarhættu sem er við tilkomu slitlagsins. Þetta megum við ekki láta aftra okkur frá því að leggja slitlag á þjóðvegi, að menn óttist ísingarhættuna. Mesta slysahættan er einmitt á malarvegunum. Hún er miklu meiri á malarvegunum heldur en á vegum með bundnu slitlagi.

Í sem stystu máli sagt sýnist mér málflutningur hv. þm. Páls Péturssonar vera í þá áttina, að hann vilji ekki slitlag á vegi fyrr en við höfum byggt alla vegi upp þannig að það sé sem minnst hætta á að þeir teppist í snjónum. Önnur till. hefur verið hér í þinginu þar sem þessi hv. þm. talaði líka. Hún fjallar um litsjónvarp. Hann vill heldur ekkert litsjónvarp fyrr en við höfum fengið svarthvítt heim á hvern bæ. Þetta hefði einhvern tíma flokkast undir íhaldssemi, það verð ég að segja. Og mér finnst það dálítið skrýtið þegar svona málflutningur kemur frá manni sem ég held að vilji telja sig vinstri sinnaðan framsóknarmann. En nóg um þetta.

En ég þarf aðeins að koma að nokkrum atriðum vegna ræðu hv. þm. Stefáns Valgeirssonar. Ein fyrsta minning mín frá setu minni hér á Alþ. 1971 var umr. um vegamál í Eyjafirði, og þar man ég eftir að hv. þm. Stefán Valgeirsson veiti því mjög fyrir sér hvort væri betra að aka á vegunum þar eða á uppgreftinum úr skurðunum meðfram vegunum. Um þetta deildu þeir þó nokkuð, hann og hv. þm. Magnús Jónsson. Þetta virðist ætla að endurtaka sig hér núna með umr. um vegamál í Eyjafirði. En ég ætla nú sem minnst að taka þátt í því.

Hv. þm. sagði að þessi till. okkar væri engin tímamótatill., hvernig sem á hana er litið, og þar væri ekki bent á nýjar aðferðir. Við höfum ekki gert kröfu til að þessi till. yrði kölluð tímamótatill. Það höfum við ekki gert. En ég mótmæli því hins vegar alveg ákveðið að það sé ekki bent á nýjar aðferðir með þessari till., og málflutningur manna hér hefur einmitt einkennst af þessu,að menn virðast alls ekki skilja till. Ég er búinn að tala hér þegar tvisvar sinnum í þessu máli og hef í báðum þeim ræðum mínum reynt að koma mönnum í skilning um hvað við værum að fara, en það virðist alls ekki takast að koma mönnum í skilning um það. Mér þykir þetta afskaplega leiðinlegt, hvað ég er óskýr í tali. (Gripið fram í.) Ég skal skýra það einu sinni enn. En ég bendi þó mönnum á að lesa bara rólega ræður mínar. Þær eru í þingtíðindum og ég trúi ekki öðru en menn skilji hvað við erum að fara. (Gripið fram í.) Ja, það virðist ekki vera, því að menn koma hér upp, eftir að ég hef talað, og tala hreina vitleysu. (Gripið fram í: En er það öruggt að ræðumaður skilji sig sjálfur?) Ég hef talið það. Það hlýtur náttúrlega að vera erfitt að tala fyrir máli ef maður skilur alls ekki sjálfur hvað verið er að fara.

Meginefni till. okkar — og nú skal ég ekki einu sinni lesa það upp úr till. — er að við erum að fara fram á að Alþ. lýsi yfir þeim vilja sínum að bundið slitlag verði lagt á vegina eins og þeir eru, þ. e. a. s. þá vegi sem eru þegar þannig gerðir að þeir þola bundið slitlag. Þetta er annað meginefni till. Hitt meginefnið er það, að Alþ. lýsi yfir þeim vilja sínum að þessu verkefni skuli lokið á 10–15 árum. Svona einfalt er þetta. En hér tala menn bara um allt aðra hluti, og það er enn þá spurt: Hvað vakir fyrir flm.? Það er þetta sem fyrir okkur vakir, það er að fá fram þennan vilja Alþ. Hann hefur aldrei fengist. Og til þess þarf þáltill. Þess vegna mótmæli ég því, sem hv. þm. Stefán Valgeirsson sagði, að það þyrfti alls enga þáltill. til þess að slitlag yrði lagt á vegina. Við erum að reyna að fá fram vilja Alþ. sem dugi til þess að við komumst eitthvað áfram í þessum efnum. Við höfum lagt slitlag á 160 km af okkar vegakerfi sem er yfir 11 þús. km. Þetta er afrek, það má nú segja!

Hv. þm. vill fá að vita hvernig við ætlum að koma því heim og saman að sinna þessu verkefni ef ekki á að rýra fjárveitingar til annarra framkvæmda. Till. segir það bókstaflega sjálf. Það er að taka upp þessi vinnubrögð. Hv. þm. vefengdi að þetta mundi kosta 5 millj. kr. á km, eins og við segjum. Ég skal ekki deila við hann um hvort það kostar 5 millj. eða 6 millj., það er ekki meginmálið. Meginmálið er það, að við erum að reyna að koma þeim vilja Alþ. fram að slitlag verði lagt á vegina fyrir 5 eða 6 millj., en ekki 20 eða 30 millj. Þannig höfum við staðið að verki. Ég sagði í minni framsöguræðu að út frá mesta þéttbýlinu, þar sem umferð er svo mikil sem raun ber vitni, þar sem hún er 3–5 þús. bílar á dag og ég tala nú ekki um þaðan af meira, — þar er auðvitað ekki réttlætanlegt að standa svona að verki eins og við erum að biðja um, þar sem umferð er svona mikil. En meginhluti þjóðvegakerfisins hefur umferð sem er innan við 1000 bíla á sólarhring og það langt fyrir innan 1000 bíla. Þeir vegir eru til þess fallnir, þeir sem á annað borð hafa verið byggðir upp og það er sem betur fer talsverður kafli af þjóðvegakerfinu, að leggja slitlagið á þá og fyrir þá upphæð sem ég nefndi, það fullyrði ég.

Ég ætla sem sagt ekki að blanda mér í umr. um ástand vegamála í Eyjafirði. Mér er alveg ljóst að þar er margt ógert, þ. á m. á hinum fjölförnustu vegum, eins og t. d. í Þelamörk og í Hörgárdal og uppi í Öxnadal. Þar er vissulega margt ógert. En hér erum við líka komnir að einu veigamiklu atriði, og það er það, að þó að við höfum veg fyrir framan okkur sem er ekki af hinni fullkomnustu gerð, þá getur það samt verið réttlætanlegt að leggja á hann bundið slitlag ef hann er ekki á endurbyggingaráætlun í nánustu framtíð. Ég hef skýrt frá því hvernig frændþjóðir okkar hafa þetta. Ég þekki það bæði í Svíþjóð og Noregi. Þar hafa þeir ósköp einfalda reglu. Ef vegur er ekki á endurbyggingaráætlun næstu 5 árin, þá er er lagt á hann slitlag með hinum ódýrasta hætti. Það er gert. Þeir telja að það borgi sig. En það virðist ekki ganga hér hjá okkur. Hérna skal þetta gert með hinum fullkomnasta hætti, nákvæmlega sama hvað umferðin er mikil. Helst á km að kosta, að manni skilst, 20–30 millj. kr. Og þarna erum við komnir að meginmálinu í till. okkar. Og ég hlýt að geta gert kröfu til þess að hv. þm. skilji þetta, það er svo einfalt og ég verði ekki beðinn um enn þá einu sinni að útskýra, hvað við erum að fara.

Ég get skýrt frá því hvernig þetta kæmi út eftir kjördæmum, ef við miðuðum við að sinna þeim vegum sem hafa 200 bíla umferð á sólarhring. Ég get einnig upplýst hvernig það skiptist eftir kjördæmum, hvað langir vegakaflar eru með bundnu slitlagi. Hér er fyrst Suðurland. Þar er talið að það sé 51 km kominn með bundnu slitlagi. En undir þetta mundu falla 297 km, þ. e. a. s. vegakaflar með 200 bíla umferð á sólarhring. Reykjaneskjördæmi hefur 108 km með bundnu slitlagi. 105 km mundu falla undir þessa till. Á Vesturlandi er nú enginn kafli talinn með bundnu slitlagi. Þar mundu falla undir þetta 199 km. Á Vestfjörðum eru taldir 3 km með bundnu slitlagi, 87 km mundu falla undir þessa till. Á Norðurl. v. er heldur enginn kafli með bundnu slitlagi, 205 km væru til til þess að leggja á bundið slitlag. Á Norðurl. e. eru 5 km með bundnu slitlagi, 206 km féllu undir þessa till. Og á Austurlandi eru 2 km með bundnu slitlagi, 128 km mundu falla undir þessa till. Þetta er upptalning sem ætti að sýna mönnum frekar en nokkuð annað að hér er þörf á að taka til hendinni.

Ég held að hv. þm. Stefán Valgeirsson hafi svo fundið út að lokum, hvað það væri sem við flm. meintum. Það var að þeir vegir, sem þegar eru uppbyggðir, verði lagðir slitlagi áður en hinir eru byggðir upp. Hér er einfaldlega verið að snúa út úr fyrir okkur og það er alger óþarfi að vera með svona útúrsnúninga. Við höfum þvert á móti talað um það, að auðvitað verði haldið áfram uppbyggingu veganna. Hlýtur hver maður að skilja að það er ekki síður áhugamál okkar flm. þessarar till., vegna þess að ef það verður hætt við að byggja upp vegina, þá verður líka hætt við að leggja á þá slitlag þegar við höfum lokið þessum áfanga. Eðlilega hlýtur þessu verki að verða haldið áfram. En svo að ég nefni það einu sinni enn, við erum að biðja hér um betri nýtingu á fjármagninu.

Ég hef þegar svarað því hvernig á að standa að því að fjármagna þessar framkvæmdir. Það var spurt um það enn einu sinni þótt á það sé reyndar bent í till. og ég ræddi það ítarlega í minni framsögu. Ég sé ekki ástæðu til að fara að tala um það hér einu sinni enn.

Ég held að ég þurfi ekki að hafa um þetta miklu lengra mál. Hv. þm. Lúðvík Jósepsson sagði að það væri alveg tómt mál að tala um að hefjast handa um lagningu slitlags umfram það sem verið hefur nema til komi nýtt fjármagn. Ég get ekki fallist á þetta. Hins vegar hef ég lýst því yfir að ég mundi styðja það heils hugar að reynt yrði að afla miklu meira fjármagns til vegaframkvæmda heldur en nú er gert. Og ég hef sagt það áður og ég get ítrekað það enn, að ég tel enga goðgá að nefna erlent fjármagn í því sambandi. Ég tel það enga goðgá, svo mikilvægar eru þessar framkvæmdir fyrir allt okkar þjóðlíf og fyrir byggðina í landinu. Það eru nefnilega ekki bara framsóknarmenn, sem vilja að landið sé allt byggt, og þetta er ein leiðin til þess að viðhalda byggð í landinu. Það er að hafa samgöngukerfið líkt því sem þekkist hjá siðuðum þjóðum. En það er fjarri því að svo sé hjá okkur.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð mín fleiri. Ég hef orðið var við að þau hafa gefið tilefni til þess að menn ætla að halda fleiri ræður, og við því er þá ekkert að segja. Ég tel það mjög gagnlegt þó að það frestist eitthvað að þessi till. komist til n., því að ég held að þessar umr. um vegamál, sem hér hafa spunnist, séu ákaflega gagnlegar.