25.01.1977
Sameinað þing: 41. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1644 í B-deild Alþingistíðinda. (1321)

40. mál, lagning bundins slitlags á þjóðvegi

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Mér þykir það leitt að eins ágætur þm. og hv. þm. Ólafur G. Einarsson er skuli eiginlega vera ber að því í ræðustóli, að hann skuli ekki skilja sjálfan sig, en ætlast til þess að við skiljum hann. Hann ræddi um það að honum kæmi ekkert við hvernig vegirnir væru í Eyjafirði, það væri ekki hans mál hvernig þeir væru. En hér er hann með till. um að það eigi að leggja bundið slitlag á þessa vegi. Það skiptir engu máli hvernig þeir eru, hvort það er hægt eða ekki. (ÓE: Þetta sagði ég ekki.) Ja, flm. og ræðumaður sagði að sér kæmi ekki við og hann mundi ekki fara að hafa áhyggjur af því hvernig vegirnir væru í Eyjafirði. Hins vegar voru þær umr. sem hv. ræðumaður gat um á milli okkar Magnúsar Jónssonar, ekki um vegina í Eyjafirði. Þær voru um allt aðra vegi, þannig að þar brestur hann minni. Þetta var um vegi á Tjörnesi á þeim tíma, þó að það skipti ekki meginmáli.

En það, sem er kjarni þessa máls, er hvað á að ganga fyrir í vegagerð. Það er kjarninn. Á að laga þá vegi, sem verstir eru, þannig að eðlileg umferð komist um þá, eða á það að sitja fyrir að setja bundið slitlag á vegi sem þegar eru uppbyggðir, ef hægt er að setja bundið slitlag á þá? Það er um þetta sem við erum að ræða.

Ég hef ekki haldið því fram að það sé ekki nauðsyn, heldur þvert á móti hef ég undirstrikað að það sé brýnt verkefni líka að setja bundið slitlag á vegina. En hitt er bara enn þá brýnna. Og ég vil endurtaka það sem ég sagði áðan, að ef ekki kemur till. um hvernig eigi að gera þetta, því að það þýðir ekki að segja að það eigi að taka úr Vegasjóði fjármagn, þá hlýtur það að verða á kostnað annarra framkvæmda. Formaður fjh.- og viðskn. Nd. er meiri snillingur í fjármálum heldur en ég held að hann sé ef hann getur notað sömu krónuna til margra verkefna. A. m. k. kann ég það ekki.

Hitt er svo annað mál, og um það er ég honum sammála, að það þarf að gera átak í vegunum, það þarf líka að hraða þessum framkvæmdum og það verður að sinna þörfum fólksins. Það þýðir ekki að segja hér í ræðustól að menn vilji að landið sé allt byggt. Menn verða að sýna það og ekki vinna gegn því. Ég tel að menn vinni gegn því ef menn reyna ekki að skapa svipaða lífsaðstöðu um landið allt, og vegakerfið er sannarlega ekki minnsti þátturinn í þeirri viðleitni, þannig að það þýðir ekki fyrir menn að segja að við viljum ekki bæta aðstöðuna. Við viljum ekki bæta aðstöðu þeirra sem hafa hana besta og láta það ganga fyrir, þan þýðir ekki. Menn verða að sýna slíkt í verki með því að bæta aðstöðu þeirra sem verst eru settir. Ég tók Eyjafjörð sem dæmi, af því að það er stærsti staðurinn utan Faxaflóasvæðisins, til þess að sýna að t. d. þar eru aðeins 3 km sem væri hugsanlegt að setja bundið slitlag á. Og ég hefði haft gaman af því að hv. þm. Ólafur G. Einarsson færi með mér norður í land og kæmi þar á fundi og spyrði fólkið, hvað eigi að sitja fyrir í vegagerð. Ég hefði gaman af því. Ég veit hvaða svör hann fengi.