26.01.1977
Neðri deild: 42. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1645 í B-deild Alþingistíðinda. (1325)

146. mál, tékkar

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Frv. þetta til breyt. á lögum nr. 94 1933, um tékka, er flutt að till. n. sem starfað hefur frá því á s. l. vetri að því verkefni að gera till. um breytta og bætta skipan tékkaviðskipta. Nefnd þessi hefur nýlokið störfum, en hún var skipuð fulltrúum dómsmrn., viðskrn., Seðlabankans, viðskiptabankanna og Sambands ísl. sparisjóða. Í áliti n. eru ýmsar till. varðandi tékka og meðferð þeirra í innlánsstofnunum, og felast aðaltill. n. í þeim heildarreglum um tékkameðferð sem nú eiga að vera komnar til framkvæmda.

Frv. þetta er einn þáttur í þeirri endurskoðun tékkamála sem unnið hefur verið að undanfarið. Ástæðan til þess, að tékkamálin hafa verið tekin til athugunar nú, er sú mikla tékkanotkun og ég held að það sé óhætt að segja tékkaóreiða sem þróast hefur hér á landi undanfarin ár. Er óhætt að segja að í verulegt óefni hafi verið komið. Með breyttri meðferð þessara mála standa vonir til að unnt verði að draga verulega úr þeirri misnotkun á tékkum, sem átt hefur sér stað, og koma á bættri skipan í þeim málum.

Um þetta frv. er það að segja, að gildandi tékkalög frá árinu 1933 hafa aldrei haft að geyma refsiákvæði. Hefur verið refsað fyrir tékkamisferli eftir 248. gr. almennra hegningarlaga þegar auðgunartilgangur hefur verið sannaður, annars eftir 261. gr. almennra hegningarlaga. En nú þykir rétt að taka í lög refsiákvæði sem tengd eru sjálfum tékkalögunum, og ætti það að geta spornað við misnotkun tékka og auðveldað dómstólum að koma lögum yfir þá sem brotlegir gerast með því að gefa út innistæðulausa tékka.

Samkvæmt þessu frv. skal refsa með sektum eða allt að 3 mánaða fangelsi, nema þyngri refsing liggi við samkv. almennum hegningarlögum, þeim sem gefur út tékka án þess að innistæða sé fullnægjandi á reikningi hans hjá greiðslubankanum eða sem án sérstakrar ástæðu afturkallar tékka eða ráðstafar innistæðu og hindrar á þann hátt að tékki, sem hann hefur gefið út, greiðist við sýningu innan sýningarfrests.

Refsiramminn, sem hér er settur, er nokkuð þröngur: hámarksrefsing 3 mánaða fangelsi, en gert er ráð fyrir að beitt verði ákvæðum almennra hegningarlaga ef þyngri refsing liggur við broti.

Ég sé, herra forseti, ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta frv., en vísa til grg. sem fylgir því. Ég leyfi mér að leggja til að því verði að lokinni þessari 1. umr. vísað til 2. umr. Tékkalög í heild eiga auðvitað heima í fjh.- og viðskn., en þar sem hér er einvörðungu um refsiákvæði að ræða þykir mér eðlilegast að leggja til að þessu frv. verði vísað til allshn.