26.01.1977
Neðri deild: 42. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1646 í B-deild Alþingistíðinda. (1326)

146. mál, tékkar

Gylfi Þ. Gíslason:

Hæstv. forseti. Þar sem ég heyri að hæstv. ráðh. leggur ekki til að þetta frv. fari til þeirrar n., sem ég á sæti í í þessari hv. d., þ. e. a. s. fjh.- og viðskn., sem ýmsir mundu þó hafa talið eðlilegast, heldur til allshn. — (Gripið fram í.) — nei, nei, sem ég út af fyrir sig skal ekkert hafa við að athuga, — þá vil ég ekki láta hjá líða að það komi fram, að ég fagna framkomu þessa frv. og tel hér bætt úr mjög alvarlegum galla á hinum gildandi og gömlu tékkalögum. Það hefur frá upphafi verið mikill ágalli á þeim, að það skuli hafa skort ákvæði um refsingar sem bætt yrði úr með samþykkt þessa frv., og tel ég einsýnt að þetta frv. eigi að ná afgreiðslu þegar á þessu þingi.

En fyrst ég á annað borð er kominn í ræðustól, þá langar mig til að nota tækifærið til að spyrja hæstv. dómsmrh., hvort hann geti flutt þinginu nokkrar sérstakar fréttir af meðferð þess mikla tékkamáls sem nú er á döfinni hjá Sakadómi og orðið hefur tilefni til opinberra deilna milli tveggja aðila dómskerfisins, þ. e. a. s. setudómara í Sakadómi annars vegar og ríkissaksóknara hins vegar. Þeir hafa fleygt þessu mikla máli á milli sín opinberlega fyrir augum alþjóðar í fjölmiðlum með þeim hætti að það hlýtur að vekja tortryggni. Það er dómskerfinu til lítils sóma. Skal ég þar engan dóm um fella, hver sök á í því, þó að ég telji það vera óheiðarleika að láta ekki koma fram að viðbrögð ríkissaksóknara í þessu máli hafa fyrst og fremst vakið furðu almennings og fjölmiðla.

Nú er að sjálfsögðu ljóst að hæstv. dómsmrh. hefur enga aðstöðu til þess og honum ber ekki að hafa nokkur afskipti af því hvernig dómstólar fjalla um mál, jafnvel þó að þeir hegði sér þannig, eins og í þessu tilfeili, að fleygja máli — stóru umfangsmiklu sakamáli — á milli sín með þeim hætti að til fullkominnar vansæmdar er fyrir dómstólana í heild. Þó að mér sé ljóst að hér er ekki við hæstv. ráðh. að sakast og hann hefur enga aðstöðu til að koma í veg fyrir að embættismenn verði sér til vanvirðu á þann hátt sem hér hefur átt sér stað, þá vildi ég samt sem áður víkja að því að gefnu þessu tilefni. Þetta frv. er alls ekki óviðkomandi meðferðinni á því máli sem hér er um að ræða. En ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðh. hvort hann geti gefið hinu háa Alþ. og þar með þjóðinni nokkrar skýringar á því, hvernig stendur á þeim ósköpum sem eru að gerast í þessu máli innan dómskerfisins.