26.01.1977
Neðri deild: 42. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1647 í B-deild Alþingistíðinda. (1327)

146. mál, tékkar

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Ég held að það sé of sterkt að orði kveðið hjá hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni að embættismenn hafi orðið sér til vanvirðu í þessu máli. Það er rétt, eins og hann sagði, að dómsmrh. hefur að sjálfsögðu ekki afskipti af rannsókn máls, heldur er það saksóknari og þá dómari sem rannsakar málið.

Eins og ég hef e. t. v. sagt hér fyrir nokkrum dögum, þá var það svo, að eftir að Seðlabankinn hafði kært yfir þessum meintu brotum og ljóst var að um umfangsmikið mál var að tefla varð það að ráði samkv. ósk Sakadóms að það var skipaður sérstakur umboðsdómari, sem kallaður er, til þess að fara með rannsókn og dómsmeðferð í þessu máli. Hann tók við þessu máli, hefur unnið í því og lagt í það ákaflega mikla vinnu og haft aðstoðarmenn við það. Hann tók þann hátt upp, sem ég býst við að sumir vilji telja réttan og mikið hefur verið talað um af hálfu fjölmiðla, að meðferð þessara mála þyrfti að fara meir fram fyrir opnum dyrum, skulum við segja, heldur en gert hefur verið. Nú er það svo samkvæmt reglum íslenskra laga auðvitað, að dómsmeðferð máls fyrir dómi fer fram í heyranda hljóði. En hins vegar hlýtur annað að gilda um rannsókn máls samkv. eðli málsins. En þessi umboðsdómari tók þann hátt upp að efna til blaðamannafunda og skýra frá því, hvernig hann teldi að rannsókninni miðaði áfram þá og þá, og þó auðvitað þannig að þær upplýsingar, sem gefnar voru, hlutu alltaf eðli málsins samkv. að verða ákaflega takmarkaðar.

Síðan gerist það svo að hann ákveður að skrifa ríkissaksóknara bréf, eftir að hann hafði rannsakað málið alllengi, þar sem hann gerir að sjálfsögðu grein fyrir málinu og vafalaust þeim atriðum sem hann vill benda sérstaklega á. Það var missagt hjá mér hér síðast að hann hefði birt þetta bréf, hann birti ekki bréfið í heild sinni, en á blaðamannafundi skýrði hann að nokkru leyti frá efni þess, ábendingu hans um það að rannsóknin væri með tilteknum hætti takmörkuð.

Þegar þetta var komið opinberlega fram og ríkissaksóknari svaraði svo þessu bréfi, þá lét hann fjölmiðlum í té afrit af bréfi sínu, þar sem hann féllst ekki á sjónarmið umboðsdómarans.

Eftir það skrifaði umboðsdómari nýtt bréf til saksóknara, þar eð hann taldi m. a. að ríkissaksóknari hefði ekki skilið réttilega viss atriði í sínu bréfi. Það bréf er enn til athugunar hjá ríkissaksóknara og hann hefur ekki látið frá sér fara svar við því enn. Á því stigi eru þessi mál.

Umboðsdómarinn hefur bent á að þessi rannsókn hefur orðið og mundi verða mjög kostnaðarsöm. Ég verð að segja það sem mína skoðun, að ég álít að það sé alls ekki hægt að horfa í það þó að þessi rannsókn sé kostnaðarsöm og verði kostnaðarsöm. Það verður að rannsaka þessi mál til botns. Og eins og ég gerði grein fyrir hér í umr. utan dagskrár, þá er það mín persónulega skoðun, — sem er ekkert nema mín persónulega skoðun, því það er algjörlega ríkissaksóknara að ákveða þetta, — að það eigi ekki að takmarka þessa rannsókn við neina tiltekna af þeim aðilum sem eru í kæru Seðlabankans, heldur eigi að ákæra og láta síðan dómstólana um það að sakfella eða sýkna. Það getur vel verið að niðurstaðan kynni að verða sú, að einhverjir af þeim yrðu sýknaðir. En ég hygg að það sé ómögulegt að eyða tortryggni í þessu máli nema það séu dómstólarnir sem fjalli um það og þeir skeri úr um það hverjir eru saklausir, ef einhverjir eru, eða hverjir hafi — ætti líklega að segja — haft heimildir þær fyrir hendi sem þeir telja að þeir hafi haft til að gefa út tékka. Hið formlega brot liggur, að ég held, raunverulega fyrir, að þessir aðilar hafa samkv. könnun Seðlabankans gefið út innistæðulausa tékka. En deilt kann að vera um það, hvort þeir hafi haft heimild til þess frá hlutaðeigandi viðskiptabanka að gefa út meira en þeir höfðu samkv. gögnum bankans heimild til.

Það er því miður hætt við því að þessi rannsókn verði alllöng. Þetta er mjög umsvifamikið mál og hefur verið tekið til rannsóknar raunar á nokkru víðtækari grundvelli en upphafleg kæra Seðlabankans fjallaði um, að ég ætla.

Ég get ekki upplýst þetta frekar og get ekki gefið annað svar við fyrirspurn hv. þm. en þetta, að á þessu stigi er málið hjá ríkissaksóknara og hann mun væntanlega áður en langur tími líður svara bréfi umboðsdómarans og leggja fyrir hann sín sjónarmið um rannsóknina. Umboðsdómari er auðvitað háður fyrirmælum ríkissaksóknara að verulegu leyti, en hins vegar auðvitað jafnóháður dómsmrn. eins og hver annar dómstóll og algjörlega sjálfstæður og fer með málið eins og reglulegur héraðsdómari mundi gera.