26.01.1977
Neðri deild: 42. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1664 í B-deild Alþingistíðinda. (1333)

146. mál, tékkar

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Það er sagt um Marka-Leifa að hann hafi metið allt á vogarskál sauðkindarinnar, enda ósköp eðlilegt þar sem það hafði verið hans áhugamál um langa ævi. Það vill oft verða svo með jafnvel ágætustu menn, sem hafa langa ævi barist harðri baráttu í stjórnmálum, að þeir meta allt á vogarskál flokkapólitíkurinnar. Þegar þeir heyra vikið að máli, þá spyrja þeir: Er þetta minn flokkur? Er þetta einhver annar flokkur? Þá fyrst þegar þeir heyra víkið að manni, þá spyrja þeir: Er þetta framsóknarmaður? Er þetta sjálfstæðismaður? Er þetta alþýðubandalagsmaður? Er þetta einhver annars flokks maður? Þeir sjá þetta allt saman í lituðum flokkspólitískum gleraugum og geta enga niðurstöðu aðra dregið af málflutningi eða mönnum en að annaðhvort hljóti þeir að vera flokkslegir samhaldsmenn eða flokkslegir andstæðingar. Maður er metinn eftir því hvar hann stendur í stjórnmálaflokki. Mál er metið eftir því hvort það sé líklegt til þess að verða einum stjórnmálaflokki til framdráttar eða öðrum andsnúið o. s. frv. o. s. frv.

Þetta held ég að hv. þm., sem talaði hér síðast, hafi gert sig sekan um, því að það er mikill misskilningur ef þessi hv. þm. heldur að öll sú gagnrýni, sem komið hefur fram, ekki bara frá mér, heldur frá fjölmörgum öðrum mönnum, hv. þm. í öllum flokkum og líka flokksleysingjum, stafi bara af einhverri sérstakri óvild út í Framsfl. eða forustumenn hans. Ég velt t. d. ekki til þess að ég eigi sökótt við nokkurn mann í Framsfl., og ég vona að ég geti metið framsóknarmenn ekkert síður en aðra menn og tel mig gera það. Ég veit ekki til þess að ég eigi nokkurn skapaðan hlut sökótt t. d. við formann Framsfl., hæstv. dómsmrh. Ástæðan fyrir því að ég sný mér til hans með málflutning minn og fsp. í dómsmálum, er ekki sú að hann sé framsóknarmaður sem ég vil koma á höggi, heldur er það einfaldlega vegna þess að hann situr í sæti dómsmrh. og er æðsta yfirvald dómsmála á Íslandi og á sem slíkur að svara fsp. alþm. um þau mál sem heyra undir hans rn. Það er ekkert annað, sem að baki býr hjá mér, heldur en það að ég er að snúa mér til þess manns til þess embættismanns og stjórnmálamanns sem eðlilegast er að sé til forsvara fyrir slíkum málum. Og ég held að hv. þm. Þórarinn Þórarinsson geti leitað með logandi ljósi í öllum mínum ræðum og öllum mínum skrifum og hvergi fundið svo mikið sem ýjað að því að ég sé að bera Framsfl. það á brýn eða einstökum framsóknarmönnum að þeir séu eitthvað verri menn en aðrir menn eða beri frekar en aðrir ábyrgð á því ófremdarástandi sem ríkir í dómsmálum á Íslandi. Ég hef þvert á móti haldið fram að í því séum við allir sekir, þ. á m. allir alþm., vegna þess að við höfum vanrækt það hver og einn, alveg laust við það í hvaða flokki hann er, að sinna þessum málum og fylgjast með þeim fyrr en komið er svo sem komið er. Þá fyrst vaknaði Alþ. til áhuga um þessi mál, og þá fyrst vaknaði almenningsálitið líka.

Það er mesti misskilningur hjá hv. þm. Þórarni Þórarinssyni ef hann heldur að gagnrýnin á dómsmálin sé runnin undan rifjum einhverra hatursmanna Framsfl. eða óvildarmanna hæstv. dómsmrh. Þetta er algjörlega út í hött og lýsir svo gömlum og úreltum viðhorfum að ég trúi því ekki að slíkar afsakanir séu þess eðlis að almenningur fáist til að leggja trúnað á að það eina, sem vaki fyrir okkur alþfl.- mönnum sem höfum gagnrýnt þetta, sé að reyna að upphefja okkar flokk, en niðurlægja Framsfl. — þvert á móti. Víð höfum engan áhuga á því að beita dómsmálunum sem einhverju flokkspólitísku máli okkur til ávinnings, en framsóknarmönnum til tjóns. Og við höfum síður en svo staðið á móti því eða fyllst flokkslegri afbrýðisemi, sem hv. þm. Þórarinn Þórarinsson hlýtur að þekkja manna best, þó að menn úr öðrum flokkum, jafnvel menn sem við höfum ekki hugmynd nm í hvaða flokkum ern, hafi tekið undir gagnrýnina með okkur.

Ég held að hv. þm. Þórarinn Þórarinsson ætti ekki að leita alltaf einföldustu skýringa og einföldustu lausna í anda gamallar og úr sér genginnar flokkapólitíkur þegar hann þarf að svara fyrir einhverja sem hann telur sig þurfa að svara fyrir.

Það er einnig algerlega rangt að Alþfl. hafi í ársbyrjun 1976 tekið einhverja þá ákvörðun að snúast á móti hæstv. dómsmrh. eða ástandi dómsmála í landinu. Um þetta hefur aldrei verið tekin nein ákvörðun af Alþfl., hvorki formleg né óformleg. Staðreyndin er önnur, eins og hv. þm. man sjálfsagt eftir, en vill ekki minnast vegna þess að það kemur ekki heim og saman við hans flokkspólitísku skýringar. Staðreyndin er sú, að það var byrjað að skrifa um þetta margnefnda Klúbbmál mörgum mánuðum, einu og hálfu ári áður en þeir atburðir gerðust sem urðu hér á Alþ. í upphafi árs 1976. Ég skal fúslega skýra honum frá hvað olli því, að ég tók þá ákvörðun að biðja dómsmrh. um þau svör sem ég bað hann um þá. Fúslega skal ég skýra það fyrir honum. Það var í framhaldi af grein sem Vilmundur Gylfason skrifaði í dagblaðið Vísi, minnir mig, og hafði áður skrifað í önnur blöð og hafði áður rætt í sjónvarpinu og var því ekkert nýmæli. Þá boðaði dómsmrn. að það mundi gefa út sérstaka grg. um málið og skýra afstöðu sína þar sem öll málsatvik yrðu upplýst. Ég beið eftir þessari grg., sjálfsagt jafnspenntur eins og hver annar áhugamaður um stjórnmál og þjóðfélagsmál. En mér brá nokkuð illa í brún þegar ég sá þessa grg., vegna þess að þar kom í ljós að af einhverjum orsökum — ég ætla ekki að koma með neina útskýringu á þeim, hvorki flokkspólitíska útskýringu né aðrar — birti dómsmrn. ekki í þessari grg. sinni ýmis mjög mikilvæg gögn sem ég vissi þó um að dómsmrn. hafði og ég hafði sjálfur með höndum. Mér fannst þess vegna ástæða til þess að láta þessi gögn koma fram og spyrja hæstv. dómsmrh. í framhaldi þeirra spurninga sem ég spurði hann um á Alþ. í fyrra. En að þetta hafi verið einhver flokkspólitísk ákvörðun Alþfl., tekin til þess að hnekkja Framsfl., er gersamlega út í hött.

Ég held að kjósendur séu fyrir löngu búnir að fá sig fullsadda af því þegar flokkarnir standa upp hver um annan þveran og afsaka einhverja hluti, sem hafa gerst undir þeirra stjórn, með því að svona hafi þetta verið undir stjórn hins flokksins líka. Hvaða afsökun er það t. d. fyrir Alþfl., ef einhver flokksmaður Alþfl. hefur gerst sekur um einhvern verknað og á að nota það til þess að koma Alþfl. illa, — hvaða afsökun er það þá fyrir okkur að geta bent á að fyrir einu eða tveimur árum hafi einhver flokksmaður Framsfl. gert þetta líka? Er þetta einhver afsökun? Halda menn að þetta sé haldbær afsökun fyrir almenning á Íslandi, þó að það sé kannske haldbær afsökun fyrir þá sem lifa og hrærast í einhverju pólitísku andrúmslofti og vega og meta allt á metaskálum flokkapólitíkurinnar? Þetta er að mínu viti ekki nokkur afsökun. Það er ekki nokkur afsökun fyrir t, d. að einn flokkur hafist ekki að í vandasömum málaflokki, að hann geti bent á að annar flokkur hafi ekki gert það heldur. Þetta er afsökun sem ég vona a. m. k. að fáir þm. taki mark á og enn færri kjósendur.

Ég verð að viðurkenna eins og er, að mér kom mjög á óvart það sem hæstv. dómsmrh. skýrði frá í sambandi við hvernig aðdragandi Klúbbmálsins varð, því að ég vissi ekki betur en að rannsóknarlögreglumenn úr Keflavík hefðu komið Klúbbmálinu af stað, ef svo má segja, með því að uppgötva ólöglega áfengisflutninga til Klúbbsins eftir lokunartíma Áfengisverslunarinnar. Ég trúi því að hæstv. dómsmrh. skýri rétt frá þegar hann leiðréttir þetta. En ég vil benda á t. d. að í fyrra, þegar ég ræddi þessi mál — ekki einu sinni, heldur oft, — þá lét ég þessa getið og stóð í þessari trú. Það var ekki leiðrétt, þannig að þetta virðist tiltölulega nýlega hafa komið fram. Og ég veit ekki annað betur, þegar ég stend hér nú, heldur en að fyrir liggi undirritaður vitnisburður þessara rannsóknarlögreglumanna um að einmitt svona hafi þetta gerst. En e. t. v. hafa þeir farið þar rangt með og leiðrétt sinn vitnisburð síðar.

Það breytir samt sem áður ekki því, að þeir flutningar, sem áttu sér þarna stað á ómerktum flöskum til Klúbbsins, hefðu ekki getað gerst nema því aðeins að starfsmenn ríkisins hefðu átt hlut að máli. Það er víst rétt að það varð niðurstaða rannsóknarinnar á meintri hlutdeild þeirra, eins og hv. þm. Þórarinn Þórarinsson mun hafa orðað það, að þeir þyrftu ekki endilega að hafa vitað hvert þetta áfengi fór. Það má vel vera að það sé rétt. En ég verð að eiga það við sjálfan mig að ég hugsi sem svo að þegar viku eftir viku kemur innkaupastjóri frá ákveðnu fyrirtæki, sem árum saman hefur skipt við ákveðna ríkisverslun fyrir þetta fyrirtæki, og kemur jafnvel í merktri bifreið eða bifreið sem hann hefur árum saman eða a. m. k. mánuðum saman notað til flutnings á vöru fyrir þetta fyrirtæki, — þegar þessi innkaupastjóri kemur til ríkisverslunarinnar til þess að kaupa stóra skammta af áfengi, þá mundi mér nú finnast það ansi óeðlilegt, svo ekki sé meira sagt, að starfsmenn verslunarinnar skuli ekki hafa a. m. k. reynt að halda uppi spurnum um það, hvort þessi ákveðni innkaupastjóri væri að kaupa allt þetta magn fyrir sjálfan sig eða hvort hann væri að kaupa fyrir sitt fyrirtæki. Ég vil enn fremur vekja athygli á því, að það væri e. t. v. ástæða til að kanna hvernig á því stendur að hið svonefnda víneftirlit, sem hefur sérstaka menn starfandi til þess að fylgjast með því að allt fari eftir settum reglum í veitingahúsum borgarinnar, ekki aðeins hvað varðar aldurstakmörk þeirra sem þar eru, heldur einnig í sambandi við vínsölu húsanna, — hvernig stendur á því að þetta eftirlit er ekki virkara en raun bar vitni, þ. e. a. s. að þetta eftirlit, sem er á ferðinni í þessum húsum svo til hvert einasta kvöld sem skemmtanir eru þar haldnar, skuli ekki í mörg ár og aldrei, svo mér sé kunnugt um, hafa orðið vart við að neitt óeðlilegt af þessu tagi hafi átt sér stað í sambandi við vínsölu hússins, jafnvel þó að það hefði komið út úr athuguninni að það hefði ekki einu sinni verið reynt að fara leynt með þessi mál. Ómerktu flöskurnar stóðu í öllum börum hússins, fyrir augum allra þeirra sem kærðu sig um að skoða.

Ég tel að þarna sé atriði sem mig mundi langa til að fá skýringu á.

Hæstv. dómsmrh. sagði áðan að ég færi ekki rétt með hvað komið hefði fram í bréfi vararíkissaksóknara 23. okt. 1972. Það vill nú svo vel til að ég er með bréfið hér í þingtíðindum og las það upp í fyrra. Þar kemur m.a. fram að ríkisendurskoðandi og skattrannsóknarstjóri hafi talið að komin væru fram veigamikil gögn sem bentu til þess að upplýst yrðu í málinu ekki aðeins veruleg söluskattssvik, eins og rannsókn hefði farið fram á, heldur einnig mjög ófallnægjandi launaframtöl. Mér er ekki kunnugt um að rannsókn hafi verið framkvæmd á því eða henni hafi verið lokið. Enn fremur hafi verið um að ræða verulega bókhaldsóreiðu svo og brot á ákvæðum 1. mgr. 3. gr. reglugerðar um sölu og veitingar áfengis. Í því sambandi beinist rannsóknin einnig að því, hvort um hafi verið að ræða brot í opinberu starfi af hálfu tiltekinna starfsmanna Áfengisverslunarinnar. Þá er og líklegt, segir vararíkissaksóknari, að rannsóknin muni beinast að því að kanna hvort reglur hlutafélagalöggjafar hafi verið haldnar við stofnun og rekstur Bæjar hf. Mér er ekki kunnugt um það heldur, hvort sú rannsókn hafi farið fram. Hins vegar er fullyrt við mig af mönnum, sem eiga að vera málinu kunnugir, að það hafi ekki verið gert. Þá er einnig fullyrt við mig af mönnum, sem eiga að vera málinu kunnugir, að það hafi verið óskað eftir því sérstaklega, m. a. af skattrannsóknarstjóra, að rannsóknin á sölu áfengis á vegum Klúbbsins næði aftur til ársins 1966. En hins vegar kemur það fram í birtingu ákæruskjalsins að rannsóknin hefur ekki náð lengra aftur en til ársins 1971. hvað sem veldur.

Hitt er aftur á móti annað mál, að mér er það fyllilega ljóst, eins og ríkissaksóknari hefur raunar sjálfur tekið fram, að aðstaða rannsóknaraðila á Íslandi hefur verið þannig, hvort sem hún verður það lengur eða ekki, að þessir rannsóknaraðilar hafa orðið að láta sér nægja í stórum málum að taka aðeins fyrir litla þætti, kannske stórvægilegustu þættina, en ekki alla þætti þeirra mála sem þyrfti að rannsaka og rannsókn er nauðsynleg á. Ég trúi því, að hæstv. dómsmrh. sé allur af vilja gerður til að bæta úr þessari starfsaðstöðu rannsóknaraðila hér á Íslandi. Ég trúi ekki öðru en hann sé sammála mér í því, að það sé að sjálfsögðu ekki æskilegt fyrirkomulag, ef fjársvikamál séu stór og mikil, að þá sé dómskerfið ekki betur búið en svo að það verði að láta sér nægja að rannsaka aðeins hluta af meintum brotum, en verði að sleppa rannsókn á öðru vegna þess að það komist ekki yfir vegna mannafla og aðstöðuskorts að fylgja málinu til fulls eftir. Ég vil trúa því að hæstv. dómsmrh. sé sömu skoðunar og ég um að þetta sé óhæft og að það starf, sem hann hefur hafið með stuðningi okkar þm. Alþfl. öðrum þm. fremur hér á Alþ. til þess að byggja upp og bæta aðstöðu rannsóknaraðila og dómsaðila hér á Íslandi, sé hafið m. a. í því skyni að bæta úr þessum ágöllum.