25.10.1976
Sameinað þing: 8. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í B-deild Alþingistíðinda. (134)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þegar ríkisstjórnin var mynduð síðsumars 1974 tók hún við óvenju erfiðum efnahagsvanda. Við þessum vanda var snúist hiklaust. En meðan beðið var árangurs fyrstu aðgerða versnuðu ytri skilyrði þjóðarbúsins enn vegna efnahagssamdráttarins í heiminum. Hér hefur því verið við ramman reip að draga fyrstu tvö starfsár ríkisstj. Það er fyrst á þessu ári að rofar til.

Reynsla undanfarinna tveggja ára sannar, að sú efnahagsstefna, sem ríkisstj. markaði í upphafi og hafði að leiðarljósi, að draga úr viðskiptahallanum við útlönd og úr hraða verðbólgunnar, án þess að gripið væri til svo harkalegra aðgerða að atvinnuöryggi landsmanna væri teflt í hættu, var tvímælalaust rétt. Þessari stefnu aðlögunar í áföngum að breyttum ytri skilyrðum þjóðarbúsins hefur verið staðfastlega fylgt, en hún hefur óneitanlega kostað skuldasöfnun við útlönd.

Það er því ástæða til að staldra við og huga að, hvernig tekist hefur á þessu ári að ná þeim þremur meginmarkmiðum stefnunnar í efnahagsmálum sem ríkisstj. setti:

Að draga verulega úr viðskiptahallanum við útlönd.

Að hægja á hraða verðbólgunnar.

Að tryggja fulla atvinnu í landinu.

Útlit er fyrir að viðskiptahallinn við útlönd nú í ár verði um 4–5% af þjóðarframleiðslunni, eða rétt um 10 milljarðar króna. Þetta er reyndar heldur betri árangur en við var búist í fyrra, en þá var að því stefnt að koma viðskiptahallanum úr tæplega 12% af þjóðarframleiðslu 1974 og 1975 í 6% á þessu ári. Hér njótum við vitaskuld hagstæðari þróunar viðskiptakjara en menn þorðu að vona fyrir ári.

Frá byrjun til loka ársins 1974 var hækkun framfærslu- og byggingarkostnaðar 53–60%, en á þessu ári 24–30%. Nokkuð hefur þannig dregið úr hraða verðbólgunnar. Hér miðar í rétta átt, en allt of hægt.

Atvinnuástand hefur haldist gott allt þetta ár. Hrakspár um atvinnuleysi hafa hvergi ræst. Hitt kann að vera sönnu nær, að sums staðar gæti enn umframeftirspurnar eftir starfskröftum.

Horfur virðast á að þjóðarframleiðslan verði litlu minni í ár en í fyrra og að þjóðartekjur aukist nokkuð vegna áhrifa batnandi viðskiptakjara.

Þegar á heildina er litið, verður því ekki annað sagt, en að stefnan í efnahagsmálum hafi borið verulegan árangur á þessu ári.

Á næstunni verðum við að leggja allt kapp á að ná fullnægjandi árangri í að draga verulega úr verðbólgu og jafna viðskiptaballa, því að án þess verður atvinnuöryggi ekki tryggt til frambúðar.

Þegar horft er fram til næsta árs virðist nú heldur bjartara fram undan en verið hefur. Verslunarárferði hefur snúist okkur í hag á þessu ári og útflutningsverðlag hækkað meira en innflutningsverðlag, en áframhald þeirrar þróunar er þó í óvissu. Og þrátt fyrir þann bata, sem orðinn er, er enn langt frá því að við njótum sömu viðskiptakjara og á árunum 1973 og 1974. Einkum erum við langt undir viðskiptakjaratindinum sem náð var um áramótin 1973–74 og án efa réð miklu um það uppþot í innlendu verðlagi sem á eftir fylgdi og við súpum enn seyðið af. Minnugir þeirrar reynslu munum við nú fara okkur hægt því fljótt skipast veður í lofti, enda blasir við tvíþættur vandi vaxandi skuldabyrðar við útiönd og takmarkaðs fiskafla vegna ástands fiskstofna.

Skýrslur og álitsgerðir fiskifræðinga okkar hafa verið þjóðinni holl aðvörun. Þær hafa minnt okkur á að bjartsýnisorð aldamótaskáldsins: „auðlindir sjávar ótæmandi bruna“ — eiga því aðeins við að ekki sé of nærri þeim gengið.

Á síðustu mánuðum hafa komið fram nýjar upplýsingar um styrk þorskstofnsins, einkum árgangsins 1972, og góðan árangur klaksins nú í ár. Þetta dregur nokkuð úr svartsýni manna um viðgang stofnsins, en breytir þó ekki meginatriði málsins, þ.e. að gæta verður fyllstu varúðar í veiðisókn á næstu árum til þess að viðkomu þorskstofnsins sé ekki stefnt í hættu. Þessar aðstæður setja því útflutningsframleiðslu okkar skorður á næsta ári.

Þegar á heildina er litið, virðist þó ástæða til að ætla að þjóðarframleiðsla og tekjur muni aukast lítið eitt á næsta ári, e.t.v. um 2 af hundraði. Þessi afturbati, sem hófst á þessu ári, gefur þó ekki svigrúm til neinna stórbreytinga í þjóðarútgjöldum. Það er stefna ríkisstj., að hlutur samneyslu eigi ekki að aukast á næsta ári og að dregið verði úr opinberum framkvæmdum í heild þar sem stórum áfanga orkuframkvæmda lýkur. Innan þeirra takmarka, sem viðskiptajöfnuðurinn setur, ætti að gefast svigrúm til nokkurrar, en þó afar takmarkaðrar aukningar almennra útgjalda einkaaðila á næsta ári. Mikil nauðsyn er að menn geri sér ljóst hve hér er úr litlu aukreitis að spila og hve brýn þörf þjóðarinnar er á því að mið sé tekið af raunverulegum aðstæðum við kjaraákvarðanir næsta árs, en ekki verðbólgudraumórum.

Afkoma fiskveiða hefur verið afar erfið undanfarin tvö ár, en fer þó heldur batnandi á þessu ári. Við ríkjandi ástand fiskstofna er ekki heldur við því að búast að um arðsaman rekstur geti verið að ræða fyrir allan okkar stóra fiskiflota. Við verðum að horfast í augu við það að sóknin er of kostnaðarsöm miðað við skynsamlega nýtingu fiskstofna.

Hagur fiskvinnslunnar er skárri en veiðanna og heldur rýmri í ár en í fyrra, en gerir þó ekki betur en standa í járnum.

Að undanförnu hefur mönnum orðið tíðrætt um verðhækkanir á útflutningsafurðum okkar og batnandi viðskiptakjör. Þetta eru vissulega góð tíðindi, en því má ekki gleyma, að þessum ávinningi hefur jafnóðum verið veitt út til þeirra, sem við sjávarútveg starfa, og til annarra launþega, með hækkun fiskverðs og með almennum launahækkunum.

Vegna þess að fiskverð hér innanlands hefur jafnan hækkað til jafns við kaup í landi og fiskverð hækkaði í febrúar s.l. verulega vegna sjóðakerfisbreytinga hafa fiskverðshækkanir í nokkrum greinum verið ákveðnar í von um óorðna hækkun afurðaverðs á útflutningsmarkaði. Þetta hefur orðið að gerast með bakábyrgð verðjöfnunarsjóðs, síðast 1. okt. s.l. Þessar ráðstafanir hafa verið nauðsynlegar til að tryggja tekjur sjómanna. Litlar sem engar verðhækkanir hafa orðið á frystum afurðum síðan í júlí en þó allra síðustu dagana nokkrar, og verðlagsþróun á næstunni er mjög óviss. Því er nú nauðsynlegt að rasa ekki um ráð fram, en reyna að varðveita það sem þegar hefur áunnist, minnugir þess, að fiskverðshækkanir innanlands, sem ekki eru byggðar á traustum markaðsforsendum erlendis, fela í sér hættu á framhaldandi verðbólgu.

Kjarasamningar þeir, sem gerðir hafa verðir á árunum 1975 og 1976, hafa falið í sér viðurkenningu launþegasamtakanna á því, að ráðstöfunarfé þjóðarinnar minnkaði verulega á árinu 1974 og 1975.

En Reynar er alls ekki nægilegt að líta eingöngu til minnkandi þjóðartekna og versnandi viðskiptakjara til þess að fá skýringu á „kjaraskerðingunni“ svonefndu, því að mergurinn málsins er sá, að með kjarasamningunum 1974 var stefnt langt út yfir mörk framleiðslugetu þjóðarbúsins þótt ekkert hefði á bjátað. Þótt verslunarárferði þjóðarinnar hafi skánað aftur megum við ekki láta það henda okkur að fara að eltast á ný við villuljós.

Sannleikurinn er sá, að viðskiptakjör þjóðarinnar eru nú svipuð og raungildi þjóðartekna á mann, líkt og var 1971–72. Sama máli gegnir um kaupmátt kauptaxta og raunverulegra tekna almennings. Þannig hefur náðst sæmilegt samræmi á árinu 1976.

Auðvitað hefur sitthvað raskast í launahlutföllum í umróti síðustu ára, og á næsta ári þarf enn að leita leiða til að ná sanngjörnum launahlutföllum og tekjuskiptingu í þjóðfélaginu. Beita þarf skatta- og tryggingakerfinu í þessu skyni, umræða um hana (útvarpsumr.). 152 en allt innan þess ákveðna ramma sem framleiðslugeta og jafnvægi í utanríkisverslun setur. Reyndar fela gildandi kjarasamningar þegar í sér nokkra kaupmáttaraukningu fyrir nokkrar stéttir þegar kemur fram á næsta ár, þannig að fyrir fram hefur verið ráðstafað nokkru af því svigrúmi sem fyrir hendi kann að vera. Aðalatriðið er að reyna að ná settu marki í kjaramálum með sem minnstum verðhækkunum.

Við höfum oft brennt okkur á því soðinu að ætla allir í senn og þegar í stað að njóta bættra kjara vegna bættra ytri skilyrða þjóðarbúsins. Nú er brýn þörf á að þjóðin skilji að við erum sem þjóðarheild búin að taka út forskot á sæluna og eigum því lítið inni. Því reynir nú á raunsæi okkar allra.

Við ríkjandi aðstæður í íslenskum efnahagsmálum er sérstök þörf að meta þjóðhagshorfur nokkur ár fram í tímann svo unnt sé að skoða í lengra tímasamhengi ákvarðanir sem teknar eru frá ári til árs. Nú virðast þau straumhvörf í ytri skilyrðum þjóðarbúsins að tækifæri gæti gefist til að vinna að skipulags- og framfaraverkefnum sem að hluta hafa ýst til hliðar í viðureigninni við þrálátan efnahagsvanda síðustu árin og í baráttunni fyrir yfirráðum okkar yfir fiskimiðunum við Ísland.

Ríkisstj. hefur falið Þjóðhagsstofnun að vinna að könnun á þjóðhagshorfum næstu 4 ár í samvinnu við aðrar opinberar stofnanir á sviði efnahagsmála og aðra aðila. Að því er stefnt að skýrsla um niðurstöður liggi fyrir á næsta ári. Þessa fyrirhuguðu könnun á þjóðhagshorfum næstu ára ber ekki að skoða sem valdbundna, miðstýrða framkvæmdaáætlun stjórnvalda, heldur sem viðmiðun og undirstöðu stefnuákvarðana í efnahagsmálum hverju sinni — jafnt stjórnvalda sem aðila vinnumarkaðarins og annarra. Meginþættir þessarar könnunar verða tveir: annars vegar mat á útflutnings- og framleiðslugetu og hins vegar á útgjaldaþróun.

Útflutningsáætlun sjávarútvegs og stjórn fiskveiða verður að reisa á fiskifræðilegu áliti á veiðiþoli fiskstofnanna, en einnig á efnahagslegum og félagslegum aðstæðum í landinu. Lausn landhelgismálsins gefur okkur miklu meira vald á þessu máli og skýrari forsendur til þess að meta efnahagsleg áhrif mismunandi fiskverndunarleiða.

Skipting þjóðarútgjalda milli hins opinbera og einkaaðila á næstu árum ræður miklu um stefnuna í skattamálum. Einnig er mikilvægt að tryggt verði nægilegt þjóðhagslegt svigrúm til þess að byggja upp nýjar atvinnugreinar og efla þær sem fyrir eru til undirstöðu framtíðarhagsældar í landinu.

Þótt nokkuð hafi dregið úr hraða verðbólgunnar á þessu ári, verður hann engu að síður tvöfalt til þrefalt meiri en í flestum nálægum löndum. Verðbólgan er tvímælalaust eitt alvarlegasta efnahagsvandamál, sem þjóðin á við að stríða. Verðbólga eins og við höfum reynt gerir margvíslegt tjón. Peningar missa ekki aðeins gildi sitt sem gjaldmiðill, heldur sem mælikvarði á afköst og árangur af starfi manna.

Verðbólgan felur í sér hættu á misskiptingu eigna og tekna og verðlaunar spákaupmennsku fremur en raunverulega verðmætasköpun í þjóðfélaginu. Með þessum hætti slævir verðbólgan siðgæðisvitund þjóðarinnar og getur brenglað réttlætiskennd einstaklinga og hópa. Það kann að vera að sá skortur á siðferðilegu viðhorfi í fjármálalegum viðskiptum, sem að undanförnu hefur komið fram í ýmsum myndum sem nú eru í umfangsmikilli rannsókn, eigi sér einhverjar rætur í því tjái og tundri sem fylgir mikilli verðbólgu. Það er því ekki eingöngu efnahagsleg nauðsyn fyrir okkur að komast út úr vítahring verðbólgunnar, heldur einnig siðferðileg nauðsyn.

En vissulega er lausn verðbólguvandans ekki fólgin í einu pennastriki. Þetta er vandamál þess eðlis, að þjóðin öll, hvert heimili, hver þegn, verður að leggja sitt af mörkum. Hér þarf sérstaklega sameiginlegt átak margra hagsmunahópa.

Ríkisstj. hefur því skipað nefnd til þess: Að kanna vandlega horfur í verðlagsmálum á næstu missirum og greina ástæður þeirra verðhækkana, sem orðið hafa að undanförnu, og orsakir verðbólguþróunar hér á landi undanfarin ár. Að gera tillögur um ráðstafanir til þess að draga úr verðbólgu. Ríkisstj. telur mikilvægt að sem flest sjónarmið komi fram í starfi nefndarinnar og gerir ráð fyrir að álit nefndarinnar og tillögur verði undirstaða umræðna á Alþingi og viðræðna ríkisstj. við aðila vinnumarkaðarins um heildarstefnu í verðlags- og launamálum.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. var ákveðið að fram skyldi fara sérstök könnun á stöðu lífeyrissjóða og lífeyrisþega.

Flestum er ljóst það misræmi sem er milli lífeyrisþega eftir því hvort þeir eiga aðild að verðtryggðum lífeyrissjóði eða ekki. Þetta misrétti ágerist þegar verðbólga eykst. Auk þess að hamla gegn verðbólgu verður að vinna að því að samræma og tryggja kjör aldraðra öryrkja. Í samræmi við samkomulag Alþýðusambands Íslands og vinnuveitenda um lífeyrismál, sem var hluti kjarasamninga á s.l. vetri, beitti ríkisstj. sér fyrir löggjöf sem veitir úrlausn til tveggja ára hjá þeim hópum eftirlaunafólks sem hafa ófullnægjandi lífeyrisrétt. Jafnframt hefur ríkisstj. skipað tvær nefndir í samræmi við þetta samkomulag til að gera tillögur um samfellt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn sem tryggi öllum lífeyrisþegum lífeyri er fylgi þróun kaupgjalds á hverjum tíma. Að því verður stefnt að nýskipan lífeyrismála taki gildi á árinu 1978.

Vonir standa nú til að fjárhagur ríkisins réttist við í ár og að grynnt verði á skuldum ríkissjóðs við Seðlabankann, m.a. vegna sérstakra aðhaldsaðgerða. Til þess að tryggja þennan árangur er nauðsynlegt að beita aðhaldi í fjármálum ríkisins á næsta ári og setur sú viðleitni mark sitt á fjárlagafrv. ársins 1977. Hæstv. fjmrh. mun gera grein fyrir því á næstu dögum.

En hægara er sagt en gert að halda hallalausum fjárlögum þegar þjóðartekjur dragast saman. Tekjur ríkissjóðs minnka þegar kaupgeta þjóðarinnar rýrnar, en ríkisútgjöldin minnka ekki sjálfkrafa. Ef dregið er um of úr ríkisútgjöldum minnka tekjur almennings enn og samdrátturinn magnast. Ég tel að í umræðum um ríkisfjármálin undanfarin tvö ár hafi ekki verið tekið sanngjarnt tillit til þessara atriða. En það dregur ekki úr því, að sérstaka áherslu ber að leggja á að aðhald í fjármálum hins opinbera er nauðsynlegur liður í viðnámi gegn verðbólgu og viðskiptahalla, eins og nú stendur á.

Á þessu hausti verða lögð fram frumvörp um breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt og stefnt að afgreiðslu þeirra fyrir áramót. Í heild er ekki reiknað með verulegum breytingum á skattfjárhæðum, en hins vegar er þessum breytingum ætlað að hafa áhrif í þá átt að skipta skattbyrðinni milli manna á sanngjarnari hátt en gildandi reglur fela í sér.

Við skattlagningu tekna hjóna er nauðsynlegt að haga skattlagningu fyrst og fremst með tilliti til fjölskylduaðstæðna. en í minna mæli eftir því hvernig tekjuöflun heimilanna er háttað, þ.e. hvort bæði hjónin vinna utan heimilis eða einungis annað þeirra. Skattalög og framkvæmd verða að tryggja jafnrétti karla og kvenna.

Við skattlagningu þeirra, sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur verður að stefna að því að skilja á milli atvinnurekandans og fyrirtækisins við skattútreikning, en einkafyrirtækin njóti síðan sömu skattkjara og önnur fyrirtæki. Þetta má gera á ýmsan veg, t.d. með því að reikna atvinnurekendum launatekjur frá eigin fyrirtæki eða með því að líta á þá úttekt eigandans eða þann lífeyri sem hann hefur notað sér og sínum til framfærslu. Hér er um hugmyndir að ræða sem ekki er auðvelt að koma í framkvæmd af tæknilegum ástæðum, en leggja verður áherslu á að finna örugga lausn.

Við breytingar á fyrningarreglum skattalaga er nauðsynlegt að endurskoða ákvæði um skattskyldu söluhagnaðar. Það er óeðlilegt að skattleggja ekki í ríkari mæli söluhagnað eigna sem fyrndar hafa verið í atvinnurekstri, og það verður að fyrirbyggja að hægt sé að selja eignir milli fyrirtækja og fyrna á ný án þess að söluhagnaðurinn sé skattlagður hjá seljanda. Þetta á við þegar eignir eða andvirði þeirra er tekið út úr atvinnurekstri án þess að aðrar eignir komi í staðinn.

Leitast verður við að samræma álagningargrunn tekjuskatts og útsvars með það fyrir augum að nálgast skatt á brúttótekjur.

Nauðsynlegt er jafnhliða að samræming sé í framkvæmd skattalaga alls staðar á landinu. Á næstunni þarf að taka ákvarðanir um lækkuð aðflutningsgjöld og söluskatt af vélum og tækjum til iðnaðar til þess að efla samkeppnisstöðu hans, en þessar breytingar gætu falið í sér einhvern tekjumissi fyrir ríkissjóð.

Því er haldið fram, að fiskiskipafloti landsmanna sé of stór miðað við hagkvæma nýtingu fiskstofna innan 200 mílna markanna. því er jafnframt haldið fram, að nærri beitarþoli landsins sé gengið í stórum landshlutum. Án þess að dómur sé lagður á þessar staðhæfingar í nánari atriðum, er með öllu ljóst að til þess að tryggja hagsæld og framfarir fyrir vaxandi þjóð þurfum við að beina því takmarkaða fjármagni, sem til ráðstöfunar er, í auknum mæli til nýrra greina sem hafa skilyrði til arðbærrar framleiðslu og útflutnings. Vissulega má finna margan vaxtarsprota innan okkar hefðbundnu greina og að þeim þarf að hlúa, en þegar á heildina er lítið nálgumst við — a.m.k. um sinn — takmörk vaxtar á grundvelli þeirra auðlinda sem til þessa hafa dugað okkur best. Nú ríður á að finna nýjar leiðir til framfara með hagkvæmni og atorku.

Mikilvægur liður í slíkri stefnumótun sem verða þarf í samhengi við könnun á þjóðhagshorfum næstu ára er án efa endurskoðun á starfsemi lánakerfisins og fjármagnsmarkaðarins.

Undirbúin hafa verið frumvörp um bætta starfsemi bankakerfisins, bæði varðandi viðskiptabanka ríkisins og hlutafélaga.

Ríkisstj. hefur beitt sér fyrir ýmsum endurbótum, varðandi starfsemi fjárfestingarlánasjóða, t.d. endurskoðun lánskjara með það fyrir augum að styrkja fjárhagslegan grundvöll sjóðanna og draga um leið úr ásókn í lánsfé sem eingöngu byggist á von um verðbólguhagnað. Ríkisstj. telur mikilvægt að haldið verði áfram endurbótum í þessum efnum og verði að því stefnt að samræma sem mest lánskjör fjárfestingarlánasjóðanna og draga þannig úr misrétti því sem mismunun í þessu efni fylgir. Lánakerfið verður auk þess að miða við það hvað fjármagn kostar á verðbólgutímum, því að engin heilbrigð lánastarfsemi getur byggst á því að endurlána fé langt undir kostnaðarverði. Eins og nú standa sakir er því varla um annan kost að velja en þann, að halda áfram á þeirri braut að útlán fjárfestingarlánasjóðanna verði að nokkrum hluta verðtryggð. Jafnframt er eðlilegt, að ríkið leggi fram fé til þess að hægt sé að veita lán með hagkvæmari kjörum til félagslega mikilvægra þarfa, t.d. íbúðabygginga láglaunafólks og byggðamála, en það skiptir miklu að slíkt gerist með opinskáum hætti og með beinum opinberum framlögum, svo að það verði ekki til þess að skekkja meginstarfsemi lánakerfisins.

Eitt meginverkefnið á þessum vettvangi er að taka skipulag fjárfestingarlánasjóðakerfisins til gagngerrar endurskoðunar, þar sem stefnt yrði bæði að því að draga sjóðakerfið saman í færri og stærri heildir og samræmingu útlánakjara. Mun ríkisstj. láta vinna að tillögum um skipulagsbreytingar í þessa átt og leggja þær síðan fyrir Alþingi til úrlausnar.

Ríkisstjórnin lét í fyrra semja lánsfjáráætlun fyrir árið 1976 sem tók til allrar lánastarfsemi í landinu. Í þessari áætlun voru settar fram hugmyndir um þróun í lánamálum í heild sem væri í samræmi við yfirlýst efnahagsmarkmið ríkisstj. Þessu starfi hefur verið haldið áfram og á næstu vikum verður lögð fram á Alþingi lánsfjáráætlun fyrir árið 1977. Ég hef þá trú að lánsfjáráætlunin muni reynast varanleg framför í stjórn íslenskra efnahagsmála.

Lánamarkaðurinn þarf einnig að gegna því hlutverki að hvetja til aukinnar innlendrar fjármagnsmyndunar, er geti verið undirstaða arðbærrar fjárfestingar. Þetta hlutverk er sérstaklega mikilvægt um þessar mundir ef unnt á að reynast að halda uppi nægilegum framkvæmdum í landinu, jafnframt því sem dregið verði úr notkun erlends lánsfjár. Frumskilyrði fyrir auknum peningalegum sparnaði í landinu er að tryggja eigendum sparifjár, lífeyrissjóðum og öðrum fjármagnseigendum eðlilegan afrakstur af fé sínu með tilliti til verðbólguþróunar og annarra fjárfestingartækifæra. Með upptöku hinna nýju vaxta aukareikninga innlánsstofnana á s.l. vori er reynt að stefna að þessu marki, en einnig með útgáfu verðtryggðra skuldabréfa á almennum markaði og sölu þeirra til lífeyrissjóða. Þótt þetta sé vafalaust skref í rétta átt, svo langt sem það nær, felst óneitanlega í því varhugaverð mismunun á lánamarkaði sem leita þarf leiða til að jafna. Hér eins og viðar er vandinn tengdur verðbólgunni. Takist að ráða niðurlögum hennar mun lánamarkaðurinn eiga hægara með að gegna sínu nauðsynlega hlutverki, að hvetja til sparnaðar og miðla lánsfé til þeirra greina sem draga mesta björg í bú.

Í stefnuræðu minni á síðasta hausti, sem flutt var nokkrum dögum eftir að fiskveiðilögsagan var færð út í 200 mílur, sagði ég:

„Eins og jafnan áður, þegar við íslendingar færum út fiskveiðilögsögu okkar, gerum við það einhliða og með vitneskju um það, að ákvörðun okkar veldur deilum við aðrar þjóðir.

Í þessu deilumáli höfum við bæði réttinn og rökin með okkur, þegar við ræðum við aðrar þjóðir. Ef við viljum annaðhvort ekki eða treystum okkur ekki að halda fast fram málstað okkar í viðræðum og frjálsum samskiptum þjóða erum við vart verðug þess að heita sjálfstæð þjóð.“

Nú ári eftir útfærsluna í 200 mílur höfum við ástæðu til að fagna því að stefna sú, sem við mörkuðum, hefur náð fram að ganga.

Allar þjóðir, sem veitt hafa á Íslandsmiðum eða lýst áhuga sínum á því, hafa virt og viðurkennt 200 mílna útfærslu okkar í reynd eða beinlínis með samningum. Fyrir einu ári hefðu fáir haldið því fram að málstaður okkar hefði unnið slíkan sigur á svo skömmum tíma.

Á tæpum 4 árum höfum við fært yfirráð okkar yfir fiskveiðilögsögunni úr 12 mílum í 50 og síðan 200. Enginn vafi leikur á því, að þessi útfærsla hefur þegar borið mikilvægan árangur í fiskverndun, klaki og fiskigöngum.

Þegar útfærslan í 200 mílur gekk í gildi fyrir ári voru vonir okkar ekki síst bundnar við árangur af starfi Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, en henni er enn ólokið. Þrátt fyrir fimm fundarlotur hefur heildarsamkomulag um þau fjölþættu úrlausnarefni, sem ráðstefnan glímir við, ekki tekist. Útfærsla okkar í 200 mílur, þótt einhliða væri, var í fullu samræmi við frumvarp það að hafréttarsáttmála sem kynnt var á þriðja fundi Hafréttarráðstefnunnar í Genf vorið 1975. Stefna okkar á ráðstefnunni síðan hefur við það miðast að vernda þau ákvæði frumvarpsins sem mæla fyrir um óskoruð yfirráð strandríkis yfir 200 mílum, að strandríkið hafi einhliða rétt til að kveða á um hve mikið fiskmagn skuli þar taka upp úr sjó og hvort öðrum þjóðum skuli heimilaðar veiðar. Á tveimur fundum ráðstefnunnar síðan frumvarpið var kynnt hafa þessi ákvæði þess haldist óbreytt. Við getum því vel við unað. Raunar verður ekki lengur dreginn í efa réttur strandríkja til 200 mílna yfirráða miðað við samstöðuna um það mál á Hafréttarráðstefnunni. Deilurnar þar snúast um annað.

Enginn þarf því lengur að ganga í grafgötur um að 200 mílna fiskveiðilögsaga verður ekki vefengd sem alþjóðalög, þótt formlegur hafréttarsáttmáli hafi ekki hlotið afgreiðslu á Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.

Eins og kunnugt er höfum við með samningum heimilað færeyingum, norðmönnum, belgum, bretum og vestur-þjóðverjum að stunda veiðar á takmörkuðum svæðum innan 200 mílnanna og bundið veiðarnar við ákveðnar tegundir eða fjölda veiðiskipa auk aflatakmarkana.

Samningurinn milli breta og íslendinga verður ræddur hér á Alþingi á næstunni. Í lokagrein hans segir: „Eftir að samningurinn fellur úr gildi munu bresk skip aðeins stunda veiðar á því svæði sem greint er í hinni íslensku reglugerð frá 15. júlí 1975, í samræmi við það, sem samþykkt kann að verða af Íslands hálfu.“ Skýrari viðurkenningu á yfirráðum okkar er ekki unnt að fá.

Efnahagsbandalag Evrópu hefur í samþykktum sínum um 200 mílna lögsögu ákveðið að bandalagið muni koma fram fyrir bönd aðildarlandanna í viðræðum við önnur ríki. Þannig liggur ljóst fyrir að vilji bretar sækjast eftir framhaldi á veiðum hér við land eftir 1. desember n.k., sem enginn vafi leikur á, munn tilmæli um það koma frá Efnahagsbandalaginu.

Í lok júlí voru könnunarviðræður með fulltrúum bandalagsins í Brüssel, þar sem m.a. var skipst á upplýsingum um ástand fiskstofna. Var áhersla lögð á það af fulltrúum okkar að svigrúm til veiðiheimilda til handa erlendum veiðiskinum væri afar takmarkað.

Vitað er að Efnahagsbandalagið óskar áfram eftir viðræðum við íslendinga, en grundvöllur slíkra viðræðna er þá fyrst fyrir hendi þegar Efnahagsbandalagið sjálft hefur markað fiskveiðistefnu sína. Fyrr er ekki upplýst, hvað bandalagið hefur okkur íslendingum að bjóða.

Íslensk stjórnvöld hafa einnig frá öndverðu lýst því yfir að þau fallist ekki á að ruglað sé reytum á þann veg, að viðskiptatengsl og gagnkvæmir tollasamningar okkar við bandalagið séu háðir því að við veitum aðildarríkjum þess fiskveiðiheimildir innan íslenskrar lögsögu. Jafnframt höfum við staðið við allar okkar skuldbindingar samkvæmt samningum og ætlumst til þess sama af Efnahagsbandalaginu.

Allar viðræður fulltrúa okkar og Efnahagsbandalagsins hljóta að byggjast á gagnkvæmum fiskveiðiréttindum, og í slíkum viðræðum verðum við að meta, hvers virði við teljum okkar fiskveiðiréttindi utan 200 mílna fiskveiðilögsögu okkar sem í boði kunna að vera. Í þeim efnum mega ekki einungis skammtíma sjónarmið ráða gerðum okkar, heldur og hagsmunir okkar til langframa.

Margan lærdóm má draga af landhelgisdeilum okkar, sem við hljótum að hafa til hliðsjónar þegar metin er utanríkisstefna okkar í heild. Með rökum getur enginn haldið því fram að einangrun hefði orðið okkur heilladrjúg í þeirri baráttu. Við fluttum mál okkar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Við minnumst þess t.d., hvernig fulltrúar allra Norðurlanda, forsætisnefnd Norðurlandaráðs og utanríkisráðherrafundur Norðurlanda. tóku ákveðna afstöðu okkur hliðholla á s.l. vetri.

Atlantshafsbandalagið var og ómetanlegur vettvangur til að afla málstað okkar fylgis, þótt við ættum fyrst og fremst í höggi við eina bandalagsþjóðina. Ein nánasta bandalagsþjóð okkar, norðmenn, gekk fram fyrir skjöldu við lausn málsins, ekki síst vegna ótta við að framhald hættuástandsins kynni að hrekja okkur í nauðvörn, er beindist gegn þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu. Þróun í þá átt hefði ekki einungis spillt okkar eigin öryggi, heldur einnig haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir það öryggiskerfi sem við höfum tekið þátt í að byggja upp á Norður-Atlantshafi, svæði sem verður æ viðkvæmara vegna nýrrar hernaðartækni, eins og dæmin sanna.

Reynslan í baráttunni fyrir 200 mílunum staðfestir réttmæti þeirrar utanríkisstefnu, sem við höfum fylgt, og treystir framtíðargildi hennar.

Þingmenn hafa fengið í hendur sérstaka skrá yfir helstu lagafrumvörp, sem í undirbúningi eru. Ekki gefst tími til að fjalla sérstaklega um þessi mál, en þau snerta lausnir vanda á ýmsum sviðum:

Í fyrsta lagi má nefna á sviði tekjuskiptingar og verðmyndunar í þjóðfélaginu, að sjóðakerfi sjávarútvegs var endurskoðað á s.l. vetri.

Endurskoðun framleiðsluráðslaga fjallar m.a. um verðlagskerfi búvara og útflutningsbætur til að hafa áhrif á framleiðslu einstakra búvörugreina og tryggja í senn hag bænda og neytenda og draga úr útgjöldum ríkissjóðs.

Frumvarp til laga um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta verslunarhætti miðar að því að efla samkeppni til að tryggja sem lægst vöruverð.

Endurskoðun almannatrygginga, lífeyris- og sjúkratrygginga, sem og húsnæðislöggjafar, stefnir að því að treysta efnahagslegt og félagslegt öryggi landsmanna, ekki síst þeirra sem miður mega sín. Endurskoðun á skattalögum á að leiða almennt til réttlátrar tekjuskiptingar.

Í annan stað miða lagafrumvörp og fyrirætlanir stjórnvalda að því að auka framleiðslu og þjóðartekjur, eins og heildaráætlun og framkvæmdir í orkumálum sem þegar hafa t.d. fjölgað stórlega þeim, sem njóta þjónustu hitaveitna. Hér má og nefna ýmsar fyrirætlanir í atvinnu- og samgöngumálum.

Í þriðja lagi er vakin athygli á margvíslegri löggjöf á sviði uppeldis-, mennta- og menningarmála.

Í fjórða lagi er lögð áhersla á endurbætur í stjórnsýslu og réttargæslu. Meginmáli skiptir að tryggja réttaröryggi, greiða fyrir fljótvirkri rannsókn mála og uppljóstrun afbrota.

Á stjórnsýslusviðinu er endurskoðun á verkefnum og tekjustofnum ríkis og sveitarfélaga líkleg til að dreifa valdinu í þjóðfélaginu og auka áhrif einstaklinga og staðarvalda.

Endurskoðun vinnuaðferða við gerð kjarasamninga og efling hlutverks sáttasemjara á að miða að því að tryggja réttarstöðu hagsmunasamtaka, ítarlega meðferð og friðsamlega lausn kjaramála.

Ríkisstj. hefur og ákveðið að leita eftir tillögum um breytingar á reglugerð um Stjórnarráð Íslands. Við allar breytingar verðar að hafa að leiðarljósi að einfalda kerfið og gera afgreiðslu mála greiðfærari.

Herra forseti. Sá íslendingur telst til undantekninga sem lýsir sig ekki fylgjandi lýðræðisskipulaginu. Í lýðræði felst verkaskipting milli stjórnvalda, hagsmunasamtaka og einstaklinga. Þessir aðilar verða að virða starfssvið hvers annars og fara að lögum í samskiptum sín á milli. Framkvæmd lýðræðislegra stjórnarhátta getur verið seinvirk. Þótt slíkt seinlæti komi oft á tíðum illa við menn, mega þeir ekki gripa til ólöglegra starfshátta og hverfa frá lýðræðislegum vinnubrögðum. Úrræðin hljóta að felast í því að hafa uppi rökstudda gagnrýni á ríkjandi skipan mála, upplýsa efnisatriði og leita ráða til að flýta framkvæmd endurbóta og einfalda stjórnkerfið, í þeim tilgangi að gera lýðræðið virkara. — Ég þakka þeim sem hlýddu.