27.01.1977
Sameinað þing: 42. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1673 í B-deild Alþingistíðinda. (1342)

53. mál, samræming og efling útflutningsstarfsemi

Flm. (Lárus Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 3. þm. Austurl., Sverri Hermannssyni, að flytja á þskj. 55 till. til þál. um samræmingu og eflingu útflutningsstarfsemi. Till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að gera úttekt á skipulagi og aðstöðu útflutningsverslunar landsmanna og leita leiða til þess að efla og samræma útflutningsstarfsemi fyrir íslenskar framleiðsluvörur og þjónustu. Um úttekt þessa, samræmingu og eflingu útflutningsstarfsemi skal hafa samráð við þá aðila, sem nú annast útflutning og markaðsstarfsemi.

Í þessu sambandi skal áhersla lögð á eftirfarandi :

1. að kanna hvort rétt sé og hagkvæmt að koma á fót samstarfi allra aðila sem vinna að útflutningsstarfsemi, m. a. í því skyni að stuðla á skipulegan hátt að almennri kynningu á íslenskum vörum og þjónustu erlendis og þjálfun starfsfólks, sem vinna mun að hvers konar útflutningsstarfsemi ;

2. að marka enn frekar þá stefnu í skatta- og tollamálum, svo og annarri opinberri fyrirgreiðslu, sem auðveldar íslenskum útflytjendum samkeppni á erlendum mörkuðum;

3. að kanna hvort rétt sé og hagkvæmt að samræma eða sameina starf utanríkis- og viðskiptaráðuneytis á sviði útflutningsstarfsemi og efla starf utanríkisþjónustunnar í markaðsmálum.“

Við íslendingar erum sem kunnugt er mjög háðir utanríkisviðskiptum. Þannig nam innflutningur að meðaltali árin 1972–1975, að báðum meðtöldum, rúmlega 37% þjóðarframleiðslunnar. Ástæðan er fyrst og fremst sú, að mikil og ójöfn þörf er á innflutningi vegna fjárfestingar innanlands, en jafnframt hafa framleiðsluvörur okkar á undanförnum áratugum verið fábreyttar og því þarf á miklum innflutningi erlendra vara og þjónustu að halda. Hvort tveggja þetta skapar aftur á móti mikla þörf á útflutningi til þess að viðskipti okkar við aðrar þjóðir séu í jafnvægi. Útflutningsframleiðsla okkar hefur lengst af verið einhæf, þ. e. a. s. fyrst og fremst sjávarafurðir. Við vanda okkar í útflutningsviðskiptum hefur því bæst að verðsveiflur eru eðli málsins samkv. miklar á helstu útflutningsvörum okkar. Af þessu leiðir að það er jafnvel enn þá meira keppikefli fyrir okkur en aðrar þjóðir að stefna að því tvíþætta marki að auka fjölbreytni og samkeppnishæfni iðnaðarframleiðslu okkar heima fyrir, þannig að með því móti dragi úr óhóflegum innflutningi, og efla jafnframt útflutningsstarfsemi til þess að ná sem mestu jafnvægi í útflutningsviðskiptum og treysta þannig fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar. Þessar meginstaðreyndir verða aldrei jafnaugljósar og þegar erfiðleikar steðja að, eins og gerst hefur á undanförnum 2–3 árum.

Flm. þessarar till. fluttu hér á hv. Alþ. 1974–1975 till. til þál. sem fól í sér ábendingar um lekir að báðum þessum mikilvægu markmiðum fyrir íslenskan þjóðarbúskap. Hún var samþ. hinn 14. maí 1975 og er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj., í samráði við samtök iðnaðarmanna, iðnrekenda og iðnverkafólks, að kanna leiðir til þess að hvetja almenning, m. a. í ríkisfjölmiðlum, til aukinna kaupa og neyslu á vörum sem framleiddar eru í landinu, og jafnframt að leita leiða til þess að auka sölu á íslenskum afurðum erlendis með því að endurskipuleggja utanríkisþjónustuna, samræma og efla starfsemi þeirra aðila, sem fást við sölu íslenskra afurða.“

Fyrri hluti þessarar þál, er nú í framkvæmd sem kunnugt er. Íslenskri iðnkynningu var komið á laggirnar í kjölfar þál. fyrir frumkvæði iðnrn., og í fjárlög ársins 1976 var tekin fjárhæð, 2.5 millj. kr., og ráð gert fyrir hærri upphæð í fjárlögum 1977 til þess að standa straum af kostnaðarhluta ríkissjóðs við iðnkynninguna. Iðnrn., fjárveitingavaldið, samtök iðnaðarins, iðnverkafólk, Samband ísl. samvinnufélaga og Neytendasamtökin vinna nú sameiginlega að framkvæmd íslenskrar iðnkynningar sem vakið hefur verðskuldaða athygli þjóðarinnar á stöðu, getu og möguleikum íslensks iðnaðar, og mun þetta vonandi stuðla að auknum kaupum þjóðarinnar á eigin framleiðslu.

Vegna starfs Íslenskrar iðnkynningar hefur athygli alls almennings ekki hvað síst vaknað fyrir því, hversu fjölþætt íslensk iðnaðarframleiðsla er orðin, gæði vörunnar mikil og verð sambærilegt við erlenda framleiðendur sem margir hverjir hafa miklu betri aðstöðu til rekstrar en íslenskir starfsbræður þeirra. Þessi aukna fjölbreytni og framþróun hefur aukið gildi almenns iðnaðar fyrir íslenskan þjóðarbúskap mjög mikið á síðustu árum, og er nú svo komið að íslenskur iðnaður sparar þjóðarbúinu þúsundir millj. kr. á ári í gjaldeyri og er hlutur hans rúmur þriðjungur af þjóðarframleiðslunni enda þótt mannafli, sem að iðnaði vinnur, sé á hinn bóginn einungis 1/4 hluti alls starfandi mannafla í landinu.

Eitt ljóst dæmi um það, hversu útflutningsiðnaður er þegar orðinn mikilvægur fyrir þjóðarbúið, er sú staðreynd að á Akureyri, sem er mikill iðnaðarbær eins og kunnugt er, starfar nú um helmingur þess mannafla, sem vinnur að iðnaði, við útflutningsiðnað.

Síðari hluta áðurnefndrar þál., þ. e. a. s. þar sem segir að leita skuli leiða til þess að auka sölu á íslenskum afurðum erlendis, m. a. með því að endurskipuleggja utanríkisþjónustuna, samræma og efla starfsemi þeirra aðila sem fást við sölu íslenskra afurða erlendis, hefur verið minni gaumur gefinn, enda er hann ef til vill of almennt og óljóst orðaður. Þetta er mjög miður, þar sem ekki er síður þörf á að kynna hvers konar íslenskar gæðavörur fyrir erlendum kaupendum en innanlands, einkum þó iðnaðarvöru, þar sem hún er miklu minna þekkt en sjávarafurðir okkar. Þetta er ekki síst nauðsynlegt þegar haft er í buga hversu fjölþætt íslensk iðnaðarframleiðsla er nú orðin, eins og ég vék að áðan. Ekki eru mörg ár síðan töluvert innan við 10% útflutnings okkar íslendinga voru aðrar afurðir en sjávarafurðir, en nú nálgast það mark að iðnaðarvara sé 1/5 hluti heildarútflutningsins. Hér er alls ekki einvörðungu um að ræða tilkomu álvers og álútflutnings, heldur hefur útflutningur almennra iðnaðarvara farið mjög vaxandi á síðustu árum, einkum eftir tilkomu útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins sem starfar, eins og kunnugt er, að kynningu á íslenskum iðnaðarvörum erlendis.

Sú þróun, sem hér er rakin um aukna fjölbreytni útflutnings, og þörf á auknum útflutningstekjum er ærin ástæða fyrir flutningi þessarar till. á Alþ. Auk þess kemur það til að nágrannaþjóðir okkar hafa að undanförnu mjög bætt og endurskipulagt sín útflutningsmál með þeim afleiðingum að í mörgum tilvikum er erfiðari samkeppni fyrir okkur eftir en áður. Samræming og efling útflutningsstarfsemi er mjög viðamikið og kostnaðarsamt verkefni. Því er nauðsynlegt að Alþ. taki afstöðu til þess á hvaða þætti beri að leggja áherslu í þessu efni. Það er von okkar flm. að með þessari till. gefist þingheimi kostur á meiri og ítarlegri stefnumótun á þessu sviði en með þál. frá 14. maí 1975, sem áður er frá greint.

Ég vík þá að núverandi skipan útflutningsstarfsemi í landinu. Hér á landi eru fjölmargir aðilar sem annast útflutningsstarfsemi. Ýmsir þessir aðilar hafa náð góðum árangri, og rétt er að það komi skýrt fram að með þessari till. er ekki ætlunin að skerða á neinn hátt sjálfstæði þeirra, heldur að auka og efla samstarf þeirra og stjórnvalda á sviði markaðsmála, svo sem nánar verður víkið að síðar. Á stríðsárunum og fyrstu árin eftir stríð var yfirstjórn utanríkisviðskipta einvörðungu í höndum utanrrn. Síðan hefur meðferð utanríkisviðskipta breyst í stjórnarráðinu á þann veg, að eftir 1953 fluttust þau í æ ríkara mæli til viðskrn. Afleiðingin er sú, að sendiráð og starfsmenn utanríkisþjónustunnar erlendis hafa nú tvo yfirboðara að þessu leyti, utanríkis- og viðskiptaráðuneyti.

Í síðari heimsstyrjöldinni og næstu árum eftir styrjöldina voru mikil ríkisafskipti af viðskiptum milli þjóða. Á þessu tímabili vann utanríkisþjónustan mikið starf í útflutnings- og markaðsmálum, einkum í þeim löndum þar sem ríkisfyrirtæki annast allan innflutning. T. d. er það svo í Sovétríkjunum. Einungis einn viðskiptafulltrúi starfar þó erlendis á vegum utanríkisþjónustunnar enn í dag, þ. e. a. s. aðalræðismaðurinn í New York sem er jafnframt viðskiptafulltrúi við sendiráðið í Washington. Þótt ekki séu viðskiptafulltrúar við fleiri sendiráð annast þau þó að sjálfsögðu margvíslega þjónustu á sviði viðskiptamála og kynna landið erlendis, sem er mikilvægur þáttur markaðsleitar og útflutningsstarfsemi.

Samkvæmt lögum starfa fjölmargir aðilar á ýmsum sviðum útflutningsstarfsemi. Það má nefna Fiskimálasjóð, Framleiðsluráð landbúnaðarins, Sölustofnun lagmetis, Útflutningslánasjóð, Iðnrekstrarsjóð, Ríkisábyrgðasjóð, Tryggingadeild útflutningslána, Útflutningsmiðstöð iðnaðarins og sjálfsagt marga fleiri. Þá er starfandi á vegum viðskrn. sérstök vörusýninganefnd. Beina útflutnings- og markaðsstarfsemi annast svo mörg samtök og einstaklingar. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Samband ísl. samvinnufélaga, Sölusamband ísl. fiskframleiðenda, Skreiðarsamlagið og síldarútvegsnefnd eru í hópi þeirra grónustu og öflugustu þessara aðila, eins og kunnugt er.

Ef vikið er að framtíðarskipan útflutningsmála er megináhersla þessarar till., eins og nafnið bendir til, samræming og efling útflutningsstarfsemi í landinu. Einn meginókostur núverandi skipulags þessara mála er að enginn einn aðili getur komið fram fyrir útflytjendur, hvorki erlendis né gagnvart innlendum stjórnvöldum. Í nágrannalöndum er þetta hvergi svo, og spyrja mætti hvort það sé virkilega svo, að íslendingar einir vestrænna þjóða hefðu efni á því að engin samvinna í skipulegu formi sé milli þeirra aðila sem starfa að útflutningi til gjaldeyrisöflunar fyrir þjóðina. Það er mín skoðun, að það sé eitt brýnasta verkefni í íslenskum útflutningsmálum, eins og nú standa sakir, að koma á samstarfi útflytjenda þeirra sem annast útflutningsstarfsemi í einhverju formi. Ég vil þó taka það skýrt fram nú þegar, að ég er ekki að leggja hér til, að sett verði á laggir stórt bákn, hvort sem það yrði kallað Útflutningsráð, Samtök íslenskra útflytjenda eða eitthvað slíkt. Ég er einvörðungu að leggja áherslu á að samvinna og samtök útflytjenda í föstu formi er eitt brýnasta verkefnið í skipulagi útflutningsmála um þessar mundir að minni hyggju. Slík samtök útflytjenda mundu m. a. hafa að verkefni að kynna Ísland erlendis sem framleiðsluland gæðavöru og sem útflutningsland á gæðavörum. Þau mundu einnig hafa það hlutverk að skipuleggja þjálfun fólks til þess að kynna íslenskar vörur erlendis og selja íslenskar vörur erlendis, en á það skortir nú mjög að þetta sé unnt. Þau mundu einnig geta komið fram við stjórnvöld landsins sem ráðgjafaraðill um allt sem varðar útflutningsstarfsemi, hvort sem um er að ræða sjávarafurðir, iðnaðarvörur eða aðrar íslenskar afurðir. Hlutverk slíkra samtaka yrði að sjálfsögðu miklu viðtækara og myndi aukast með tímanum. En hér er minnt á þrjú atriði sem útilokað er að taka á með samræmdum hætti ef ekki eru til samtök útflytjenda í skipulegu formi.

Það eitt sýnir hve mikið grundvallaratriði hér er um að ræða, þ. e. a. s. að koma á fót samtökum útflytjenda, að tvö þau meginatriði sem lögð er áhersla á í þessari þáltill. þ. e. a. s. að stjórnvöld marki enn frekar þá stefnu í skatta- og tollamálum og annarri opinberri fyrirgreiðslu, sem auðveldar íslenskum útflytjendum samkeppni á erlendum mörkuðum, og að efla beri starf utanríkisþjónustunnar í markaðsmálum, — þessi tvö atriði standa og falla að minni hyggju verulega með því að slík samtök útflytjenda séu hér forustuaðili, marki þá stefnu, sem skynsamleg og eðlileg er, og gefi stjórnvöldum ráð um það á hvern hátt taka beri á tolla- og skattamálum gagnvart útflutningsaðilum og að slík samtök verði ráðgefandi um það, hvernig utanríkisþjónustan getur helst og hvernig hún getur í raun réttri þjónað útflytjendum sem best. Hér ber allt að sama brunni, að samtök og sameiginleg stefna allra aðila, sem annast útflutningsstarfsemi, er höfuðnauðsyn.

Það er engin tilviljun að nágrannaþjóðir okkar hafa á undanförnum árum mjög skipulagt sín útflutningsmál á hliðstæðan hátt og hér er að vikið í grundvallaratriðum, en stiklað er á stóru í þeim efnum. Nánar vísa ég í grg. með þessari till. þar sem lýst er í stórum dráttum hvernig skipan útflutningsstarfsemi er á Norðurlöndum. En ef vikið er að því hvað gert hefur verið á seinni árum í þessum efnum, þá voru samþ. lög í Noregi um eflingu útflutnings árið 1956. Í þeim lögum er ákveðið að starfsemi Norges Eksportråd sé fjármögnuð af Norges Eksportfond með því að útflutningsgjald sé lagt þar á 3/40/00, og það er lagt á allan norskan útflutning nema skip. Með þessu var starfsemi Norges Eksportråd mjög erfið frá því sem áður var, en það var stofnað árið 1975 og hafði til ráðstöfunar árið 1974 20.4 millj. norskra kr. Í Svíþjóð var stofnað útflutningsráð, Sveriges Exportråd, árið 1972, og það hefur nú að loknum 3 ára aðlögunartíma hafið starfsemi af fullum krafti. Árið 1975 voru aðilar að samtökunum 1828. Í Danmörku var hliðstæðri stofnun komið á fót haustið 1975. Hún heitir Exportfremmerådet, og henni er ætlað að samræma starfsemi, sem áður hafði verið á margra höndum, og nýta þannig betur þá þekkingu, sem fyrir hendi er, og koma fram sem samtök útflutningsaðila í Danmörku. Hliðstæða sögu er að segja frá finnum. Þar heita samtök útflytjenda Finlands Utrikeshandelsforbund og hafa þau samtök mjög verið efld á síðari árum.

Hér og nú er ekki ástæða til þess að fara nánar út í skipulagsmál útflutningsstarfsemi á Norðurlöndum. Ég vísa eins og áður til grg. með þáltill., þar sem nánar er farið út í þessa sálma. Höfuðatriðið er að nágrannaþjóðir okkar og Vestur-Evrópuþjóðir yfirleitt hafa á undanförnum árum mjög samræmt og eflt þá starfsemi, sem lýtur að því að kynna vörur og þjónustu viðkomandi landa á erlendum mörkuðum, og hafa einmitt gert þetta með því að auka og efla samtök útflytjenda í einu eða öðru formi í viðkomandi löndum.

Ég vil sérstaklega undirstrika í þessu sambandi að íslenskar aðstæður í útflutningsmálum eru um margt sérstæðar, t. d. að því er varðar einhæfni útflutningsvöru og fjárhagslegt svigrúm útflytjenda. Okkur er að sjálfsögðu ekki kleift að fara nákvæmlega sömu leiðir í endurskipulagningu og eflingu útflutningsstarfsemi hér á landi og gert er á Norðurlöndum. Einkum á þetta við um þær leiðir sem mörg þessi lönd hafa farið í fjármögnun slíkrar útflutningsstarfsemi og umfangi hennar. Þó má mikið af þessum þjóðum læra innan þeirra takmarka sem hér er á bent, og því er lærdómsríkt að kynna sér fyrirkomulag útflutnings- og markaðsmála í þessum löndum í tengslum við endurskipulagningu á þessum málum sem vonandi verður ekki langt að bíða hér hjá okkur.

Ýmsum dettur e. t. v. í hug, að stofnun eins og Útflutningsmiðstöð iðnaðarins gæti tekið að sér það verkefni, sem hér hefur verið á bent, og komið fram sem sameiningartákn fyrir íslenska útflutningsaðila og stofnanir, bæði erlendis og gagnvart íslenskum stjórnvöldum. Hér er þó augljóslega um misskilning að ræða. Útflutningsmiðstöð iðnaðarins var stórt spor í rétta átt á sínum tíma. Hún hefur unnið mjög merkilegt starf á sínu sérsviði, en þar er eingöngu um að ræða iðnaðarvörur. Hún kynnir íslenskar iðnaðarvörur á erlendum mörkuðum, en hún getur að sjálfsögðu ekki komið fram fyrir aðra aðila, t. d. ýmsa aðila í sjávarútveginum. Þess vegna getur hún ekki tekið við því hlutverki sem hér hefur verið lögð mikil áhersla á, þ. e. a. s. að samtök væru mynduð sem komið gætu fram fyrir hönd allra íslenskra útflytjenda bæði innanlands og erlendis. Það er ekki svo að skilja að ekki hafi verið unnið að því að móta till. um eflingu útflutningsstarfsemi á Íslandi á undanförnum árum. Margt hefur verið gert í þessu efni. Ýmsum stofnunum hefur verið komið á fót á ýmsum sérsviðum, eins og Útflutningsmiðstöð iðnaðarins, Samtökum húsgagnaútflytjenda, Sölustofnun lagmetis o. s. frv., o. s. frv., og enn fremur hefur mjög verið rætt og ritað um skipulag útflutningsstarfsemi og um það efni gerðar margar viðamiklar skýrslur.

Á ráðstefnu, sem haldin var 10. apríl s. l. á vegum Sambands ungra sjálfstæðismanna, fjallaði Pétur Thorsteinsson sendiherra og fyrrv. ráðuneytisstjóri í utanrrn. um þátt utanríkisþjónustunnar í utanríkisviðskiptum. Í þessu erindi sinn, sem stuðst er mjög við í tillögugrein þessari og grg., dró hann saman till. sínar um framtíðarskipan útflutningsmála hér á landi. Niðurstaða hans var sem hér segir:

„1. Athuga þarf vandlega hvort ekki væri rétt að sameina utanrrn. og viðskrn. á sama stað. Nánari tengsl þessara rn. mundu m. a. skapa möguleika á meiri kynnum sendiráðsmanna af viðskiptamálum og starfsemi sendiráðanna á viðskiptasviðinu.

2. Þó að ekki sé ástæða til að stofna af viðskiptaástæðum fleiri sendiráð í bili, hvort sem þau yrðu undir stjórn sendiherra eða viðskiptafulltrúa, getur verið ástæða til að hafa við núv. sendiráð okkar sérstaka viðskiptafulltrúa. Og ég held,“ segir Pétur Thorsteinsson, „eins og fyrir 10 árum, að við eigum að hafa slíka fulltrúa vestanhafs og í Evrópu. Við höfum nú viðskiptafulltrúa í Bandaríkjunum, þ. e. a. s. aðalræðismaður okkar í New York er jafnframt tilkynntur sem viðskiptafulltrúi við sendiráðið í Washington. En ég held,“ segir Pétur áfram, „að áður en langt um liður ættum við að hafa annan viðskiptafulltrúa við sendiráðið okkar í Brüssel, í höfuðborg Efnahagsbandalags Evrópu.

3. Ég held,“ segir Pétur áfram, „að athuga verði vandlega hvort ekki ætti að setja á stofn á vegum útflutningsyfirvaldanna, hvort sem það væri viðskrn. eða sameinað utanríkis- og viðskiptaráðuneyti, sérstaka viðskiptaskrifstofu, þ. e. a. s. upplýsingaskrifstofu fyrir útflutninginn, eins og ég talaði um áðan.

4. Mjög er athugandi að koma á fót Útflutningsráði. Hér á ég ekki við samskonar stofnun og útflutningsráð Noregs, þ. e. a. s. sérstaka stofnun með skrifstofum og útsendum viðskiptafulltrúum, heldur n. skipaða fulltrúum atvinnuveganna útflutningsyfirvöldum til ráðuneytis, sem kæmi saman reglulega og yrði kölluð til aukafundar, þegar sérstaklega stendur á.“

Hér lýkur tilvitnun í þessa ræðu Péturs Thorsteinssonar. Greinilegt er að hér eru settar fram skynsamlegar og hófsamar till. reynds manns á framangreindu sviði. Þær hafa þó enn ekki verið framkvæmdar, og er þessi till. m. a. komin fram til þess að Alþ. láti málið til sín taka.

Rétt er á þessu sambandi að leggja sérstaka áherslu á þriðja og fjórða atriðið í niðurstöðum Péturs Thorsteinssonar, þ. e. a. s. um skrifstofu útflutningsráðs, en þar er auðvitað verið að fjalla um nauðsyn samtaka íslenskra útflytjenda og að einhver aðili geti komið fram í sameiningu fyrir alla þá sem annast útflutningsstarfsemi.

Pétur Thorsteinsson víkur hér að samræmingu og starfsemi stjórnvalda á sviði útflutningsmála, þ. e. a. s. utanríkisþjónustunnar og viðskrn. Rétt er í því sambandi að gera sér ljóst, að það er örðugleikum bundið að sameina utanr.- og viðskrn. að þessu leyti. En hér mætti auðvitað, eins og á er bent í till. Péturs, koma á ýmissi samræmingu engu að síður, þar sem æskilegt er að þessi starfsemi sé sem mest á einum stað í stjórnkerfinu, eins og auðvitað er æskilegt um aðra þætti stjórnsýslunnar.

Ég vil koma inn á eitt atriði sem mér virðist stundum of lítil áhersla lögð á er verið er að ræða um hvað utanríkisþjónustan eigi að gera á sviði útflutningsstarfsemi. Ég er þeirrar skoðunar, að gjalda verði mikinn varhug við að stofna sendiráð víðar en orðið er. Á hinn bóginn tel ég nauðsynlegt að athuga gaumgæfilega, hvort ekki ætti að koma upp viðskiptafulltrúum við fleiri sendiráð og efla starfsemi núverandi sendiráða á sviði utanríkisviðskipta. Sérstaklega vildi ég þó benda á að meira mætti gera að því á vegum utanr.- og viðskrn. að efna til sendinefnda þar sem jafnvel ráðh. væru formenn og forustumenn og að slíkar sendinefndir færu til mikilsverðra markaðslanda, einkum þar sem veruleg ríkisafskipti eru og um nýja markaði er að ræða. Hér er t. d. dæmigert land Nígería, þar sem viðskiptasendinefnd með háttsettum mönnum úr rn. eða sjálfum utanr.- eða viðskrh. gæti komið að mjög miklu gagni til að ryðja braut nýjum framleiðsluvörum og efla þá markaði sem við höfum þar fyrir.

Að lokum vil ég vekja athygli á því, að þessi till. er almenn till. um að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að gera útlekt á skipulagi og aðstöðu útflutningsverslun landsmanna o. s. frv. Hér er sem sagt um að ræða almenna ályktun um að fela ríkisstj. að gera ákveðna hluti. En í grg. tal. er að því vikið að heppilegust vinnubrögð í þessu efni væru e. t. v. fólgin í því að ríkisstj. setti á laggir starfshóp, sem í ættu sæti fulltrúar frá utanr.- og viðskrn. svo og þeir aðilar sem nú annast útflutningsstarfsemi í landinu. Slíkur starfshópur eða nefnd mundi fjalla um efni till. og væntanlega gera þá sínar till. til ríkisstj.

Herra forseti. Ég vil svo leyfa mér að óska þess að umr. um þessa till. verði frestað og henni vísað til hv. allshn.