27.01.1977
Sameinað þing: 42. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1680 í B-deild Alþingistíðinda. (1343)

53. mál, samræming og efling útflutningsstarfsemi

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að taka til máls um þessa þáltill., en út af niðurlagi ræðu hv. fim., þar sem hann lagði til að till. yrði vísað til allshn., vil ég leyfa mér að segja nokkur orð. (Gripið fram í.) Ég tel að hún ætti frekar heima hjá atvmn., jafnvel kæmi til athugunar hvort hún ætti ekki að fara til utanrmn. vegna þess að hún fjallar um það svið sem utanrmn. hlýtur að koma mikið inn á.

En fyrst ég er kominn í ræðustól langar mig til að segja nokkur orð í sambandi við þessa þáltill. Ég tel það góðra gjalda vert að till. sem þessi komi fram á Alþ. og verði rædd bæði í n. og einnig í þingsal. Hér er hreyft við mjög veigamiklu máli sem æskilegt er að Alþ. fjalli um og geri sér grein fyrir hvernig æskilegt væri að þróa með tilliti til þeirra hugmynda sem koma fram í þáltill.

Þessi till. er þríþætt.

Í fyrsta lagi er um það að ræða að koma á fót ákveðnu samstarfi milli útflutningsaðila.

Í öðru lagi er um það að ræða að tryggja að þeir, sem annast framleiðslu og sölu á vörum til útlanda, njóti þeirra kjara í sambandi við skatta- og tollamál sem við eiga. Og þá hlýtur að sjálfsögðu sú stefna að vera ríkjandi að íslenskir útflytjendur búi jafnan við hin bestu kjör í skatta- og tollamálum, en því miður er ekki svo í dag. Mun ég ekki rekja það nánar að öðru leyti en því, að ég vil minna á að fyrir jólin var samþ. hér breyting í tollamálum sem fól það m. a. í sér að framleiðendur búa við lakari kjör í sambandi við tolla á vélum til fiskiðnaðar heldur en annar iðnaður í landinu. Auk þess býr fiskiðnaðurinn við mun lakari kjör í sambandi við sölugjald heldur en verksmiðjuiðnaður. Kemur það fram í því, að á sama tíma sem fiskiðnaður verður að borga 22% sölugjald af vélum og varahlutum til iðnaðarins, borgar almennur verksmiðjuiðnaðar ekki nema 11%.

Í þriðja lagi er í þessari þáltill. víkið nokkuð að því hvernig skipulagsformið gæti verið gagnvart hinu opinbera og þá sérstaklega í sambandi við afskipti utanrrn. og viðskrn. af útflutnings- og viðskiptamálum, og er það kafli út af fyrir sig. En ég hjó eftir því að í framsöguræðu hv. þm. Lárusar Jónssonar kom hann inn á það, að hans hugsun væri jafnvel að þessi fyrirhugaða stofnun, sem ályktunin gerir ráð fyrir að verði sett á fót, ef aðilar eru sammála um það, ætti einnig að koma fram fyrir hönd útflytjenda gagnvart hinu opinbera innanlands. Ég er ekki alveg viss um að það sé rétt stefna að þannig eigi að þróa þetta samstarf. Ég held að það sé æskilegt að hafa það að mörgu leyti eins og það er nú í dag, að helstu útflutningssamtökin hafa sjálfstæða stöðu gagnvart hinu opinbera í þeim málum sem varða viðkomandi útflutningsgreinar. Ef við skoðum þetta nánar kemur í ljós að það munu vera þrír aðilar sem annast rúmlega 60% af öllum vöruútflutningi íslensku þjóðarinnar, þ. e. a. s. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Samband ísl. samvinnufélaga og Sölusamband ísl. fiskframleiðenda. Þetta eru frjáls og óháð samtök framleiðenda, a. m. k. innan Sölumiðstöðvarinnar og einnig innan Sambandsins. Að vísu nýtur SÍF ákveðinnar verndar samkv. lögum, en tvö fyrrgreindu samtökin eru frjáls og óháð og hafa komið fram fyrir hönd félagsmanna sinna gagnvart hinu opinbera. Slík valddreifing er æskileg. Ég tel því að það ætti ekki að leggja megináherslu í sambandi við þetta mál á að það samstarf, sem ályktunin gerir ráð fyrir, eigi mjög að snúa að hinu opinbera innanlands, hins vegar eigi að leggja meiri áherslu á það, eins og kom fram í ræðu hv. frummælanda, að skipuleggja og efla samstarf þessara aðila út á við. Það held ég að sé hin rétta stefna, enda er það meginefni þessarar þáltill. Ég er sammála hv. þm. um að á því sviði er margt hægt að vinna saman og mun meira en gert hefur verið hingað til og þessi grónu og sterku samtök gætu örugglega komið hvert öðru til aðstoðar í sambandi við útflutnings- og sölumál erlendis.

Ég tek undir þau orð að hér sé um að ræða fyrst og fremst stofnun sem sé ráðgefandi aðili, en ekki ákvarðandi aðili, vegna þess að það er staðreynd að of mikil miðstýring í sambandi við útflutningsmál og sölumál erlendis getur verið hættuleg. Það er reynsla þeirra samtaka, sem lengst hafa náð í sambandi við sölu og markaðsmái erlendis, að það verður að ríkja ákveðin samkeppni, ákveðið sjálfstæði ef árangur á að nást. Þannig hefur verið staðið að málum hingað til. Þó að þessi útflutningur sé í höndum þessara þriggja aðila með þeim hætti sem ég gat um áðan, að aðeins þrír aðilar eru með rúmlega 60% af öllu vörumagni sem flutt er út, þá hafa þeir unnið í ákveðinni samkeppni, sérstaklega í sambandi við frystan fisk. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þessir aðilar geta styrkt mjög aðra sem þurfa að stofna til útflutnings og byggja upp markað erlendis.

Að öðru leyti hlýtur þessi till. að koma til n., og í samráði við flm. leyfi ég mér að leggja til að henni verði vísað til utanrmn. Þegar hún kemur úr n. mun væntanlega gefast enn betra tækifæri til að fjalla frekar um þetta mál.