27.01.1977
Sameinað þing: 42. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1682 í B-deild Alþingistíðinda. (1344)

53. mál, samræming og efling útflutningsstarfsemi

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Í framhaldi af því sem fyrri flm., Lárus Jónsson, sagði í framsögu fyrir till. sinni á þskj. 55, og í beinu framhaldi af því, sem kom fram hjá síðasta ræðumanni, vil ég aðeins benda á að ég flutti brtt. við afgreiðslu tollskrár nú rétt fyrir jólafríið og gerði ítrekaðar tilraunir bæði í n. og í Ed. til að fá íslenskan útflutningsiðnað, þ. e. a. s. fiskvinnsluna, viðurkenndan sem samkeppnisiðnað. Það tókst ekki. Ég var með till. um að fella niður tolla af vélum og tækjum þessa merka iðnaðar sem er undirstöðuframleiðsluiðnaður þjóðarinnar, en það var fellt. Ég vona að þessi till. fái betri hljómgrunn og undirtektir heldur en till. hlutu fyrir mjög stuttu í sama hópi manna, þar sem ég geri ráð fyrir að sömu aðilar komi til með að rétta upp höndina í þetta skipti og felldu till. mínar nú fyrir skömmu.