27.01.1977
Sameinað þing: 42. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1682 í B-deild Alþingistíðinda. (1346)

60. mál, uppbygging þjóðvega í snjóahéruðum

Flm. (Ingi Tryggvason) :

Herra forseti. Þáltill. sú, sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 62 ásamt sjö öðrum hv. þm., hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að láta gera áætlun um kostnað við uppbyggingu þjóðvegakerfisins í hinum snjóþyngri héruðum landsins með það fyrir augum að þjóðvegir um byggðir verði gerðir vetrarfærir á næstu 4–6 árum. Kostnaður við þetta verkefni verði greiddur af Vegasjóði og fjár til þess aflað með erlendum eða innlendum lántökum, ef þörf krefur, samkvæmt nánari ákvörðun Alþingis síðar.“

Allir, sem um þjóðvegi landsins aka, hljóta að leiða að því hugann hver stórvirki hafa verið unnin í vegagerð á landi voru. Hitt blasir þó engu síður við og verður tíðum að umræðuefni, hversu mörg verkefni í vegagerð eru óleyst enn. Þeir, sem aka vegina í góðviðrisdögum sumarsins, kvarta undan ryki og illhörðum, óhefluðum vegum. Í rigningartíð ergja forarpollar og aurslettur vegfarendur. Á vorin grafast heilir vegarkaflar svo að einungis er þar fært hinum sterkustu torfærubifreiðum. Og á vetrum lokast vegir vikum eða mánuðum saman vegna fannfergis.

Fyrir fimm áratugum gerðu menn ekki ráð fyrir, að vegum í snjóþungum héruðum yrði yfirleitt haldið opnum á veturna nema í besta tíðarfari, og töldu að rykið og forarvilpurnar yrðu um aldur tengd íslenskum þjóðvegum. Reynslan hefur hins vegar sannað að hægt er að byggja vegina þannig að lítill sem enginn kostnaður er við að halda þeim opnum á vetrum, nógur malarburður kemur í veg fyrir ófærð á vorin, og víst er hægt að losna við sumarrykið ef fjármagn er nægilegt til lagningar bundins slitlags á þjóðvegina.

Í þáltill. þeirri, sem hér er flutt í hv. Sþ., er ráð fyrir því gert að ríkisstj. láti gera áætlun um kostnað við uppbyggingu þjóðvegakerfisins í hinum snjóþyngri héruðum landsins með það fyrir augum að þeir verði gerðir vetrarfærir á næstu 4–6 árum. Þessi þáttur er tekinn sérstaklega vegna þess að við teljum snjóþyngslin valda einna mestri mismunun með tilliti til afnota af vegakerfinu og að það verkefni, sem hér um ræðir, sé ekki stærra en svo að mögulegt ætti að vera að leysa það á fremur skömmum tíma.

Kostnaður við snjómokstur er mikill og má nefna að á árinu 1975 var kostnaður Vegagerðarinnar við vetrarviðhald 321.7 millj. kr. Ákveðnar reglur gilda um hreinsun vega. Sums staðar er mokað snjó á kostnað Vegagerðarinnar eftir þörfum, annars staðar er mokað einu sinni eða tvisvar í mánuði eða einu sinni eða tvisvar í viku, og til eru þeir þjóðvegir sem Vegagerðin hreinsar af snjó á sinn kostnað aðeins einu sinni eða tvisvar á vetri. Í undirbúningi eru nýjar reglur um þátttöku Vegagerðarinnar í vetrarviðhaldi þar sem gert er ráð fyrir meiri þátttöku Vegasjóðs við hreinsunina á vegum og er það vel. Þeir, sem búa við þá aðstöðu að fá ekki ruddan veginn um sveitina sína óumbeðið nema örsjaldan á vetri, en þurfa að koma afurðum á markað þrisvar eða fjórum sinnum í viku, þurfa að greiða sjálfir helming snjómoksturskostnaðar, auk þess gífurlega kostnaðar sem af því er að leggja tæki í akstur um hálfófæra vegi, en oft er það fremur gert en að kalla til snjóruðningstæki.

Veturinn 1974–1975 var snjóþungur um norðaustanvert landið. En svo vill til að þetta er eini veturinn sem til eru nokkurn veginn fullnægjandi upplýsingar hjá Vegagerð ríkisins um þátttöku heimamanna í þessum kostnaði. Heildarkostnaður sveitarfélaga eða þeirra annarra, sem þátt taka í snjómokstri á móti Vegagerðinni, var á þessum vetri 16.8 millj. kr. og þykir sjálfsagt ýmsum að talan sé ekki firnahá. Eftir kjördæmum skiptist þessi kostnaður þannig, að í Suðurlandskjördæmi var kostnaður heimamanna 977 þús. kr., í Reykjaneskjördæmi svo til enginn, d Vesturlandskjördæmi 484 þús. kr., í Vestfjarðakjördæmi 2 millj. 618 þús., í Norðurlandskjördæmi vestra 1 millj. 36 þús., Norðurlandskjördæmi eystra 7 millj. 915 þús., Austurlandskjördæmi 3 millj. 737 þús. Alls 16 millj. 767 þús. kr.

Sem dæmi um kostnað einstakra sveitarfélaga má nefna að kostnaður Svarfaðardalshrepps í Eyjafjarðarsýslu við snjómokstur umræddan vetur var 2 404 037 kr. eða 20–25% af heildartekjum sveitarfélagsins, auk þess sem mjólkurframleiðendur greiddu 936 359 kr. í aukakostnað við flutning mjólkur í mjólkursamlag. Íbúar hreppsins voru 312 að tölu 1. des. 1975 og var því kostnaður við þennan þátt vetrarsamgangna um 10 700 kr. á hvern íbúa sveitarfélagsins eða 42 800 kr. á fjögurra manna fjölskyldu. Ótalinn er þá auðvitað sá kostnaður sem einstaklingar höfðu af því að leggja tæki sín í misjafnlega illfæra vegi vegna snjóþyngsla.

Í yfirliti sem Vegagerð ríkisins hefur gert um ástand vega í landinu, er þjóðbrautum og landsbrautum skipt í fjóra flokka eftir ástandi veganna: gott, nothæft, ófullnægjandi og slæmt ástand. Samtals eru þjóðbrautir og landsbrautir taldar 7838.6 km, þar af í góðu ástandi 2569.6 km í nothæfu ástandi 1948.9 km, í ófullnægjandi ástandi 1039 km og í slæmu ástandi 2881,1 km. Athygli vekur að lengstir eru vegirnir í lélegasta flokknum, en næstlengstir í þeim besta. Lausn þess verkefnis að gera vegina góða eða nothæfa er komin vel á veg.

Auðvitað eru hinir lélegu vegir mjög misjafnlega snjóþungir. Svo sem kunnugt er eru snjóþyngslin mest um norðanvert landið, frá Vestfjörðum til Austfjarða. Snjóþungir vegarkaflar eru þó í öðrum landshlutum og snjóþyngsli eru misjöfn milli landshluta eftir árum. Athyglisvert er að í þeim fjórum kjördæmum, sem ná frá Vestfjörðum til Austfjarða, eru rúm 62% af þjóðbrautum og landsbrautum alls landsins, en 68.4% af þeim vegum sem taldir eru ófullnægjandi eða slæmir. Þeir vegir, sem í þessa flokka koma, eru auðvitað lítt til þess gerðir að verja sig fyrir snjó. Sú staðreynd, að vegirnir eru lélegir í snjóþyngri héruðum landsins, undirstrikar því þörfina á því að beina í auknum mæli vegagerðarfé til þessara landshluta til að bæta úr brýnni þörf fyrir samgöngur og létta að verulegu leyti af þeim kostnaði, sem ríki og sveitarfélög hafa af snjómokstri í snjóavetrum, og jafna aðstöðu fólksins í landinu til að hafa afnot af vegakerfinu.

Mér þykir rétt að geta þess, að í Suðurlandskjördæmi koma 434.1 km í tvo lélegri flokkana. Í Reykjaneskjördæmi koma 122 km í þessa lélegri flokka, í Vesturlandskjördæmi 494.2 km, í Vestfjarðakjördæmi 634.2 km, í Norðurlandskjördæmi vestra 507.8 km, í Norðurlandskjördæmi eystra 620.9 km og í Austurlandskjördæmi 508.9 km í tvo lélegri vegaflokkana.

Eins og fyrr segir eru 2881 km af þjóðvegakerfi landsins í slæmu ástandi og 1039 í ófullnæg; andi ástandi samkvæmt mati Vegagerðarinnar. Sjálfsagt er þess langt að bíða að þessir vegir verði allir gerðir fyrsta flokks, enda eru sumir þeirra næsta fáfarnir nema yfir hásumarið og aðrar leiðir færar byggða á milli á vetrum. Kanna þarf því hvaða vegir hafa mesta þýðingu fyrir vetrarsamgöngur. Enn fremur þarf að kanna hvaða vegir teppast í snjóum.

Eins og kunnugt er eru snjóþyngsli mjög misjöfn eftir landshlutum og jafnvel sveitum. Ég hygg að það sé ekki eins stórkostlegt átak og margir álíta að bæta vegina svo að tiltölulega viðráðanlegt sé að halda þeim opnum yfir veturinn. Reynslan í ýmsum snjóþungum héruðum sýnir að endurbygging vega veldur algjörri byltingu í samgöngum. Oft verður mér á að hugsa að þeir, sem vart hafa kynnst snjóþyngslum nema af afspurn, geri sér mjög takmarkaða grein fyrir þeim erfiðleikum, sem snjórinn veldur, og þeirri gjörbreytingu, sem verður á aðstöðu allra við það að vegi er lyft nokkra tugi sentímetra yfir umhverfi sitt. Auðvitað bægir það ekki snjónum frá að fullu, en vegurinn getur staðið umr snjólaus eftir stórhríðarbyl og kostnaður við að hreinsa snjóinn burt verður hverfandi miðað við kostnað af að hreinsa gömlu, lágu vegina.

Hin mörgu og stóru verkefni, sem óleyst eru í vegagerð hér á landi, hljóta að valda nokkurri togstreitu um það í hvaða röð beri að leysa þessi verkefni. Á undanförnum árum hefur verið lagt bundið slitlag á nokkra umferðarmestu vegina. Enginn ber á móti því að lagning bundins slitlags er nauðsynjaverk og því hlýtur að verða haldið áfram. Skoðun mín er þó sú, að um sinn beri að leggja aðaláherslu á gerð góðra, uppbyggðra malarvega og leysa þannig frumþarfir fólksins í landinu fyrir samgöngur allan ársins hring. Við tökum okkur oft í munn orð eins og byggðastefna og jöfnun lífsaðstöðu. Ég tel að verulegt misrétti gagnvart lífsaðstöðu allri sé tengt búsetu manna. Aðstaðan til að njóta sameiginlegrar þjónustu þjóðfélagsins er mjög misjöfn í hinum ýmsu landshlutum. Krafan um, að vegir séu gerðir vetrarfærir, er að vísu aðeins einn þáttur í baráttunni fyrir jöfnun lífskjara og lífsaðstöðu. En þessi þáttur er ákaflega mikilvægur, grípur inn í fjölmarga þætti aðra og ég hygg að hann þurfi að sitja fyrir flestu öðru.

Mikilvægur þáttur vegakerfisins hefur ekki verið nefndur á nafn hér, það eru sýsluvegirnir. Þeir eru nú samtals 3208.2 km að lengd og er ástand þeirra víða bágborið. Þó að þessi þáltill. sé aðeins um þjóðvegina mega sýsluvegirnir ekki gleymast. Í nýsamþykktum vegalögum er gert ráð fyrir að bæta hag sýsluveganna verulega og er það vel.

Á undanförnum áratugum hafa fjórhjóladrifsbifreiðar, jepparnir, verið íbúum snjóþyngri héraða mikilsverð samgöngutæki og staðist marga raun í baráttunni við snjó og aðrar torfærur á akstursleiðum. Víst eru jepparnir enn algeng farartæki í sveitum. En nú er svo komið að bifreiðar þessar eru svo dýrar í innkaupum að mjög hefur dregið úr kaupum á þeim. Með því að hækka verð jeppabifreiðanna hafa að mínum dómi aukist skyldur ríkisvaldsins við þá sem við lakastar samgöngur búa. Hið háa verð fjórhjóladrifsbifreiða nú er því ein röksemdin enn fyrir nauðsyn þess að byggja upp þjóðvegi þá sem snjósæknir eru á vetrum eða vaðast upp á vordögum.

Að undanförnu hafa orðið miklar umr. hér í hv. Sþ. um þáltill hv. þm. Ólafs G. Einarssonar og Jóns Helgasonar um lagningu bundins slitlags á þjóðvegi. Ágreiningur sá, sem vart hefur orðið í málflutningi manna, virðist mér fremur vera um röðun verkefna en endanlegt markmið. Að einhverju leyti hljóta þessi verkefni að fylgjast að. En skoðun okkar áttmenninganna er sú, að um sinn beri að leggja höfuðáherslu á að byggja upp góða malarvegi sem færir séu með litlum tilkostnaði allan ársins hring í venjulegu árferði. Um þetta finnst mér að allir þeir, sem framkvæma vilja í reynd hina margumræddu byggðastefnu, hljóti að geta sameinast. Þegar stærstu verkefnunum í uppbyggingu veganna er svo lokið eigum við að snúa okkur að því af alefli að bæta þessa vegi og leggja á þá bundið slitlag.

Herra forseti. Ég mun nú brátt ljúka máli mínu. Uppbygging vegakerfis okkar er vissulega eitt mikilsverðasta framfara- og framkvæmdaverkefni sem við hljótum að vinna að á næstu árum, og við miklum hluta þjóðarinnar blasa hin óleystu verkefni í önn hvers einasta dags. Miklu skiptir því að vel sé þeim fjármunum varið sem til vegamála ganga og þar fari sem minnst í súginn. Vel treysti ég þeim mönnum, sem verkefnin eiga að leysa. En það er Alþingis að marka stefnuna. Vissulega kysum við flest eða öll að meiri fjármunir væru fyrir hendi til vegagerðar en raun ber vitni. Vegna þess langa bils, sem vissulega er milli getu okkar til framkvæmda annars vegar og framkvæmdaþarfarinnar hins vegar, er stefnumörkunin vandasöm. Ég tel að Alþ. eigi tvímælalaust að marka þá stefnu í vegamálum sem fram kemur í þáltill. þeirri sem hér er talað fyrir, að uppbygging þjóðvega í snjóahéruðum landsins sitji í fyrirrúmi þeirra verkefna sem unnin verða í vegagerð á næstu árum.

Herra forseti. Ég legg til að að loknum umr. nú verði frekari umr. frestað og málinu vísað til hv. fjvn.