27.01.1977
Sameinað þing: 42. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1688 í B-deild Alþingistíðinda. (1348)

60. mál, uppbygging þjóðvega í snjóahéruðum

Tómas Árnason:

Herra forseti. Ég vil þakka frsm. þessa máls fyrir ágæta framsögu um málið og ítarlega. Hann kom víða við í sínu máli og ræddi helstu þætti málsins, þá sem mesta þýðingu hafa.

Það er auðvitað margþvælt mál að samgöngur, ekki síst á landi, hafa hina mestu þýðingu fyrir þjóðarbúskapinn og fyrir almenning. Það má segja að á tiltölulega stuttum tíma hafi orðið gjörbylting í þessum efnum þar sem bílafloti landsmanna, bæði fólksbílar og einnig sérstakir bílar sem henta við erfiðar aðstæður, eins og t. d. í snjó, aðallega jeppabifreiðar og einnig vörubílar og langferðabílar af öllum gerðum, — þessi bílafloti hefur stækkað svo ört og svo mikið á stuttum tíma að fáa hefði órað fyrir því fyrir aðeins nokkrum árum.

Við búum í strjálbýlu landi, stóru landi sem er erfitt til vegagerðar samanborið við mörg önnur þjóðlönd. Þess vegna er rétt að það komi fram, sem hefur komið fram hjá mörgum öðrum, að þótt hægar miði í þessum efnum en allir kjósa, þá hafa samt verið unnin stórvirki á undanförnum árum og áratugum í vega- og brúargerð í landinu. Það er sjálfsagt að viðurkenna það og muna eftir því, á sama tíma sem menn horfa auðvitað fram á við til meiri átaka í þessum málum en þegar hafa verið gerð. Það er auðvitað þjóðhagslegt mál að laga vegina í öllum greinum. Úthald bílaflotans er allstór þáttur í útgjöldum þjóðfélagsins í heild og enginn vafi á því að slit á bifreiðum vegna ástands veganna í landinu kostar ógrynni fjár. Þess vegna ýtir það á eftir auknum framkvæmdum í vegamálum almennt séð.

Það er ákaflega misjafnt eftir landshlutum hvernig háttar um samgöngur, og það er ákaflega misjafnt hversu snjóþungt er í einstökum héruðum og einstökum kjördæmum. Í mínu kjördæmi er þetta mjög misjafnt eins og víða annars staðar. Suðurhluti Austurlandskjördæmis er tiltölulega snjóléttur — ég vil segja mjög snjóléttur fyrir sunnan Lónsheiði í Austur-Skaftafellssýslu og jafnvel alllangt norður eftir Austfjörðum. En þegar kemur norðar á Austfirði, þá verða þar gífurleg snjóalög svo að segja á hverjum einasta vetri. Þar eru háir fjallgarðar sem menn þurfa að komast yfir og þarf að flytja vörur yfir og eru þjónustuæðar í raun og veru fyrir atvinnulífið í margs konar skilningi. Ef samgöngustöðvun verður þar, þá stöðvast atvinnufyrirtæki af ýmsum gerðum, og mætti vísa til margra dæma því til staðfestu.

Ég geri ráð fyrir að það sé talsvert stór hluti þjóðarinnar sem gerir sér ekki neina grein fyrir því, við hvað menn búa í þessum efnum í þessum snjóþungu héruðum. Ég var t. d. á ferðalagi á Austurlandi um daginn, svo ég nefni aðeins dæmi, og þurfti að fara yfir fjallgarð, Oddsskarð, þar sem er, eins og allir hv. þm. þekkja, verið að vinna að miklum framförum í vegagerð með Oddsskarðsgöngunum. Á Eskifirði er haldið úti snjóbíl, og gengur snjóbíll yfir Oddsskarð til Neskaupstaðar á hverjum degi. Í þetta sinn þurfti ég að fara þarna á milli. Þarna var snjóbíll, nýtískutæki sem nýtur ríflegs stuðnings Alþingis. Það eru 3 milljónir á vetri sem hann nýtur í styrk til þess að halda uppi þessari starfsemi og ber að meta það að verðleikum. Það var hækkað mjög á fjárlögum í vetur. Þeir hafa þann hátt á að þeir skilja yfirleitt snjóbílinn eftir allofarlega í fjallinu, fara síðan á öflugum jeppum eða bílum sem hafa drif á öllum hjólum til þess að komast í snjóbílinn og fara yfir erfiðasta kaflann. Síðan hefur þessi útgerð snjósleða til þess að fara á milli ef bílarnir ná ekki saman. Í þetta sinn náðu bílarnir ekki saman. Menn komust ekki á þessum öfluga fjallabíl nema upp í hlíðarnar og þá þurfti að fara á snjósleða til þess að ná í snjóbílinn í mjög slæmu veðri, og lyktirnar á þessu ferðalagi urðu þær, að það var snúið frá í þetta sinn.

Þessi litla saga gefur mönnum nokkra hugmynd um hvaða aðstæður það eru sem menn búa við í þessum efnum. Útgerð eins og er á Eskifirði til ferða yfir Oddsskarð að vetrarlagi er mjög dýr og býsna mannfrek. Slíkir flutningar eru ekki bjóðandi í vondum veðrum og við slæmar aðstæður einum manni, heldur þurfa að vera við þá tveir og jafnvel þrír menn til þess að það sé raunverulega forsvaranlegt. Það hefur oft komið fyrir að snjóbílar hafa farið á hliðina og runnið niður hlíðar, og það hefur oft legið nærri slysum. Á Fjarðarheiði gerðist það fyrir tveim eða þrem árum að snjóbíll hrapaði niður í gil og lá við stórkostlegu slysi, en varð ekki af. Þær aðstæður, sem menn búa við í landshlutum eins og á Austurlandi, um miðbik Austurlands og þaðan norður eftir, eru þess eðlis að það er ekki von að fólk, sem býr í snjóléttum héruðum, geri .sér grein fyrir hve miklir erfiðleikar eru við að sinna þeim verkefnum sem að kalla. Þetta á auðvitað einnig við um landshluta eins og Norðurland og Vestfirði og jafnvel víðar.

Þarna eystra, svo ég haldi mér við þann landshluta sem ég er kunnugastur, er nú sem stendur í hámarki loðnuvertíð og loðnuverksmiðjurnar á hverjum einasta firði eru í gangi allan sólarhringinn. Það þarf mikla og örugga þjónustu til þessara fyrirtækja til þess að halda þeim gangandi, því að hver mínúta, sem fellur úr í vinnslu, er verðmæt. Þetta þýðir það, að halda verður uppi svona þjónustu — öruggri þjónustu — á hverjum einasta degi og það kostar mikinn tíma, mikla fyrirhöfn og mikið fé.

Síðan koma til vöruflutningar. Það er allríflegur stuðningur á fjárlögum við vöruflutninga að vetrarlagi, eins og hv. þm. er kunnugt um, veittar til þeirra allverulegar fjárhæðir. Einnig koma til vandkvæði í sambandi við t. d. mjólkurflutninga. Á Austurlandi er það þannig nú að þar er gífurlegur loðnufloti að veiðum. Það eru milli 50 og 100 veiðiskip sem þarf að birgja upp af vistum, þ. á m. af mjólk, og það eru vandkvæði á að koma mjólkinni t. d. núna þessa dagana frá bændum til mjólkurbúa og áfram til flotans. Við höfum einmitt þessa dagana verið að ræða við vegamálastjóra um sérstakar ráðstafanir, sem kosta nú ekki mikið fé, til að greiða fyrir þessari mjög svo nauðsynlegu þjónustu meðan loðnuflotinn fer hjá.

Í raun og veru þarf ekki að halda um þetta íanga ræðu. Þm. þekkja þetta sjálfsagt allir meira og minna af eigin reynd. En ég er viss um að almenningur, t. d. hér á Suðvesturlandi, gerir sér enga grein fyrir því, við hvað er að etja í þessum efnum og hvaða aðstæður geta komið upp í sambandi við þessi ferðalög og þessa flutninga. Það er auðvitað þannig, eins og fyrsti flm. kom inn á í ræðu sinni, að víða háttar svo til að vegir eru hreinlega niðurgrafnir á gamla mátann. T. d. á Fljótsdalshéraði eru í flestöllum sveitum niðurgrafnir vegir þar sem umferð stöðvast við minnstu snjóalög. Hins vegar er mönnum það ljóst og menn hafa reynslu fyrir því, að þar sem búið er að byggja vegina upp, þar gjörbreytir um í þessum efnum og snjórinn stöðvar alls ekki samgöngur í neitt svipuðum mæli og þegar um er að ræða þessa niðurgröfnu vegi. Nýju vegirnir upphlöðnu eru í raun og veru auðir við langflestar aðstæður, og svo er vænti ég í fleiri landshlutum. Þess vegna er eðlilegt að íbúarnir og fulltrúar þeirra hér á Alþ. leggi mikla áherslu á að því verki verði hraðað að byggja upp þjóðvegakerfið, ekki síst í hinum snjóþungu héruðum. Það hefur talsvert mikið áunnist, eins og ég kom að áður, en á þetta þarf að leggja aukna áherslu. Þetta er sanngirnismál gagnvart íbúunum. Þetta er nauðsynjamál þjóðhagslega skoðað, því að það greiðir fyrir nauðsynlegum samgöngum í sambandi við þýðingarmikla þætti í atvinnulífinu og hefur margháttaða aðra þýðingu.

Það er kannske ekki úr vegi að minnast aðeins á það, hve gífurlegan kostnað það hefur fyrir fólk persónulega sem þarf að ferðast um snjóþung svæði, ekki aðeins útlagt fé, heldur tekur þetta einnig langan tíma og menn lenda auðvitað iðulega í því að verða tepptir og þurfa þá að kosta dvöl styttri eða lengri tíma í gistihúsum eða annars staðar. Varðandi ökutæki er álagið á þeim og slit í snjókeyrslu gífurlegt, og þegar á allt er lítið valda þessar aðstæður gífurlega miklum kostnaði fyrir einstaklingana.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál. Það er rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Helga Seljan, 7. landsk., að við, sem stöndum að flutningi þessa máls, leggjum áherslu á að flýta þessari uppbyggingu. Ég skal ekki spá neinu um hvað mikið fjármagn verður til skipta í þessum efnum á þessu ári. Það er öllum kunnugt að á síðustu árum hefur svigrúm fyrir Alþ. til þess að beina meira fjármagni til samgöngumála og ekki síst til vegamála takmarkast nokkuð af því að olíukreppan hefur þrengt að. Hinar gífurlegu hækkanir á olíum og bensíni hafa auðvitað valdið því, að menn hafa ekki viljað leggja meira á þá þætti sem tekjustofna heldur en góðu hófi gegnir, og það er spurning hvort ekki er komið þar alveg á ystu nöf. Hins vegar kostar þetta auðvitað fjármagn, og ég segi fyrir mig sem þm. að ég hef ekki skorast og mun ekki skorast undan því að leita tekjustofna til þess að auka framkvæmdir í vegamálum, og það ber að hafa í huga.

Nú er sannleikurinn sá í sambandi við vegamálin sem slík, að það hefur verið býsna góð samvinna í þeim málum milli stjórnar og stjórnarandstöðu og ekki mikill ágreiningur. Þm. hafa unnið nokkuð saman að þessum málum, og það hefur ekki verið ágreiningsefni í sjálfu sér að það þyrfti að beina miklu fjármagni til þessara framkvæmda. Það hefur verið gert þó að það sé nokkuð misjafnlega mikið eftir árum og aðstæðum, og því er ekki að leyna, að á undanförnum allra seinustu árum, sem verðbólgan hefur geisað í þjóðfélaginu, hefur hún komið hart niður á þessum framkvæmdum eins og öðrum því að vegáætlun er samþ. hér á Alþ. löngu áður en framkvæmdirnar eru gerðar. Þetta hefur valdið hinum mestu vandkvæðum fyrir þá sem standa fyrir þessum framkvæmdum, vegna þess að engar áætlanir standast í þessum efnum frekar en öðrum varðandi opinberar framkvæmdir. Svo er hitt, sem ég nefndi áðan, að olíukreppan hefur þrengt svigrúm manna til að afla tekna til vegaframkvæmda í gegnum bensíngjald. En ég vil leggja á það áherslu og geri það raunar sem flm. þessa máls og veit að við höfum ekki sérstöðu í þessu efni hér í þinginu, — það er áhugamál flestra hv. þm. að leggja á það áherslu að þessum þætti vegagerðarinnar verði gefinn sérstakur gaumur við gerð þeirrar vegáætlunar sem nú er í undirbúningi.