27.01.1977
Sameinað þing: 42. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1694 í B-deild Alþingistíðinda. (1349)

60. mál, uppbygging þjóðvega í snjóahéruðum

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það má segja að umr. um vegamál hafi nokkuð sett svip sinn á þinghaldið og þó sérstaklega fyrir jólaleyfi. Þá var til umr. þáltill. sem lögð hafði verið fram í umr. um þá þáltill. var einnig komið inn á þá þáltill sem nú er til umr. Ég skal ekki fara út í að ræða sérstaklega þessa hlið þeirra mála. En ástæðan fyrir því, að ég kvaddi mér hér hljóðs, er sú, að það hafa tveir hv. þm. víkið hér aðeins að þeirri breytingu sem gerð var á vegalögum fyrir áramót, — breytingu sem ég taldi a. m. k. vafamál að yrði til bóta eða til framdráttar því meginsjónarmiði sem ég tel að hljóti að liggja að baki þeirrar þáltill., sem hér er til umr. Ég gerði grein fyrir því þá í umr. að ég drægi mjög í efa að hér væri stefnt í þá átt sem þessi þáltill. gerir ráð fyrir, og ég hef síðan styrkst miklu frekar í þeirri trú, að hér er ekki verið að leggja neinn grundvöll að framtíðarframkvæmdum fyrir hinar dreifðu byggðir að því er varðar vegamál.

Hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir vitnaði hér í yfirgnæfandi, að ég vildi segja, afstöðu um. í samgn. Nd. til túlkunar á 3. gr. frv. sem lagt var hér fram fyrir áramót og fjallaði um breytingu á vegalögum. Hún las það hér upp, ég tel ástæðulaust að vitna frekar í það. Við vildum a. m. k. fá úr því skorið hver skilningur núv. hæstv. samgrh. væri varðandi túlkun á þessari grein. Og ég held, út af því sem hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir sagði hér áðan, að ráðh. hefði gleymt að efna loforðið hér úr ræðustól um túlkun sína á þessu að þar hafi ekki verið um neina gleymsku að ræða, því miður, heldur hafi það verið vísvitandi gert að sleppa því. Hann var búinn að fá nógu mikinn hljómgrunn hjá hv. stjórnarliðum flestum og sumum hverjum stjórnarandstæðingum fyrir þessari breytingu, þannig, að hann gat sér að meinalausu leyft sér að sleppa því að gera grein fyrir ákveðinni túlkun á þessari umdeildu grein frv. Það hefði farið betur ef þm. Sigurlaug Bjarnadóttir hefði tekið undir þessar efasemdir mínar við umr. um breyt. á vegalögum fyrr í vetur, þannig að menn hefðu ekki verið alveg eins fljótir að gleypa við þeirri breytingu og skrifa undir hana á þann veg að þeir teldu að hér væri verið að ráða bót á því ófremdarástandi sem er í vegamálunum víðs vegar úti á landsbyggðinni. Ég held því miður að það ætli að fara að því sem ég hélt varðandi þessa breytingu. Mér hafa borist um það fregnir og ég sel þær ekki dýrar en ég keypti þær, að við gerð vegáætlunar fyrir árið 1977, sem enn er ekki búið að leggja fram hér á hv. Alþ., sé gert ráð fyrir að setja um 1700 millj. kr. í hinar svokölluðu nýju stofnbrautir, af því eigi að fara ca. 700 millj. í Borgarfjarðarbrúna og álíka upphæð í Norðurveginn og Austurveginn. Þá eru komnar þar um 1400 millj. a. m. k. af þessum 1700, og þá sjá dreifbýlisþm. hvað verður eftir til skiptanna fyrir þá á þau svæði sem stofnbrautirnar eiga að liggja um fyrir utan þessi.

Þetta er mynd af hinni nýju stefnu sem mér sýnist eiga að verða uppi eftir þá breytingu sem gerð var á vegalögunum. Þetta er a. m. k. ekki í mínum huga glæsileg mynd til framdráttar því sjónarmiði, sem ég og fleiri hafa barist fyrir, þ. e. a. s. meiri og hraðari framkvæmdum í vegagerð úti á landsbyggðinni.

Við vitum hvað er búið að setja stefnuna á af hálfu hæstv. samgrh. þegar Borgarfjarðarbrúnni er lokið. Það er búið nánast að lofa brúargerð yfir Ölfusárósa. Það er næsta stórverkefnið. Það er því útséð a. m. k. í mínum huga og ég er ekki í neinum vafa um það, að sú breyting, sem gerð var á vegalögum fyrir nokkru, verður ekki til hins betra fyrir framkvæmdir á þeim stöðum sem fyrst og fremst þurfa framkvæmdanna með. Það má þykja gott, segi ég, ef það verður status quo í þeim efnum. Hins vegar óttast ég að sú breyting verki til hins verra frá því sem verið hefur. Hefði ég talið vera ástæðu fyrir þm. dreifbýliskjördæmanna til að gefa þessu frekari gaum, þegar þetta var til umr., og knýja betur á um svör, túlkun og stefnu, bæði frá hæstv. samgrh. og öðrum ráðandi mönnum í hæstv. ríkisstj.

Ég er ekki í neinum vafa um hver er stefna hæstv. samgrh. í þessu máli. Það hefur verið mér alveg opin sýn frá því að stefnan var tekin á Borgarfjarðarbrúna, og hver yfirlýsingin af annarri hefur komið í kjölfar þess um álíka verkefni, þannig að engum þm., sem vildi hafa augun opin fyrir því sem hefur verið að gerast, bæði í framkvæmdum og yfirlýsingum af hálfu hæstv. samgrh., hefði átt að detta í hug að sú breyting, sem hann fyrst og fremst knúði á í sambandi við vegalögin, væri til þess að gera léttara fyrir dreifbýliskjördæmunum, því miður. Og það ætlar að sannast ef þær hugmyndir, sem ég var hér að reifa áðan í sambandi við vegáætlun fyrir árið 1977, reynast sannar. Þá er síður en svo að það hafi verið vel gert að breyta vegalögum frá því sem þau voru. Og ef sú verður stefnan, þá breytir engu hvað um þessa þáltill. verður. Menn tala hér fögrum orðum um mikilvægi þess að framkvæma í anda hennar, en gera svo þveröfugt þegar til framkvæmdanna kemur, þ. e. a. s. þeir sem ferðinni ráða.