25.10.1976
Sameinað þing: 8. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í B-deild Alþingistíðinda. (135)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ekki er ólíklegt að einhverjir hafi áðan hrokkið við að heyra hæstv. forsrh. lýsa því hátíðlega yfir að stefna ríkisstj. í efnahagsmálum hafi borið verulegan árangur. Líklega er þetta ein kokhraustasta yfirlýsing sem lengi hefur heyrst í íslenskum stjórnmálum. Á því ári þegar reiknað er með að vísitala vöru og þjónustu hækki um 33%, — á því ári þegar ískyggileg skuldasöfnun við útlönd á sér stað, þegar skuldir ríkissjóðs og ríkisstofnana við Seðlabankann eru komnar yfir 12 þús. millj. kr., sem þýðir í reynd að bankinn hefur prentað nýja seðla svo nemur um 4000 millj. hr. annað árið í röð til að bjarga ríkissjóði frá fjárþrotum, — á því ári þegar lífskjör alls þorra launafólks hafa verið með afbrigðum léleg vegna látlausra kjaraskerðingaraðgerða, þá er forsrh. landsins ánægður með árangurinn og telur sig hafa unnið umtalsverðan sigur.

Ekki skal ég halda því fram að vinstri stjórnin hafi ávallt haldið á efnahagsmálum þjóðarinnar eins og best verður á kosið. En skyldu ekki flestir þeir, sem óánægðir voru með störf vinstri stjórnarinnar, gera sér grein fyrir því, hvílíkur reginmunur er á þeirri stjórn og hinni, sem nú situr.

Á tveimur fyrstu stjórnarárum vinstri stjórnar, frá ágústmánuði 1971 til ágústmánaðar 1973, hækkaði vísitala vöru og þjónustu um 44%. En á tveimur fyrstu valdaárum núv. hægri stjórnar, þ.e. frá stjórnarskiptum til ágústmánaðar 1978, hækkaði vísitala vöru og þjónustu nm hvorki meira né minna en 111%.

Á tveggja ára afmæli vinstri stjórnar var gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadollar nokkurn veginn það sama og verið hafði í upphafi kjörtímabils. Það hafði að vísu bæði hækkað og lækkað, en var um þær mundir í sama fari og verið hafði tveimur árum áður. En svo gífurlegt hefur gengisfall íslensku krónunnar verið á tveimur árum hægri stjórnar að Bandaríkjadollar hefur hækkað í verði um rúmlega 90%.

Á tveimur fyrstu stjórnarárum vinstri manna batnaði gjaldeyrisstaða landsins um 2500 millj. kr. og gjaldeyrisvarasjóðurinn fór nokkuð yfir 6000 millj. kr. Þá var hrópað hátt um það af talsmönnum Sjálfstfl. að gjaldeyrisvarasjóður þjóðarinnar væri ekki nógu stór. Nú er þessi sjóður löngu þurrausinn og í staðinn komnar gjaldeyrisskuldir sem nema á annað þús. millj. kr.

Á tveimur fyrstu valdaárum vinstri stjórnar jókst skuld ríkisins og ríkisstofnana við Seðlabankann um 250 millj. kr. hvort árið. En á tveggja ára valdatíma hægri stjórnar hefur skuldaaukningin numið um 4000 millj. kr. hvort árið.

Í tíð vinstri stjórnar bötnuðu lífskjör fólksins mjög verulega, sem sannaðist á því að hækkun verðlags í landinu var um það bil helmingi hægari en hækkun almennra launa á fyrri hluta kjörtímabilsins. En nú hefur þessi þróun snúist svo gersamlega við, að hækkun verðlags hefur verið um það bil tvöfalt meiri en hækkun launanna, eins og margoft hefur verið sýnt fram á í umr. um kjaramál að undanförnu.

Staðreyndin er sú, að Sjálfstfl. vann dágóðan sigur í seinustu kosningum, fyrst og fremst á grundvelli þess að talsmenn flokksins lofuðu því að koma traustri stjórn á efnahagslífið og fjármál ríkisins ef þeir kæmust til valda, og sérstaklega hétu þeir því að ráða niðurlögum verðbólgunnar.

Vinstri stjórnin lenti óneitanlega í nokkrum erfiðleikum á seinasta stjórnarári sínu vegna þess að gífurlegar erlendar verðhækkanir, meiri en áður voru dæmi til, skullu yfir efnahagslíf landsmanna eins og óvænt flóðbylgja. Olía þrefaldaðist í verði á örskömmum tíma og flest innflutt hráefni tvöfölduðust í verði.

Þetta ástand hagnýtti Sjálfstfl. sér á hinn óprúttnasta hátt og gerði allt sem hann gat til að koma í veg fyrir nauðsynlegar efnahagsráðstafanir, um leið og hann hamraði á þeirri gömlu kenningu, að undir forustu vinstri manna hlyti stjórn efnahagsmála að fara úrskeiðis, sjóðir yrðu tæmdir og skuldir hlæðust upp.

Geir Hallgrímsson lét það líka verða sitt fyrsta verk, eftir að hann settist í sæti forsrh., að Lofa því hátíðlega í útvarpsumr. á Alþ. 5. nóv. 1974 að verðbólgan í landinu skyldi fara niður fyrir 15% á fyrsta stjórnarári sínu. Forsrh. gerði sér að sjálfsögðu grein fyrir því, að til þess hafði hann fengið umboð kjósenda að hann stæði við stóru orðin. En einu ári síðar kom á daginn að stjórn hans hafði staðið fyrir meiri verðbólguhraða á fyrsta stjórnarári sínu en nokkur önnur stjórn á Íslandi í meira en hálfa öld. Geir Hallgrímsson lét þó ekki þennan óvenjulega árangur aftra sér frá því að gefa þjóðinni enn eitt fyrirheit í útvarpsumr. 23. okt., fyrir einu ári. Þá fullyrti forsrh.ríkisstj. mundi koma „verðbreytingum hér á landi frá upphafi til loka næsta árs niður í það bil sem hér hefur verið að jafnaði síðustu áratugi, 10–15%“. Þetta er orðrétt tekið eftir þingtíðindum fyrir einu ári.

Enginn getur leyft sér að halda því fram að launabreytingar hafi valdið því sem síðan hefur gerst, því að launahækkunum hefur verið svo í hóf stillt á þessu eina ári, eins og öllum er kunnugt, að lífskjör launafólks hafa jafnvel haldið áfram að versna. Enn síður er unnt að halda því fram að erlendar verðhækkanir komi hér til, því að verðlag á innfluttum vörum hefur aðeins hækkað um 5% á s.l. ári. En eins og áður var nefnt hefur verðlag vöru og þjónustu hækkað um 33%, og er það sú talan sem við er miðað í nýbirtu fjárlagafrv. ríkisstj.

En Geir Hallgrímsson er sæmilega ánægður þrátt fyrir allt og telur að góður árangur hafi náðst. Staðreyndin er þó sú, að ef verðbólgan heldur áfram með sama hraða og nú er út þetta kjörtímabil, að jafnaði 33% á ári, verður niðurstaðan sú, að verðlag í landinu fjórfaldast á fjórum árum, fjórfaldast á þessu eina kjörtímabili. Þjóðin er ýmsu vön þar sem verðbólgan er annars vegar, en vonandi skilja flestir að verðbólguhraði núv. stjórnar er alger eðlisbreyting frá því, sem áður var. Til samanburðar má nefna að á seinasta áratug fjórfaldaðist verðlag í landinu á 12 árum, á þremur kjörtímabilum, frá 1959–1971, og þótti þó flestum nóg um. Afleiðingar verðbólgunnar hafa oft valdið áhyggjum, en hinn einsfæði verðbólguhraði núv. stjórnar þefur í för með sér vanda af þeirri stærðargráðu sem áður var óþekkt. Hvers konar sjóðir, sem landsmenn hafa byggt upp á löngum tíma, eyðast nú í eldi verðbólgunnar miklu hraðar en svo að nokkur leið sé að halda þeim við með árlegum framlögum: lífeyrissjóðir, bankar, sparisjóðir, fjárfestingarsjóðir atvinnuveganna, sjóðir atvinnuleysistrygginga, byggingarsjóðir. Verðbólgustefna ríkisstj. rífur niður það sem áður var upp byggt. Á fáum árum ónýtist það sem áunnist hefur.

Ef glæpur er framinn er það gamalt ráð hjá sérfræðingum sakamála að spyrja sjálfa sig: Hverjum er hagur að því sem gerst hefur? Hverjir hagnast? — Væri ekki ráð að velta því fyrir sér hverjir hagnast helst á því ástandi sem nú ríkir í þjóðfélaginu?

Það eru fleiri en forsrh. sem una hag sínum vel um þessar mundir, og þeir, sem una sér best, eru þeir sem skulda mest og eiga eignir á móti. Við megum ekki láta það villa okkur sýn, að flestir landsmenn skulda eitthvað. Þeir mörgu, sem byggt hafa sér hús eða íbúð á undanförnum árum, skulda hluta af andvirði þess, græða ekki raunverulega á verðbólgunni. Tap þjóðfélagsins á verðbólgunni er gífurlegt og hluti þess taps lendir á hverjum samfélagsþegn. Þetta tap, sem hver og einn verður að bera, er margfalt meira en nemur verðbólguhagnaði af venjulegum íbúðalánum eða smáskuldum í bönkunum. En það eru þeir stóru sem hagnast. Það eru þeir sem átt hafa sérstaklega greiðan aðgang að lánakerfi landsmanna og fengið hafa þar háar fjárhæðir. Það eru þeir sem borga milljónir í vexti af lánum á hverju ári, en fá í staðinn enn fleiri milljónir í verðbólgugróða og komast þar að auki upp með að draga alla þessa vexti frá við álagningu tekjuskatts. Það eru þeir sem komist hafa yfir atvinnutæki, sem kosta hundruð, ef ekki þúsundir milljóna kr., og hafa fengið til þess lán úr opinberum sjóðum, en sleppa þó við að greiða skatt af tekjum sínum vegna fáránlegra ákvæða í skattalögum. Þessir menn eru auðvitað ánægðir með ástandið eins og það er. Þeir eru ánægðir með ríkisstj. og hjartanlega sammála Geir Hallgrímssyni, að hann hafi náð góðum árangri. Þeir eru m.a. ánægðir með það að ríkisstj. fékkst ekki til að samþykkja á seinasta þingi þá till. okkar alþb.- manna að ákveðið hámark skyldi sett á vaxtafrádrátt við álagningu tekjuskatts. Og enn frekar gleðjast þeir yfir því, að till. okkar um breytingar á fyrningarreglum skattalaga skyldi ekki ná fram að ganga, enda er árangurinn sá, að í Reykjavík einni eru á þessu ári tæplega 500 fyrirtæki sem samanlagt velta um 39 þús. millj. kr., en borga þó ekki eina einustu krónu í tekjuskatt.

Á þetta höfum við alþb.-menn bent hér á Alþ. ár eftir ár. Í hittiðfyrra voru skattlaus fyrirtæki í Reykjavík, miðað við ákveðna lágmarksveltu, um 240. Í fyrra voru þau nær tvöfalt fleiri eða 432 og á þessu ári 483. Þá eru ótalin öll þau skattlausu fyrirtæki sem rekin eru í nafni einstaklinga, því að þetta eru aðeins fyrirtæki í félagsformi og aðeins þau sem aðsetur hafa í Reykjavík.

Af þessu má sjá að ýmsir hafa ástæðu til að þakka Geir Hallgrímssyni fyrir árangursrík störf. En hinir eru þó hundraðfalt fleiri, sem telja sig lítið hafa að þakka. Allur fjöldinn er að missa þolinmæðina gagnvart ríkisstj. sem knúið hefur það fram með látlausu gengisfalli og verðbólguráðstöfunum að launakjör hér á landi eru nú orðin helmingi lægri en í flestum nálægum löndum sem þó hafa svipaðar heildartekjur á mann, svipaðar þjóðartekjur ef deilt er með íbúatölu. Menn gera sér grein fyrir því, að skipting þjóðartekna hefur verulega raskast launamönnum, sjómönnum og bændum í óhag. Fólk gerir sér ljóst í vaxandi mæli að bankakerfið, verðbólgan og skattakerfið eru þrír helstu þættirnir í þeirri svikamyllu sem núv. hægri stjórn heldur verndarhendi sinni yfir. Það skilur að gagnvart því kerfi, sem við er að etja, dugir ekkert minna en róttækur uppskurður á mörgum sviðum samtímis. Þetta er í sjálfu sér ekkert nýtt. Þannig hefur það lengi verið, og ekki var kerfið skárra þegar Alþfl. var í vist hjá Sjálfstfl. allan seinasta áratug.

Vinstri stjórnar meiri hl. kom vissulega ýmsu góðu til leiðar. En það verður að segjast eins og er, að í þeirri stjórn voru róttækari öflin ekki nægilega sterk til að knýja fram þær breytingar sem brýnastar eru, t.d. í skattamálum. Umskipti í íslenskum stjórnmálum verða þá fyrst og því aðeins að styrkleikahlutföllin breytist, að hin róttækari öfl styrkist verulega og megni að koma afdráttarlausri vinstri stefnu til valda.

Lítum aftur á skattamálin. Þessi 483 skattlausu félög í Reykjavík, sem ég nefndi hér áðan, veltu samanlagt á s.l. ári tæpum 40 þús. millj. kr. Þó er þetta aðeins hluti þeirra fyrirtækja í öllu landinu sem borgar lítinn eða engan tekjuskatt. Með breyttum tekjuskattslögum mætti vafalaust innheimta til viðbótar um 6–8 þús. millj. kr. sem nota mætti til að lækka söluskatt um 4–5% og hækka þannig kaupmátt launa. Þetta væri góð byrjun í viðureigninni við verðbólguna.

Hin gamalkunna töfraformúla, að vandamálin leysist með því að breyta tekjuskiptingunni með sífelldu gengisfalli eða gengissigi og skerða þannig lífskjör fólksins eins og framast er unnt, hefur aldrei sannað fánýti sitt betur en einmitt seinustu tvö árin.

Lífskjör fólks verða aftur að færast í eðlilegt horf. Viðskiptakjör landsins eru nú hagstæðari en oftast áður, og t.d. hefur verð á fiskblokk á Bandaríkjamarkaði aldrei verið hærra samkv. nýlegum upplýsingum Morgunblaðsins. Afkoma þjóðarbúsins er góð, og afkoma fólksins getur verið það einnig ef réttlátar er skipt. En til þess þarf gerbreytta stefnu. Það dregur ekki verulega úr hraða verðbólgunnar nema vinnu­ brögðin hreytist, neysluskattar og vextir séu verulega lækkaðir, milliliðakostnaði haldið í lágmarki og hætt sé að beita gengislækkunarvopninu til að knýja fram tekjuskiptingu sem ekki verður við unað.

Að öðru leyti er mest um vert að framleiðsla landsmanna sé aukin. Uppbygging íslenskra atvinnuvega er gersamlega stjórnlaus um þessar mundir og án nokkurs teljandi frumkvæðis af hálfu ríkisstj., nema í stóriðjumálum útlendinga sem lítil gæfa fylgir.

Efling íslenskra atvinnuvega í samræmi við þarfir og getu íslendin.ga sjálfra er einmitt eitt mikilvægasta viðfangsefni vinstri manna: áætlunargerð og markviss skipulagning á sem flestum sviðum.

Lítum á orkumálin. Í þeim málum ríkir hin mesta óstjórn og glundroði, og svo verður áfram þar til sú leið verður valin sem við alþb.- menn höfum bent á, að allt landið verði samtengt í eitt raforkukerfi, raforkuöflun verði öll á einni þendi og orkan seld á sama verði um land allt.

Það er mesti misskilningur að of mikið hafi verið virkjað á seinustu árum. Hins vegar hafa áætlanir um nýtingu orkunnar til innlendra þarfa ekki verið gerðar og þar liggur meinið.

Til að taka af allan vafa verður að festa það í lög að orkulindir Íslands séu sameign allrar þjóðarinnar, bæði vatnsorka og jarðvarmi á ákveðnu dýpi. Eða getur það talist sanngjarnt að sá, sem á land í grennd við eldfjall, fái allt sitt tjón greitt úr sameiginlegum sjóði ef gos brýst út, sjóði sem myndaður er með skattaálögum á alla landsmenn, en þegar samfélagið ætlar að nýta sér eldinn í iðrum jarðar til að framleiða orku til almenningsþarfa, þá geti landeigandinn komið og sagt: hitinn í jörðinni er mín eign, gerið svo vel og borgið? — Slík viðhorf verður þjóðin að kveða niður í eitt skipti fyrir öll, áður en skjólstæðingar Sjálfstfl. ná því marki sínu að leggja undir sig auðlindir, sem fram að þessu hefur enginn átt — annar en þjóðin í landinu sameiginlega.

Enn er ekki séð fyrir endann á landhelgismálinu. Síðan samið var við breta á s.l. vori hefur stöðugt orðið ljósara að þessi samningsgerð var í hæsta máta óskynsamleg og óþörf. Bretar hefðu bersýnilega verið nauðbeygðir að gefast upp í baráttunni við íslendinga þegar á þessu sumri ef forustumenn íslendinga hefðu haft þor til að þrauka lengur. Á þessu ári hafa viðhorf ráðamanna í flestum nálægum löndum til landhelgismála gerbreyst. Nú er hafið þorskastríð milli breta og Efnahagsbandalagsins, þar sem bretar eru í okkar sporum. Bretum var orðin lífsnauðsyn að leggja niður deilur sínar við íslendinga ef þeir áttu að gera sér nokkra von um sigur í stríðinu við Efnahagsbandalagið. Auk þess reyndust aðgerðir landhelgisgæslunnar á s.l. vetri mjög árangursríkar þátt fyrir rándýrt herskipaúthald breta. Þess vegna var það aðeins tímaspursmál hvenær þeir neyddust til þess að gefast upp og snúa algerlega við blaðinu. Og einmitt þess vegna áttum við á s.l. vori að fylgja sókninni eftir og flæma breta endanlega á brott úr íslenskri landhelgi og um leið að nota það tækifæri sem gafst til að segja upp samningnum við vestur-þjóðverja og hlífa þannig fiskimiðum okkar við 90 þús. tonna afla þýskra togara fram í des. á næsta ári.

En forustumenn núv. stjórnar mátu það meira að styggja ekki vini sína í Atlantshafsbandalaginu. Flest bendir til þess að bretar hefðu aldrei þorað að sýna íslendingum þann yfirgang sem raun varð á, ef íslenska þjóðin hefði staðið óháð og utan við öll hernaðarhandalög. Aðildin að NATO varð fjötur um fót eins og við mátti búast.

Upplýst hefur verið að framkvæmdanefnd Efnahagsbandalagsins vilji nú gera 5 ára samning við íslendinga um veiðar bandalagsþjóðanna, þ. á m. breta, í íslenskri landhelgi. Allir, sem eitthvað þekkja til fiskveiða íslendinga, vita að ríki Efnahagsbandalagsins hafa ekkert að bjóða okkur á móti sem jafnast á við fiskveiðiréttindi þeirra í íslenskri landhelgi, og ástand fiskstofnanna er einnig þess eðlis að við erum ekki aflögufærir nema við skerum niður veiðar okkar sjálfra að sama skapi. Þetta er forsrh. Geir Hallgrímssyni ljóst eins og öllum öðrum, og þó er hann í stefnuræðu sinni hér áðan að hoppa í kringum það eins og köttur í kringum heitan graut hvort ekki kynni að vera rétt að semja einu sinni enn. Það leyndi sér ekki hvað hann langar til.

Einbeitt andstaða þjóðarinnar kom í veg fyrir að samið væri við breta um 70–80 þús. tonna ársafla á s.l. hausti, og enn var það andstaða almennings sem kom í veg fyrir samninga um litlu minna aflamagn er forsrh kom heim frá Lundúnum og vissi ekki í heila viku í hvorn fótinn hann ætti að stiga, hvort hann ætti að hafna samningspunktum Wilsons eða samþykkja þá, þar til aðrir tóku af skarið.

Þannig var það þrýstingur frá fjöldanum, sem úrslitum réð hvað eftir annað á s.l. vetri. Eins er nú þörf á því að fólkið í landinu risi upp til varnar hagsmunum sínum og láti ekkert tækifæri ónotað á næstu vikum til að hamla gegn nýjum samningum um íslenska landhelgi. Hér þarf fólk í öllum stjórnmálaflokkum að taka höndum saman. Enn er unnt, ef viðtæk samstaða skapast. að gera samningaáform forustumanna Sjálfstfl. að engu.

Góðir hlustendur. Það fór eins og margan grunaði, að samvinna Framsóknar við Sjálfstfl. mundi laða fram verstu eiginleika beggja þessara flokka Núv. ríkisstj. hefur gengið svo fram af mönnum með harkalegri kjaraskerðingu, linkind í landhelgismálum. aðgerðarleysi í skattamálum og almennu stjórnleysi í fjármálum, að hennar bíður harður dómur fólksins þegar þar að kemur. En hvað tekur við, það skiptir mestu. Verður áfram hjakkað í svipuðu fari, eða getum við vænst þess að veruleg umskipti séu í nánd? Það veltur fyrst og fremst á íslenskum vinstri mönnum. Þeir gera sér ljóst í vaxandi mæli að vinstri stefnan verður ekki leidd til öndvegis undir forustu milliflokka sem sveiflast til og frá eftir því hvaðan hann blæs hverju sinni. Til þess þarf sterkan og einarðan vinstri flokk með sósíalíska stefnu. SF eru nú í upplausn, fyrst og fremst vegna þess að menn finna að í þeim átökum, sem fram undan eru í íslenskum stjórnmálum, duga aðeins stórar og sterkar fylkingar. Alþb. hefur verið í stöðugri sókn seinustu árin. Á næstu mánuðum og árum verða íslenskir vinstri menn að ná þeim áfanga að Alþb. verði stærsti og sterkasti andstöðuflokkur íhaldsins. Það er sá mótleikur gegn ofurvaldi hægri aflanna sem vinstri menn verða að sameinast um. Þá fyrst er von til þess að gagnger umskipti verði í íslenskum stjórnmálum.