31.01.1977
Efri deild: 39. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1724 í B-deild Alþingistíðinda. (1368)

150. mál, fávitastofnanir

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég vil fagna framkomu þessa frv. Ég tel það hiklaust til mikilla bóta. Þetta vekur okkur til umhugsunar um hvernig á eðlilegri hátt er hægt að fella þetta nám almennt inn í okkar menntakerfi. Ég held að það þurfi að athuga í leiðinni þó að það sé hárrétt hjá hæstv. ráðh. að Þroskaþjálfaskólinn hefur tekið miklum breytingum til batnaðar nú á síðustu tímum. En takmarkið hlýtur auðvitað að vera að þessi skóli falli á eðlilegri hátt en verið hefur, — e. t. v. gerir hann það betur eftir að þetta skref hefur verið tekið, — falli á eðlilegri hátt inn í hið almenna menntakerfi okkar. Það hlýtur að vera okkar takmark. Hér er hins vegar tekið skref í rétta átt. Það er auðvitað sjálfsagt að losa þessi algeru tengsl við þessa einu stofnun, við þetta eina hæli, og auka um leið með því sjálfstæði skólans og þá auðvitað fyrst og fremst, eins og mér sýnist meiningin vera með þessu frv., að auka og bæta við þessa menntabraut. Ég veit að það er næstum útilokað að það geti farið saman, að forstöðumaður þessa hælis sé jafnframt skólastjóri þessa skóla, hversu vel sem hann vill að þessu vinna.

Það vekur hins vegar athygli okkar um leið á hvaða lögum er verið að gera hér breytingu. Það eru lög sem heita því óheppilega nafni: Lög um fávitastofnanir. Þetta eru ekki gömul lög að vísu, þau eru ekki orðin áratugagömul, en þau eru í mörgu mjög úrelt, og þetta atriði, sem hér er um fjallað, er aðeins eitt atriði af mörgum. Ég tel þessi lög úrelt vegna þess að til rúms hefur rutt sér ný stefna í málefnum þroskaheftra almennt. Við höfum að vísu lagað okkur töluvert að þessari stefnu og margir framsýnir menn hafa gert það myndarlega. En okkur vantar engu að síður ýmis lagaákvæði sem falla betur að þeim nútímaviðhorfum sem nú eru almennt uppi í þessum efnum.

Þegar lögin voru sett, þá er það staðreynd að þá var innilokunarstefnan, sem ég vil kalla svo, sú stefna að safna helst öllu þessu fólki á eitt hæli, — þá var þessi stefna alls ráðandi, og lögin hljóta að nokkru leyti að hafa tekið mark þar af og gera það þegar þau eru grannt lesin. Nú er um gerbreytt viðhorf að ræða, fyrst og fremst miklu manneskjulegri viðhorf, en einnig viðhorf sem hafa í för með sér aukna þjóðhagslega hagkvæmni þar sem þessu fólki er í æ ríkara mæli beint út á einhverja þá braut sem því er fært að feta á lífsleiðinni og geta þar með orðið liðtækari einstaklingar en það hefur áður verið og fyrst og fremst auðvitað til gagns og gleði fyrir sjálft sig. En þetta kallar allt á alvarlegt endurmat í heild. Ég skal ekki fara nánar út í það. En það hefur verið flutt till. þm. úr öllum flokkum um samræmda heildarlöggjöf í þessu efni í anda þeirrar nýju stefnu sem hér hefur rutt sér til rúms, og ég vonast til þess að hún hljóti samþykki og að lög þar að lútandi verði samræmd nýjum og bættum viðhorfum.

Ég hnaut um það hér eins og oft áður, þó að það sé ekki varðandi þetta frv. sérstaklega, að um stjórn skólans, starfslið, námstíma, námsefni, inntökuskilyrði og annað, er varðar starfsemi hans, skal ákveðið í reglugerð. Margt er þetta eðlilegt. En reglugerðarákvæði í okkar lögum kalla fram í hugann áleitnar spurningar, þ. e. a. s. hversu afgerandi eru lögin, hversu skýrt segja þau til um hvað meiningin er að gera og hversu mikið segir svo blessuð reglugerðin sem samin er af embættismönnum — ágætum embættismönnum oft og tíðum? Það fer, held ég, jafnvel í vöxt að lög eru höfð ónákvæm, ákvæði þeirra eru ekki nógu nákvæm, kannske vitandi vits, og síðan er vísað í reglugerð sem allsherjarlausnarorð fyrir það sem á vantar í lögin. Ég var nefnilega spurður að því núna á tveimur eða þremur fundum, sem ég var á eystra, hversu mikið af valdi þm. afsöluðu sér með þessum eilífu reglugerðarákvæðum, hversu mikið vald við værum að færa út til embættismannanna með þessu. Það er staðreynd að embættismenn túlka auðvitað lög misjafnlega og oft á hæpinn hátt, vægast sagt, og fá þannig mikið vald, — vald sem ég vildi gjarnan að við í þinginu gætum haft a. m. k. áhrif á. Mér dettur þetta nú ekki aðeins í hug í þessu sambandi, en skal koma nánar að á eftir hvers vegna þetta kom upp í hugann.

Hér er spurning um almenna meðferð reglugerða í framhaldi af lagasetningu. Mér fyndist að mörgu leyti eðlilegt að þessar reglugerðir kæmu til skoðunar hjá viðkomandi þn. áður en þær hlytu endanlegt samþykki ráðh. og viðkomandi þn. könnuðu hvort hér væri að málum staðið eins og lög segðu til um. Ég held að það væri tvímælalaust til bóta. Þn. fengu þarna kærkomið viðbótarstarf í oft algeru aðgerðaleysi yfir vetrartímann, kannske einhverja sumarvinnu í þokkabót. Það held ég að væri bara til bóta fyrir viðkomandi þn., og þetta hlýtur að vera eðlilegt og sjálfsagt. Við vitum nefnilega mörg dæmi um reglugerðir sem beinlínís ganga á svig við lög eða þann anda sem í þeim var túlkaður, og er skemmst að minnast mikilla deilna um lög um Lánasjóð ísl. námsmanna og reglugerðir varðandi hann.

Það var aðeins eitt atriði, sem hér á að verða reglugerðarákvæði, sem ég hnaut um og það var um inntökuskilyrðin í þennan skóla. Ég held að það sé að verða almenn stefna varðandi þennan Þroskaþjálfaskóla, að þar skuli þeir sitja mjög mikið fyrir sem hafa stúdentspróf, sem kemur þessu máli allt of lítið við, því miður. Ég get sagt hér litla sögu af þessu. Stúlka úr minni heimabyggð, sem á tvær vangefnar systur sem hún hefur annast af mikilli prýði ásamt móður sinni, fór fram á það að ég hjálpaði henni til að komast í þroskaþjálfanám. Hún hafði ágætt gagnfræðapróf og framhaldspróf til viðbótar, 5. bekkjar próf í uppeldisbraut, og til viðbótar því hafði hún unnið á Kópavogshælinu. En aðsókn stúdenta í þennan blessaða skóla var það mikil að auðvitað kom svona lítt menntuð stúlka þrátt fyrir allt ekki til greina og henni var neitað um skólavist tvívegis þrátt fyrir það að ég veitti henni mín bestu meðmæli og segði í öllum greinum satt og rétt frá hennar mikla áhuga einmitt á þessu sviði og ástæðunum til þess að hún hefði mikinn áhuga á að læra þetta. Síðan gerist það aftur í sumar að frændi minn einn ætlar að fara í þennan sama skóla, og ég þurfti varla að orða þetta, hann flaug inn, enda var hann stúdent.

Ég held að þetta þurfi vel að athuga. Þetta er sennilega ein viðleitnin í björgunarstarfsemi gagnvart hinum mikla fjölda stúdenta til að koma þessu ráðvillta fólki inn á einhverja gagnlega braut eftir að það er búið að ljúka að mörgu leyti tilgangslausu námi sínu í menntaskóla, sem oft hneigist að allt öðru frekar en því sem það tekur sér svo fyrir hendur á eftir. Þetta er að vísu meira mál en svo — og óskylt þessu — að það verði rætt hér. En ég vil skora á hæstv. ráðh. að tryggja með reglugerðinni því fólki, sem hefur áhuga, reynslu og eins og ég benti á áðan góða undirstöðumenntun í þessum efnum, aðgang að skólunum, en gera hann ekki að einhverjum alhliða bjarghring fyrir ráðvillta stúdenta.