31.01.1977
Efri deild: 39. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1728 í B-deild Alþingistíðinda. (1374)

144. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Jón Helgason:

Herra forseti. Með frv. þessu er verið að setja ramma til að skipta því fjármagni sem veitt verður hverju sinni á fjárl. til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða o. fl. Tilgangurinn er að draga úr þeim mun, sem verður á milli þeirra, sem njóta hitaveitu annars vegar, og hinna, sem ekki eiga kost á því. Með þeirri reglu, sem notuð er við úthlutun olíustyrksins, er það misjafnt hversu langt hann hrekkur til að jafna þennan mismun þar sem það fer eftir íbúafjölda húsa. Auk þess eru hitaveitutaxtar misjafnir. Besta lausnin á þessu máli og sú sem hlýtur að koma er að gefa öllum, sem ekki eiga kost á hitaveitu, möguleika til að fá raforku til húshitunar og miða síðan raforkuverðið við hitaveitu. En til þess að það verði hægt þarf víða að endurhyggja dreifikerfi rafmagns og er það eitt af því sem rekur á eftir endurbyggingu þessari.

En enda þótt við séum eflaust sammála um að æskilegt væri að ganga lengra en gert hefur verið til að jafna hlut þeirra sem hita upp hús sín með raforku, þá er það tvímælalaust mjög fámennur hópur annar sem er langverst settur í orkumálum hér á landi, þ, e. a. s. þeir sem ekki njóta raforku frá samveitu eða hafa viðunandi vatnsaflsstöðvar til raforkuframleiðslu. Þeir reyna flestir að leysa rafmagnsmál sín með litlum dísilstöðvum. En þegar olíuverðhækkunin bætist ofan á allan annan rekstrarkostnað þeirra er það orðinn langtum þyngri baggi en aðrir búa við. En það ætti að vera tiltölulega auðvelt að létta þennan bagga því að sem betur fer eru þessir aðilar að verða fáir. Það munu nú vera um 75 býli sem áætlað er að fái rafmagn frá samveitu og eftir er að tengja við hana. Stefnt er að því að tengja flest þessi býli á þessu ári eða svo fljótt sem kostur er. En þá verða eftir þau sem engin slík áætlun nær til. Sum þeirra hafa viðunandi vatnsaflsstöðvar, en það hefur verið gerður listi yfir hin, sem ekki njóta þeirra heldur, og kemur þá í ljós að þar er um að ræða aðeins 62 býli í byggð. Eins og ég sagði áðan er hér um svo fáa aðila að ræða að það á að vera viðráðanlegt að veita þeim stuðning. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að það verði athugað í n. þeirri, sem fær þetta mál til meðferðar, að bæta við nýjum lið í 1. gr. frv. þar sem kveðið verði á um styrk til þessara aðila, síðan verði reynt að koma til móts við það þegar á þessu ári enda þótt heildarfjárveiting hafi þegar verið ákveðin, en síðan kemur þetta þá inn við ákvörðun fjárveitinga framvegis.

Annað atriði, sem ég tel einnig þörf á að athuga hvort ekki er hægt að koma inn í þennan ramma og skoða þarf í n., er stuðningur við upphitunarkostnað heimavistarskóla á grunnskólastigi, a. m. k. þá sem ekki eiga kost á hitaveitu. Rekstrarkostnaður slíkra skóla er óhjákvæmilega miklu meiri en hinna og leggst allur á þau sveitarfélög sem að þeim standa. Við undirbúning að setningu grunnskólalaga kom fram ábending a. m. k frá Búnaðarþingi um að upphitun heimavistarskóla yrði greidd af ríkissjóði. Sú till. náði ekki fram að ganga. Meðan svo stendur hlýtur að verða að leita annarra úræða sem ganga í rétta átt. Það gildir auðvitað sama um þetta og fyrra atriðið, að heildarfjárveiting til að draga úr áhrífum olíuverðhækkana hefur verið ákveðin á þessu ári og þar er mjög þröngur stakkur skorinn. En aðalatriðið er þó að koma ákvæðum um þetta inn í rammann, þ. e. a. s. inn í þessi lög, svo að hægt verði að sinna því framvegis.