31.01.1977
Efri deild: 39. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1729 í B-deild Alþingistíðinda. (1375)

144. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það er rétt, sem hæstv. viðskrh. kom hér inn á áðan, ákvörðun hefur þegar verið tekin um það hve miklu fé skuli varið til þess að jafna þann mismun sem hér er á, og flutningur þessa frv. er aðeins afleiðing af því og sjálfsögð afleiðing, til þess að sá rammi, sem notaður hefur verið, gildi áfram. Ég hlýt hins vegar enn þá einu sinni að gagnrýna meðferð þessa fjár.

Það var bent á það hér í umr. fyrir jólin að það fólk, sem býr á köldu svæðunum, býr við það að hita hús sín með olíu, mundi greiða um það bil 550 millj. kr. í þetta söluskattsstig, en fengi svo aftur til baka 700 millj. tæpar í staðinn og þó varla það kannske vegna styrks til rafveitna, þó að hann eigi að koma þeim til góða einnig. Ég hef ekki séð þessum tölum mótmælt, og það þýðir auðvitað að hér er um ákaflega lítinn jöfnuð að ræða, ef þarna er ekki nema kannske ríflega 100 millj. kr. mismunur sem í raun og veru kemur þessu fólki beint til góða.

Annað kemur hér inn í einnig, og það er að ákvörðun hefur þegar verið tekin svo að sú n., sem fær þetta til meðferðar, hefur ekki það svigrúm sem hún hefur þó haft til þess að breyta í nokkru þessum upphæðum. Ég minnist þess frá því í fyrra, að þá var upphæðinni breytt, enda lýsti hæstv. viðskrh. því þá yfir við 1. umr. að hann hefði síður en svo á móti því að sú upphæð yrði hækkuð. Þá var það gert. Nú er ekki svigrúm til þess. Það er ekki heldur svigrúm til þess að breyta þessu hvað snertir elli- og örorkuþega nema þá á þann hátt að taka af hinum. Enn þá kæmi það þó til álita, því að ég hef alltaf verið á þeirri skoðun að það þyrfti að taka aukið tillit til þeirra sem búa í oft mjög óhagkvæmu húsnæði sem er dýrt til kyndingar.

Ég varð mjög var við það nú eystra að þetta mál var mikið umrætt fólks á milli, og við þm. almennt auðvitað vorum gagnrýndir harðlega fyrir þessa meðferð. Fyrir mig var þetta kannske tiltölulega auðvelt, því að ég vísaði bara á stjórnvöld í þessu efni og bar af mér sakir varðandi þessa meðferð. En það breytir ekki hinu, að upphaflegur tilgangur þessa fjár var fyrst og fremst að jafna þann mikla mismun sem hér er enn þá á og var kannske tilfinnanlegastur í byrjun vegna þeirrar snöggu sveiflu sem þá kom í olíuverðhækkuninni. Og hér er í raun og veru í þessu máli um mikið byggðamál að ræða. Ég þekki persónulega dæmi um það, að þó að maður taki þennan olíustyrk inn í tiltölulega margmenna fjölskyldu, þá er hér um tvöfaldan kostnað að ræða miðað við það sem ég greiði sjálfur hér syðra, — alveg um tvöfaldan kostnað að ræða.

Ég hef verið sammála því út af fyrir sig, að það væri réttlætanlegt að verja einhverju fé til framkvæmda sem stuðluðu að frambúðarlausn ákveðinna héraða eins og gert hefur verið. En mér þykir bara þessi mismunur vera orðinn allt of mikill, að af þessu söluskattsstigi eða því fé, sem þannig aflast, sé varið 1000 millj. í önnur verkefni en þau sem upphaflega átti að gera, en aðeins 700 millj. beint til jöfnunar, þegar svo aftur er litið á hvað íbúarnir á þessum olíusvæðum greiða mikinn hluta af upphæðinni beint í söluskatti. Það er sem sagt spurning um það hversu mikið hefði átt að fara þangað og hversu mikið hefði átt að gera í því að létta á fólki í raun og veru þennan mikla vanda.

Ég benti á það í umr. hér fyrir jólin að þessum 1000 millj. er mjög misskipt milli landshluta, að mér sýnist. Ég sé það t. d. að hlutur okkar austfirðinga í þessum efnum er smár. Við lendum auðvitað ekki í þeim 304 millj. sem fara í hitaveituframkvæmdir, þar auðvitað komum við ekki neitt við sögu. Við komum aftur mjög takmarkað með hvað snertir borunarframkvæmdir, kannske 70–80 millj. eða eitthvað því um líkt. Og við komum vonandi eitthvað inn í þann hluta sem snertir styrkingu á dreifikerfinu. En engu að síður er það staðreynd að þessu fé er mjög misskipt milli landshluta, og þessi landshluti, sem er nú verst settur allra hvað snertir orku og möguleika á því að fá raforku til húshitunar, hann er líka hart leikinn í skiptingu á þessari upphæð.

Það er auðvitað alveg rétt, eins og hv. þm. Jón Helgason kom hér inn á áðan, að það hlýtur að vera frambúðarlausnin, sem við stefnum að, að sem flestir fái þá lausn á sínum málum að þeir fái raforku til húshitunar þar sem ekki er annars kostur. Ég vil einnig taka undir orð hans varðandi heimavistarskólana. Í því máli liggur hér fyrir frv. og því má eflaust breyta og gera einhverjar aðrar till. þar um, en við þetta frv. hefur komið fram mjög eindreginn stuðningur, m. a. eystra þar sem þetta er mjög þungbært. Menn hafa lýst yfir fylgi við það að jafna þarna út, auðvitað ekki að skapa þarna fullkominn jöfnuð, en jafna þarna nokkuð út.

Ég vil aðeins nota þetta tækifæri til að harma að þessi fjárhæð skuli ekki vera hærri, að þessar tölur t. d. skyldu þó a. m. k. ekki snúast við, þannig að það væru 1000 millj., sem í þetta færu, og 700 aftur til hins. Um þetta má e. t. v. deila, að hvaða leyti eigi að vinna að frambúðarlausn með þessum hætti. Ég hygg að það hefði átt að gera með öðrum hætti og það fólk, sem býr við þennan mikla mismun, hefði átt að njóta þess í enn ríkara mæli en raun ber vitni. Nú sem sagt er búið að taka þessa ákvörðun. Fjh.- og viðskn. hefur áður beitt sér fyrir vissri lagfæringu í samráði við hæstv. viðskrh. Nú er þetta svigrúm úr sögunni, þannig að það er ekki von neinna breytinga eða neinna lagfæringa hér á.