31.01.1977
Neðri deild: 43. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1732 í B-deild Alþingistíðinda. (1378)

120. mál, lágmarkslaun

Flm. (Benedikt Gröndal) :

Virðulegi forseti. Frv. það, sem hér er tekið á dagskrá, fjallar um lög um 100 þús. kr. lágmarkslaun á mánuði. Það er flutt af þrem Alþfl.-mönnum í þessari hv. d. og kom frv. fram af okkar hálfu fyrir miðjan desembermánuð. Þessu frv. var og er ætlað að gilda, ef samþ. yrði, aðeins um mjög skamman tíma eða fram til næstu samninga verkalýðsfélaga, svo að það er í rauninni búið að rýra hugsanlegt gildi málsins verulega með því að það skyldi ekki komast á dagskrá fyrr og þurfa að bíða í þinghléi. Ekki treysti ég mér þó til þess að bera fram umkvörtun við hæstv. forseta vegna þess hve mikið var í desembermánuði af aðkallandi málum sem þingið varð að afgreiða.

Ég skal verða fyrstur manna til að játa að það muni vafalaust koma flatt upp á alþm. og aðra að flutt er slíkt frv. um að sett verði lög um 100 þús. kr. lágmarkslaun á mánuði og að tíma- og vikukaup skuli reiknast eftir þeirri upphæð miðað við 40 stunda vinnuviku. En frv. þetta gegnir engu að síður hlutverki og fellur inn í kjarabaráttu verkalýðsfélaganna eins og hún er háð undir forustu Alþýðusambands Íslands.

Upphafið að þessu máli er að finna á síðasta þingi Alþýðusambands Íslands sem haldið var í nóvembermánuði, en meðal afdráttarlausustu ályktana, sem þar voru gerðar, er að finna þessi orð: „Þingið telur að lágmarkslaun fyrir dagvinnu megi ekki vera lægri en 100 þús. kr. á mánuði og önnur laun hækki til samræmis við það, þannig að launabil haldist að krónutölu.“

Hér er sem sagt um að ræða mál sem samþ. hefur verið sem stefnumarkandi ályktun á fjölmennasta þingi, sem Alþýðusamband Íslands hefur haldið, að því er ég best veit samþ. einróma. Þingflokkur Alþfl. hefur tekið málið upp á Alþ. til þess að styðja með því kjarabaráttu alþýðusamtakanna og að koma því enn betur á framfæri, sem er skoðun þeirra, að fjölskyldur komist ekki af nú á dögum í þeirri verðbólgu, sem stöðugt fer vaxandi, nema launin séu 100 þús. kr. á mánuði eða meiri. Hér er um allmikla hækkun að ræða frá því kaupi sem gildir samkv. samningum fyrir venjulega dagvinnu, en engu að síður er óhjákvæmilegt fyrir þing og þjóð að horfast í augu við þá staðreynd, að með þróun kjaramála í óðaverðbólgu síðustu 2–3 ára er Ísland að verða láglaunaland. Það verður að gera átak til þess að stöðva þá þróun og snúa henni við ef það er ætlun þjóðarinnar og forustumanna hennar að ná því marki um almenna lífsafkomu og jöfnun kjara í landinu sem flestir játa í orði a. m. k.

Hugmyndin með því að flytja frv. um slíkt mál er að sjálfsögðu mjög takmörkuð, það er stefna Alþfl., eins og það hefur alla tíð verið stefna launþegasamtakanna, að að jafnaði skuli alls ekki ákveða kaup og kjör með lagasetningu, heldur með samningum. Hins vegar getur staðið svo á að lagasetning sé talin réttlætanleg, og mun það hafa verið orðað svo á öðrum stað í samþykkt síðasta Alþýðusambandsþings, að samtökin geti því aðeins sætt sig við lagaákvörðun kaups og kjara að þau séu hlynnt þeim ákvæðum. M. ö. o.: samtökin sætta sig ekki við nauðungarlagasetningu um kjör sem þau telja ekki viðunandi.

Þetta frv. mundi, ef það væri samþykkt, falla inn á samningstímabil verkalýðsfélaganna vegna þess að 3. gr. þess kveður svo á að lögin muni falla úr gildi jafnóðum og hver starfsstétt gerir nýja kaup- og kjarasamninga. M. ö. o.: verkalýðsfélögin eru bundin við samninga til ákveðins tíma, en á þessum tíma verður slík óðaverðbólga sem enginn gat séð eða vildi sjá fyrir, og við teljum óhjákvæmilegt að gera bráðabirgðaráðstafanir til að tryggja með lögum viðbót við hin umsömdu kjör það sem eftir er af samningstímanum. Þegar samningar um kaup og kjör verða næst gerðir samkv. gildandi ákvæðum, þá koma þeir til framkvæmda eins og um verður samið. Það má því líta á þetta sem eins konar neyðarhjálp vegna óðaverðbólgu, og við teljum að það sé tvímælalaust réttlætanlegt að veita slíka neyðarhjálp með lagasetningu. Enda þótt tíminn hafi styst, þá gæti þetta frv. haft áhrif í tvo til þrjá mánuði engu að síður, og flm. telja að það mundi vera mikill áfangi, bæði vegna kjarabóta, sem í því mundu felast það tímabil, en þá ekki síður með þeirri viðurkenningu og þeim stuðningi sem samþykkt málsins mundi vera af hendi Alþingis.

Í þessu sambandi vil ég minna á að hæstv. dómsmrh., sem er formaður annars stjórnarflokksins, lét orð falla í áramótahugleiðingu sinni í Tímanum í þá átt, að hann fengi ekki skilið hvernig alþýðufjölskyldur í landinu komast af með þeim dagvinnutekjum sem nú eru ríkjandi. Þegar annar forustumaður ríkisstj. lætur í ljós slíkar skoðanir við áramót er ekki hægt annað en taka það alvarlega, að kaupgjald alls þorra vinnandi manna hafi nú dregist svo mjög aftur úr verðgildi og framfærslukostnaði að ekki sé hægt að líta á það án þess að grípa til einhverra aðgerða.

Ég geri fastlega ráð fyrir því að þessu frv. verði — ef einhverjir kæra sig um að svara því — mætt með hinum venjulegu röksemdum um að atvinnuvegir þjóðarinnar geti ekki borið slíka kauphækkun og það sé ábyrgðarleysi að tala um slíkt stökk sem hér mundi vera um að ræða. Þetta eru þær röksemdir sem alltaf hafa verið færðar fram gegn óskum um hærra kaupgjald til þeirra stétta sem hafa það lægst í landinu. Í því sambandi vil ég aftur minna á að Ísland er að verða láglaunaland, langt á eftir nágrannalöndum með laun fyrir eðlilegan vinnutíma, og að það getur valdið þjóðinni óbætanlegu tjóni ef vinnutími og vinnuálag verður í marga áratugi eins og það hefur verið nú hin síðustu ár. Þess vegna er óhjákvæmilegt að allir þeir, sem ráða fyrir atvinnufyrirtækjum og öðrum stofnunum, er hafa fólk í þjónustu sinni, geri sér ljóst að þessi fyrirtæki og þessar stofnanir verða að skila vinnandi fólki meira kaupgjaldi en þau hafa gert. Tilgangur allra slíkra stofnana er að okkar áliti að tryggja afkomu fólksins, og það verður að ganga á undan hlutum eins og arði í vasa eigenda eða öðrum gróða á rekstri.

Það er ljóst að fá fyrirtæki muni geta hækkað kaupgjaldið með nokkrum pennastrikum án þess að það hafi alvarleg áhrif á rekstur þeirra og í mörgum tilfellum mundi e. t. v. valda þeim beinum taprekstri á skömmum tíma. Þetta er sjálfsagt að viðurkenna eins og aðstæður eru í dag. Þess vegna er það skoðun okkar að í fyrsta lagi þurfi í þessum efnum að verða algjör hugarfarsbreyting bæði hjá ráðamönnum þjóðarinnar og ráðamönnum atvinnufyrirtækja og stofnana, en síðan verði með sameiginlegu átaki ríkisvalds og þessara aðila að breyta aðstæðum þannig að fyrirtækin geti greitt verulega hærra kaup en þau hafa gert. Að nokkru leyti ætti að vera hægt að gera þetta með almennri hagræðingu 3 ýmsum sviðum. Ég tel þó líklegast að mest mundi muna um breytta stefnu í vaxtamálum, því það er nánast óheyrilegt hvað atvinnufyrirtæki á Íslandi verða að greiða stórar upphæðir í vexti vegna þess hve mörg þeirra hafa verið byggð upp fyrir lánsfé og með lítið eigið fé. Auðvitað hangir vaxtastefna saman við verðbólgumálin, en hún er orðin svo skaðvænleg eins og hún er í seinni tíð að það er ekki hægt að ganga fram hjá því máli. Ef það væri hægt að koma á verulegri breytingu hvað þetta eitt snertir, þá mundi geta atvinnufyrirtækjanna til þess að greiða fólki verulega hærra kaup batna til mikilla muna.

Ég vil ítreka það, að verði þetta frv. gert að lögum og þar með ákveðið að það skuli greiða öllum þeim, sem 16 ára eru eða eldri og hafa mánaðar-, viku- eða tímakaup, fyrir dagvinnu ekki minna en 100 þús. kr. á mánuði, þá mundi það væntanlega taka gildi eins fljótt og hægt er eftir að lögin eru samþ., en mundi gilda samkv. 3. gr. laganna þar til hver og ein starfsgrein gerir nýja kjarasamninga. Þetta er að vísu ekki langur tími, en ég er sannfærður um að ef Alþ. tæki þetta skref til leiðréttingar vegna óðaverðbólgu á milli samninga án þess að snerta nokkra samninga eða skerða gildi þeirra, þá mundi það skref hafa mjög góð áhrif á vinnumarkaðinn og auka verulega líkur á því, að það reynist unnt að ná á næsta vori eða sumri, samningum sem allir aðilar gætu vel við unað.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni umr. vísað til hv. fjh.- og viðskn.