31.01.1977
Neðri deild: 43. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1736 í B-deild Alþingistíðinda. (1380)

120. mál, lágmarkslaun

Eðvarð Sigurðsson:

Hæstv. forseti. Í tilefni af þessu frv. og þeim umr., sem hér hafa farið fram, vil ég aðeins segja það, að það hefur engin breyting orðið á afstöðu verkalýðshreyfingarinnar til þess, hvort þessum málum, þ. e. a. s. kjaramálum og kaupgjaldsmálum, eigi að skipa með lagasetningu frá Alþ. eða með frjálsum samningum. Það fer ekkert á milli mála að verkalýðshreyfingin byggir á því að samningar um kaupgjaldsmál skuli gerðir milli aðila á vinnumarkaðinum, eins og það heitir, þ. e. a. s. á milli samtaka verkafólks annars vegar og atvinnurekenda hins vegar. Ég lít ekki heldur svo á að það frv. sem hér er til umr., sé út af fyrir sig einhver breyting á þessari meginstefnu verkalýðshreyfingarinnar eða flutt í þeim tilgangi, heldur fyrst og fremst til þess að vekja athygli á alveg óþolandi ástandi í kaupgjaldsmálum verkafólks og þá einkum láglaunafólksins, og þá er spurning hvað á að kalla hér láglaunafólk og hvað ekki.

Sú þróun, sem hefur orðið í kaupgjaldsmálunum nú hin síðari ár, er á þann veg að kaupmáttur launa hins almenna verkamanns er nú lakari en hann var á árinu 1971. Þetta eru staðreyndir málsins í dag. Þegar svona er komið er hreint ekki óeðlilegt að á Alþ. sé vakin athygli á þessum málum. Ég tel hins vegar að það séu ekki miklar líkur á því að Alþ., eins og það er nú skipað, fari að gera þetta frv. að lögum, enda þyrftu líka ýmsar umbætur að verða á frv. ef raunverulega væri hugsað að það yrði að lögum, og það gæti skapað ýmis vandamál sem yrði að athuga sérstaklega.

En þó að það sé stefnumál verkalýðshreyfingarinnar að þessum málum eigi ekki að skina með lögum, þá geta verið þær aðstæður að slíkt sé réttlætanlegt. Þegar saman fara aðgerðir ríkisvaldsins og jafnvel löggjafarvaldsins, stefna ríkisvaldsins ekki bara í kaupgjaldsmálunum, heldur í efnahagsmálum yfirleitt, sem leiðir til þess að þær aðstæður skapast sem í raun og veru blasa nú við, þá getur verið sannarlega réttlætanlegt að löggjafarvaldið gripi inn í og bæti fyrir misgerðir sem hafa verið framdar. Ég vil því ekki segja að það sé algjörlega undantekningalaust að Alþ. eigi ekki að skipta sér af þessum málum. Það, sem fyrst og fremst hefur skapað það andrúmsloft í verkalýðshreyfingunni að löggjafarvaldið eigi ekki að hafa afskipti af þessum málum, er sú bitra reynsla að þau afskipti hafa yfirleitt verið á einn veg, þ. e. a. s. til skerðingar á kjörum fólksins. Það er það sem fyrst og fremst mótar afstöðuna. Við vitum auðvitað að það hafa ýmis góð mál líka verið afgreidd frá Alþ. sem snerta kjaramál og þá sérstaklega að því er varðar tryggingar og annað þess háttar sem verkalýðshreyfingin hefur þá gjarnan verið búin að knýja fram í samningum og síðan verið lögfest.

Hv. frummælandi sagði hér áðan — orðaði það þannig — að Ísland væri að verða láglaunaland. Ég held að það sé tvímælalaust hægt að taka sterkara til orða en þetta. Það er orðið láglaunaland. Við erum að verða með upp undir helmingi lægra kaupgjald fyrir dagvinnu hér á landi heldur en í nágrannalöndum okkar. Þegar svo er komið, þá held ég að sé óhætt að segja að Ísland sé orðið láglaunaland. Það, sem hefur bjargað íslensku verkafólki, er að það hefur getað bætt sér upp lélegt kaupgjald með því að leggja á sig aukna vinnu. Við vitum að vinnutíminn hér er engan veginn til fyrirmyndar og þyrfti að breytast verulega. En nú horfa mál þannig að þessi möguleiki þrengist dag frá degi. Það er ekki aðeins verið að segja verkafólki upp og fólk að verða atvinnulaust, heldur einnig verið að takmarka vinnutímann, sem gerir það að verkum að þær tekjur, sem fólk hefur haft vegna langs vinnutíma, skerðast verulega í mörgum greinum.

Ég ætla ekki að ræða þetta mál frekar, en tek það aðeins þannig að hér sé verið að vekja athygli á þessu óþolandi ástandi í kaupgjaldsmálunum. Það er sannarlega þess virði að alþm. hugleiði þessi mál og hvað þeir geti lagt af mörkum þegar nú eru, má segja alveg á næsta leiti, nýjar samningaviðræður og breytingar á samningum sem tvímælalaust verða í raun og veru að staðfesta það sem Alþýðusambandið gerði að kröfu sinni, að lágmarkslaun verði sæmilega lífvænleg fyrir hóflegan vinnutíma.