31.01.1977
Neðri deild: 43. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1742 í B-deild Alþingistíðinda. (1387)

Umræður utan dagskrár

Eðvarð Sigurðsson:

Hæstvirtur forseti. Ég get því miður ekki lofað því að snerta ekkert efnisatriði málsins. En fyrst vil ég segja það, að hv. þm. Stefán Valgeirsson, formaður landbn., tók þessi mál, held ég, eins fljótt fyrir og mögulegt var, eftir að frv. hafði verið afgreitt héðan úr þessari hv. d., og á þann veg sem hann lýsti áðan. Ég held að það sé ekki undan neinu að kvarta sem hann gerði í þessum efnum. Og e. t. v. er hægt að segja að það sé nokkuð rétt sem hann sagði, að það sé ekki mikið í þessum málum að gera, málið sé tapað. Og hvers vegna? Það er ekki vegna lagasetningarinnar hér í fyrra, það er alveg rétt. Málin voru þá komin á það stig að það var eðlileg ráðstöfun að afnema úr lögunum þann einkarétt sem Samsalan og mjólkurbúin höfðu á smásölu mjólkur. Það var ekkert annað en að viðurkenna staðreyndir vegna þess að hér í Reykjavík t. d. var líklega fullur helmingur mjólkursölunnar þegar kominn í hendur kaupmanna þegar frv. var samþykkt.

Þetta er ekki mergurinn málsins, heldur hitt, að þegar farið var að skoða þessi mál einmitt í sambandi við frv. í fyrra, þá kom í ljós að Mjólkursamsalan og Kaupmannasamtökin voru búin að gera með sér samning, þ. e. a. s. á árinu 1974, um að kaupmenn yfirtaki alla mjólkursölu á sölusvæði Mjólkursamsölunnar. Það er þetta sem er horfst núna í augu við. Þannig liggur málið fyrir. Og ég verð að segja það, að þegar stórt fyrirtæki eins og Mjólkursamsalan getur gert svona samning að starfsfólki gjörsamlega óspurðu, þá leiðir það í ljós slíkt réttleysi, slíkt öryggisleysi verkafólks sem er hreint ekki viðunandi. Og ég verð að segja það, að ég tel að hér sé um að ræða í raun og veru ljótan blett á annars ágætri þjónustu Mjólkursamsölunnar hér á sínu sölusvæði, bæði hvað varðar þjónustu við neytendurna og samskipti við starfsfólk hennar sem hafa yfirleitt verið með ágætum.

Þetta er í raun og veru þungamiðja málsins. Það kom fram í máli hv. þm. Stefáns Valgeirssonar að Mjólkursamsalan hefði ákveðið, eins og hann nú sagði, að greiða þeim konum, sem eru eða verða 65 ára á þessu ári, lífeyri fram til sjötugsaldurs þegar lífeyrissjóður tekur við. Ég hef ekki litið svo á að þetta væri enn þá alveg afgert mál. En það er sem sagt tilboð Mjólkursamsölunnar sem hér liggur fyrir og trúi ég enn til athugunar hjá stéttarfélagi stúlknanna í mjólkurbúðunum. Það skal síst vanþakkað sem tilboð Samsölunnar felur í sér, en án þess að fara að ræða það hér út af fyrir sig, enda ekki vettvangur til þess, þá hefur það hins vegar í för með sér ákaflega tilfinnanleg dæmi um í raun og veru mjög mikið misrétti. Stúlkurnar höfðu gert áður till. um lífeyri á annan veg sem hefði ekki kostað miklu meira fé, en komið jafnar niður. Sem sagt, ég ætla ekki að fara út í þetta atriði nánar.

En það, sem ég held að allir verði að horfast í augu við núna þegar málið er endanlega tapað, eins og hv. þm. sagði hér áðan, þ. e. a. s. búið er að leggja niður allar mjólkurbúðir Samsölunnar eða svo til, aðeins ein eftir, þá sem sagt blasir það við hvaða öryggisleysi verkafólk getur átt við að búa þegar það þjónar atvinnurekendum.