31.01.1977
Neðri deild: 43. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1743 í B-deild Alþingistíðinda. (1388)

94. mál, rannsóknarnefnd til að rannsaka innkaupsverð á vörum

Lúðvík Jósepsson:

Hæstv. forseti. Það er, eins og hér hefur réttilega verið fram tekið, nokkuð langt síðan þetta mál var hér síðast til umr. og síðan ég kvaddi mér hljóðs í málinu. En aðaltilefni þess, að ég hafði kvatt mér hljóðs, var ýmislegt af því sem þá hafði komið fram í umr. um málið, og það verður að játa að það er nokkuð erfitt að taka upp þráðinn á viðunandi hátt þegar svona stendur á.

þáltill., sem hér er um að ræða, gerir ráð fyrir því að Nd. Alþ. álykti að kjósa 5 manna rannsóknarnefnd samkvæmt ákvæðum í 39. gr. stjórnarskrárinnar, en þar er gert ráð fyrir að þingdeildir Alþ. geti brugðist þannig við málum að setja á fót sérstakar rannsóknarnefndir með miklu rannsóknarvaldi til þess að fá upplýsingar um mál sem Alþ. telur af þeirri gerð að það sé ástæða til að efna til slíkrar rannsóknar.

Það hefur að vísu komið nokkrum sinnum fyrir að þessi heimild í stjórnarskránni hefur verið notuð og n. af þessu tagi hafi verið skipaðar, en það er ekki oft. Það hefur sem sagt verið miklu minna um það hér hjá okkur að notfæra okkur vinnubrögð af þessu tagi en viða annars staðar þar sem rannsóknarnefndir á vegum þjóðþinga eru býsna algengar.

Í þessari till. var gert ráð fyrir að rannsóknin skyldi beinast í fyrsta lagi að því, „hvort innkaup á vörum til landsins séu með eðlilegum hætti og í samræmi við þjóðarhagsmuni eða hvort brögð séu að því að vörur séu keyptar til landsins á óhagkvæmu verði sem leiðir til hærra vöruverðs í landinu en ætti að vera,“ eins og segir í þessari till. Og í öðru lagi, að n. rannsaki „sérstaklega áhrif umboðslauna í vöruverði, gjaldeyrisskil á umboðslaunum og hversu öruggt eftirlit sé nú með gjaldeyrisnotkun til vörukaupa.“

Það lá fyrir að ástæðan til þess, að þessi till. var flutt, var að verðlagsstjóri hafði gefið upplýsingar um að athugun hans hefði leitt í ljós að innkaupsverð á allmörgum vörum til landsins virtist vera æðihátt og jafnvel hærra en útsöluverð á viðkomandi vörutegundum væri í smásölu í London. Um þessar upplýsingar urðu allmiklar umr. hér, bæði í blöðum og öðrum fjölmiðlum. Bæði var það af hálfu verðlagsstjóra og eins brugðust síðan samtök innflytjenda við og létu frá sér heyra um þetta mál. Og það varð eins og jafnan áður í slíkum tilfellum, að sitt sýndist hverjum. En eins og fram kemur í grg. með þessari till. vakti það mjög mikla athygli í sambandi við þessar umr. að ýmsir af forsvarsmönnum innflytjenda margítrekuðu það í málflutningi sínum, að þeir hefðu oftsinnis áður varað við því kerfi, sem hér hefur verið í gildi lögum samkv. um alllangan tíma, að miða álagningarþóknun til innflytjenda við hundraðshluta af innflutningsverðinu. Þeir sögðu beinlínis að þeir hefðu á það bent að þetta fyrirkomulag hvetti siður en svo til hagkvæmra innkaupa. Með þessu var verið að vissu leyti að gefa í skyn eða láta orð að því liggja a. m. k., að vegna þess að þóknun innflytjenda væri reiknuð sem hundraðshluti af innflutningsverði vöru, þá gæti til þess komið að innflytjendur hylltust til þess að kaupa fremur dýrt inn og fá þannig meira í sinn hlut, heldur en þeir legðu á sig að kaupa inn á hagkvæman hátt eða á lágu verði og fá þá lægri þóknun sér til handa.

Innflytjendur hafa að nokkru leyti viljað nota þennan málflutning, má segja, til þess að fá þessu fyrirkomulagi breytt og hafa viljað fá álagninguna með öðrum hætti, þannig að álagningin gæti verið allmiklu meiri en þessar reglur leyfðu. Aðrir hafa hins vegar bent á að það sé í eðli sínu ótrúlegt að þeir, sem hafa með höndum að selja vörur eða varning sjái ekki vissan hagnað í því að geta selt vöruna á lægra verði en keppinautar þeirra og ná þannig í umtalsvert meiri umsetningu í gegnum slíka samkeppni. Eigi að síður kom það mjög greinilega í ljós í þessum umr., m.a. í sjónvarpsþætti, að fulltrúar innflytjenda lögðu á þetta áherslu, að þeir hefðu margsinnis bent á þessa ágalla og þeir væru á móti þessum reglum og þessar reglur væru síður en svo hvetjandi til hagkvæmra innkaupa.

Vegna upplýsinganna, sem lágu fyrir frá verðlagsstjóraembættinu, og reyndar álits margra annarra, sem þóttust hafa orðið varir við svipað, og þessara ummæla af hálfu innflytjenda, þá var það að við í Alþb. töldum að það væri fyllsta ástæða til þess að um jafnþýðingarmikið mál og hér var um að ræða að nú yrði brugðið við og notuð þessi heimild sem er að finna í stjórnarskránni sjálfri til þess að Alþ. sjálft léti fara fram allítarlega rannsókn í þessu efni, hvort það gæti verið svo, að um það væri að ræða að einhverju verulegu ráði að vöruflutningur til landsins væri gerður með óhagkvæmum hætti og hér væri haldið uppi hærra verðlagi en þörf væri á. Þegar þetta mál var rætt hér fyrr á þinginu tók ég eftir að hæstv. viðskrh., Ólafur Jóhannesson, taldi að vísu sjálfsagt að það færi fram athugun á þessu máli öllu, en hann hikaði mjög við að mæla með því að þessi till. yrði samþ. og að Alþ. færi í rannsóknina skv. þeim víðtæku rannsóknarheimildum sem það getur fengið miðað við ákvæði stjórnarskrárinnar. Hann vildi helst að Verðlagsskrifstofan héldi rannsókn sinni áfram ef hún mætti leiða til þess að varpa frekar ljósi á málið.

Ég er hæstv. viðskrh. í þessum efnum algjörlega ósammála. Ég álít að hér sé einmitt komið að því, að það sé eðlilegt að Alþ. notfæri sér þau ákvæði, sem þarna er um að ræða, og skipi rannsóknarnefnd sem geri ítarlega úttekt á þessu máli og geri síðan landsmönnum öllum grein fyrir því að hvaða niðurstöðu rannsóknarnefndin hefur komist. Þetta á ekki að verða eingöngu hliðarverk hjá,verðlagsstjóra eða Verðlagsskrifstofunni. Verðlagsstjóri og hans skrifstofa hafa miklu verki að sinna, og það er engin ástæða til þess að sú skrifstofa taki þetta verkefni að sér að fullu og öllu. Það gefur auðvitað auga leið, að ef Alþ. færi þá leið, sem lagt er til í þessari till., að skipa sérstaka rannsóknarnefnd, þá mundi sú rannsóknarnefnd eðlilega hafa samráð og samstarf við verðlagsstjóra og njóta aðstoðar hans við rannsóknina. En það víðtæka og sterka vald, sem rannsóknarnefnd Alþ. hefur, nær langt út fyrir þær heimildir sem er að finna í lögum fyrir verðlagsstjóra nú. Ég álít líka að í þessum viðbrögðum hæstv. viðskrh. komi sumpart fram það sama sem hér hefur komið fram æðioft áður þegar till. hefur verið gerð um að Alþingi eða þd. Alþingis settu rannsóknarnefndir af þessu tagi. Það er sú neikvæða afstaða að standa gegn því að tiltekið stórmál sé tekið til rannsóknar. Það er engu líkara en að mönnum finnist, um leið og ákveðið er að setja slíka rannsókn af stað, að með því að stofna til slíkrar rannsóknar sé verið að kveða upp dóm yfir þeim aðila sem eigi að rannsaka. Þetta verður auðvitað til þess að Alþ. notfærir sér þessa heimild sína til rannsókna á þýðingarmiklum málum svo til aldrei. Það er alltaf lítið á till. í þessa átt sem tortryggni og jafnvel ósæmilega tortryggni og beri því að vísa slíkum till. frá. Þetta er gert með ýmsum hætti, eins og t. d. þessum hætti, að segja: Ja, verðlagsstjóri er nú þarna til og hann hefur nú þegar orðið var við eitthvað skrýtið í málinu, er ekki sjálfsagt að hann haldi þessu áfram? En eins og ég hef bent á hefur hann mjög takmarkað lagalegt vald til að annast rannsókn af þessu tagi og yfirheyra aðila — mjög takmarkað og engan veginn það vald sem rannsóknarnefndum þd. er veitt í stjórnarskránni, og sem sagt, allur styrkur verðlagsstjóra og hans skrifstofu gæti notast við rannsókn Alþ. eigi að síður.

Hér er aðeins spurningin um það hvort Alþ. líti þannig á þetta mál, að þegar upplýsingar eru gefnar af opinberri stofnun um að hér virðist vera maðkar í mysunni eða eitthvað óhreint, — hvort Alþ. líti þannig á það mál, sem um er að ræða, að það sé þess virði að það sé upplýst að fullu eða hvort það eigi aðeins að láta nægja að glamra rétt lauslega, eins og verið hefur í mörgum tilfellum.

Ég er á því að hér sé um svo gífurlega stórt og þýðingarmikið mál að ræða að það eigi að samþ. þessa till., og þeir, sem víkja sér undan því, hafi annað hvort ekki áttað sig á þýðingu þessa máls eða þá að þeir kæri sig ekkert um að það sé varpað ljósi á málið. Við vitum að innflytjendur okkar, þeir sem standa að innflutningi á vörum, eru býsna margir og af margs konar sauðahúsi. Þeir vinna eflaust ekki allir jafnvel og hafa ekki allir jafnhreint mál fram að færa. Ég tel því að þingleg rannsókn á þessu efni gæti sagt okkur allþýðingarmikla hluti og gæti kannske orðið til þess að við breyttum eitthvað um skipulag í þessum efnum.

Það var alveg sérstaklega þetta atriði sem hafði gert það að verkum að ég kvaddi mér hljóðs í málinu. Það höfðu farið hér fram allítarlegar umr. um málið á breiðum grundvelli. En það voru þessi viðbrögð, sem komu fram hjá hæstv. viðskrh., sem gerðu það að verkum að ég kvaddi mér hljóðs. Ég vildi undirstrika þetta sjónarmið sem ég hef nú látið koma hér fram, að ég tel einmitt að það sé rannsókn af því tagi, sem þessi till. gerir ráð fyrir, sem eigi að fara fram í jafnþýðingarmiklu máli og hér um ræðir, en alls ekki sú lauslega athugun sem hefur farið framhjá verðlagsstjóra og á kannske eftir að fara fram á hans vegum.

Þetta mál hefur komið upp aftur. Nú fengum við fréttir um það fyrir ekki löngu að aðilar, sem ekki hafa nema að litlu leyti a. m. k. fengist við innflutning á tiltekinni vörutegund, þ. e. a. s. bakarameistarar, hafi tekið sig saman og gert könnun á því hvort þeir gætu ekki flutt inn til landsins ódýrara hveiti en þeir höfðu orðið að kaupa frá innflytjendum áður. Og það kom í ljós að þeir gátu lækkað innflutningsverðið um 20%.

Það er mín skoðun að dæmi eins og þessi, sem upplýst voru áður af verðlagsstjóra og þarna hafa nú verið upplýst af enn öðrum aðilum, þau sýni að það þarf að fara fram rannsókn á þessum málum og það er í rauninni ekki sæmandi af Alþ. að ætla að víkja sér undan því að það liti eftir þessum málum. Vitanlega á Alþ. eftir rannsóknina að draga ályktanir af málunum, hvort það telur ekki þörf á því að breyta gildandi reglum og lögum til þess að ná því þýðingarmikla marki að tryggja sæmilega rétt innflutningsverð á varningi til landsins og taka þannig vitanlega virkan þátt í því að halda niðri verðlagi eða gera verðlag hér sambærilegt við það sem er í okkar nágrannalöndum.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta, en ég fyrir mitt leyti legg eindregið til að þessi till. nái fram að ganga. Ég tel að þessi rannsókn þurfi nauðsynlega að fara fram og einmitt á þann hátt sem lagt er til í till.