01.02.1977
Sameinað þing: 43. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1749 í B-deild Alþingistíðinda. (1393)

82. mál, viðgerðir fiskiskipa

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég tek undir þakklæti síðasta ræðumanns fyrir upplýsingarnar sem hér komu varðandi kostnað við viðgerðir á innlenda skipastólnum hér heima og erlendis. Svo vill til að ég hef nú á þessum vetri haft lítils háttar samband við forstöðumenn stærstu skipasmiðastöðvanna hérna og aflað mér upplýsinga um raunverulegt ástand á þessu sviði hér innanlands. Á þeim skilst mér að eins og nú er ástatt muni innlendu skipasmiðastöðvarnar geta annað um það bil 40% af viðgerða- og breytingaþörfinni á flotanum og gætu jafnframt og ættu jafnframt að anna 40% við óbreyttar aðstæður af nýsmiði, en nýsmiði í skipasmíðastöðvunum er fjárhagslegur grundvöllur þess að þessar stöðvar geti haldið uppi viðgerðarþjónustu. Aftur á móti er þannig búið að skipasmíðastöðvunum að þær hafa unnið í fjárþröng. Mér sagði forstjóri Slippstöðvarinnar á Akureyri, sem hefur 200 manns í vinnu við skipasmíðar, að þar hafi allt rekstrarkapítal, sem í gangi var á árinu sem leið, verið á 24% refsivöxtum vegna þess að Fiskveiðasjóður stóð ekki í skilum eins og vera bar og skipasmiðastöðin varð að fá sitt rekstrarkapítal með vingjarnlegri fyrirgreiðslu viðskiptabanka síns sem tók þá þessa vexti, 24%. En þrátt fyrir þetta, þrátt fyrir þessa okurvexti reyndist Slippstöðin vera samkeppnisfær um verð við erlendar skipasmiðastöðvar og raunar um afköst líka.

Mér er kunnugt um að samtök skipasmiðastöðvanna íslensku hafa þegar gert allítarlegar áætlanir um það, þó í grófum dráttum, hvað með þarf til þess að skipasmiðastöðvarnar geti tekið að sér alla nýsmíði á innlendum skipum og þar á meðal á kaupskipunum og viðhald þeirra líka. Væri æskilegt að sjónarmið þessara aðila, sem hafa verið að byggja upp stálskipasmíðina á Íslandi, fengju að koma fram hér á þingi sem fyrst.