01.02.1977
Sameinað þing: 43. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1749 í B-deild Alþingistíðinda. (1394)

82. mál, viðgerðir fiskiskipa

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Mér finnst rétt að nota það tækifæri, sem nú gefst undir umr. um vandamál þess iðnaðar í landinu sem flokkast undir skipasmíði og viðgerðir, til þess að vekja sérstaka athygli hæstv. iðnrh. og ríkisstj. í heild á því ófremdarástandi og í raun og veru neyðarástandi sem nú er að skapast á Vestfjörðum varðandi þá aðstöðu að geta sinnt eðlilegu viðhaldi og viðgerðum skipaflota þess fjórðungs. Það liggur nú nær ljóst fyrir að sú afstaða, sem þar hefur verið fyrir hendi, er að verða gjörsamlega ónothæf og það er því mjög nauðsynlegt að vinda bráðan bug að því að kanna og hefjast handa um þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar teljast til þess að geta skapað þá aðstöðu sem þarf að vera í þessum landshluta eins og öðrum, þannig að hægt sé að sinna þessum mjög svo mikilvægu verkefnum.

Ég vænti þess að hæstv. iðnrh. og ríkisstj. sem heild taki þetta mál, þ. e. a. s. það aðstöðuleysi sem skipasmíðaiðnaðurinn á Vestfjörðum þarf nú við að búa, til sérstakrar athugunar og meðferðar þannig að úr því verði bætt á mjög skjótan hátt, svo að ekki þurfi langur tími að líða enn í því neyðarástandi sem nú ríkir að því er varðar viðhald og skipaviðgerðir á Vestfjörðum. Þessi landshluti er a. m. k. nú og hefur verið um nokkurn tíma verst settur að því er þetta varðar. Ég vil aðeins nota tækifærið til að vekja athygli hæstv. ráðh. einmitt á þessu stórkostlega og mikla vandamáli sem hér er við að búa og verður að ráða bót á.