01.02.1977
Sameinað þing: 43. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1750 í B-deild Alþingistíðinda. (1395)

82. mál, viðgerðir fiskiskipa

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Varðandi orð hv. 5. þm. Norðurl. e. vil ég að það komi hér fram, að það er rétt að Fiskveiðasjóður hefur lengst af á s. l. ári skort fjármagn til að standa við þær skuldbindingar sem honum er og var ætlað að gera, en þar stóð á lánum til Fiskveiðasjóðs og fjármögnun sjóðsins. Hins vegar er rétt að það komi fram, að Fiskveiðasjóður lækkaði innborganir sínar vegna innlendu skipasmíðanna niður í 51%, en vann þær aftur upp, að mig minnir um miðjan ágúst frekar en í ágústlok, þannig að hann innti þær af hendi að fullu og öllu, en eftir þann tíma dró aftur úr greiðslu Fiskveiðasjóðs, en þó minna en á fyrri hluta ársins. Að því er auðvitað markvisst unnið að slíkt endurtaki sig ekki. En ástæðan er sú að Fiskveiðasjóð hefur skort fjármagn til þess að fjármagna allar þær miklu fjárfestingar sem hafa verið í gangi.

Varðandi orð síðasta hv. ræðumanns, þá stendur þannig á að á Ísafirði er mjög fullkomin og góð skipasmíðastöð, en dráttarbraut var þar byggð fyrir ekki ýkjalöngu fyrir minni skip. Síðan hefur orðið gjörbreyting á skipastólnum. Þessi dráttarbraut og skipasmíðastöð er í eigu einstaklings og hlutafélags, en samkv. nýju hafnalögunum eru ákvæði um að þegar hafnarsjóðir eða sveitarfélög eiga meiri hluta eða 50% í dráttarbrautum, þá er heimilt að styrkja þær. Forráðamenn Ísafjarðarkaupstaðar hafa nýlega rætt við mig um þessi efni. Frumkvæðið verður fyrst og fremst að koma úr byggðarlaginu, og þá vona ég að það komi ekki til með að standa á ríkisstj. eða þeim ráðuneytum sem þessi mál heyra undir.