01.02.1977
Sameinað þing: 43. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1752 í B-deild Alþingistíðinda. (1398)

111. mál, kennsla sjúkraliða

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. Á s. l. ári lét heilbr.- og trmrn. endurskoða reglugerð um nám og störf sjúkraliða frá 1971. Nám sjúkraliða var samkv. þeirri reglugerð á vegum deildaskiptra sjúkrahúsa og bar hjúkrunarforstjóri viðkomandi sjúkrahúss ábyrgð á bóknámi og verknámi nemenda.

Hin nýja reglugerð um sjúkraliðanám er reglugerð fyrir Sjúkraliðaskóla Íslands. Námið er flutt frá heilbrigðisstofnunum inn í ákveðinn skóla þar sem allt bóknám fer fram og allt verknám er skipulagt af skólastjóra í samráði við hjúkrunarforstjóra þeirra stofnana er taka við nemendum í verknám. Með þessum hætti er bóknám samræmt og hver nemandi kynnist fleiri en einni stofnun á námstíma sínum. Inntökuskilyrði inn í námið voru þyngd og gert ráð fyrir að einstakar námsgreinar væru ekki kenndar í Sjúkraliðaskólanum, heldur hafi nemandi lokið því námi áður en hann hefur sjúkraliðanám, enda er hér um almennar undirstöðugreinar að ræða.

Gert er þó ráð fyrir í hinni nýju reglugerð að aðrir skólar en Sjúkraliðaskóli Íslands geti tekið upp kennslu sjúkraliða og haft umsjón með verknámi þeirra í heilbrigðisstofnunum og búið þá þannig undir að geta hlotið starfsréttindi hér á landi. Hér er átt við fjölbrautaskóla sem hafa heilsugæslubraut og aðstöðu til þess að koma nemendum sínum fyrir í verknám.

Rn. hefur haft samvinnu við Fjölbrautaskólann í Breiðholti þar sem markvisst er unnið að sjúkraliðanámi. Þar munu nemendur ljúka tveggja vetra námi á heilsugæslubraut, en síðara árið eru kenndar þær hjúkrunargreinar, sem kenndar eru í Sjúkraliðaskóla Íslands, undir umsjón hjúkrunarkennara og kröfur um verknám og lokapróf í hjúkrunarfræði verða hinar sömu.

Heilbrrn. sér ekkert því til fyrirstöðu að skóli á Akureyri geti tekið upp kennslu sjúkraliða, enda er gert ráð fyrir að fella megi þetta nám inn í framhaldsskólakerfið á þeim stöðum þar sem tilskildar aðstæður eru fyrir hendi, svo sem hjúkrunarfræðingar til kennslu og heilbrigðisstofnanir fyrir tilskilið verknám. Þar er Akureyri utan Reykjavíkur fremst í flokki.

Á Akureyri hefur sjúkraliðanám farið fram í Fjórðungssjúkrahúsinu s. l. 10 ár, eins og hv. fyrirspyrjandi gat um, og þaðan brautskráðust fyrstu sjúkraliðarnir vorið 1966. Á s. l. vori átti deildarstjóri rn. í hjúkrunarmálum fund með skólastjóra Gagnfræðaskóla Akureyrar og hjúkrunarforstjóra Fjórðungssjúkrahússins þar sem ræddir voru möguleikar á sjúkraliðanámi þar í skólanum í náinni samvinnu við sjúkrahúsið.

Í 5. bekk Gagnfræðaskólans fer í vetur fram undirbúningsnám undir sjúkraliðanám og ætti að vera hægt, ef næg aðsókn verður af hálfu nemenda, að ljúka því í þessum tveimur stofnunum. Að þessu er nú unnið í menntm.- og heilbrmrn.

Til fróðleiks vil ég geta þess, að Sjúkraliðaskóli Íslands hefur þegar brautskráð 55 sjúkraliða. Þar eru við nám frá s. l. hausti um 130 nemendur og í byrjun þessa árs bætast 60–70 nýir nemendur við í skólann. Alls hafa 939 sjúkraliðar starfsréttindi hér á landi.