14.10.1976
Efri deild: 3. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í B-deild Alþingistíðinda. (14)

20. mál, Þjóðleikhús

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem ég mæli hér fyrir, er orðið nokkuð gamall kunningi hér á hv. Alþingi og ég get þess vegna látið vera að rekja sögu málsins eða aðdraganda og undirbúning að fyrsta frv. sem hér var flutt, en ég vil þó í örstuttu máli leitast við að gera grein fyrir þeim atriðum frv. sem eru frábrugðin ákvæðum gildandi laga.

Í frv. er kveðið skýrar á um það en áður að þótt flutningur leikrita sé aðalhlutverk Þjóðleikhússins, þá beri því einnig að flytja óperur, sýna listdansa að staðaldri og á hverju leikári skuli eitt eða fleiri viðfangsefni sérstaklega ætluð börnum. Gert er ráð fyrir að ráða þjóðleikhússtjóra til 4 ára í senn og má aðeins endurráða sama mann einu sinni, þannig að enginn geti gegnt þessu starfi samfellt lengur en 8 ár. Þá er gert ráð fyrir að ráða að leikhúsinu bókmennta- og leiklistarráðunaut, listdansstjóra og tónlistarráðunaut. Ráðinn skal sérstakur framkvæmdastjóri sem hafi með höndum skipulagsstarf innan leikhússins og yfirumsjón með vinnuhagræðingu hinna ýmsu deilda. Þetta síðast nefnda atriði er talið mjög brýnt og gæti leitt til aukinnar hagræðingar í störfum Þjóðleikhússins. Þá er og sérstök heimild til þess að ráða leikritahöfund 3–6 mánuði á ári til vinnu fyrir leikhúsið. Eins og er í núgildandi lögum skal miða við að svo margir leikarar, söngvarar og lífsdansarar starfi við Þjóðleikhúsið að það geti jafnan leyst af hendi þau verkefni sem því ber að sinna.

Það er rétt að taka það fram, að í 13 gr. frv. segir ákveðið að eigi skuli ráða í nýjar stöður samkvæmt lögum þessum fyrr en fé er veitt til þess á fjárlögum. Þetta er eðlilegur og sjálfsagður varnagli.

Þá er gert ráð fyrir að lögfesta það að kór starfi við leikhúsið og að leikárið verði framvegis frá 1. sept til 31. ágúst, en ekki frá júlíbyrjun til júníloka eins nú er. Reynslan þykir hafa sýnt að hitt sé eðlilegra.

Þá er hér það nýmæli, að gert er ráð fyrir að Þjóðleikhús og sjónvarp til samans komi á fót leikmunasafni er Leikfélag Reykjavíkur og önnur leikfélög geti gerst aðilar að, en safnið leigi síðan búninga, leiktjöld og annan sviðsbúnað til hinna ýmsu leikfélaga. Vísir að þessu safni er í raun og veru þegar til.

Þá er lögð sérstök áhersla á það í frv., að samstarf verði aukið með Þjóðleikhúsinu og leikfélögum áhugamanna, t.d. með því að láta þeim í té leikstjóra og gistileikara til leiðbeiningar og hvatningar ekki síður heldur en með leikförum út um land, sem þó er einnig gert ráð fyrir, því það eru bein ákvæði um það að árlega skuli farnar leikferðir um landið á starfstíma Þjóðleikhússins.

Ég vil taka það fram til þess að fyrirbyggja misskilning, að ýmsar af þeim breytingum, sem hér er lagt til að gera á lögunum um Þjóðleikhús, eru þegar komnar til framkvæmda í reyndinni, en aðrar eru það hins vegar ekki. Hér er því ekki um að ræða eins mikil nýmæli og þar af leiðandi eins mikinn kostnaðarauka og í fljótu bragði virðist vegna þess, eins og ég sagði, að sumar af þessum breytingum eru þegar til framkvæmda komnar.

Hinar nýju breytingar kosta auðvitað nokkra fjármuni og það verður þá að fara eftir fjárveitingum hverju sinni hversu ört þær breytingar koma til framkvæmda og yfirleitt hvernig starfsemi leikhússins er hagað, því eins og augljóst er hefur Alþingi þetta á valdi sínu með afgreiðslu fjárlaga. Hitt fer svo ekki á milli mála, að Þjóðleikhúsið verður aldrei rekið nema með allmiklum og ég vil segja miklum kostnaði þó að gætt sé hinnar ýtrustu hagsýni í rekstri þess. Þetta gildir nú víst alls staðar í veröldinni, en verður auðvitað tilfinnanlegra hér hjá okkur vegna fámennis heldur en meðal fjölmennari samfélaga.

Þegar frv. til nýrra þjóðleikhúslaga hefur verið til meðferðar á Albingi á undanförnum árum hafa jafnan orðið töluverðar umræður og raunar ágreiningur um þær hugmyndir sem fram hafa verið settar um breytta skipan þjóðleikhúsráðs, eins og stjórn leikhússins heitir nú. Ég held að tillögur hær, sem hafa verið gerðar um breytingar á þjóðleikhúsráðinu, hafi einkum byggst á tvennu: annars vegar á þeirri viðleitni að búa vettvang fyrir umræður og skoðanaskipti um leiklistarmál á nokkuð breiðum grunni og hins vegar að veita starfsfólki Þjóðleikhússins aukin áhrif á daglega stjórnun þess. Varðandi fyrra atriðið er nú lagt til að leysa það með ákvæðum í sérstakri löggjöf um leiklistarmál sem væntanlega verður talað fyrir hér á eftir. Og hér er lagt til að halda nálega óbreyttum ákvæðum gildandi löggjafar um skipun Þjóðleikhúsráðsins, nema hvað gert er ráð fyrir að kosning þessi verði tímabundin, en hún er það ekki samkvæmt gömlu lögunum. Ég vil nú leyfa mér að vona að geti orðið nokkuð gott samkomulag um þessa lausn eða aðra þannig að þetta atriði þurfi ekki að verða frv. að fótakefli. Ég geri ráð fyrir að þróunin verði sú, að það verði sett með reglugerð t.d. ákvæði um aðild starfsfólks Þjóðleikhússins að daglegri stjórnun þess. Ég held að það væri mjög eðlilegt og gæti verið hagkvæmt.

Herra forseti. Ég orðlengi þetta svo ekki frekar, en legg til að málinu verði að umr. lokinni vísað til hv. menntmn.