01.02.1977
Sameinað þing: 43. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1753 í B-deild Alþingistíðinda. (1400)

111. mál, kennsla sjúkraliða

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég held að ástæðan fyrir því, að þetta nám átti sér ekki stað á Akureyri í vetur, séu þær viðræður sem hafa átt sér stað um samræmingu á þessu námi, að færa bóklega námið út úr sjálfum sjúkrahúsunum og inn í sérstaka skóla. Hér hefur skapast millibilsástand sem á vonandi ekki að taka nema þennan eina vetur. Ég get sagt hv. fyrirspyrjanda að ég hef fyllilega í hyggju að það verði ekki gengið fram hjá Akureyri í þessum efnum. Akureyri vann þarna brautryðjendastarf og er svo stór kaupstaður og fjölmenni í nánd við Akureyri að þar er vafalaust grundvöllur fyrir þetta mikilvæga nám. Ég vona að það líði ekki svo annar vetur að námið geti ekki farið fram þar.