25.10.1976
Sameinað þing: 8. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í B-deild Alþingistíðinda. (141)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ekki dylst það neinum hver eru aðalsmerki þess stjórnarsamstarfs sem til var stofnað af hinum tveimur sterku flokkum fyrir rúmlega fjórum missirum. Stjórnleysi almennt og ringulreið á flestum sviðum ber þar auðvitað hæst, en nokkur eru þó kennileiti þar sem rétt er að minna á sérstaklega.

Í fyrsta lagi hafa stjórnarflokkarnir afgreitt öll vandamál efnahagslífsins á þann einfalda íhaldsveg að velta byrðunum yfir á vinnustéttirnar í landinu á meðan milliliðir hvers konar hafa blómstrað í besta lagi. Bændur, sjómenn og verkamenn hafa fengið sinn ómælda skerf af stjórnardýrðinni, opinberir starfsmenn ekki síður, og þó hafa engir verið eins hart leiknir og hinir öldruðu og öryrkjarnir í þjóðfélaginu.

Vinstri stjórnin hafði tilfærslu fjármagns til vinnustéttanna, til aldraðra og öryrkja. Þeirri tilfærslu lýsti íhaldið ýmist sem ofrausn og veisluhöldum eða óráðsaðgerðum fyrir hið margumtalaða efnahagslíf. Og vissulega eru afrek íhaldsins umtalsverð. Þessi tilfærsla var ekki aðeins stöðvuð, heldur snúið svo gjörsamlega við að íhaldinu hefur að fullu tekist að koma ástandinu í kjaramálum fólksins í landinu niður á gamla viðreisnarstigið og vel það.

Þetta eru ekki mín orð, heldur almenn skoðun launafólksins sem bergmálar nú í samþykktum þess hvar sem það kemur saman.

Í öðru lagi hefur ríkt samdráttarstefna ómengaðrar íhaldsstjórnar í öllum verklegum framkvæmdum, svo að nú í nýju frv. til fjárl. er þriðja árið í röð stigið stórt skref aftur á bak ef lítið er á framkvæmdagildi.

Þá hefur ekki síður verið staðið fyrir stórfelldum niðurskurði á fjármagni til atvinnuveganna. Það er engin tilviljun að enn standa hálfköruð frystihús víða um land sem vinstri stjórnin hóf að byggja. Iðnaðurinn hefur að dómi forsvarsmanna hans aldrei verið í eins rækilegu svelti og nú. Og í landbúnaði hefur orðið nær alger stöðnun mikilvægra þátta í uppbyggingunni.

Það er þó ein gleðileg undantekning fyrir stjórnina. Verslunin hefur haft meira til ráðstöfunar og segir það einnig sina sögu.

Þessi stöðvunarstefna lýsir sér best í einföldum tölum. Á árinu 1975 lækkaði fjárfesting í atvinnuvegum okkar um 21% skv. skýrslu Þjóðhagsstofnunar, og spá sömu stofnunar á þessu ári er upp á 11% lækkun til viðbótar. Tölurnar tala sínu glögga máli. Þetta hefur þó hvergi nægt, því ekki hefur það síður verið afdrifaríkt fyrir atvinnuvegina hve hávaxta- eða réttara sagt okurvaxtapólitíkin hefur æ meira þjakað alla eðlilega framþróun. Svo langt gengur þessi ríkisstj. í vaxtaokrinu að dæmi eru um það, að vaxtagreiðslur atvinnufyrirtækja séu bærri en öll greidd vinnulaun, og mætti gjarnan til þess líta þegar á því er stagast í sífellu að atvinnuvegirnir beri ekki hærri vinnulaun.

Fyrir landsbyggðina hefur hvort tveggja reynst afdrifaríkt. En sá atvinnulegi grunnur, sem vinstristjórnin lagði, hefur þar miklu bjargað, og það er þeirri uppbyggingu að þakka að atvinnuleysi hefur ekki orðið þrátt fyrir stefnu núv. stjórnvalda.

Í þriðja lagi má benda á þá algeru stefnubreytingu nátengda þessu sem orðið hefur í atvinnumálum, þ.e. að leynt og ljóst hefur ríkisstj. verið að draga saman seglin í uppbyggingu okkar eigin atvinnuvega, en þess í stað bent á stóriðju í samvinnu við eða í beinni eign útlendra auðfyrirtækja. Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga er rekin áfram með offorsi, og þá er enginn skortur á fjármagni til framkvæmda. Þangað á nú að renna nær einn og hálfur milljarður kr. á næsta ári, þar af 450 millj. í hafnargerð eða rúmlega helmingur á móti öllu því fjármagni sem renna á til allra hafnarmannvirkja annars staðar á landinu. Álverksmiðja við Eyjafjörð er svo næst á dagskrá, því hvað varðar Framsókn eða sjálfstæðismenn um fáeina búandmenn þar norður frá. Og næst mun svo röðin koma að okkur austfirðingum að meðtaka mengunarblessun þess alþjóðlega auðmagns sem engu eirir.

Þessi þrjú aðalsmerki sem ég minnist hér á, þurfa engum að koma á óvart, þó varla hefðum við, samstarfsmenn Framsóknar í vinstri stjórn, trúað því að flokkurinn færi svo bókstaflega eftir því í athöfnum öllum sem íhaldið sagði, þó við þekktum hins vegar vel hve oft þurfti á eftir Framsókn að reka til góðra verka. Glögg eru þess merkin þar, hve hægra liðið hefur náð algerri yfirhönd, þó enn sé mikill meiri hl. óbreyttra liðsmanna á öðru máli.

Töfraprinsar íhaldsins, þeir sem hæst létu árið 1974 og þóttust kunna við öll ráð, hafa reynst kunnáttulausir kuklarar, og meðreiðarsveinar þeirra hafa síst betri seiðkarlar reynst. Þó skulu þeir sannmælis njóta í því, hve rækilega þeir hafa afstýrt öllum veisluhöldum aldraðra og öryrkja og annarra láglaunahópa.

Hvað segir vinnandi fólk í dag um lífskjör sín og þróun þeirra síðustu tvö árin? Verkamannasamband Íslands hefur nýlega bent á hina hrikalegu lífskjaraskerðingu sinna meðlima þrátt fyrir vökult varnarstríð allan tímann. Brýnast verkefna telja verkamenn það vera, að stökkbreyting eigi sér hreinlega stað í launamálum, ekki síst þegar árferði fer ört batnandi að dómi landsfeðra.

Kaldar eru hins vegar kveðjurnar sem úr atvinnurekendabúðunum hafa borist. Engin efni í veisluhöld handa verkafólki, segja þeir sem lægst borga launin í fiskiðnaði okkar. Þeir vita sem er, að við stjórnvölinn eiga þeir stuðningsmenn vísa að hindra réttlátar launabætur.

Opinberir starfsmenn greina frá því, að á sama tíma og 150% verðlagshækkun hefur yfir dunið hafa þeir hlotið 40–70% kauphækkun.

En hvað um bændurna sem þessir flokkar bera svo mjög fyrir brjósti að eigin sögn? Formælendur bænda, flokksbræður stjórnarherranna, eru ómyrkir í máli. Versnandi kjör síðustu tveggja ára fara að þeirra mati ekki á milli mála. Bændur hafa að þeirra dómi fjarlægst viðmiðunarstéttirnar, þær sömu og ég var að rekja launaþróunina hjá áðan. Það er líka táknrænt fyrir bændur og mætti vel verða þeim og neytendum umhugsunarefni• að af síðustu búvöruhækkun rann aðeins þriðjungur til sjálfra þeirra, fóru í milliliði ýmiss konar og fjármálaráðherrann hirti drjúgan hlut. Þessu til viðbótar hafa svo lánakjör bænda verið þrengd á alla vegu, lánstími styttur, vextir hækkaðir, verðtrygging upp tekin. Það eru sannir bændavinir sem hér eru á ferð.

Og ekki skyldi sjómönnunum gleymt og viðbrögðum þeirra við hinni furðulegu lagasetningu sjútvrh. sem Alþ. er nú ætlað að staðfesta.

Þegar þetta ástand blasir við, þegar óyggjandi sannanir liggja fyrir um það hve kaupmáttur launafólks hefur með markvissum aðgerðum ríkisvaldsins rýrnað stórkostlega, þá er það eitt aðalmarkmið þess sama ríkisvalds að þrengja með nýjum lögum möguleika vinnustéttanna til að snúast til varnar. Með fyrirhuguðu frv. um stéttarfélög og vinnudeilur hyggst ríkisstj. í mörgum greinum gera að engu árangur af áratuga baráttu verkalýðshreyfingarinnar fyrir frelsi verkafólks til að ná fram rétti sínum til sanngjarnara kjara. Aldrei er sá réttur mikilvægari en þegar íhaldsöflin ráða ríkjum og lífskjörunum er þrýst niður til hagshóta fyrir auðstéttirnar í landinu. Nú þegar sýnt er að launafólk lætur sér ekki lengur lynda kjaraskerðingarstefnuna, þá er það helst ráða hjá félmrh. Sjálfstfl. að vega að verkfallsréttinum, þeim rétti sem alþýðan hlýtur ætið að beita í nauðvörn sinni. Launafólk hlýtur að rísa hér upp til réttlátrar varnarbaráttu og snúa henni upp í sókn til bættra lífskjara.

En vel á minnst, allar þessar árásir á kjör launafólks hafa þó haft eina allsherjar afsökun. Árferðið var svo erfitt, launastéttirnar urðu að fórna, allir urðu að fórna. Og það er e.t.v. von að fólk trúi því að lakari staða þjóðarbús um tíma hafi haft þau áhrif að þrengja kost allra í landinu. En hvað segja aðalfundir ýmissa stærstu fyrirtækjanna og umsvifamestu aðilanna í þjóðfélaginu? Hvað um Samband ísl. samvinnufélaga? Hvað um Flugleiðir? Hvað um Landsbankann? Hvað um Eimskip? Sjaldan hefur útkoma þessara og fleiri stórfyrirtækja verið eins afbragðsgóð og síðustu eitt til tvö árin. Fórnunum var sem sé misskipt. Það er ekki amalegt fyrir Framsfl. að hafa staðið að tilfærslu til þessara aðila frá launastéttunum í landinu. Það er glæsilegt hlutskipti sem flokkurinn hefur kosið sér, að snúa blaðinu algerlega við frá vinstristjórnarárunum til þess eins að þjóna gróðaöflunum í landinu til þess í raun að framkvæma stefnu íhaldsins.

Í örvæntingu sinni hefur Framsókn haldið því fram undanfarið að enginn munur sé á hægri eða vinstri stjórn, það sé sama hvoru megin flokkurinn starfi. Stefnumunurinn sé hverfandi. Eitt sláandi dæmi af mörgum skal hér tekið til afsönnunar þeirri villukenningu. Árið 1971, á síðasta ári viðreisnar, var varið 100 millj. kr. til hafnarframkvæmda á vegum sveitarfélaga, en sú tala svarar til raunverulegs verðgildis upp á 204 millj. kr. árið 1974, en varð þá, síðasta ár vinstri stjórnarinnar, 613 millj. eða þrefalt hærri en 1971 að raungildi. Nú undir íhaldsstjórn er upphæðin aðeins 850 millj., en ætti að vera rúmar 1500 millj. ef raungildið hefði haldist.

Góðir hlustendur. Núv. ríkisstj. stærði sig í upphafi af styrkleika sínum og byggði þá á tölu þm. einni saman. Andspænis vandamálunum hefur hún reynst veik og ráðþrota. Þó hefur sundurþykki innan hennar ekki orðið til trafala, heldur hefur ríkt eining þess íhaldsanda sem yfir vötnunum sveif í upphafi. Uppgjöfin er hins vegar algjör og nú er um það helst hugsað hvernig hlaupa megi frá öllu saman og slíta þessu samstarfi á einhverjum málamyndaágreiningi, ef vera kynni að flokkarnir mættu halda ögn af andlitinu í næstu kosningum.

Við þessar aðstæður er það frumskylda allra vinstrimanna að efla stjórnmálaafl á vinstri kanti þjóðmálanna svo duglega að þar verði um annað sterkasta aflið að ræða í íslenskum þjóðmálum. Alþb. eitt getur orðið þetta afl. Það gæti sem nógu öflugur flokkur leitt stefnuna á ný til vinstri, til félagshyggju og til róttækra breytinga á efnahagskerfinu í þágu launafólksins. Nú er nauðsynin mest að efla samvinnu og sambug þess fólks sem á samleið í baráttunni fyrir betra lífi undir merkjum þjóðfrelsis og sósíalisma.

Ég hef flutt hér ræðu Helga F. Seljans. — Góða nótt.