01.02.1977
Sameinað þing: 44. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1787 í B-deild Alþingistíðinda. (1414)

69. mál, áhrif Framkvæmdastofnunar ríkisins og Byggðasjóðs á athugun á atvinnu- og byggðaþróun í landinu

Flm. (Albert Guðmundsson) :

Herra forseti. Ég skal reyna að lengja þennan fund ekki mjög mikið. Ég vil þó nota tækifærið til þess að þakka þeim hv. þm. sem hér hafa tekið til máls. Þeir hafa yfirleitt verið sammála um að það skemmi ekkert að láta fara fram þessa könnun sem till. mín fer fram á að gerð verði.

Mér finnst rétt að upplýsa hv. 4. þm. Norðurl. e., hv. þm. Lárus Jónsson, — hann er því miður ekki inni en les vonandi þingtíðindi þegar þar að kemur, —- að höfuðborgarsvæðið er ekki að fá neina nýja hugmynd frá honum þegar hann talar um, að það þurfi að stýra fjárfestingunni á höfuðborgarsvæðinu með framsýni, og nefnir þar t. d. skipulag, þ. e. a. s. að horft sé of skammt fram á við, og talar þá um holræsagerð o. fl. Honum til upplýsingar vil ég benda á að það er til sérstök skipulagsstofnun, samstarfsstofnun aðila á höfuðborgarsvæðinu sem fjallar um þau mál og stýrir þar með fjárfestingu til framtíðar fyrir höfuðborgarsvæðið allt, og þá er ég með í huga Hafnarfjörð, Garðabæ, Kópavog, Mosfellssveit og Seltjarnarnes. Þetta var því ekki alveg ný hugmynd sem fæddist hjá honum nú á þessari stundu. Hann talaði um að það bæri að athuga fjárfestingar þær, sem fara fram á höfuðborgarsvæðinu, og var svo óheppinn að hann taldi þar upp eingöngu fjárfestingar sem sveitarfélög eru bundin við af lögum, eða þá opinberar stofnanir sjálfar standa í, eins og t. d. bankabyggingar, skólabyggingar o. fl.

Hið sama má segja að hv. 4. þm. Austurl. hafi látið skína í þegar hann talaði um að það ætti þá að athuga um fleiri sjóði heldur en Byggðasjóð og Framkvæmdasjóð, skoða þá vel og þeirra ráðstafanir á fé. Ég er honum alveg sammála. En þetta er bara mín till. sem liggur hér frammi, hún hljóðar um þetta, og ég lofa honum stuðningi við þá till. sem hann ætlar þá að bera fram, að mér skilst, um að aðrir sjóðir verði athugaðir. Ég álít að það sé ekki síður nauðsyn, og ég skal verða meðflm. að þeirri till. ef hann óskar þess. En í framhaldi af þeirri könnun í fjárfestingum við bankabyggingar o. fl. hlýtur það að vekja athygli — það hefur a. m. k. vakið athygli mína — að Framkvæmdasjóður sjálfur er nýbúinn að kaupa lóð til að byggja yfir sig á nokkurn veginn sama verði og Búnaðarbanki Íslands, bankastofnun, keypti lóð og fullkláraði það mannvirki, sem stendur á henni. Það var eitthvað um 5 millj. kr. dýrara en lóðin sem nú var keypt.

Ég veit ekki satt að segja hvernig málflutningur hv. 4. þm. Reykn. kom inn í umr. um þessa till. Ég hef ekki ástæðu til þess að halda að Framkvæmdastofnun og Byggðasjóður hafi starfað illa, nema síður sé. Það er misskilningur á till. minni ef hún er þannig skilin. Hitt er annað mál, að alveg eins og ég og hver annar einstaklingur getur fjárfest illa, þá geta sjóðir gert það líka, og það er ekki af því að fjárfestingar mistakast. Það er rétt að það komi fram. Ég ætla ekki að leggja hér fyrir framkvæmdastjóra sjóðsins eða Framkvæmdastofnunarinnar hvort Byggðasjóður hafi nokkurn tíma tapað á sínum fjárfestingum, hvort hann hafi orðið að slá af vöxtum eða jafnvel afskrifa lán, það hvarflar ekki að mér, það verður að koma í könnuninni.Mér þætti ekkert undarlegt og ekkert óeðlilegt þó að það hefði komið fyrir. Það er næstum því ómögulegt aðreka svona stórt fyrirtæki án þess að eitthvað slíkt komi fyrir. Ég er ekki að gefa í skyn að stofnunin sé á einn eða annan hátt illa rekin, heldur hvaða afleiðingar fjárfestingin hefur haft, eins og í till. segir, fyrir byggða- og atvinnuþróun á hinum ýmsu stöðum og þá taka mið af því hvað hefur skeð hér fyrir sunnan á sama tíma. Það getur svo vel verið, þegar niðurstaða af þeirri könnun liggur fyrir, að þá verði augljóst öllum þm. að hægt sé að gera einhverjar breytingar. Það verður að bíða síns tíma að sjá hvort sú verður niðurstaðan. Það getur líka vel verið að niðurstaðan verði sú, að það þurfi að styrkja og auka starf Framkvæmdastofnunarinnar á því sviði sem hún er að starfa að núna. Þetta þarf ekki endilega að vera neikvætt.

Ég skal nú stytta mitt mál. Ég er, eins og ég tók fram, ánægður með undirtektir þær sem þessi till. hefur fengið. Ég vil leiðrétta hv. 4. þm. Austurl., að ég hef aldrei talað um að Framkvæmdastofnunin eða starfslið hennar myndi einhvern vegg gegn því að fá upplýsingar, heldur vegg gegn því að þessi till. nái fram að ganga eftir málflutningi formanns stofnunarinnar, hv. 1. þm. Suðurl., og hv. 4. þm. Austurl.

Ég vil að lokum segja það, að það er mjög slæmt ef það er rétt hjá hv. 5. þm. Norðurl. e., — mér er nær að ætla að það sé rangt eins og oft áður þegar hann stendur uppi, hann fer oft með rangt mál og rangtúlkar hlutina, — að fólk búist við því að ég standi upp til að agnúast út í landsbyggðina, í hvert skipti sem ég stend upp, sagði hann líka. Það er mjög slæmt ef svo er. Það er alls ekki ætlunin. Hitt er annað mál, að þrátt fyrir þá skoðun ber ég engan kvíða í brjósti þegar ég stend upp ef ég þarf að verja hagsmuni míns kjördæmis frekar en aðrir þm. sem hér eru staddir.