01.02.1977
Sameinað þing: 44. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1793 í B-deild Alþingistíðinda. (1419)

114. mál, fiskikort

Flm. (Sverrir Hermannsson) :

Herra forseti. Á þskj. 137 höfum við hv. 8. þm. Reykv. og ég flutt till. til þál. um útgáfu fiskikorta, þess efnis, að ályktað er að skora á ríkisstj. að hlutast til um að nú þegar verði hafinn undirbúningur að útgáfu fiskikorta með Loran-C staðarlínum í og öðrum þeim upplýsingum sem að gagni mega koma við fiskveiðar. Þessi till. er endurflutt og fyrir því get ég haft yfir henni skammar signingar nú. Enn fremur sýnist mér að drjúgar áróðursræður fyrir þessari till. mundu að litla gagni koma, eins þunnskipað og er hér um bekki. Ég verð þess vegna að treysta á vandlega úrvinnslu þeirrar hv. n. á málinu sem fær hana til meðferðar.

En uppruna sinn á þessi till. hjá austfirskum togaraskipstjórum sem ályktuðu að skora á fiskiþing að hrinda fram þessu mikla nauðsynjamáli.

Röksemd fyrir nauðsyn þessa máls er að finna í grg. með till., og sú röksemdafærsla er nægjanlega glögg til þess að sýna fram á nauðsynina. Hér er um að ræða radíóstaðsetningartæki sem eru af hinni svonefndu C-Lorangerð og nú fást á almennum markaði og hafa verið keypt í íslensk fiskiskip í auknum mæli á undanförnum árum. Við höfum hins vegar ekki fengist við útgáfu þeirra korta sem gera þessi afbragðstæki nýtanleg með staðarlinum. Einvörðungu höfum við gefið út slík kort yfir Kolbeinseyjarsvæðið, annað ekki, en að öðru leyti stuðst við breska útgáfu af þessum kortum. Má í því sambandi benda á að þau kort ná alls ekki inn fyrir 12 mílna landhelgislínuna gömlu, en vitanlega ber að gefa út kort yfir allt íslenskt hafsvæði. Nú verður þessari kortagerð að sjálfsögðu hætt í Bretlandi þar sem bresk skip eru horfin af okkar veiðisvæðum, og fyrir því er það að okkur ber hin brýnasta nauðsyn til að hefja þegar undirbúning á útgáfu þessara korta.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til að þessari umr. verði frestað, en málinu vísað til hv. atvmn.