02.02.1977
Efri deild: 40. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1794 í B-deild Alþingistíðinda. (1421)

151. mál, tollskrá

Flm. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér brtt. við tollskrá á þskj. 298 í frv. til laga um breyt. á l. nr. 120 frá 31. des. 1976, um tollskrá o. fl.

1. gr. hefst svo: „Eftirfarandi tollskrárnr. og tollur í 1. gr. verði þannig:“ Ég sé ekki ástæðu til að lesa það upp, en mun gera nánari grein fyrir þessari till. En grg., sem henni fylgir, er svo hljóðandi:

„Hinn 20. mars 1970 tók gildi ný reglugerð um eftirlit og mat á ferskum fiski. Í þeirri reglugerð er óvarið tré bannað til notkunar ef það kemst í snertingu við fisk. Þetta bann hefur þó ekki náð til trépalla sem hingað til hafa verið notaðir í fiskiðnaðinum til uppröðunar og hreyfingar á fiskafurðum, ef um beina snertingu hefur ekki verið að ræða. Hins vegar hefur það verðið stefna Framleiðslueftirlits sjávarafurða að losna við tré úr fiskvinnslunni og ýta á að önnur efni verði notuð.

Til þessa hafa pallar úr plasti ekki verið fáanlegir, en nú er það breytt og „plastpallettur“ fáanlegar frá norskum, sænskum og vestur-þýskum framleiðendum. Hafa ýmis fyrirtæki í fiskiðnaðinum hug á því að hagnýta þessa framför, en núv. tollur á þessari vöru, 70%, útilokar það. Hér er því lagt til að þessari vöru verði fundinn tollflokkur og tollur felldur niður. Þessi till. hefur engin áhrif á tolltekjur ríkissjóðs.“

Mér hefur ekki borist dagskrá þessa fundar á skrifstofu mína þar sem hún er borin heim til mín á morgnana. Þar af leiðandi verð ég að biðjast afsökunar á því að þau bréf, sem mér hafa borist frá ýmsum fiskframleiðendum, frystihúsum og öðrum, hef ég ekki meðferðis. En þeim öllum er það sammerkt að fyrirtækin óska eftir því og lýsa áhuga sínum, — ég bið afsökunar, mér eru að berast hérna þessi bréf sem ég hafði beðið um að fá send, en ég mun lesa þau upp á síðara stigi ef miklar umr. verða um þessa einföldu tillögu. (Gripið fram í.) Það er óskað eftir því að ég lesi þessi bréf, og ég skal verða við þeirri ósk.

Fyrst er bréf frá Fiskiðjusamlagi Húsavíkur hf., með leyfi hæstv. forseta:

„Við ítrekum enn einu sinni málaleitan okkar, að þið gerið allt sem í ykkar valdi stendur til þess að fá tolla og söluskatta af pallettum, vörubrettum úr plasti, niður fellda eða lækkaða til samræmis við aðrar vörur til útgerðar og fiskvinnslu, þ. e. í 2–4% verðtoll eingöngu. Eins og við höfum tekið fram er okkur brýn þörf þessara vara þar sem reglugerð um búnað og hollustuhætti í fiskiðnaði bannar nú algerlega notkun á pallettum úr tré sem við höfum notast við hingað til, meðan pallettur úr gerviefnum hafa verið tollaðar sem munaðarvara. Okkur virðast pallettur þær, sem þið bjóðið, henta okkur í hvívetna, og um leið og tollar eru niður felldir eða lækkaðir verulega gerist verð á þeim samkeppnishæft. Þetta mál er mjög brýnt, og við treystum því að þið leitið skilnings stjórnvalda hér um, að við megum vænta jákvæðs svars innan fárra daga.“

Þetta bréf er stílað til innflutningsaðila sem er Asíufélagið.

Að fengnu þessu afriti hafði ég samband við Asíufélagið og bað það um að gefa mér nánari upplýsingar um það sem það hefði gert í þessu máli. Það bréf hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta, það er nú stílað persónulega til mín, og ég bið hv. þdm. að misvirða það ekki þar sem hér er um skólabróður minn, gamlan vin og íþróttafélaga að ræða. En hann skrifar svo:

„Góði vinur. Fyrst af öllu vil ég þakka þér fyrir síðustu samverustundir. Ég vil nú koma beint að erindinu, þ. e. aðflutningsgjöldum á pallettum, vörubrettum, og þá fyrst að biðja þig velvirðingar á því að mér vannst engan veginn tími til þess að undirbúa þessi mál eins og ég hefði óskað. Án fyrirvara gerðist mér gestkoma erlendis frá sem ruglaði mjög mína daglegu önn. Því er mitt veganesti til þín ekki annað en það bréf sem ég skrifaði hinu háa fjármálaráðuneyti þann 31. júlí s. l. og staðfest var neðanmáls til fulltingis hr. Guðmundi Karlssyni framkvæmdastjóra Fiskiðjunnar hf. í Vestmannaeyjum. Fylgir ljósrit af bréfi þessu hér með.“

Þess verð ég að leita hjá hinu háa Alþ. þar sem afrit mitt var ekki finnanlegt. Þá hefur sama skeð með hvatningarbréf sem Asíufélaginu hefur borist, móttekið frá nokkrum kaupendum, og verður því hér að nægja ofangreint afrit af nefndu bréfi. Ég sé ekki ástæðu til að lesa þetta frekar því að það kemur allt fram í þriðja bréfinu sem er bréf þessa félags sem ég staðfesti, eins og hann getur um í byrjun þessa bréfs til mín, og er stílað til rn. En það hljóðar svo:

„Við leyfum oss hér með að fara þess vinsamlegast á leit við hið háa rn. að aðflutningsgjöld og tollar og söluskattur verði felld niður eða stórlækkuð af plastpallettum, (vörupallar úr plasti) undir tollskrárnr. 39.07.19. Ástæðan fyrir málaleitan vorri er sú, að trépallar sem hingað til hafa verið notaðir í fiskiðnaðinum til uppröðunar og hreyfingar á fiskafurðum, hafa verið baunaðir af heilbrigðis- og hreinlætisástæðum. Fiskframleiðendur eygja þá lausn besta á þessu vandamáli að taka í notkun plastpallettur. Slíkar pallettur eru hins vegar ekki framleiddar á Íslandi, en eru fáanleg frá norskum, sænskum og vestar-þýskum framleiðendum. Við höfum verið beðnir að annast milligöngu um kaup á slíkum pallettum og höfum hér með fengið sýnishorn til reynslu sem þegar hafa verið reynd og sýnast gefa góða raun. Hins vegar útiloka hin háu aðflutningsgjöld hagnýtingu þessarar lausnar. Benda má á í þessu sambandi að fiskkassar úr plasti voru með svipuðum aðflutningsgjöldum sem og söluskattsákvæðum. Gjöld þessi á fiskkössum voru hins vegar lögð niður fyrir nokkrum árum og enduðu þau með 4% tolli. Hafði það strax í för með sér stórfellda hagnýtingu á fiskkössum úr plasti, að allra dómi, er til þekkja, þjóðarbúinu til hagsældar. Þá er að geta þess að Fiskmat ríkisins leggur nú áherslu á að losna við trépalla úr fiskvinnslunni, en önnur heppilegri lausn en plastpallettur hefur ekki fundist til þessa. Mál þetta er nú brýnt, og treystum við því að við megum vænta jákvæðs svars yðar við allra fyrstu hentugleika.“

Þetta bréf er skrifað fjmrn. 31. júlí 1975, nú er komið 1977, og hið skjóta svar frá fjmrn., sem óskað er eftir, er ekki komið til bréfritara.

Síðan er skrifað eftirfarandi á þetta bréf: „Ofanritað bréf hef ég undirritaður lesið og legg áherslu á að mál þetta fái jákvæða og hraða úrlausn.

Virðingarfyllst.

F. h. Fiskiðjan h.f.

Vestmannaeyjum

Guðmundur Karlsson framkvæmdastjóri.“

Það getur verið að rn. slái hraðamet því að það á enn þá eftir að svara þessu, en svar hefur enn ekki borist.

Ég sé ekki ástæðu til að lesa þetta bréf frekar sem Asíufélagið skrifaði mér. En ég átti von á að fá bréf frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, en það hef ég ekki fengið enn þá. Ég hefði gengið hraðar eftir því bréfi, sem þeir ætluðu að skrifa mér, hefði ég vitað með dálítið meiri fyrirvara að þessi brtt. mín yrði á dagskrá í dag. En ég vil taka það fram og ítreka, að eins og stendur er 70% tollur á þessum plastpallettum.

Ég vona að hv. Ed. sjái sér fært að afgreiða þetta mál með meiri hraða en virðist vera á sumum málum hér eftir ummælum forseta í upphafi þessa fundar. Ég geri það að till. minni að þessu frv. verði vísað til fjh.- og viðskn. þessarar hv. d. í von um að það hljóti þar skilning og skjóta afgreiðslu.